Mosöld fer fram um helgina – bærinn fyllist af blökurum
Um helgina er Blakdeild Aftureldingar gestgjafi á einu stærsta fullorðinsmóti sem haldið er á Íslandi, öldungamótinu í blaki eða Mosöld 2017 eins og mótið heitir í ár.
Mótið er fyrir þá sem eru 30 ára og eldri og er um að ræða mjög stóran viðburð þar sem 167 lið eru skráð til leiks og reikna má með um 2.000 manns sem koma í Mosfellsbæinn þessa helgina til að spila og fylgjast með mótinu.
Mikill undirbúningur hefur verið fyrir þetta stærsta öldungamót Blaksambands Íslands af hálfu blakdeildar Aftureldingar en þetta er 42. öldungamótið í röðinni. Öldungur mótsins er Guðrún K. Einarsdóttir, formaður blakdeildar Aftureldingar en öldungur mótsins ber ábyrgð á mótinu og framkvæmd þess.
Leikið verður á 10 völlum að Varmá en einnig verður leikið í Lágafelli og á Reykjalundi. Fjöldi leikja á mótinu verða rúmlega 500 og verður leikið frá morgni til kvölds. Undirbúningur hefur í rauninni staðið yfir í heilt ár og eru öll íþróttamannvirki í Mosfellsbæ undirlögð ásamt Varmárskóla sem nýttur er undir gistingu.
Þúsund manns á lokahófi
Fjölbreytt skemmtun verður einnig í gangi þá daga sem mótið er og lýkur mótinu sunnudaginn 30. apríl með glæsilegu lokahófi en reiknað er með að um 1.000 manns verða að Varmá það kvöld.
Blakdeild Aftureldingar er mótshaldari og mikil vinna er búin að vera í gangi í allan vetur við skipulagningu og undirbúning mótsins.
Það er því alveg ljóst að bærinn mun fyllast af blökurum um helgina.
Mótið mun hafa áhrif vítt og breitt um bæinn og á fleiri deildir innan Aftureldingar. Þá verður dagskrá í Hlégarði og á Hvíta Riddaranum alla helgina.
Blakdeild Aftureldingar hvetur bæjarbúa til að koma í íþróttahúsin og kíkja á keppendur og aðstöðuna og upplifa stemninguna sem fylgir þessu skemmtilega móti en umtalað er hversu skemmtilegir og glaðlegir blakarar eru og leikgleðin sem einkennir þetta mót.