Það verður að vera gaman að því sem maður gerir

simmimosfellingur

Simmi Vill eins og hann er oftast kallaður hefur víðtæka reynslu af atvinnulífinu og hefur ávallt mörg járn í eldinum. Hann er maðurinn við stjórnvölinn í Keiluhöllinni í Egilshöll en nýjasta verkefni hans og viðskiptafélaga hans er að opna lúxushótelsvítur á efstu hæð Turnsins við Höfðatorg í Reykjavík og eru framkvæmdir hafnar.
Sigmar segir mikinn vöxt í ferðatengdri þjónustu hérlendis og nú sé rétti tíminn til að hrinda af stað gömlum draumi.

Sigmar er fæddur í Reykjavík 3. janúar 1977. Foreldrar hans eru þau Gerður Unndórsdóttir og Vilhjálmur Einarsson skólastjóri. Sigmar á fimm bræður, Rúnar fæddur 1958, Einar fæddur 1960, Unnar fæddur 1961, Garðar fæddur 1965 og Hjálmar fæddur 1973.
Fjölskyldan flutti frá Reykholti í Borgarfirði til Egilsstaða þegar Sigmar var þriggja ára en faðir hans var fyrsti skólastjóri Menntaskólans á Egilsstöðum.

Íþróttahúsið var okkar annað heimili
„Ég á hlýjar og góðar æskuminningar að austan, á sumrin var alltaf troðfullt af ferðamönnum og því var mikið líf og fjör.
Við félagarnir æfðum allar íþróttir sem í boði voru og á veturna var íþróttahúsið okkar annað heimili. Ég keppti reglulega á mótum enda fátt annað sem komst að.
Við höfðum frjálst aðgengi að veiðistöðum og veiddum reglulega í Eyvindará og vötnum í Skriðdal og Eiðaþingá.
Eftirminnilegar eru líka ferðir okkar fjölskyldunnar í Mjóafjörð þar sem við dvöldum alltaf að sumri. Þá var farið á trillu og veitt á handfæri, svo var farið í berjamó og unnið úr aflanum á kvöldin.“

Flutti til Svíþjóðar
„Þegar ég var 13 ára fluttum við fjölskyldan til Svíþjóðar og bjuggum þar í þrjú ár þar sem faðir minn fór í endurmenntunarnám.
Ég fermdist í Svíþjóð ásamt öðrum Íslendingi í norsku sjómannakirkjunni í Gautaborg. Við þurftum að kunna trúarjátninguna upp á hár því það var engin leið að mæma þar sem við vorum bara tveir í fámennri athöfn en allt gekk þetta nú eftir,“ segir Sigmar og glottir.

Það besta sem gat komið fyrir mig
„Flutningur okkar til Svíþjóðar er sennilega ein mikilvægasta breytingin á mínum unglingsárum. Ég flutti úr vernduðu umhverfi þar sem ég var öruggur með mitt. Ég þekkti alla og allir þekktu mig. Ég var að einhverju leyti leiðtogi því ég stýrði því hverjum var strítt og hverjum ekki. Ég hafði það orðspor hjá eldri strákunum á Egilsstöðum að vera eitt leiðinlegasta barn á Íslandi en ég átti það til að standa verulega upp í hárinu á þeim.
Þegar ég flutti út þá var ég akkúrat í hinu hlutverkinu, mér var strítt og átti mjög erfitt fyrsta árið. Þegar ég náði svo tökum á sænskunni fór lífið að brosa við mér aftur.“

Einlæg afsökunarbeiðni
„Við fluttum svo aftur heim og lífið gekk sinn vanagang. Einn daginn var ég að horfa á þátt með Opruh Winfrey í sjónvarpinu um einelti og varð hugsað til baka. Ég áttaði mig á því hvað ég hafði gert, ég lagði manneskju í ljótt einelti án þess að gera mér grein fyrir því. Ég sá að mér og ákvað að setja mig í samband við viðkomandi og biðjast afsökunar á framkomu minni, það var mikilvæg stund.
Síðan þá hef ég hvatt alla sem hafa gert eitthvað á hlut annarra í æsku að gefa sig á tal og biðjast afsökunar. Maður veit nefnilega ekki hvað maður hefur mögulega lagt á fólk, einlæg afsökunarbeiðni getur breytt lífi og líðan,“ segir Sigmar alvarlegur.

Flutti snemma að heiman
„Ég flutti að heiman 17 ára, mér þótti Egilsstaðir ekki bjóða upp á nægilega mörg tækifæri. Það má því segja að ég hafi snemma þurft að sjá fyrir sjálfum mér og ég gerði það sem þurfti að gera hverju sinni.
Ég starfaði um tíma við ræstingar á nóttunni með námi, sinnti dyravörslu á skemmtistöðum, var pítsubílstjóri, vann í saltfiski, afgreiðslumaður í verslun og allt voru þetta störf sem gáfu mér mikið.“
Alltaf náð að skipuleggja fjölskyldulífið
Sigmar er giftur Bryndísi Björgu Einarsdóttur og saman eiga þau synina Einar Karl 13 ára, Vilhjálm Karl 9 ára og Inga Karl 6 ára og hundinn Bola Karl.
Við Bryndís höfum verið saman síðan 1998 og gift í 10 ár. Bæði höfum við haft mikið fyrir stafni, verið í rekstri fyrirtækja og virk í félagsstörfum en alltaf náð að skipuleggja fjölskyldulífið. Bryndís heldur samt traustataki utan um þetta allt saman því það er ekki mín sterka hlið.“

Leiðin lá í fjölmiðla
„Fjölmiðlar hafa alltaf heillað mig, snemma fékk ég tækifæri í útvarpsmennsku á Rás 2. Ég færði mig yfir á frjálsa stöð sem hét Mono en þaðan lá leiðin í sjónvarp þar sem ég og félagar mínir tókum við stöð sem hét PoppTíví. Í kjölfarið lá leiðin á Stöð 2 þar sem ég var einn stjórnenda Idol stjörnuleitar og fleiri þátta, samhliða þessu sinnti ég markaðsfulltrúastöðu.
Ég hóf störf hjá Landsbankanum en færði mig svo yfir til IP fjarskipta, sem framkvæmdastjóri sölu-og markaðssviðs.
Árið 2010 stofnaði ég ásamt félaga mínum veitingastaðinn Íslensku Hamborgara­fabrikkuna, staðirnir eru í dag orðnir þrír talsins. Árið 2013 tók ég þátt í stofnun Lava sem er eldfjalla- og jarðskjálftasýning sem opnuð verður árið 2017 á Hvolsvelli.“

Skapa fjölskylduvæna stemningu
Ég spyr Sigmar út í Keiluhöllina en hann starfar þar sem framkvæmdastjóri. „Við erum fjórir eigendur, ég, Jóhannes Ásbjörnsson, Snorri Marteinsson og Jóhannes Stefánsson og fjölskylda í Múlakaffi.
Okkar markmið eru að auka veg og vanda keiluíþróttarinnar ásamt því að auka þjónustu við einstaklinga, hópa og fjölskyldur í leit að afþreyingu og góðum mat.
Keila er afþreying þar sem allir geta tekið þátt, amma og afi geta keppt við barnabörnin og allt þar á milli. Við ætlum okkur að skapa fjölskylduvæna stemningu hérna.“

Opna lúxushótelsvítur
„Næsta verkefni okkar er að opna lúxus­hótelsvítur efst í Höfðatorgsturni. Það verður hægt að leigja stök herbergi og eins verður möguleiki á að sameina svíturnar og leigja þannig stærri gistipláss. Hótelið er fyrir fólk sem vill láta lítið fyrir sér fara en mikið fyrir sér hafa.“
Það er ekki hægt að sleppa Sigmari nema að spyrja hann út í sjónvarpsstöðina Miklagarð og hvað fór úrskeiðis þar. Rúmum mánuði eftir að stöðin hóf útsendingar leituðu eigendurnir að nýju hlutafé til að styrkja reksturinn en á sama tíma var öllum starfsmönnum stöðvarinnar sagt upp störfum. „Það var einfaldlega lagt af stað með of lítið hlutafé en dýrmæt reynsla að baki og skemmtilegur tími er ég hugsa til baka,“ segir Sigmar að lokum.

Myndir og texti: Ruth Örnólfs