Reka ritfangaverslun að Reykjalundi

mulalundur_mosfellingur

Við Reykjalund í Mosfellsbæ er Múlalundur með vinnustofu sína og rekur þar einnig glæsilega ritfangaverslun, en bæði Reykjalundur og Múlalundur eru í eigu SÍBS.
„Hérna rekum við stóran vinnustað með um 40 starfsmönnum þar sem fatlaðir og ófatlaðir starfa saman. Flest okkar starfsfólk á það sameiginlegt að vera með skerta starfsorku á einhvern hátt og eins og aðrir góðir vinnuveitendur leggjum við okkur fram um að mæta hverjum og einum á sínum forsendum.
Við framleiðum fjölbreyttar vörur fyrir fyrirtæki og verslanir um allt land og leggjum mikinn metnað í að framleiða gæðavörur,“ segir Sigurður Viktor Úlfarsson framkvæmdastjóri Múlalundar.

Glæsileg ritfangaverslun
„Verslunin okkar er, að því er við höldum, eina ritfangaversluninn í Mosfellsbæ og viljum við hvetja bæjarbúa til að nýta sér fjölbreytt úrval okkar af góðum vörum. Við höfum að undanförnu verið að bæta verslunina til muna og tökum fagnandi á móti Mosfellingum.
Við bjóðum bæði upp á okkar eigin framleiðsluvörur og aðrar hefðbundnar skóla- og skrifstofuvörur. Einnig erum við með öfluga netverslun á mulalundur.is þar sem við leggjum áherslu á gott vöruval, góð verð og frábæra þjónustu.
Verslunin er opin frá kl. 8:00 til 16:30 alla virka daga nema á föstudögum, þá lokum við kl. 16:00,“ segir Sigurður að lokum og bætir við að sérstaða þeirra sé að Múlalundur er góðgerðafyrirtæki. Með því að versla vörur frá þeim sé fólk að fá gæðavörur, styðja starfsemina og skapa vinnu fyrir fólk sem á erfitt með að fá vinnu annars staðar.