Ég er meiddur…

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Ég bögglaði hnéð á mér fyrir nokkrum vikum. Meiðsli eru algengasta afsökun fólks fyrir því að hreyfa sig ekki. Afsökun fyrir því að leggjast í kör og borða meira. Ég fann þetta hjá sjálfum mér þegar ég lenti í hnémeiðslunum. Ég vorkenndi sjálfum mér ægilega mikið og hugsaði um allt það sem ég gæti ekki gert en langaði mikið að gera. Ég leyfði mér að vera í þessu sjálfsvorkunnarástandi í 1-2 daga en reif mig svo upp úr því og minnti mig á það væri margt sem ég gæti gert þótt ég þyrfti að hvíla hnéð.

Ég tók erfiðar styrktaræfingar fyrir efri hluta líkamans, léttar liðleikaæfingar fyrir neðri hlutann. Fór í nudd, sjósund, rólega göngutúra og sitt hvað fleira. Hvíldi spretti, erfiðar styrktaræfingar fyrir neðri hluta líkamans og brasilíska jiu jitsuið. Hugsaði jákvætt, lét mig hlakka til að komast aftur í þessar æfingar og einbeitti mér að því að koma hnénu í lag.

Mín meiðsli voru bara smávægileg, en samt datt inn hjá mér vælupúkinn sem vildi henda mér upp í sófa og láta mig hanga þar og vorkenna sjálfum mér alla daga og nætur. Við verðum að taka á vælupúkanum þegar hann birtist, hálfglottandi og sigurviss. Henda honum strax af öxlinni og sem lengst í burtu frá okkur. Lesa í staðinn fréttir af fólki sem virkilega þarf að takast á við áskoranir og notar það sem hvatningu.

Ég las nýlega um Nikki Bradley. Hún er með sjaldgæft beinkrabbamein og þarf að nota hækjur alla daga. Lætur það ekki stoppa sig, langt því frá. Hún kom til Íslands í lok febrúar til að ganga á hækjum upp Hvannadalshnjúk. Ég hlakka til að lesa meira um það ævintýri. Tökum Nikki okkur til fyrirmyndar. Finnum leiðir til þess að hreyfa okkur og njótum þess að vera fersk og lifandi.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 10. mars 2016