Unglingar vilja meiri tíma með foreldrum

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Vinna hafin við nýja lýðheilsu- og forvarnastefnu.

Samvera með foreldrum/forsjáraðilum ásamt skipulögðu íþrótta – og tómstundastarfi er samkvæmt rannsóknum talin ein besta forvörnin í lífi barna og unglinga.
Staðfastir og leiðandi foreldrar eru börnum sínum fyrirmynd og barn sem elst upp við slíkt öryggi er líklegra til að velja rétt fyrir sjálft sig í lífinu. Leiðandi uppeldi ýtir undir þroska og sjálfstraust hjá börnum og unglingum. Leiðandi foreldrar sýna mikla umhyggju en setja um leið skýr mörk.
Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að börn og unglingar sem fá slíkt uppeldi sýna síður merki um kvíða og áhættuhegðun eins og neyslu og ofbeldi.

Fleiri samverustundir með foreldrum
Rannsókn og greining hafa sl. ár lagt kannanir fyrir nemendur í 8.–10. bekk þar sem spurt er um hagi og líðan. Niðurstöður hafa sýnt að almennt líður þessum hópi nemenda vel, þau stunda mörg hver skipulagt íþrótta- og tómstundastarf og líður vel í bæjarfélaginu.
Þegar niðurstöður kannana liggja fyrir skoða stjórnendur skólanna ásamt stoðþjónustunni hvað má betur fara í starfi skólanna. Niðurstöður fyrir árið 2020 sýna að unglingar í Mosfellsbæ vilja verja meiri tíma með foreldrum sínum og sýna rannsóknir að samvera með foreldrum er besta forvörnin. Niðurstöður sýna einnig meira brottfall unglinga úr skipulögðu íþróttastarfi og er það áhyggjuefni. Mikið brottfall er óviðunandi.

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn

Arna Hagalínsdóttir

Mosfellsbær hefur verið fyrsta val hjá barnafjölskyldum, sem fjölskylduvænt og öruggt bæjarfélag. Bæjarfélagið býður upp á góða þjónustu og eru góðir skólar (grunn-,­ leik-, og tónlistarskóli) efst á blaði ásamt góðu íþrótta- og tómstundastarfi.
Þótt Mosfellsbær hafi stækkað gríðarlega síðustu árin og börnum fjölgað svo mikið að skráð verður í sögubækur, er sveitastemningin ennþá til staðar. Hverfin halda utan um börnin, foreldrar bjóða nýja foreldra velkomna í hópinn og til verður góð og langvarandi vinátta. Börnin í bænum eru börn okkar allra. Þá sannast orðatiltækið að það þarf heilt þorp til að ala upp barn.

Áhersla á skóla- og velferðarmál
Skóla- og velferðarmálin eru ein mikilvægasta þjónustan við íbúa Mosfellsbæjar og er helsta áherslan í meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Uppbygging skóla– og íþróttamannvirkja í sístækkandi bæjarfélagi og hækkun frístundastyrkja svo öll börn fái tækifæri til að stunda íþróttir og tómstundir eru áherslur sem bæjarstjórn öll getur verið sammála um.

Ný lýðheilsu- og forvarnastefna
Íþrótta- og tómstundanefnd vinnur nú að nýrri lýðheilsu– og forvarnastefnu sem byggist á stefnu Mosfellsbæjar sem gildir frá árinu 2017 til 2027. Þar stendur að Mosfellsbær sé fjölskylduvænt og heilsueflandi samfélag þar sem öll börn hafi jöfn tækifæri og tileinki sér heilbrigðan lífsstíl.
Helstu áherslur lýðheilsu– og forvarnastefnunnar eru á skólastarf, íþrótta– og tómstundamál, félagsþjónustu, skipulag og hönnun og samgöngur svo eitthvað sé nefnt. Drög að stefnunni hafa verið kynnt fyrir íþrótta- og tómstundanefnd og í bæjarstjórn. Nú er í undirbúningi að setja drögin í samráðsgátt Mosfellsbæjar undir yfirskriftinni „Mitt heilsumosó“ og þar verður kallað eftir ábendingum og hugmyndum íbúa.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, lýðheilsufræðingur og formaður fræðslunefndar
Arna Hagalínsdóttir, kennari og Dale carnegie þjálfari og situr í fræðslunefnd