Hraður heimur – Mikilvægi skólaráðs og foreldrafélags

Lilja Kjartansdóttir

Lilja Kjartansdóttir

Skólum í Mosfellsbæ fer ört fjölgandi samhliða íbúafjölgun.
Fyrir þessari fjölgun hlýtur að vera ástæða en bæjarfélagið laðar til sín fjölda fólks árlega sem að stórum hluta er barnafólk, en almennt er vel haldið utan um skóla bæjarins – það hefur fræðslunefnd verið kynnt á undanförnum vetri þar sem undirrituð er nýr áheyrnarfulltrúi.
Við lifum í heimi þar sem tækninni fleygir hraðar fram en mínútunum. Til þess að halda í við þennan hraða heim er mikilvægt að fylgjast sífellt með skólahaldi ásamt öryggi, aðbúnaði og velferð nemenda, en því hlutverki gegnir skólaráð skólanna samkvæmt reglugerð um skólaráð við grunnskóla.
Skólaráð starfar í náinni samvinnu við stjórn foreldrafélags en vert er að minnast einnig á mikilvægi þess félags því það tryggir meðal annars samvinnu heimili og skóla, þá tvo staði sem barnið eyðir mestum tíma sínum á og mikilvægt er að samhljómur sé þar á milli.
Barnið lærir það sem fyrir því er haft, bæði í skólanum og heima fyrir. Það að aðilar í þessum ráðum séu sífellt á tánum tryggir starfsumhverfi starfsfólks og nemenda og styður við foreldra, og með því má auka gæði skólahalds, starfs- og námsferla svo um munar.

Lilja Kjartansdóttir
áheyrnarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar í fræðslunefnd