Gera tröppur upp Úlfarsfell
Unnið er því þessa dagana að gera tröppur upp norðanvert Úlfarsfellið. Gönguleiðina kalla skátarnir Skarhólamýri en gott samstarf hefur verið á milli Mosfellsbæjar og skátafélagsins Mosverja um bætt aðgengi að útivistarsvæðum í kringum bæinn.
Stikaðar hafa verið um 90 km af gönguleiðum auk þess sem útbúin hafa verið bílastæði, girðingastigar, göngubrýr og nú tröppur.
Tröppur nánast alla leið
„Það var orðið hættulegt að labba hérna í drullunni,“ segir Ævar Aðalsteinsson verkefnastjóri fyrir hönd Mosverja. „Fyrir tveimur árum var ákveðið að hefjast handa hér við Skarhólabraut. Leiðin er það brött upp að þetta eru eiginlega bara tröppur alla leið. Við gerðum 110 þrep í fyrra og þau munu verða eitthvað fleiri í ár. Þetta verða því hátt í 250 þrep eftir sumarið.
Þetta er vinsæl gönguleið og hæg heimatökin fyrir Mosfellinga að ganga hér upp og njóta náttúrunnar.“
Falið leyndarmál Mosfellinga
Guðmundur Friðjónsson „skátapabbi“ kemur einnig að verkefninu og segir þetta breyta miklu og færa umferðina á stíginn. „Gróðurinn í kring nær þá vonandi að jafna sig. Þetta er ákveðið tilraunaverkefni með motturnar sem við notum en þær eru úr endurunnu plasti og hafa haldið mjög vel.“
Guðmundur segir að færri viti af þessari leið upp á fellið og hún sé í raun falið leyndarmál. „Það er góð þjálfun að koma hér í alvöru pallaleikfimi úti í náttúrunni.“