Umhverfisvænn bær

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Mosfellsbær er umvafinn fallegri náttúru, innrammaður af fellum, ám og Leirvoginum. Umhverfið okkar skipar stóran sess í lífi bæjarbúa og við viljum huga vel að þeirri auðlind okkar.
Mosfellsbær hefur í gegnum tíðina verið til fyrirmyndar í umhverfismálum. Margt er hér vel gert svo sem aukin flokkun sorps, bætt þjónusta Strætó, góðir göngu- og hjólreiðastígar, hleðslur fyrir rafmagnsbíla og mikil skógrækt svo eitthvað sé nefnt. Án efa er í þessu, eins og öllu öðru, hægt að gera betur, en það er ekki bara hægt – við einfaldlega verðum að gera betur.
Loftslagsvandinn er raunverulegur og aðkallandi og nauðsynlegt er að bregðast hraðar við. Ríkisstjórnin hefur lagt fram 1. útgáfu af aðgerðaáætlun sinni í loftslagsmálum. Áætlunin samanstendur af 34 aðgerðum sem eiga að stuðla að minni losun og aukinni kolefnisbindingu. Um er að ræða stjórnvaldsaðgerðir eins og reglusetningu, hagræna hvata, fjármögnun verkefna og styrki. En það er ljóst að ríkisvaldið eitt og sér getur ekki náð þeim markmiðum sem við þurfum að ná, til þess þarf samstillt átak ríkis, sveitarfélaga, atvinnulífs og almennings.

Kolefnishlutlaus Mosfellsbær
Nú er unnið að nýrri umhverfisstefnu fyrir Mosfellsbæ. Unnið er eftir heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og samráð hefur verið haft við íbúa. Ég vænti þess að sú vinna gangi vel og hvet umhverfisnefnd Mosfellsbæjar áfram í því mikilvæga verkefni. Ég tel jafnframt eðlilegt að í þeirri stefnu verði sett markmið um kolefnishlutlausan Mosfellsbæ.
Ríkisstjórnin hefur sett sér markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Allar okkar aðgerðir eiga að miða að því að draga úr losun eins og kostur er. Ýmsar tækniframfarir auðvelda okkur að losa minna en við þurfum líka að breyta hegðun okkar. Kolefnishlutleysi verður þó ekki náð þannig heldur þarf jafnframt að stórauka kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi og minnka þarf losun frá landnotkun.

Í breytingum geta falist ógnir en líka tækifæri
Þrátt fyrir góð markmið og miklar aðgerðir eru breytingar óumflýjanlegar. Verkefnið okkar þarf annars vegar að miða að því að halda hlýnun í lágmarki (undir 1,5°) en líka að aðlagast þeim breytingum sem munu og hafa þegar fylgt hlýnun jarðar eins og t.d. hækkun sjávarstöðu, meiri öfgar í veðurfari, bráðnun jökla o.s.frv.
Mannvirkin okkar þurfa að standast meiri öfgar í veðurfari, lækir og ár munu oftar flæða yfir bakka sína og því þurfa niðurföll og fráveitur að virka undir meira álagi. Skipulag og framkvæmdir bæði á vegum sveitarfélaga en líka einkaaðila þurfa að taka mið af þessum breytingum.
Ég tel að loftslagsmálin séu brýnasta verkefni okkar í dag, ekki bara stjórnmálanna heldur samfélagsins alls. Með samhentu átaki ríkis, sveitarfélaga, atvinnulífs og okkar íbúanna getum við náð þeim markmiðum sem við höfum sett okkur í Parísarsáttmálanum.
Þrátt fyrir að full ástæða sé til að taka ógnina alvarlega þá megum við ekki gleyma okkur í svartnættinu því mitt í því geta líka leynst tækifæri. Ísland getur orðið miðstöð þekkingar, vísinda og nýsköpunar á sviði loftlagsmála og Mosfellsbær getur verið til fyrirmyndar og orðið fyrsta kolefnishlutlausa sveitarfélagið.

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður