„Skottmarkaður“ í Þverholti, gönguvinir og heimanám

Hulda Margrét Rútsdóttir

Hulda Margrét Rútsdóttir

Við þökkum fyrir góðar viðtökur á skottmarkaðnum en við seldum notuð föt og fylgihluti á bæjarhátíðinni 27. ágúst. Það sem var ekki síður mikilvægt var að fá tækifæri til að hitta fólkið í bænum og kynna verkefnin hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ en það er ýmislegt framundan. Það gefur meðbyr fyrir veturinn að finna fyrir jákvæðni í garð deildarinnar.
Við höfum ákveðið að vera með fatamarkaðinn örlítið lengur. Enn er hægt að gera góð kaup á fötum, skóm og fylgihlutum og verður hann opinn næstu tvær vikur þegar starfsemi er í húsinu eða starfsmaður á staðnum. Best er að hafa samband í síma 898 6065 eða senda línu á hulda@redcross.is til þess að ganga úr skugga um að það sé opið.
Mánudaginn 12. september verður opið frá 16:15-18:15. Hægt er að skoða myndir og verð á facebooksíðu Rauða krossins í Mosfellsbæ.
Gengið er frá Rauða kross húsinu í Mosfellsbæ, Þverholti 7 alla mánudaga og fimmtudaga frá klukkan 16:15. Um er að ræða létta göngu í góðum félagsskap en það er gengið í 30-40 mínútur. Okkur vantar sjálfboðaliða til að stýra göngunni öðru hvoru og við viljum einnig gjarnan stækka gönguhópinn. Þetta er upplagt tækifæri fyrir þá sem eiga erfitt með að koma sér af stað en það er alkunna að ferskt loft og hreyfing getur gert kraftaverk fyrir heilsuna. Ekki hika við að hafa samband ef þú hefur áhuga á að taka þátt eða bara mæta á staðinn.
Heimanámsaðstoðin byrjar næsta þriðjudag, 13. september. Aðstaðan verður á bókasafni Mosfellsbæjar og eru allir krakkar í 1-10 bekk velkomnir sem aðstoð þurfa. Það verður létt og afslappað andrúmsloft þar sem hver og einn fer á sínum hraða. Þetta er tilvalið fyrir börn með námsörðugleika eða þá sem hafa íslensku sem annað tungumál – nú eða fyrir þá sem vilja klára lærdóminn snemma í vikunni.

Hulda Margrét Rútsdóttir
Verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ