Jólaskógurinn í Hamrahlíð

Björn Traustason

Árið 2020 mun fara í sögubækurnar fyrir margra hluta sakir. Covid-19 hefur haft mikil áhrif á líf okkar allra. Þrátt fyrir allt sem á undan er gengið verður Jólaskógurinn í Hamrahlíð á sínum stað.
Mjög auðvelt er að halda 2 m fjarlægð á milli fólks í skóginum og því hvetjum við sem flesta að koma í skóginn og velja sér jólatré í öruggri sóttvarnarfjarlægð. Jólaskógurinn í Hamrahlíð opnar föstudaginn 11. desember kl. 12. Ekki verður um sérstakan opnunarviðburð að ræða eins og verið hefur síðastliðin ár í ljósi aðstæðna.
Skógurinn veitir okkur gott skjól í því ástandi sem hefur ríkt, rannsóknir hafa sýnt að nálægð við skóg getur bætt geðheilsu fólks og einnig býr hann til veröld sem ekki er til staðar á opnu landi.
Með því að kaupa jólatré hjá Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar er stuðlað að aukinni skógrækt innan sveitarfélagsins. Stór hluti þeirrar vinnu sem fram fer innan skógræktarfélagsins er unnin í sjálfboðaliðavinnu og er ágóði af jólatrjáasölunni nýttur til að gróðursetja tré.
Fyrir hvert selt jólatré eru gróðursettar 30 trjáplöntur og má búast við að helmingur þeirra muni vera í mosfellskri jörð út þessa öld. Hinn helmingurinn mun ýmist verða nýttur í skógarafurðir, deyja sem smáplöntur eða prýða stofur framtíðar Mosfellinga sem jólatré. Helmingurinn sem áfram stendur mun binda kolefni út þessa öld og er því verið að stuðla að aukinni kolefnisbindingu með því að kaupa jólatré í Hamrahlíðarskóginum.
Skógurinn er góður staður til að vera á um þessar mundir. Fólk hefur í auknum mæli sótt í útivist utandyra eftir að Covid-19 kom upp og hafa skógarnir sennilega sjaldan verið heimsóttir eins mikið og í ár.
Heimsókn í Jólaskóginn í Hamrahlíð er hin besta útivist og mjög góð leið fyrir fjölskylduna að sameinast í útiverunni. Í Jólaskóginum verður gætt að öllum sóttvörnum í hvívetna, spritt verður á staðnum og verða sagir sprittaðar eftir hverja notkun. Þó mælum við með að fólk taki með sér eigin sög til að lágmarka smitleiðir. Sjáumst hress í Hamrahlíðinni.

Björn Traustason
Formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar