Fáum vonandi að njóta jöklanna sem lengst

Listakonan Steinunn Marteinsdóttir opnar um helgina sýningu í Listasal Mosfellsbæjar í tengslum við 85 ára afmæli sitt.
Sýningin nefnist JÖKULL -JÖKULL en Snæfellsjökull hefur lengi verið henni hugleikinn eða allt frá því hún fluttist að Hulduhólum árið 1969. Þar hefur hún búið og starfað síðan og sér jökulinn út um stofugluggann.

Minna um fyrirhuguð veisluhöld í ár
Jökullinn hefur eftir því sem ár hafa liðið sótt í sig táknvísan mátt og ef til vill orðið Steinunni eins konar aflvaki og kjölfesta í listsköpun, að tákni um eitthvað háleitt, einhvern æðri mátt ef svo mætti að orði komast, að tákni um þrá, ákall og markmið. Á seinni árum hefur auk þess sótt að listakonunni vitneskja um og ótti við að jöklar séu að hverfa, það hefur með öðru leitt til þess að sjá má í verkum hennar áhyggjur af þeim usla sem mannfólkið veldur á náttúrulegu umhverfi sínu og vilja til að spyrna við fótum.
Myndirnar á sýningu urðu til á árunum 1986 til 2019. Fyrstu myndirnar vann Steinunn í Kjarvalsstofu í París, gestavinnustofu sem ætluð er til dvalar fyrir íslenska listamenn.
Steinunn ætlaði að halda afmælispartý í Listasalnum en vegna Covid fer minna fyrir veisluhöldunum. Sýningin mun standa í mánuð frá 12. febrúar til 12. mars og eru allir velkomnir.

Íslendingar taki sig saman í andlitinu í umhverfismálum
Á sýningunni verða um 20 myndir, bæði vatnslita- og olíumyndir. Margar myndanna eru í einkaeigu en nokkrar verða þó til sölu.
Steinunn hélt síðast sýningu fyrir 5 árum þegar hún ákvað að gefa sjálfri sér bók í afmælisgjöf um verk sín.
„Þegar ég sæki innblástur hringla stundum orð Laxness í hausnum á mér: Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt. Vonandi fáum við að njóta jöklanna sem lengst. Það væri óskandi að Íslendingar tækju sig saman í andlitinu í umhverfismálum með sömu samstöðu og við höfum gert í Covid. Það er allt hægt.