Krefjast lengri opnunartíma

Margir fastagestir sækja Lágafellslaug í Mosfellsbæ enda ein flottasta sundlaug landsins. Hópur fastagesta hittist þar á hverju kvöldi og fer yfir málin. Eftir sund og gufu leggur hópurinn á ráðin yfir engiferskoti í anddyri laugarinnar. „Við erum Mosfellingar og þverskurður samfélagsins á aldrinum 20-80 ára,“ segir Guðmundur Björgvinsson, Makkerinn, einn meðlima sundhópsins.

Hátt í þúsund undirskriftir komnar
Hópurinn hóf að safna undirskriftum í sumar fyrir lengri opnunartíma í Lágafellslaug. Undirskriftarsöfnunin gengur út á að hafa opið alla daga vikunnar til kl. 22:00, einnig um helgar. Lauginni er nú lokað kl. 21:30 á virkum dögum og kl. 19:00 um helgar.
„Opnunartími í Lágafellslaug er styttri en alls staðar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og á flestum sundstöðum er opið til kl. 22:00 alla daga.“
Rafræn undirskriftasöfnun á island.is stóð yfir frá 17. júní til 17. júlí. Einnig voru undirskriftalistar aðgengilegir á N1 í Mosfellsbæ á þessum tíma. Í ljósi COVID taldi hópurinn að rétt væri að bíða með að afhenda listann til bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Enn er hægt að ljá málefninu lið með því að skrifa undir listann á N1, bókasafninu og í Lágafellslaug. Stefnt er að því að afhenda bæjarstjórn listann þann 15. september.

Heilsueflandi og stækkandi samfélag
„Aðstaðan í Lágafellslaug er ein sú besta á Íslandi og það er okkar einlæga ósk að opnunartíminn verði lengdur“, segir Guðmundur sem segir hópinn hafa fengið afar góðar undirtektir.
„Á þessum sérstöku COVID-tímum, þar sem fjöldatakmarkanir eru í heitum pottum og í gufuklefum, er lengri opnunartími enn mikilvægari en áður,“ bætir Svavar Benediktsson við. „Það gengur ekki upp að Mosfellingar þurfi að búa við lakari þjónustu en aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins. Það er krafa Mosfellinga að opnunartími Lágafellslaugar verði færður til samræmis opnunartíma annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta hefur félagslegt gildi og er gott fyrir sálina í okkar ört stækkandi og heilsueflandi samfélagi.“