Hvert stefnum við í menntamálum?

varmagrein„Börn og unglingar eiga að upplifa ævintýri á hverjum degi og koma heim úr skóla- og frístundastarfi ánægð, hugsandi, forvitin, full ástríðu og vilja til að afla sér þekkingar og hafa áhrif…“

Svona hljóma upphafsorð nýrrar menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030. Útgangspunkturinn við mótun stefnunnar var barnið sjálft og haft víðtækt samráð við alla hagsmunaaðila í skólasamfélaginu og leitað ráðgjafar sérfræðinga. Markmið menntastefnunnar er að börn og unglingar verði leiðtogar í eigin lífi og fær um að láta drauma sína rætast. Til að svo megi verða verður lögð áhersla á eftirfarandi lykilhæfni: félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði. Innleiðingunni er fylgt eftir með stuðningi og fjármagni og eftir þriggja ára þróunartímabil verður lagt mat á hvernig til tókst og gerðar nauðsynlegar endurbætur.
Það er engin tilviljun að mörg nágrannasveitarfélög okkar eru með menntamálin í forgangi og eru að eyða miklum tíma og fjármunum í að greina stöðuna og móta sér framtíðarstefnu. Grunnstoðum menntunar er ábótavant sem endurspeglast meðal annars í niðurstöðum PISA og úttekt Evrópumiðstöðvar á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar. Mennta-málaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, talar um tímamót í menntamálum þjóðarinnar og að við séum víða á rauðu ljósi. Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur, bendir á að á Íslandi séu byggðir dýrir og flottir skólar en of lítil áhersla lögð á innra starfið. Haraldur Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, talar um úrræðaleysi vegna nemenda með fjölþættan vanda.

Ef við lítum okkur nær og skoðum niðurstöður mælinga á líðan og námsárangri barna í Mosfellsbæ (Rannsókn og greining um líðan og hagi ungs fólks, Skólapúls, samræmd próf o.fl.) sést glöggt að víða eru rauð flögg sem rýna þarf betur í. Við megum ekki skorast undan heldur þarf að horfa fram á veginn og gera betur því hvort sem okkur líkar betur eða verr eru gríðarlegar breytingar framundan. Tæknibyltingin sem er hafin mun hafa mikil áhrif á líf okkar allra og breyta því samfélagi sem við nú þekkjum. Miklar breytingar munu verða á vinnumarkaði og þurfa því börnin okkar að búa sig undir störf sem eru jafnvel ekki til í dag. Hefðbundum störfum mun fækka og flókin störf taka við þar sem reynir á skapandi hugsun, þrautseigju, rökhugsun, samvinnu og grunnþekkingu á forritun. Hvernig ætlum við sem samfélag að takast á við þetta risavaxna verkefni?

Foreldrafélag Varmárskóla skorar á öll framboð að setja menntamálin í fyrsta sæti. Mikilvægt er að fara í greiningu á stöðu skóla í Mosfellsbæ og kynna sér hvað önnur bæjarfélög eru að gera. Gera þarf áætlun og móta framtíðarsýn til að takast á við gjörbreytt samfélag og tryggja að fjármagn fylgi. Nauðsynlegt er að endurskoða núverandi menntastefnu sem eru einstaklega falleg orð á blaði en því miður lítil innistæða fyrir. Saman getum við breytt þessu og tryggt að skólar í Mosfellsbæ séu framsæknir og í fremstu röð. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi enda snýst pólitík um forgangsröðun. Hver er ykkar forgangsröðun?

F.h. stjórnar Foreldrafélags Varmárskóla,
Helga Kristín Magnúsdóttir formaður og Elfa Haraldsdóttir varaformaður

——

Hver er ykkar forgangsröðun?
Foreldrafélag Varmárskóla hefur þegar sent eftirfarandi spurningar um skólamál á öll framboð og verða svör þeirra birt á samfélagsmiðlum.

Munuð þið beita ykkur fyrir því að:
1. Gera úttekt til að tryggja að húsnæði og aðstaða til skóla- og frístundastarfs sé fullnægjandi og samrýmist kröfum um heilsuvernd?
2. Endurskoða menntastefnu Mosfellsbæjar og tryggja skólunum nauðsynlegt fjármagn til að geta unnið eftir henni?
3. Efla faglega þjónustu við nemendur og kennara með því að fjölga faglærðu fólki innan skólanna og auka þverfaglegt samstarf milli þeirra?
4. Nýta með markvissum hætti niðurstöður innlendra sem erlendra mælinga sem gerðar eru á námsárangri og líðan barna til að gera betur?
5. Vinna markvisst gegn einelti og huga betur að bættri líðan barna og ungmenna? Niðurstöður Rannsókna og greininga sýna að kvíði og vanlíðan barna og unglinga í Mosfellsbæ fer vaxandi.
6. Endurskoða úrræði fyrir börn með sérþarfir og leggja áherslu á snemmtæka íhlutun og markviss inngrip án þess að greining þurfi endilega að vera forsenda fjárveitinga?
7. Veita öflugri stuðning við börn og ungmenni í hegðunar- og samskiptavanda með aukinni ráðgjöf og ráðningu fleiri sérhæfðra starfsmanna?
8. Móta heildstæða stefnu um upplýsingatækni í skóla- og frístundastarfi og tryggja að innleiðingu fylgi stuðningur sérfræðinga í upplýsingatækni, skólaþróun og kennsluráðgjöf og nauðsynlegt fjármagn til að bæta búnað?
9. Nemendur fái aukin tækifæri til að kynnast störfum í iðn-, raun- og tæknigreinum og styrkja tengsl milli skóla og atvinnulífs með markvissri náms- og starfsfræðslu og vettvangsferðum?
10. Unnið sé markvisst í skólastarfi eftir markmiðum um heilsueflandi samfélag þar sem heilsa spannar líkamlega, andlega og félagslega vellíðan?
11. Auka samstarf við foreldrasamtök og tryggja aðkomu foreldra að stefnumótandi ákvörðunum um skóla- og frístundastarf?