Sigursælar handboltakempur
Eins og Mosfellingar þekkja þá hefur handbolti verið vinsæll í bænum frá því að Afturelding komst í efstu deild vorið 1992.
Sumarið 2007 ákváðu þeir Þorkell Guðbrandsson og Bjarki Sigurðsson sem báðir voru þá hættir með Aftureldingu að stofna utandeildarlið og smala öllum gömlu kempunum og nokkrum ungum saman í gott lið. Liðið fékk nafnið Júmboys eða breiðu strákarnir á íslensku.
Það er skemmst frá því að segja að liðið varð afar sigursælt og strax á fyrsta tímabili vann liðið Íslandsmeistartitil utandeildar sem taldi þá 18 lið samtals. Árið eftir vann liðið alla þá bikara sem í boði voru og samtals urðu titlarnir 10 á þessum 6 árum sem liðið spilaði í utandeildinni.
Liðsmenn voru á aldrinum 20 til 69 ára. Árið 2013 fannst liðsmönnum mál að linnti og leyfðu öðrum liðum að komast að.