Aldrei upplifað eins mikla ástríðu hjá stuðningsmönnum

mikkpinnonen

Eistinn Mikk Pinnonen gekk til liðs við Aftureldingu í janúar sl. og átti heldur betur eftir að hafa góð áhrif á gengi liðsins.
„Síðasta tímabil var frábært, við vorum svo nálægt þessu. Það er erfitt að horfa til baka en það gefur okkur góða hvatningu fyrir næsta tímabil,“ segir Mikk. Deildin kom Mikk á óvart og er hún betri en hann bjóst við, jöfn deild þar sem allir geta unnið alla.
Mikk byrjaði síðasta tímabil í Dormagen þar sem Daði Hafþórsson aðstoðarþjálfari gerði garðinn frægan á síðustu öld.
„Ég var ekki ánægður með stöðu mína í Þýskalandi og taldi mig þurfa breytingu. Eftir að hafa talað við Hrannar, en við urðum vinir í Danmörku, og svo Einar og stjórnina var ég viss um að þetta væri rétta skrefið fyrir mig.

Mosfellingar mjög vinalegir
Mikk býr í Mosfellsbæ og vinnur í Lágafellsskóla. Hann talar um að það sé frábært fólk hérna í bænum og mjög vinalegt. Stuðningurinn hjá Rothögginu var frábær í úrslitakeppninni eða AMAZING eins og hann segir.
„Ég hef aldrei upplifað eins mikla ástríðu og hjarta hjá stuðningsmönnum, útileikir voru eins og heimaleikir. Ég get ekki beðið eftir að þetta byrji aftur.”
Æfingaferðin til Finnlands gekk vel og var frábær bæði fyrir móralinn og hópinn. Seinni æfingaleikurinn var mjög góður og gott að fara með þessa leiki inn í tímabilið.“ Mikk segir að liðið stefni hærra og vilji meira á næsta ári og ætlar ekkert að slaka á núna.
Hann vill þakka stuðningsmönnunum fyrir traust sem þeir hafa sýnt honum og liðinu og ætlar liðið að gefa allt sem það getur til að koma með gullið, sem það á klárlega skilið, í Mosó.

Fyrsti leikur tímabilsins fer fram á fimmtudag.
Afturelding – Selfoss að Varmá kl. 19:30.

Aukablað um meistaraflokk karla fylgir Mosfellingi fimmtudaginn 8. september.