Eigum fullt erindi í toppsætin í þessari deild
Aukablað um meistaraflokk kvenna í handknattleik má finna í nýjasta tölublaði Mosfellings. Þar er meðal annars rætt við Davíð Svansson þjálfara liðsins. Miklar breytingar hafa orðið á liðinu sem nú leikur í 1. deild. Næsti leikur er gegn FH að Varmá á laugardaginn kl. 15:00.
Hvernig hefur undirbúningur fyrir veturinn gengið?
Undibúningurinn hefur verið upp og ofan. Það voru enn miklar breytingar á hópnum stuttu fyrir mót. Því höfum við ekki getað undirbúið okkur með okkar besta lið fyrr en núna rétt fyrir mót.
Einnig lentum við í meiðslum og forföllum sem er að stríða okkur nú í byrjun móts. En við spiluðum nokkra æfingaleiki og þeir gengu ágætlega.
Hvernig líst þér á leikmannahópinn fyrir veturinn? Nú hafa orðið töluverðar breytingar á liðinu, getur þú frætt okkur meira um það?
Mér líst mjög vel á hópinn sem við erum með, það er mjög góður mórall í hópnum og stelpurnar ná mjög vel saman. Já, það urðu nokkrar breytingar á hópnum, við misstum Heklu og Ingibjörgu sem voru stórir póstar hjá okkur í fyrra. En fáum aftur á móti inn nýja leikmenn, við fengum margar mjög góðar stelpur inn í staðinn.
Við fengum tvo útlendinga, þær Paulu og Kristu, svo fengum við Nínu Líf Gísladóttur frá Val, Írisi Kristínu Smith frá Fram, Selmu Rut Sigurbjörnsdóttur frá ÍBV, Andreu Þorkelsdóttur frá Stjörnunni, Sunnu Dögg Jónsdóttur frá Val og nú síðast Ragnhildi Hjartardóttur sem var í Danmörku.
Hvaða væntingar hefur þú til tímabilsins ?
Eins og staðan er núna þá er erfitt að segja til um hvernig veturinn verður. Við erum að berjast við meiðsli og forföll, Nína og Sesselja meiddust rétt fyrir mót og Telma Rut verður ekki með okkur fyrr en í nóvember þar sem hún er að fara að keppa á HM í karate. Það verður erfiðast fyrir okkur að bíða eftir henni, hún er fyrirliðinn í hópnum og er algjör lykilleikmaður innan sem utan vallar.
Þegar við verðum komin með fullt lið þá sjáum við betur hvar við stöndum og þá hvaða væntingar við ættum að hafa til vetrarins. En eins og ég segi þá erum við með frábærar stelpur og eigum við fullt erindi í toppsætin í þessari deild.