Ný heimasíða í loftið

Mynd frá árinu 2005 þegar Hilmar tekur við Mosfellingi og Karl Tómasson stofnandi blaðsins stígur til hliðar.

Mynd frá árinu 2005 þegar Hilmar tekur við keflinu af Karli Tómassyni stofnanda blaðsins.

Bæjarblaðið Mosfellingur er 13 ára í dag, 13. september. Blaðið kemur út á þriggja vikna fresti og er dreift frítt í öll hús í Mosfellsbæ, á Kjalarnesi og í Kjós. Mosfellingur er frítt, frjálst og óháð bæjarblað sem flytur jákvæðar og skemmtilegar fréttir af því helsta í Mosfellsbæ og næsta nágrenni.

Stofnandi blaðsins er Karl  Tómasson og stýrði hann blaðinu fyrstu þrjú árin. Áður hafði Karl unnið að blöðum eins og Mosfellsblaðinu og Sveitunga. Síðastliðin 10 ár hefur  Hilmar Gunnarsson ritstýrt Mosfellingi en hann tók við keflinu á haustdögum 2005.

„Blaðið vex og dafnar með hverju árinu,“ segir Hilmar Gunnarsson. „Skemmtilegast er að fá viðbrögð bæjarbúa sem virðast njóta þess að fá innansveitarfréttirnar beint í æð. Það heldur okkur gangandi sem að blaðinu starfa. Ég er með gott fólk með mér í liði sem á sinn þátt í velgengni blaðsins og ber þar að nefna hjónin Önnu Ólöfu og Ragga Óla sem eru alltaf boðin og búin, Ruth Örnólfs sem sér um drottningarviðtölin og svo er það Inga Vals sem er okkar villupúki.“
„Það er vel við hæfi að opna nýja heimasíðu á þessum fallega degi. Markmiðið er að setja á vefinn helstu fréttir og greinar úr blaðinu þannig að fólk geti deilt með umheiminum. Auðvitað verður pappírsútgáfan áfram númer eitt, tvö og þrjú og er nýjustu blöðunum hægt að fletta hér á síðunni. Með tilkomu Facebook og annarra samfélagsmiðla er æ eftirsóknarverðara að deila fréttum og skemmtilegu efni þannig að þetta er okkar liður í að verða við því.

Að lokum langar mig að þakka Sindra vini mínum fyrir að koma þessari heimasíðu í loftið og vonandi að þið njótið vel,“ segir Hilmar.

Næsti Mosfellingur kemur út fimmtudaginn 1. október og er skilafrestur efnis og auglýsinga til kl. 12 mánudaginn 28. september.
Netfang blaðsins er mosfellingur@mosfellingur.is