Umhverfisvernd

Bjartur Steingrímsson

Bjartur Steingrímsson

I.
Umhverfisvernd skipar sífellt stærri sess í samfélaginu okkar. Það sem þótti eitt sinn jaðarpólitík fyrir sérvitringa og draumóramenn er nú orðið að meginstefi í nútímalífi, jafnt í fræðslu skólabarna, lífsháttum fjölskyldna og í stefnuplöggum stjórnmálaflokka og stórfyrirtækja.
Krafan um að náttúran fái að njóta vafans verður háværari með hverjum deginum. Það er ekki eingöngu vegna þess að falleg náttúra og útivist veiti hugarró og færi okkur gleði heldur vegna þeirra gífurlegu hagsmuna sem felast í því að varðveita landið okkar og auðlindir þess fyrir komandi kynslóðir.
II.
Umhverfisvernd hefur verið ein af meginstoðum í stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs frá stofnun. Á þingi, í ríkisstjórn og sveitarstjórnum hefur VG háð ötula baráttu fyrir umhverfissjónarmiðum og sjálfbærni með það að markmiði að gera Ísland að leiðandi ríki á heimsvísu í þeim málaflokki. Rammaáætlun um virkjanakosti, vinna að miðhálendisþjóðgarði og áætlun núverandi ríkisstjórnar um kolefnis­hlutlaust Ísland eru allt dæmi um afrakstur þeirrar baráttu.
Í setu sinni í meirihluta bæjarstjórnar hér í Mosfellsbæ hafa fulltrúar VG lagt áherslu á gerð nýrrar umhverfisstefnu fyrir bæjarfélagið, eflingu almenningssamgangna og betrumbótum í flokkun heimilissorps.

III.
En betur má ef duga skal. Mosfellsbær er blómlegt samfélag í miklu nábýli við ósnortna náttúrufegurð. Sóknarfærin eru fjölmörg. Hér má efla útivistar- og tómstundamöguleika á grænum svæðum, tryggja góðar almenningssamgöngur og tækifæri til vistvænna ferðamáta í öllum hverfum bæjarins og betrumbæta enn frekar sorphirðu- og endurvinnslumál.
Slík vinna mun ekki bara gera bæinn okkar að fallegra og betra heimili fyrir alla íbúa heldur einnig að ákjósanlegri áfangastað fyrir ungar kynslóðir sem forgangsraða meira og meira í átt að umhverfisvernd og sjálfbærum lifnaðarháttum.

Kjósum V-listann!

Bjartur Steingrímsson
skipar 5. sætið á lista VG í komandi kosningum.