Fann farveg fyrir sköpunargleðina

Hanna Margrét Kristleifsdóttir skartgripahönnuður hannar sína eigin skartgripalínu, Bara Hanna.

Það má sannarlega segja að áhugamál Hönnu Margrétar Kristleifsdóttur séu margvísleg en áhugi hennar á listsköpun er eitt af því sem stendur upp úr.
Hún sinnir leiklist af kappi en árið 2007 kynntist hún skartgripagerð og fór í framhaldi í nám í almennri hönnun og þaðan í fjarnám í Institute of art and design í New York og útskrifaðist þaðan 2016.
Hanna Margrét hannar sína eigin skartgripalínu í dag sem er bæði litrík og falleg.

Hanna Margrét fæddist í Reykjavík 12. apríl 1972. Foreldrar hennar eru þau Margrét Ólafsdóttir húsmóðir og listmálari og Kristleifur Guðbjörnsson lögreglumaður og langhlaupari en þau eru bæði látin.
Systkini Hönnu eru þau Guðbjörn f. 1960 d. 2005, Gunnar f. 1965 og Unnur f. 1967.

Dekkinn eyðilögðust á endanum
„Ég var tveggja ára þegar við fjölskyldan fluttum í Arkarholtið, þetta var bara sveit þá en svo þéttist byggðin smám saman.
Ég er fædd með klofinn hrygg og lærði því að ganga með hækjur en síðar þá slasaðist ég og eftir það hef ég verið í hjólastjól. Þá þurfti að gera viðeigandi breytingar á heimilinu eins og að lagfæra hurðir og fleira.
Systkini mín voru dugleg að passa mig og ég fór oft með þeim út í kerrunni. Þegar Gunni bróðir var fenginn til að fara í búðina fyrir mömmu og með mig í kerrunni þá fór hann aldrei beina leið. Hann fór í hvern einasta drullupoll og í allar þær torfærur sem hann fann enda eyðilögðust dekkin á endanum,“ segir Hanna og hlær að minningunni.

Ég grét með honum
„Ég var alin upp við að vera sjálfstæð og flestir vinir mínir í æsku voru ófatlaðir. Við lékum okkur saman í götunni í fallin spýta og fleiri leikjum en ef við fórum í fótbolta þá var ég í marki.
Eitt sinn vorum við krakkarnir að leika út í garði og einn strákurinn sem bjó í götunni var ekki sammála mér um eitthvað svo ég varð reið og sló hann með hækjunni. Hann fór þá að gráta og grét svo hátt að ég grét með honum.“

Mamma barði í borðið
„Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Fyrstu árin flakkaði ég á milli bekkja sem ýmist voru á fyrstu eða annarri hæð. Mamma barði í borðið og sagði að það gengi ekki þetta flakk á milli hæða og eftir það var ég alltaf í sama bekknum.
Ein helsta skemmtun hjá strákunum í bekknum mínum í barnaskóla var að kalla á eftir mér „Hanna hækjuspenna“ því ég var svo oft með tígó í hárinu. Þeir kölluðu þetta ekki af neinni illmennsku, þeim fannst bara svo gaman að sjá viðbrögðin hjá mér. Ég nefnilega elti þá á eftir og reyndi að ná þeim, sem mér fannst mjög gaman.“

Lít eftir ungu stúlkunum
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég í Menntaskólann við Hamrahlíð og lauk stúdentsprófi frá félagsfræðibraut. Með skólanum starfaði ég á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar sem þá var á 2. hæð í Hlégarði og svo starfaði ég líka í íþróttahúsinu að Varmá.
Ég hóf síðan nám í Háskóla Íslands á félagsráðgjafabraut en færði mig svo yfir í djáknann. Ég fór líka í förðunarnám hjá No Name árið 2003.
Árið 1997 hóf ég störf í íþróttamiðstöðinni að Varmá, þar var ég í tíu ár og vann við hin ýmsu störf. Ég var svo hjá Símanum í ár en í dag starfa ég sem baðvörður hjá Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík. Ég lít aðallega eftir ungum stúlkum í 4.-6. bekk úr Laugarnesskóla þegar þær koma í íþróttir.
Ég er líka leiðbeinandi hjá Herbalife en ég fór í það eftir að ég kynntist vörunum sjálf.“

Kynntust í Halaleikhópnum
„Ég gekk í Halaleikhópinn 2002 en það er áhugaleikfélag fatlaðra og ófatlaðra sem stofnað var 1992 og er með aðsetur í Sjálfsbjargarhúsinu. Við störfum undir kjörorðinu Leiklist fyrir alla. Ég hef verið formaður félagsins sl. tvö ár en félagið er rekið af félagsfólkinu sjálfu sem gengur í öll verk og hefur engan starfsmann á launum.
Ég kynntist Þresti mínum Steinþórssyni árið 2005 í Halaleikhópnum en vinur hans, Jón Eiríksson, dró hann með sér á æfingu því það vantaði tæknimann. Hann endaði þó á sviði og lék eitt atriði á móti mér þegar við settum upp Kirsuberjagarðinn.“

Vissum að þetta myndi ekki ganga upp
„Þegar við Þröstur byrjuðum að vera saman þá bjó hann í risíbúð á Hofteigi í Reykjavík. Þegar ég kom í heimsókn þá þurfti hann að lyfta mér upp á útitröppurnar og svo upp brattann stigann inni. Við vissum að það myndi ekki ganga upp að búa saman þarna,“ segir Hanna og skellir upp úr.
„Við leigðum okkur íbúð í Sóltúni í 14 ár en keyptum okkur svo íbúð í Helgafellshverfi og hér líður okkur vel, það er svo gott að búa í Mosfellsbæ. Þröstur kynnti mig fyrir bogfimi en hann var búinn að stunda hana í mörg ár hjá ÍFR en hann starfar þar. Ég hef reyndar lítið getað stundað bogfimina eins og ég hefði viljað vegna anna hjá Halaleikhópnum.“

Hélt ég væri með tíu þumalputta
„Áhugamál mín fyrir utan leiklistina er hvers konar listsköpun og þá helst skartgripahönnun og ljósmyndun. Ég kynntist skartgripagerð 2007 og fann þá farveg fyrir sköpunargleðina en fram að því hélt ég að ég væri með tíu þumalputta. Ég fór í nám í almennri hönnun í Tækniskólanum og er líka búin að fara á ótal námskeið.
Ég reyndi fyrir mér í gullsmíði en varð síðan að gefa hana upp á bátinn og leita að öðrum farvegi fyrir skartgripagleði mína. Ég fann fjarnám í skóla í New York, Institute of art and design, beat and wire working, og þaðan fékk ég diploma árið 2016.
Nú er ég að hanna og búa til mína eigin skartgripalínu og hef verið að selja hana að heiman frá mér en ég þyrfti vissulega að finna því annan farveg.
Hönnunarlínan mín heitir Bara Hanna og fyrir áhugasama þá set ég reglulega inn myndir á samfélagsmiðla eins og Facebook ­(Bara Hanna) og Instagram (bara_hannas­jewelry),” segir Hanna brosandi að lokum er við kveðjumst.