Bylting í þekkingu á CrossFit

Hrönn Svansdóttir. Mynd/Ruth

Hrönn Svansdóttir.
Mynd/Ruth

Hrönn Svansdóttir framkvæmdastjóri CrossFit Reykjavíkur hvetur alla til að mæta hverju augnabliki með jákvæðu hugarfari.

CrossFit Reykjavík var stofnað í árslok 2009 í 27 fm bílskúr í Mosfellsbæ. Mikil bylting hefur orðið í þekkingu á CrossFit á Íslandi og ötulum iðkendum fjölgar stöðugt. Árið 2010 var stöðin því stækkuð og flutt um set.
Framkvæmdastjóri og stofnandi fyrirtækisins, Hrönn Svansdóttir, segir starfsfólk sitt leggja metnað sinn í að fólk nái árangri í líkamsrækt og með aukinni afkastagetu á öllum sviðum almennrar hreysti muni það öðlast orkumeira líf og aukin lífsgæði.

Hrönn er fædd í Reykjavík 14. ágúst 1974. Foreldrar hennar eru þau María Pétursdóttir frá Reykjavík og Svanur Magnússon frá Ólafsvík. Bræður Hrannar eru þeir Hörður og Pétur Örn.
„Ég er alin upp í Hvítasunnukirkjunni og hefur trúin á Guð verið grunnur að mínu lífi. Ég átti góða æsku, ólst upp við öryggi og mikinn kærleik.“

Amma var mér mikil fyrirmynd
„Amma mín, Kristín, bjó í sömu götu og ég og var mér mikil fyrirmynd og vinkona. Hún tók alltaf vel á móti mér þegar ég kom í heimsókn og sagði, ertu komin elskan?
Hún var alltaf glöð og jákvæð og talaði aldrei illa um nokkurn mann. Þegar ég spurði hana út í lífsviðhorf hennar tjáði hún mér að hún hefði ekki alltaf verið svona en hefði tamið sér þetta. Ömmu tókst vel til og ég hef oft hugsað um þetta. Við getum nefnilega stýrt því hvernig við lítum á hlutina. Mér finnst mamma líkjast ömmu alltaf meira og meira.“
Hrönn hóf skólagöngu sína í Fljótshlíðinni. „Ég fór svo átta ára í Fellaskóla og kláraði gagnfræðaskólann þar. Leið mín lá síðan í Menntaskólann í Reykjavík og svo hef ég gripið í eitt og annað í gegnum tíðina tengt tónlist og hreyfingu.”

Fór til að standa á eigin fótum
„Eftir menntaskóla fór ég til London í skóla, International Bible Institute of London og þar var ég í nokkra mánuði, aðallega til að standa á eigin fótum sem gekk vel, var mikil reynsla og skemmtileg,“ segir Hrönn og brosir.
„Þegar heim var komið var mér boðin staða verslunarstjóra í bóka- og plötuverslun sem Hvítasunnukirkjan á. Það var mín fyrsta reynsla af rekstri og mér fannst þetta skemmtilegt starf. Þegar ég hætti þar þá tók ég við umboði og innflutningi á tónlistarhluta verslunarinnar og stofnaði Tónlistar­klúbbinn Hljóma sem flutti inn kristilega tónlist í öllum tónlistarstílum og rak meðal annars vefverslun. Hljómar flutti einnig inn erlenda tónlistarmenn og hélt tónleika.
Hljómar eru enn til í dag en í breyttri mynd.“

Hann er ennþá sætasti strákurinn
Eiginmaður Hrannar er Ívar Ísak Guðjónsson frá Vestmannaeyjum. „Ég man fyrst eftir Ívari í sumarbúðum Hvítasunnukirkjunnar þegar ég var tíu ára. Hann var þá og er enn sætasti strákurinn. Við höfum verið vinir síðan.
Við Ívar giftum okkur í desember 1997. Bjuggum fyrstu árin í Árbænum eða þangað til við fluttum í Fálkahöfða í Mosfellsbæ. Davíð sonur okkar fæddist 2004 og er mikil guðsgjöf og hinn mesti gleðigjafi.
Eftir að ég hætti að vinna fyrir Hvítasunnukirkjuna fór ég að vinna hjá Borgar­skipulagi Reykjavíkur sem ritari og varð síðar upplýsingafulltrúi Skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar og þar starfaði ég þangað til ég átti Davíð. Ég sneri ekki aftur til starfa eftir fæðingarorlof.“
Leiðtogi tónlistarstarfs Fíladelfíu
„Frá árinu 1994 hef ég verið mjög virk í tónlistar- og kórastarfi, er að vinna í verkefnum eins og syngja bakraddir á plötur, stórum tónlistaruppákomum og svo hef ég sungið inn á margar plötur.
Ég fékk hlutastarf sem leiðtogi tónlistarstarfs Fíladelfíu og starfa þar ásamt Óskari Einarssyni tónlistarstjóra. Saman höfum við skipulagt jólatónleika Fíladelfíu sem sýndir hafa verið í sjónvarpi allra landsmanna á aðfangadagskvöld til fjölda ára.
Ég ferðast líka mikið um landið með tríóinu Gospeltónum en með mér í tríóinu eru þau Óskar og Fanny. Óskar er með gospelnámskeið og við erum honum til aðstoðar. Það hefur verið gaman að fá að kynnast fólki um land allt.
Við syngjum einnig við ýmis tilefni en sérstaklega við útfarir. Við syngjum fjölbreytta stíla allt frá hefðbundnum kirkjusálmum upp í þekkt íslensk popplög.“

Sólódiskurinn Hljóður
„Ég hafði lengi hugsað um að gefa út geisladisk og hvernig ég vildi gera hann. Tók mér langan tíma í að vinna í tónlistinni og hulstrinu. Hvert lag er valið með tilliti til textainnihalds, hann er rólegur, huggandi og veitir hvatningu þeim sem á þurfa að halda.
Ég hef fengið ótrúlega góð viðbrögð og þakklæti, sérstaklega frá fólki sem gengur í gegnum erfiðleika, t.d. ástvinamissi.“

Fann þörf fyrir hreyfingu
„Ég æfði fimleika þegar ég var krakki en hætti, hafði í raun engan sérstakan áhuga á íþróttum. Um tvítugt fann ég svo þörf fyrir hreyfingu og fann hvað það var gott að stunda líkamsrækt reglulega.
Ég komst í gott form, æfði sex sinnum í viku og fann að hollt mataræði var eitthvað sem ég ætlaði að halda mig við út lífið.“

Hafði gaman af að hjálpa fólki
„CrossFit byrjaði í Bandaríkjunum árið 2000. Ívar var einn þeirra fyrstu á Íslandi til að finna þetta á netinu og varð strax heillaður af þessu kerfi og talaði um að þetta ætti eftir að njóta mikilla vinsælda.
Ég var á þessum tíma að setja saman mínar eigin æfingar, fór til einkaþjálfara til að fá hugmyndir, tók CrossFit æfingar eða blandaði þeim við mínar. Ég var ekki þjálfari en hafði mjög gaman af að hjálpa fólki af stað og sjá það ná árangri.
Sumarið 2009 var ég farin að hitta fullt af fólki í bílskúrnum mínum, þar átti ég ketilbjöllur, upphífingarstöng og C2 róðrarvél.“

Fengu leyfi frá höfuðstöðvunum
„Um haustið ákvað ég að fara á námskeið hjá CrossFit og ná mér í þjálfararéttindi. Ívar vildi hafa leyfið frá CrossFit höfuðstöðvunum strax frá upphafi. Á sama tíma vildi ég fá að nota nafnið CrossFit Reykjavík þótt ég væri bara í 27 fm bílskúr í Mosfellsbæ.
Um vorið fluttum við í Skeifuna í 600 fm húsnæði. Ég fékk Evert Víglundsson með mér í þetta og við byggðum fyrirtækið upp saman.
Við fluttum svo í núverandi húsnæði í Faxafeni, um 1800 fm þar sem höfum byggt upp góða aðstöðu til CrossFit iðkunar og ólympískra lyftinga. CrossFit Reykjavík er eina stöðin í heiminum sem hampar tveimur heimsmeisturum í CrossFit og það eru þær Annie Mist Þórisdóttir tvöfaldur heimsmeistari og Katrín Tanja Davíðssdóttir núverandi heimsmeistari.
Við stofnuðum Lyftingafélag Reykjavíkur í ágúst 2012 og þaðan hafa komið margir bestu lyftingamenn landsins. Okkar fólk hefur unnið fjölda titla meðal annars Íslands- og norðurlandameistara í ólympískum lyftingum og við erum ákaflega stolt af okkar fólki.“

Myndir og texti: Ruth Örnólfsdóttir