Póri skoðar heiminn

poriskodar

Út er komin bókin Póri skoðar heiminn eftir Jónas Sveinsson lækni. Hér er um að ræða frumútgáfu bókarinnar en útgefandi hennar er Þórarinn sonur Jónasar, betur þekktur sem Póri í Laxnesi.
„Ég fann handritið í dánarbúi föður míns og hef varðveitt það í áratugi,“ segir Póri í viðtali við Mosfelling. „Mig langaði alltaf að gera eitthvað með þetta og snemma árs fékk ég Bjarka Bjarnason rithöfund til liðs við mig. Hann yfirfór handritið og ritstýrði útgáfunni. Ég er mjög ánægður með útkomuna og að hafa ráðist í þetta verkefni.“

Er bókin um þig?
„Það má segja það að einhverju leyti. Pabbi skrifaði hana um ferðalag fjölskyldunnar um Evrópu árið 1950 og bókin er skrifuð út frá mínu sjónarhorni. Þess vegna heitir hún Póri skoðar heiminn.
Faðir minn var þekktur læknir á sinni tíð og var stöðugt að afla sér framhaldsmenntunar erlendis og að þessu sinni fór öll fjölskyldan með honum utan. Við flugum til Kaupmannahafnar og ókum síðan suður til Vínarborgar þar sem faðir minn starfaði á sjúkrahúsi þá um sumarið.“

Manst þú eftir þessu ferðalagi?
„Já, svolítið. Þetta var mikið ævintýri fyrir sex ára strák, til dæmis þegar ég sá gíraffa í dýragarðinum í Kaupmannahöfn. Faðir minn lýsir ferðalaginu nákvæmlega í bókinni, þarna er mikill fróðleikur samankominn um landafræði, sögu og læknisfræði og einstök samtímaheimild.
Þetta voru sérkennilegir tímar, margar borgir voru illa leiknar eftir heimsstyrjöldina og heilu þjóðirnar í sárum. Við dvöldum mest í Vínarborg en henni var þá skipt í nokkur hernámssvæði, eitt tilheyrði Bandaríkjamönnum og annað Rússum.“

Það eru einnig teikningar í bókinni, eftir hvern eru þær?
„Það veit enginn en þær fylgdu handritinu og hafa greinilega verið ætlaðar til útgáfu. Kannski kemur það loksins núna í ljós hver listamaðurinn er.
Svo fengum við Margréti Tryggvadóttur, nú varaþingmann, í lið með okkur og hún útvegaði mikið af ljósmyndum af söfnum og úr myndabönkum. Þessar myndir lýsa tíðarandanum vel.“

Er Póri ennþá að skoða heiminn?
„Já, það er hluti af lífinu, segir Póri í Laxnesi að lokum.“