Er bjartsýn á framtíðina

larabjork_mosfellingurinn

Lára Björk Bender starfsmaður hjá Orkuveitu Reykjavíkur greindist með MS sjúkdóminn árið 2012. 

MS sjúkdómurinn er langvinnur sjúkdómur sem einkennist af endurtekinni bólgu í miðtaugakerfinu. Orsökin er óþekkt, en bólgan er talin vera vegna truflunar í ónæmiskerfinu. Sjúkdómurinn er ólæknandi en til eru lyf sem geta tafið framgang og eins eru í boði einkennatengdar meðferðir sem hafa jákvæð áhrif á líðan.

Lára Björk Bender sem er 24 ára greindist með sjúkdóminn árið 2012. Lára segir greininguna vissulega hafa verið mikið áfall en henni hafi verið létt að vissu leyti.

Lára Björk er fædd í Reykjavík 30. ágúst 1992. Foreldrar hennar eru þau Linda H. Hammer viðskiptafræðingur og Haraldur Þór Grétarsson Bender sjálfstæður atvinnurekandi í ferðaþjónustu. Lára á eina systur, Helgu Þóru, fædda 1988.

Grýtti hrísgrjónum í gestina
„Ég er alin upp í Mosfellsbænum og á margar góðar æskuminningar. Ég ferðaðist mikið um landið með fjölskyldu minni og kynntist því vel. Við fórum í útilegur eða fjalla- og sleðaferðir.
Mér er minnisstætt eitt sinn er við vorum að pakka niður fyrir útilegu þá var ég beðin um að taka með mér fín föt ef við skyldum fara út að borða. Ég var nýbúin að vera með gubbupest og var kannski ekki alveg upp á mitt besta. Ferðinni var heitið í Hrísey en þangað fórum við gjarnan á sumrin. Grunlausar tókum við systurnar fínu kjólana okkar eins og okkur var sagt að gera. Í Hrísey var svo komið við í kirkjunni því mamma og pabbi ákváðu skyndilega að gifta sig og við systur vorum brúðarmeyjarnar.
Eftir athöfnina áttum við að kasta hrísgrjónum yfir mömmu og pabba þegar þau gengu út en ég var eitthvað utan við mig út af veikindunum og grýtti grjónunum í gestina í staðinn.“

Átti erfitt vegna eineltis
„Ég gekk í Varmárskóla og átti erfitt vegna eineltis á tímabili en mér gekk vel námslega séð. Ég stundaði einnig píanónám við Listaskóla Mosfellsbæjar, söng í skólakórnum og æfði badminton í rúm 10 ár.
Unnusta mínum, Aroni Braga Baldurssyni, kynntist ég í Gaggó Mos. Aron starfar hjá Raftækjalagernum en hann er menntaður fjölmiðlatæknir og starfar einnig sem kvikmyndatökumaður.“

Útskrifuðust frá sama skóla
„Eftir útskrift hóf ég nám í Borgarholtsskóla þaðan sem ég útskrifaðist af viðskipta­- og hagfræðibraut. Ég hef alltaf átt auðvelt með að læra og fékk viðurkenningar í ensku, frönsku, viðskiptum og hagfræði þegar ég útskrifaðist. Ég hélt útskriftarræðu fyrir hönd stúdenta en við Aron útskrifuðumst bæði á sama tíma og frá sama skóla.
Ég hélt einnig áfram í tónlistarnámi, á rhythmísku píanói og í einsöng.“

Hægri hlið andlitsins lak niður
„Einn daginn árið 2010 lamaðist ég í andlitinu. Ég var í skólanum og allt í einu fann ég hvernig hægri hlið andlitsins lak hægt og rólega niður. Ég gat ekki brosað og átti erfitt með að halda auganu opnu og fann líka fyrir dofaeinkennum í fæti. Ég fór til læknis og var greind með Bell´s Palsy eða andlitstaugalömun. Lömunin gekk svo til baka.
Í lok árs 2011 lenti ég í árekstri. Ég fékk sjóntaugabólgu sem olli því að ég var rúm­liggjandi með stöðugan svima og brenglaða­ sjón. Einkennin gengu yfir á þremur vikum.“

Allt hringsnerist í kringum mig
„Í byrjun árs 2012 eða á sama tíma og við Aron vorum að flytja saman í okkar eigin íbúð veikist ég aftur. Ég fékk versta höfuðverk sem ég hef upplifað og vaknaði með náladofa í hendi. Ég bjóst við að ég hefði legið eitthvað einkennilega en svo var ekki.
Ég gekk völt og allt hringsnerist í kringum mig. Ég reyndi allt til að koma blóðflæðinu af stað en ekkert gekk. Ég skellti mér líka í bað til að slaka á vöðvunum en það gekk ekki heldur.
Ég var á leið í fermingu hjá frænda mínum og þegar ég kom þangað tóku allir eftir því að eitthvað var ekki í lagi. Dofinn í líkamanum færðist yfir á maga, bak og höfuð vinstra megin og ég var hætt að finna fyrir snertingu og geta framkvæmt ákveðnar hreyfingar. Farið var með mig á bráðamóttökuna þar sem ég gekkst undir alls kyns rannsóknir. Eftir þær var mér tjáð að sérfræðingur myndi bóka viðtalstíma þar sem farið yrði yfir niðurstöðurnar.“

Greiningin veitti mér ákveðna ró
„Í viðtalstíma hjá lækninum fékk ég staðfestingu á að ég væri með MS sjúkdóminn. Ég var búin að ímynda mér allt það versta áður en ég fór í viðtalstímann en greiningin veitt mér ákveðna ró. Mér var tjáð að það besta sem ég gæti gert væri að hreyfa mig reglulega og passa vel upp á mataræðið.
Systir mín dró mig með sér í nokkra tíma í polefitness og ég fann að í þeirri íþrótt var allt sem ég þurfti á að halda, þ.e.a. s. blanda af styrk, þoli og liðleika. Með þessum æfingum get ég haldið sjúkdómseinkennunum niðri. Ég byrjaði að æfa á fullu hjá Eríal Pole í Reykjavík þar sem ég æfi enn og kenni.
Ég er einnig í fullorðinsfimleikum hjá Aftureldingu.“

Bjartsýn á framtíðina
„Ég hef tekið sjúkdómnum sem áskorun, á að sjálfsögðu mína slæmu daga og hef fundið fyrir einkennum. Með aðstoð minna nánustu og þá sérstaklega Arons hefur mér tekist að sættast betur við veikindin.
Í dag líður mér einstaklega vel, er í fullu starfi hjá Orkuveitu Reykjavíkur ásamt því að starfa sem bílstjóri í kvikmyndaverkefnum á vegum True North, Pegasus og Sagafilm. Ég er bara bjartsýn á framtíðina,“ segir Lára Björk að lokum er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 10. nóvember 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs