Hvers vegna Framsókn?
Við sem skipum lista Framsóknar hér í Mosfellsbæ stöndum fyrir hefðbundin gildi flokksins. Frjálslynda félagshyggju, umbætur og samvinnu, manngildi ofar auðgildi. Framsókn hefur hagsmuni heildarinnar í fyrirrúmi.
Stefna flokksins í orði og verki byggist á jákvæðni sem leitast við að sætta ólík sjónarmið og vinna gegn öfgum. Við viljum að duglegt fólk hafi svigrúm til athafna um leið og við tryggjum að þeir sem þarfnast aðstoðar njóti liðsinnis samfélagsins. Í okkar augum er samfélag samvinna, þar sem fólk hjálpast að um leið og það fær að njóta sín sem einstaklingar.
Árið 2014 lögðu við Framsóknarmenn mikla áherslu á byggingu nýs fjölnota íþróttahúss. Nú sé ég að aðrir flokkar eru á sömu línu og er það gott. Mosfellsbær verður að sjá sóma sinn í að nýtt fjölnotahús rúmi þá miklu aðsóknaraukningu sem orðið hefur t.d. í fótbolta. Samnýting verður svo að vera við sem flestar aðrar íþróttir og má síðan nýta sem skjól fyrir veðrum til lýðheilsuverkefna t.d. léttra íþrótta eldri borgara.
Arðsemi af heilbrigði aldraða er mikil. Framlög til íþrótta- og tómstundamála þeirra er því baráttumál okkar Framsóknarmanna enda kemur slíkt margfalt til baka í lægri umönnunarkostnaði og ekki síst ánægðari borgara.
Yfirleitt þegar skóla bæjarins ber á góma hefur fólk ákveðnar skoðanir og auðvitað vilja foreldar að börnin séu í góðum skólum. Skólastarf er einn mikilvægasti málaflokkur sérhvers sveitafélags. Annars vegar vegna þess að sá málaflokkur er stór útgjaldaliður sveitafélagsins. Hins vegar vegna þess að gott skólastarf leggur grunn að framtíð barnanna okkar. Skólar verða aldrei betri en starfsfólkið sem þar vinnur. Við ætlum að forgangsraða í þágu menntunar og gera kennarastarfið eftirsótt á ný.
Það er hreint til skammar hversu núverandi meirihluti hefur látið heilbrigðisþjónustu og þjónustustig drabbaðst niður. Engu hefur verið bætt við og þó aðallega verið skorið niður … með Sjálfstæðisflokkinn í helstu ráðuneytum, m.a. heibrigðisráðuneytið, og á sama tíma með meirihluta í Mosfellsbæ. Já, þetta er til skammar, við getum gert miklu betur og það ætlum við Framsóknarmenn að gera.
Elskurnar mínar, það eru 8 listar í boði en það er bara einn XB.
Sveinbjörn Ottesen
oddviti Framsóknarflokksins í Mosfellsbæ.