Frístundaávísun fyrir 5 ára börn

Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir

Skipulagt íþrótta- og tómstundastarf hefur margsannað forvarnargildi sitt og stuðlar að heilbrigðum og jákvæðum lífsstíl. Mosfellsbær sem og önnur sveitarfélög hafa stutt við slíka iðkun með frístundaávísunum fyrir aldurshópinn 6-16 ára.
Það hefur færst í vöxt undanfarin ár að bjóða upp á skipulagt íþrótta- og tómstundastarf fyrir 4 og 5 ára börn. Það hefur sýnt sig að eftirspurn er eftir því og á vegum Aftureldingar er til að mynda boðið upp á fimleika, fótbolta, sund og körfubolta fyrir þennan aldurshóp. Einnig hefur verið boðið upp á sundnámskeið og svo hefur hinn sívinsæli Íþróttaskóli barnanna verið rekinn um árabil.

Það eru samtals um 140 börn í árgangi 2015 og 2014 í Mosfellsbæ og eru iðkendur í skipulögðu íþróttastarfi í þessum aldurshópi á bilinu 180-200 börn. Því má gera ráð fyrir að 64-71% barna í þessum hópi stundi að jafnaði einhvers konar skipulagt íþrótta- eða tómstundastarf. Það er frábær virkni hjá þessum yngsta aldurshópi og endurspeglar kraftmikið starf og dugmikla foreldra.
Til að koma til móts við þennan hóp þá lagði Viðreisn í Mosfellsbæ til í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar 2020 að 4 og 5 ára börn fengju frístundaávísun og yrði 50% af upphæðinni sem grunnskólabörn fá eða kr. 26.000 á ári.
Tillagan var að hluta til samþykkt í bæjarstjórn og er niðurstaðan sú að aldursviðmið frístundávísunar hafa verið færð niður í 5 ára frá og með árinu 2020 og er upphæðin kr. 26.000 á barn.

Valdimar Birgisson

Þetta eru frábærar fréttir og góð búbót fyrir barnafólk í Mosfellsbæ og styður enn við öflugt íþrótta- og tómstundastarf í bænum. Viðreisn mun halda áfram að vinna að málefnum barnafólks og munum við leggja áherslu á að frístundaávísunin nái einnig til 4 ára barna við gerð næstu fjárhagsáætlunar.
Hvetjum við alla foreldra 5 ára barna að sækja um frístundaávísun þegar næsta tímabil ávísunarinnar hefst þann 15. ágúst nk.

Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, varafullltrúi Viðreisnar í Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar
Valdimar Birgisson, bæjarfulltrúi Viðreisnar í Mosfellsbæ

Umferðarmál í Helgafellshverfi

Ásgeir Sveinsson

Talsverð umræða hefur verið um umferðarmál í Helgafellshverfi undanfarna mánuði í tengslum við opnun á Helgafellsskóla fyrir ári síðan og áframhaldandi uppbyggingu hverfisins. Til þess að fá mynd af stöðu umferðarmála fól Mosfellsbær Verkfræðistofunni Eflu að skoða umferðarmálin í Helgafellshverfi. Framkvæmdar voru m.a. umferðartalningar, farið yfir öryggismál, tengingar út úr hverfinu, bílastæðamál, hraðahindranir á Helgafellsvegi o.fl.

Umferðartalningar
Umferð á Helgafellsvegi var talin í októ­ber 2019 og mældist umferðin 5.500 ökutæki á sólarhring (virkur dagur). Umferðarspár deiliskipulags Helgafellshverfis áætla að umferð á Helgafellsvegi verði um 10.000 ökutæki á sólarhring eftir að hverfið verður fullbyggt og miðað við umferðina í dag og núverandi uppbyggingu má gera ráð fyrir að þær spár muni ganga eftir.
Búast má við að umferð Helgafellshverfis geti aukist um allt að fjórðung þegar 4. áfangi hverfisins verður fullbyggður eftir nokkur ár. Vinnuumferð vegna uppbyggingar 4. áfanga muni fara um Vefarastræti, en fram kemur í samningi Mosfellsbæjar og byggingarverktaka að allur uppmokstur á efni verði nýttur inni á svæðinu, m.a. í landmótun og manir. Mun því efni ekki vera flutt í gegnum hverfið og þar af leiðandi mikil lágmörkun vinnuumferðar sem er mjög jákvætt.
Auk þess mun einn aðili, Byggingafélagið Bakki sjá um uppbyggingu á þessum áfanga og verður sú vinna áfangaskipt til nokkurra ára. Það fyrirkomulag mun takmarka enn frekar umferð og ónæði í hverfinu heldur en ef margir verktakar væru að vinna á svæðinu á sama tíma.

Hringtorg við Vesturlandsveg og tengingar út úr Helgafellshverfi
Hringtorg við gatnamót Vesturlandsvegar-Helgafellsvegar ætti að anna eftirspurn umferðar vegna uppbyggingar 1.-4. áfanga en gæti þó reynst erfitt að komast inn í hringtorgið á álagstoppum árdegis og á umferðamiklum sumareftirmiðdögum. Við frekari uppbyggingu þykir þó nauðsynlegt að opna fyrir viðbótartengingu við Helgafellshverfi og verður það gert eftir því sem hverfið byggist upp.
Tengingin við Þingvallarveg um Ásaveg þykir góður kostur sem viðbótartenging við Helgafellshverfið. Með tilliti til umferðaröryggis er þó nauðsynlegt að uppfæra og laga veginn og útfæra gatnamótin við Þingvallarveg betur og eru viðræður í gangi við Vegagerðina um útfærslu þar að lútandi.
Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar er einnig gert ráð fyrir vegtengingu austur úr Helgafellshverfi sem tengist inn á nýjan Kóngsveg sem einnig er á skipulagi bæjarins.

Bílastæðamál
Óskir hafa borist til bæjaryfirvalda um að skoða möguleika á fjölgun bílastæða í áfanga 1.-3. í Helgafellshverfi. Möguleikar eru á að koma fyrir viðbótar bílastæðum á t.d. Varmárgötu og fleiri stöðum samkvæmt skýrslu Verkfræðistofunnar Eflu og er það til skoðunar hjá umhverfissviði. Í skýrslunni koma einnig fram tillögur varðandi umbætur og breytingar á hraðahindrunum á Helgafellsvegi og verða ákvarðanir um þær breytingar framkvæmdar eftir yfirferð og hönnun þeirra hjá fagaðilum.

Umferðaröryggi
Umferðaröryggi í Helgafellshverfi er mjög mikilvægt sem og í öðrum hverfum Mosfellsbæjar. Tilgangur þess að óskað var eftir skýrslu frá Verkfræðistofunni Eflu var að fá sem gleggsta mynd af stöðu umferðarmála í hverfinu og fá fram tillögur um hvernig auka megi umferðaröryggi. Margar góðar ábendingar koma fram í skýrslunni og eru þær í vinnslu og útfærslu hjá fagfólki á umhverfis­sviði Mosfellsbæjar.
Það er á ábyrgð okkar allra að huga að umferðaröryggi í hverfum Mosfellsbæjar og þar leikum við íbúar aðalhlutverk. Við getum lagt mikið af mörkum með því að virða umferðarreglur og ekki síst reglur um umferðarhraða. Því miður er það staðreynd að þeir sem keyra of hratt í hverfunum okkar eru við íbúarnir sjálfir.
Skýrsla Eflu hefur verið send íbúasamtökum Helgafellhverfis og ég hvet áhugasama að kynna sér innihald hennar. Íbúar verða svo upplýstir jafnóðum um þær umbætur og verkefni sem verða framkvæmd sem snúa að umferðarmálum í Helgafellshverfi.

Ásgeir Sveinsson, formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar Mosfellsbæjar.

Umhverfismál í forgangi

Bjartur Steingrímsson

Árið 2019 varð vitundarvakning í umhverfismálum á meðal almennings hér á landi sem og annars staðar.
Loftslagsverkföll ungmenna vöktu alþjóð til vitundar um það neyðarástand sem hefur skapast í loftslagsmálum og hve aðkallandi það er fyrir samfélög heimsins að bregðast við ástandinu með markvissum aðgerðum. Þegar rætt er um þessi mál er augljóst að umbætur þurfa að eiga sér stað í stóra samhenginu jafnt sem því smáa.

Síðastliðið sumar vann umhverfisnefnd Mosfellsbæjar í samráði við íbúa bæjarins nýja umhverfisstefnu fyrir bæinn til ársins 2030. Þar kennir ýmissa grasa sem endurspegla í senn sérstöðu okkar sem sveitarfélags og einnig vilja til að vera til fyrirmyndar í því hvernig við hugsum um og önnumst nærumhverfi okkar.
Umhverfisstefnan er unnin með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun að leiðarljósi þar sem lögð er rík áhersla á sjálfbærni, framsýni og virðingu fyrir náttúrunni. Slík gildi eru stór hluti af því sem gerir Mosfellsbæ að eftirsóttum og aðlaðandi bæ og góðum stað til að búa á.

Við Mosfellingar búum við þau forréttindi að geta gengið örstutt frá heimilum okkar um náttúruperlur á borð við Blikastaðahringinn, þar hægt er að virða fyrir sér mikið fuglalíf og selina sem liggja á oft á steinum við Leiruvoginn.
Ekki er síður skemmtilegt að fara að Álafossi, ganga eftir skógivöxnum stígnum með Varmánni og upp á þau fjölmörgu fell sem umkringja bæinn okkar. Slík nánd við dýralíf og náttúru er ekki einungis yndisauki og afþreying, heldur forréttindi og gott veganesti inn í lífið fyrir yngri kynslóðir sem alast upp hér í bænum.

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Kjörnir fulltrúar sem og aðrir starfsmenn Mosfellsbæjar eru ávallt að leita leiða til að verða umhverfisvænni. Starfsmenn í áhaldahúsi bæjarins hafa nýlega skipt út bensíndrifnum verkfærum fyrir rafmagnsknúin, fjárfest í nýjum rafmagnsbíl sem notaður verður í garðyrkju og sorphirðu og tekið markviss skref í að minnka plastnotkun.
Vistvænar samgöngur, orkuskipti og grænt skipulag eru meðal fjölmargra forgangsatriða Mosfellsbæjar í umhverfismálum og má ætla að með uppbyggingu Borgarlínu og glæsilegs nýs miðbæjar muni ásjóna bæjarins breytast mjög til hins betra.

Við undirrituð ætlum að leggja okkar af mörkum til að vernda og bæta umhverfið hér í Mosfellsbæ og gaman væri að fá bæjarbúa í lið með okkur við það. Margt smátt gerir eitt stórt og ef allir bæjarbúar myndu skoða reglulega hverju þeir gætu breytt og hvernig hægt væri að gera betur á árinu 2020 gætum við unnið þrekvirki í umhverfismálum.

Kæru Mosfellingar, tökum höndum saman um að árið 2020 verði enn betra í umhverfismálum en árið 2019.

Formaður Umhverfisnefndar Bjartur Steingrímsson f.h. Vinstri grænna
og varaformaður umhverfisnefndar, Kristín Ýr Pálmarsdóttir f.h. Sjálfstæðisflokksins.

Klörusjóður

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Nýsköpunar- og þróunarsjóður fyrir leik – og grunnskóla

Mosfellsbær hefur vakið athygli á landsvísu vegna framsækni og mikillar fjölbreytni í skólamálum. Skólarnir okkar, bæði leik– og grunnskólar og tónlistaskólinn eru mikilvægustu stofnanir bæjarins og þreytist ég seint á að tala og skrifa um hversu mikilvægir skólarnir eru. Það hefur líka sýnt sig að öflugt fræðslu– og frístundastarf laðar að barnafjölskyldur og hefur gert bæinn einn af bestu stöðum fyrir fjölskyldur að búa á.
Til að styðja enn betur við kennara og skólana okkar hefur verið stofnaður nýsköpunar– og þróunarsjóð fyrir fagfólk að sækja fjármagn í til að koma nýjum hugmyndum á laggirnar eða þróa enn frekar starf sem þegar er í gangi.
Sjóðurinn hefur fengið nafnið Klörusjóður og er tileinkaður Klöru Klængsdóttur (1920–2011) en Klara var kennari og sundkennari við Brúarlandsskóla og síðar Varmárskóla allan sinn starfsaldur.

Markmið sjóðsins
Skólar eru lifandi stofnanir og eru í sífelldri þróun í takt við hraða þróun samfélagsins. Í fjárhagsáætlun 2020–2023 var samþykkt að stofna nýsköpunar- og þróunarsjóð fyrir leik- og grunnskóla í Mosfellsbæ. Markmið slíks sjóðs er að stuðla að nýsköpun og framþróun í skóla- og frístundastarfi leik- og grunnskólum. Með stofnun sjóðsins vill Mosfellsbær styðja enn betur við starf leik– og grunnskólakennara.

Skólar í þróun ná árangri
Mikilvægt er að efla starfsþróun innan skólanna og styðja við frekari nýsköpun. Mörg sveitarfélög hafa þegar stofnað álíka styrktarsjóði og nokkur eru með stofnun í burðarliðnum.
Skilyrði fyrir styrkveitingu er að verkefnin verði kynnt í skólasamfélagi Mosfellsbæjar og heimilt verði að nota verkefnin af öðrum en styrkhöfum. Nýsköpunar- og þróunarverkefnum verður gert hátt undir höfði með sérstökum viðburði og kynningu þegar kemur að styrk­afhendingu, slíkt er afar jákvætt og hvetjandi fyrir starfsemi leik- og grunnskóla í Mosfellsbæ.
Rannsóknir sýna að starfsþróun er að miklu leyti undir þeim skilyrðum sem kennurum eru búin í skólum. Eitt af því sem einkennir þá skóla sem ná árangri í þróunarstörfum er að þeir skapa kennurum góð skilyrði að þessu leyti. Stofnanir eru stöðugt að læra og breyta og bæta. Skólar eru lifandi samfélög þar sem kennarar, stjórnendur og aðrir starfsmenn læra ekki síður en nemendur. Þannig er lífið.
Nýsköpunar- og þróunarsjóður er nýjung og verður vonandi til þess fallinn að efla enn frekar menntasamfélagið í Mosfellsbæ. Frekari upplýsingar um reglur sjóðsins verður að finna á heimasíðu Mosfellsbæjar innan skamms.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
formaður fræðslunefndar

Um áramót

Haraldur Sverrisson

Nýársávarp bæjarstjóra Mosfellsbæjar

Kæru Mosfellingar!
Um áramót er hefðbundið að líta yfir farinn veg og leggja mat á það hvernig okkur tókst til, læra af því sem kann að hafa farið miður um leið og við setjum okkur markmið eða veltum fyrir okkur hvað kann að bíða okkar á nýju ári.

Í það heila tekið reyndist árið 2019 gott ár fyrir íslenskt samfélag en hægst hefur á hraða þess uppgangs sem ríkt hefur undanfarin ár. Horfurnar fyrir okkur eru sem fyrr bjartar og strax á nýrunnu ári má búast við nettum hagvexti gangi hagvaxtarspár eftir. Hóflegur hagvöxtur er mikilvægur til þess að unnt sé að sækja fram í hvaða starfsemi sem er. Þegar um er að ræða sveitarfélag í miklum vexti er nauðsynlegt að festa sé til staðar í efnahagsumhverfinu svo unnt sé að mæta þörfum íbúa fyrir þjónustu og sinna uppbyggingu innviða af myndarbrag.

Á árinu 2019 voru gerðir skynsamlegir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði sem nefndir hafa verið lífskjarasamningar. Þessir samningar eiga mestan þátt í því að hagsveiflan er eins mjúk og raun ber vitni. Nú stendur fyrir dyrum að ljúka kjarasamningum á opinberum markaði og mikilvægt er að þar takist einnig vel til.

Í Mosfellsbæ hefur okkur vegnað vel enda á sér hér stað mikil uppbygging á íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði, íþróttamannvirkjum, skólum og umferðarmannvirkjum. Þá fjölgar íbúum látlaust og viðhorfskannanir síðustu ára hafa sýnt að íbúar í Mosfellsbæ eru ánægðir með þjónustu bæjarins og þeim þykir mjög vænt um sitt samfélag. Að mínu mati fléttast þar saman sú þjónusta sem sveitarfélagið veitir og það góða samfélag sem íbúar þess skapa á hverjum degi.
Annar mælikvarði á væntumþykju og umhyggju Mosfellinga fyrir bænum sínum er sú staðreynd að við settum Íslandsmet í kosningaþátttöku í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó 2019 þar sem 19,1% íbúa tók þátt í samráði íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til nýframkvæmda og viðhaldsverkefna.

Mikill uppgangur í Mosfellsbæ
Mosfellingar urðu 12.000 talsins í lok ársins og hefur fjölgað um 8% á ári undanfarin ár. Það er mikil fjölgun og í raun fordæmalaus og sýnir hversu vinsælt sveitarfélagið er til búsetu. Nýtt fjölnota íþróttahús var tekið í notkun á haustmánuðum. Húsið er um 4.000 fermetrar að stærð og verður án efa bylting fyrir íþróttaiðkun í bænum, einkum knattspyrnuna.
Fleira var gert í uppbyggingu íþróttamannvirkja á árinu 2019. Ný stúka var tekin í notkun við gervigrasvöllinn í vor og skipt var um gólfefni á öllum sölum íþróttamiðstöðvarinnar að Varmá. Bráðlega verður tekin í notkun viðbygging við íþróttamiðstöðina Lágafell sem mun hýsa heilsuræktaraðstöðu fyrir íbúa.
Miklar viðhaldsframkvæmdir áttu einnig sér stað á húsnæði bæjarins á síðasta ári og ber þar hæst endurbætur og viðhald á Varmárskóla í tengslum við endurnýjun á ytra byrði yngri deildar og viðhald vegna rakaskemmda á húsnæðinu.

Mig langar til að benda á nokkur atriði í fjárhagsáætlun næsta árs sem bæði ungir og aldnir njóta góðs af. Þar er gert ráð fyrir að leikskólagjöld lækki um 5% og að álagningahlutfall fasteignagjalda lækki til að koma til móts við hækkandi fasteignamat. Í byrjun árs lýkur vinnu við endurskoðun á menningarstefnu bæjarins með áherslu á starfsemi Hlégarðs okkar sögufræga félagsheimils.
Þá stendur mótun lýðheilsu- og fornvarnarstefnu yfir og senn verður hafist handa við að endurskoða skólastefnu Mosfellsbæjar. Mikilvægt er að stefna, markmið og aðgerðir Mosfellsbæjar í öllum málaflokkum hafi tengingu við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna enda mun meginhluti þeirra koma til framkvæmda á sveitarstjórnarstiginu.
Á þessu ári er gert ráð fyrir að komið verði á fót 25 nýjum plássum á leikskólum fyrir 12-18 mánaða gömul börn og það styttist í að öll börn 12 mánaða og eldri eigi tryggt úrræði á vegum Mosfellsbæjar. Á sviði velferðarmála eru lagðir til auknir fjármunir til málefna fatlaðs fólks.
Þá verður á árinu lögð áhersla á félagslega ráðgjöf og stuðning í anda breytinga á lögum um félagsþjónustu. Loks stendur yfir endurskoðun á aðalskipulagi bæjarins og er miðað við að þeirri vinnu ljúki fyrir lok kjörtímabilsins.
Það er okkur Mosfellingum sem fyrr fagnaðarefni að rekstur og starfsemi Mosfellsbæjar er í miklum blóma og kraftur og umhyggja einkennir samfélagið okkar.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru hvað varðar það sem gerst hefur í Mosfellsbæ á síðasta ári, og hvað fram undan er en það verður ekki allt talið upp hér.

Framtíðin er björt í Mosfellsbæ og með gildin okkar góðu VIRÐINGU – JÁKVÆÐNI – FRAMSÆKNI og UMHYGGJU að leiðarljósi eru okkur allir vegir færir.
Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf, samskipti, vináttu og stuðning á árinu 2019 og megi nýrunnið ár vera okkur gæfuríkt og gleðilegt.

Haraldur Sverrisson
Bæjarstjóri

Skólinn á nýjum áratug

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir

Skólakerfið hefur þróast og breyst undanfarna áratugi og er skólinn í dag ekki sá sami og hann var fyrir 10 árum svo ekki sé talað um fyrir 20 árum.
Sjónum er nú meira beint að líðan barna og er sannað að góð skólamenning og jákvæður skólabragur er forvörn gegn vanlíðan og undirstöðuatriði hvað námsárangur varðar. Áhersla er á einstaklingsmiðað nám og stoðþjónustu skólanna. Skólinn þróast í takt við samfélagið, það þekkja allir. En hvað hefur breyst og hvernig sjáum við skólana okkar þróast næsta áratuginn?

Aukin þátttaka foreldra
Það hefur verið áskorun undanfarin ár að taka á móti miklum barnafjölda sem flutt hefur í okkar góða bæ. Vegna mikillar uppbyggingar á austursvæði bæjarins hefur fjölgun barna í Varmárskóla og Helgafellsskóla verið mikil og mikið reynt á stjórnendur, kennara og starfsfólk skólanna.
Þrátt fyrir það höfum við Mosfellingar verið óhrædd við að fara ótroðnar slóðir í skólamálum og er horft til okkar hvað það varðar. Þegar á reynir veltur mikið á jákvæðum skólabrag og góðri skólamenningu. Ein breytingin í skólakerfinu er sú að foreldrar taka nú mun meiri þátt í skólastarfinu en áður og er þáttur foreldra mjög mikilvægur. Skólinn er viðkvæmur vinnustaður barnanna okkar og mikilvægt að áhugasamir foreldrar styðji við skólastarfið með jákvæðum hætti.
Í fjölmennu samfélagi er aldrei svo að öllum líki og mikilvægt að koma á framfæri gagnrýni og ábendingum um það sem betur má fara. Ef aðkoma foreldra er farin að hafa neikvæð áhrif á störf stjórnenda og kennara og þar með á skólabraginn þarf að staldra við. Neikvæð umræða og niðurrif hefur sjaldan skilað góðum árangri og getur bókstaflega haft skaðleg áhrif eins og dæmin sanna. Í slíku ástandi á skólaþróun og skólabragur erfitt uppdráttar.

Arna Hagalínsdóttir

Tekið skal fram að undirritaðar eru ekki að varpa frá sér ábyrgð heldur að benda á að enginn er eyland þegar kemur að þróun og þroska lærdómssamfélagins. Grasrótin og fræðsluyfirvöld eiga að taka samtalið en ekki slaginn, þannig náum við meiri árangri. Sýnin og markmiðin eru þau sömu en sitt sýnist hverjum um leiðirnar að markmiðinu.

100 ára afmæli og fleira fram undan
Það er margt fram undan í skólaþróun í Mosfellsbæ. Endurskoðun skólastefnunnar er stórt og spennandi verkefni og er sú vinna að hefjast. Þar ættu allir að fá tækifæri til að láta rödd sína heyrast skólasamfélaginu til framdráttar. Vinna við forvarna- og lýðheilsustefnu er einnig að hefjast sem mun hafa áhrif á skólasamfélagið.
Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar til næstu þriggja ára sýnir að fókusinn er á skólunum en það er hlutverk bæjaryfirvalda að styðja við skólana, mæta þörfum og óskum sem nútíma samfélag kallar á. Mikilvægast af öllu er að daglegt starf skólanna gangi sem allra best.
Að lokum er vert að nefna að á næsta ári á skólastarf í Mosfellsbæ 100 ára afmæli og verður haldið upp á það með pomp og prakt. Megi næsti áratugur færa okkur áframhaldandi gott skólastarf í Mosfellsbæ börnum okkar til heilla.
Óskum starfsfólki og nemendum skólanna gæfu og velfarnaðar á nýju ári.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir formaður fræðslunefndar
Arna Hagalínsdóttir fulltrúi í fræðslunefnd

Fjárhagsáætlun

Anna Sigríður Guðnadóttir

Fjárhagsáætlun fyrir 2020 var samþykkt eins og lög gera ráð fyrir síðla árs 2019.
Margt er gott þar að finna enda samstaða um ýmis málefni innan bæjarstjórnar. Vinnubrögðin við gerð fjárhagsáætlunar eru þó árlegur ásteytingarsteinn. Samfylkingin hefur í áraraðir lagt það til að fagnefndir bæjarins komi með markvissari hætti að undirbúningi fjárhagsáætlunar. Virkja ætti nefndir betur í umræðu um þá málaflokka sem undir þær heyra og nefndir ættu að koma beint að tillögugerð.
Lokaábyrgðin myndi þó að sjálfsögðu liggja hjá kjörnum bæjarfulltrúum sem tækju ábyrgðina á forgangsröðun tillagnanna. Þessi lýðræðislega aðferð hefur ekki hugnast meirihluta Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks.

Felldar tillögur
Tvær nefndir lögðu fram tillögur þegar tækifæri gafst, þ.e. á milli fyrri og síðari umræðu í bæjarstjórn. Önnur nefndin er umhverfisnefnd, undir forsæti VG, en eins og í öðrum fagnefndum skipa fulltrúar VG og D-lista meirihluta nefndarmanna. Sameinaðist nefndin um 3 tillögur sem formanni var falið að fylgja eftir.
Skemmst er frá því að segja að engin þeirra hlaut framgang hjá bæjarfulltrúum VG og D-lista við afgreiðslu fjárhagsáætlunar ársins 2020. Einni var þó vísað til fjárhagsáætlunargerðar 2021.
Hin nefndin var öldungaráð. Ráðið lagði til að stöðugildum við heimaþjónustu aldraðra yrði fjölgað um tvö og þau nýtt til að mæta þörf fyrir aðstoð við persónulega umhirðu og heimilishald, annað en heimilisþrif, og að rjúfa félagslega einangrun aldraðra þar sem um hana er að ræða. Þessari tillögu hafnaði meirihluti bæjarstjórnar.

Fleiri felldar tillögur
Engin tillagna Samfylkingarinnar hlaut framgang við afgreiðslu fjárhagsáætlunar. Hér geri ég að umtalsefni tvær tillögur sem undirrituð gerði varðandi lýðræðismál í bæjarfélaginu. Annars vegar tillögu um reglubundna fundi bæjarstjórnar með stjórnum hverfafélaga, aðstoð við stofnun hverfafélaga og almenna fundi með íbúum hverfa og hins vegar tillaga um hlutastarf umboðsmanns íbúa.
Fyrri tillagan er í samræmi við lið 2A í samþykktri lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar. Tilgangur tillögunnar var að uppfylla stefnuna og efla og styrkja samtal og samráð við íbúa. Það vakti greinilega ekki áhuga Vinstri grænna og sjálfstæðismanna.
Seinni tillagan um hlutastarf umboðsmanns íbúa snýst um að bæjarbúum gefist tækifæri til að leita til hlutlauss aðila til að fá ráðgjöf um samskipti sín við bæjarkerfið. Hún snýst um að hlutlaus aðili skoði ábendingar og kvartanir bæjarbúa varðandi úrlausn umkvörtunarefna þegar ekki hefur tekist að komast að sameiginlegum skilningi eða íbúi telur að ábendingum sínum og kvörtunum hafi ekki verið sinnt sem skyldi.

Báðar þessar tillögur eru í eðli sínu mjög pólitískar, snúast um grundvallarskoðun á samráði og lýðræðislegu samtali kjörinna fulltrúa og íbúa og um samskipti og samtal bæjarkerfisins og íbúanna. Maður skyldi ætla að meirihluti VG og Sjálfstæðisflokks hefði skoðun á þessum grundvallaratriðum í samspili kjörinna fulltrúa og íbúa, en nei ekkert slíkt heyrðist.
Meirihlutinn brá á það ráð að skýla sér á bak við ráðinn embættismann í stað þess að taka skýra pólitíska afstöðu til þessara tillagna. Embættismaður er settur í þá vandasömu stöðu að skrifa umsögn um hápólitískar tillögur og í stað þess að kjörnir fulltrúar VG og D í meirihluta hysji upp um sig sokkana og taki opinbera pólitíska afstöðu um að styðja tillögur eða hafna þeim þá kúra þau í skjóli embættismannsins. Þarna lagðist lítið fyrir meirihlutann.

Anna Sigríður Guðnadóttir
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Leggðu höfuðið í bleyti

Aðalheiður Rúnarsdóttir

Eitt af því sem við flest sjáum eftir er að hafa ekki tekið til máls og látið okkar skoðun í ljós þegar við höfðum eitthvað að segja.
Flest þekkjum við þá tilfinningu að vera í hópi fólks, hvort sem er á fundi eða í öðrum kringumstæðum, og vilja leggja eitthvað til umræðunnar, en ekki getað. Öll sem eru í kringum okkur virðast vera svo örugg og ákveðin, en við berjumst við að finna kjarkinn til að biðja um orðið og segja það sem við viljum segja.

Kringumstæðurnar eru margvíslegar. Þetta getur verið á fundi í vinnunni, í foreldrafélaginu, í húsfélaginu eða bara í kaffispjalli einhvers staðar. Eitt það versta er að vera í mannfögnuði og vilja ávarpa afmælisbarnið, fermingarbarnið eða brúðhjónin.
Við undirbúum frábæra ræðu og förum með hana í huganum, en frestum því alltaf örlítið lengur að standa upp og taka til máls. Svo gerist það allt í einu að mælendaskrá er lokað og við komumst ekki að.

Í POWERtalk samtökunum hittist fólk reglulega og æfir sig í þessu, fundarsköpum og mörgu öðru. Við fáum fjölbreytt verkefni sem geta verið frá því að flytja þrjátíu sekúndna hvatningu upp í að flytja þrjátíu mínútna kynningu á einhverju sem við höfum áhuga á. Félagarnir fylgjast með flutningnum og í lok funda er hægt að fá ábendingar um hvað heppnaðist vel og hvað hefði mátt fara betur.

Megináherslan með þátttöku í starfi POWERtalk er að taka til máls við hvers kyns tækfæri, að semja og flytja stutt eða lengri erindi og taka þátt í umræðum.
Á næsta fundi hjá okkur í POWERtalk deildinni Korpu í Mosfellsbæ ætlum við að auka orðaforða okkar og víkka þekkingu á orðatiltækjum, því íslenskan er full af orðatiltækjum sem setja skemmtilegan blæ á samskiptin.
Orðatiltækin auðga og skreyta málið en Bibba á Brávallagötunni á það til að stinga sér niður enda getur verið erfitt að fóta sig í heimi orðatiltækjanna því margir þekkja ekki hver upprunaleg merking þeirra er.

Eitt skemmtilegasta orðatiltækið sem mikið er notað er „að leggja höfuðið í bleyti“. Það er auðvitað nokkuð sérstakt að leggja höfuðið í bleyti ef maður vill hugsa eitthvað. Skýringin á þessu er byggð á lélegri þýðingu úr dönsku „að lægge sit hoved i blød“, en það merkir að menn leggja höfuðið á eitthvað mjúkt, t.d. kodda, og hugsa djúpt. ‘Blød’ var einfaldlega þýtt á íslensku sem ‘bleyti’!

Á næsta fund Korpu kemur Eyþór Eðvarðsson frá Þekkingarmiðlun og flytur fyrirlestur um íslensk orðatiltæki. Fundurinn verður á annarri hæð í Safnaðarheimili Lágafellssóknar miðvikudaginn 15. janúar kl. 19:30.

Viljir þú meiri upplýsingar getur þú sent okkur póst í netfangið korpa@powertalk.is og/eða kíkt á vefinn powertalk.is.

Aðalheiður Rúnarsdóttir

Vegferð til vellíðunar

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Nú þegar hátíð ljóss og friðar er að ganga í garð er ekki úr vegi að staldra aðeins við, líta yfir árið og velta því fyrir sér hvernig það var og af hverju.
Leið mér vel? Lagði ég rækt við sjálfa/-n mig og aðra? Var ég meðvituð/-aður um gerðir mínar og viðbrögð í hinu daglega amstri? Þetta eru aðeins örfáar af þeim spurningum sem koma upp í hugann því það er nefnilega svo ótal margt sem við getum gert til að efla vellíðan okkar og leggja rækt við okkur sjálf og aðra í kringum okkur.

Jákvæðni er val
Eins og segir í fyrsta geðorðinu þá er einfaldlega léttara að hugsa jákvætt og slíkt er í raun val hvers og eins. Það er sama hversu krefjandi verkefnin okkar eru, það er alltaf hægt að finna jákvæðar hliðar á þeim og þó okkur takist jafnvel ekki að leysa þau eins og við vildum þá erum við að minnsta kosti alltaf reynslunni ríkari.
Mundu að reynslan og viðhorf okkar til hlutanna skapa okkur sem manneskjur og þau gildi sem við stöndum fyrir. Áskoranir lífsins eiga nefnilega ekki að hafa lamandi áhrif á okkur, þær eiga að hjálpa okkur að uppgötva hver við erum í raun.

Þakklæti bætir heilsuna
Þakklæti er göfug og góð tilfinning. Sálfræðingurinn Robert A. Emmons hefur meðal annarra rannsakað áhrif þakklætis á samskipti, hamingju og heilsu fólks.
Niðurstöður hans sýna m.a. að það einfalda atriði að þakka markvisst og meðvitað einu sinni í viku leiðir til betri heilsu, meiri gleði og hamingju, betri svefns og samskipta, meiri ákafa og bjartsýni, meiri styrks og ákveðni, meiri ástundunar líkamsræktar, meiri lífsánægju og er þá einungis talinn upp hluti þeirra góðu áhrifa sem þakklæti hefur á líf okkar og heilsu.

Hlúðu að því sem þér þykir vænt um
Rannsóknir hafa einnig sýnt að þeim sem gengur vel í lífinu og líður vel eiga það sameiginlegt að hlúa að því sem þeim þykir vænt um. Með því að koma vel fram við og gleðja aðra þá stuðlum við að vellíðan þeirra auk okkar eigin.
Settu þér það markmið að gleðja og/eða tjá einhverjum væntumþykju þína reglulega og hlúðu þannig að þeim sem þér þykir vænt um og skipta þig máli í lífinu.

Vellíðan
Það er löngu vísindalega sannað að holl, góð og fjölbreytt næring hefur jákvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan okkar og hið sama gildir um hreyfingu.
Ef okkur líður vel andlega og líkamlega þá eru yfirgnæfandi líkur á því að félagslegi þátturinn fylgi með sem einkennist af góðum og kærleiksríkum samskiptum við aðra.
Temjum okkur að þakka fyrir góðu hlutina í lífi okkar, hvort sem þeir eru stórir eða smáir, og virkjum fólkið í kringum okkur með í þessari vegferð til þakklætis, hamingju og heilbrigðis.

Heilsueflandi samfélag í Mosfellsbæ færir ykkur hjartans þakkir fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða, óskar ykkur gleði og friðar um hátíðirnar og að sjálfsögðu heilbrigðis og hamingju á nýju ári.

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsu­fræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Hækkar sól um jól

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason

Framundan eru tímamót: vetrarsólhvörf, jól og áramót á næsta leiti. Lífgjafi okkar allra hækkar á lofti, skammt undan lúrir janúar sem er nefndur eftir rómverska guðnum Janusi með andlitin tvö, annað sneri til fortíðar en hitt fram á veginn.
Hér á eftir hyggjumst við undirrituð drepa stuttlega á það sem hefur verið ofarlega á baugi síðustu misserin á vettvangi sveitarfélagsins okkar, um leið og við horfum til framtíðar.

Endurskoðun aðalskipulags
Í Mosfellsbæ er í gildi aðalskipulag fyrir árin 2011–2030. Eftir síðustu bæjarstjórnarkosningar var tekin sú ákvörðun að endurskoða skipulagið, það ferli stendur yfir og áætlað að það taki um þrjú ár. Skipulagsmál snerta daglegt líf og lífsgæði okkar allra á einn eða annan hátt og því mikilvægt að þessi endurskoðun byggi á skarpri framtíðarsýn, hún sé vel ígrunduð og markviss.

Fjármál
27. nóvember sl. var fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar samþykkt í bæjarstjórn. Í áætlun fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur verði 340 m.kr. og framkvæmdakostnaður næsta árs nemi tæpum þremur milljörðum króna. Þar vega þyngst framkvæmdir við skóla-, gatna- og veitumannvirki, þau viðamestu sem sveitarfélagið hefur ráðist í til þessa. Gert er ráð fyrir hóflegri hækkun á gjaldskrám, í takti við þá stefnu sem mörkuð var í lífskjarasamningunum og leikskólagjöld munu lækka um 5% í samræmi við málefnasamning V- og D-lista sem gerður var eftir síðustu kosningar.

Bryndís Brynjarsdóttir

Bryndís Brynjarsdóttir

Skólamál – íþróttamál
Stór hluti tekna sveitarfélagsins fer í að sinna skólahaldi; síðustu árin hefur bygging hins glæsilega Helgafellsskóla vegið þar þyngst en síðastliðið sumar fóru einnig fram miklar endurbætur á húsnæði Varmárskóla.
Samkvæmt fjárhagsáætlun verður stofnaður nýsköpunar- og þróunarsjóður en hlutverk hans er að styrkja kennara til að vinna að verkefnum sem leiða til framþróunar í skólum bæjarins.
Stöðugt þarf að huga að uppbyggingu og viðhaldi íþróttamannvirkja í ört stækkandi sveitarfélagi líkt og Mosfellsbæ. Það nýjasta er fjölnota íþróttahús á Varmá sem mun gerbreyta aðstöðunni til knattspyrnuiðkunar. Haldin var opin samkeppni um nafn hússins og tóku 235 einstaklingar þátt í henni. Var það afar ánægjulegt að sjá að bæjarbúar létu sig nafngiftina varða og lögðu fram margar góðar tillögur. Niðurstaða dómnefndar var að velja nafnið Fellið en sex einstaklingar lögðu það nafn til.

Hlégarður
Menningarmál skipa veglegan sess í Mosfellsbæ og í okkar augum leikur félagsheimilið Hlégarður þar stórt hlutverk. Í málefnasamningi núverandi meirihluta er getið um stefnumótun um Hlégarð þar sem eitt höfuðmarkmiðið er að nýta húsið betur í þágu Mosfellinga. Menningar- og nýsköpunarnefnd bæjarins hefur haldið utan um þessa stefnumótun þar sem dregnar voru upp mismunandi sviðsmyndir, hvað varðar rekstrarform og nýtingu hússins.
Niðurstaðan varð sú að velja svonefnda blandaða leið, þar sem samið verður við núverandi rekstraraðila um áframhaldandi rekstur og jafnframt mun Mosfellsbær ráða viðburðastjóra sem tryggir bæjarfélaginu og bæjarbúum greiðari aðgang að húsinu. Gera þarf töluverðar breytingar á byggingunni svo hún nýtist sem best og styttist í að tillögur arkitekta þar um líti dagsins ljós.

Ný umhverfisstefna
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt nýja umhverfisstefnu fyrir árin 2019–2030. Stefnan tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og má lesa hana á heimasíðu bæjarins. Við hvetjum bæjarbúa til að kynna sér þessa metnaðarfulla stefnu og láta sig umhverfismál varða í víðustum skilningi þess orðs, minnugir þess að heimsbyggð og heimabyggð eru eitt og hið sama.
Þegar öllu er á botninn hvolft.

Vinstri-græn í Mosfellsbæ óska öllum bæjarbúum gleðilegra jóla, árs og friðar.

Bjarki Bjarnason, bæjarfulltrúi VG og forseti bæjarstjórnar.
Bryndís Brynjarsdóttir, varabæjarfulltrúi VG.

Umferðarlög – breytingar um áramótin

Hreiðar Örn Zoega Stefánsson

Hreiðar Örn Zoega Stefánsson

Það hefur eflaust ekki farið framhjá Mosfellingum frekar en öðrum landsmönnum að eftir um 12 ára ferli þá munu ný umferðarlög taka gildi um áramótin. Margt nýtt er í lögunum sem vert er að taka eftir. Hér eru nokkur nýmæli.

Snjalltæki
Í lögunum eru ákvæði er varða snjalltæki og bann við notkun þeirra gert skýrt, jafnt fyrir ökumenn vélknúinna ökutækja sem og fyrir hjólreiðamenn.

Létt bifhjól
Létt bifhjól eru nú skráningar- og skoðunarskyld.

Ölvunarakstur
Í lögunum telst ökumaður ekki geta stjórnað ökutæki örugglega ef vínandamagn mælist 0,2‰ í blóði hans. Hlutlægu mörkin sem segja til um það hvort ökumaður geti stjórnað ökutæki örugglega eru því lækkuð úr 0,5‰ í 0,2‰.

Öryggisbelti í hópbifreiðum
Ekki er heimilt að veita undanþágu frá notkun öryggis- og verndarbúnaðar í hópbifreiðum í almenningsakstri í dreifbýli á vegum þar sem heimilt er að aka hraðar en 80 km á klst.

Akstur í hringtorgum
Sett eru sérstök ákvæði um akstur í hringtorgum. Þannig er lögfest að ökumaður í ytri hring skal veita þeim sem ekur í innri hring forgang út úr torginu. Þá skal ökumaður í hringtorgi, sem skipt er í tvær akreinar, velja hægri akrein (ytri hring), ætli hann að aka út úr hringtorginu á fyrstu gatnamótum.

Bannað að leggja bílum í botnlangagötu
Í lögunum er sérstaklega áréttað að ekki megi leggja í snúningssvæði í botnlangagötum.

Hjólreiðamaður skal gefa hljóðmerki
Í lögunum er kveðið á um að hjólreiðamaður skal gefa hljóðmerki þegar hann nálgast gangandi vegfarendur ef ætla má að þeir verði hans ekki varir.

Framhaldsskólar
Í umferðarlögunum er nú sérstaklega kveðið á um það að umferðarfræðsla skuli fara fram í framhaldsskólum. Ráðherra sem fer með fræðslumál ákveður að fenginni umsögn Samgöngustofu nánari tilhögun fræðslu og sveitarstjórnum ber að fræða almenning um þær sérreglur er gilda á hverjum stað.

Af þessum fáu punktum má sjá að það eru allmargar þarfar breytingar sem nú komast inn í lögin. Margar aðrar breytingar mætti hér kynna en best að að skoða lögin í heild sinni. Lögin er að finna á heimasíðu Alþingis. Umferðarlög nr. 77/2019.

Bestu jólakveðjur
Hreiðar Örn Zoëga Stefánsson
Ökukennari – 820 1616

Jólakveðja frá Aftureldingu

Birna Kristín Jónsdóttir

Birna Kristín Jónsdóttir

Enn líður að jólum og komið að því að gera upp árið. Árið 2019 hefur verið lifandi og skemmtilegt hjá Aftureldingu, en það eru orð að sönnu að það er aldrei dauð stund í lífinu þegar kemur að því að hlúa að og halda utan um þetta flotta félag sem við erum.
Stór skref hafa verið tekin í aðstöðumálum á árinu og má þar helst nefna endurnýjun gólfa í sölum Varmár og fjölnota knatthús. Í framhaldi af því má nefna að samráðshópur á vegum Mosfellsbæjar og Aftureldingar hefur klárað þarfagreiningu og framtíðarsýn á aðstöðumálum félagsins til næstu 15 ára. Næstu skref eru að vinna þetta áfram með arkitektum og teikna upp sviðsmynd sem allir geta verið sáttir við. Afurð af þessari vinnu ætti að vera tilbúin í lok næsta sumars.
Mér finnst þessi samvinna frábært skref fram á við og gríðarlega mikilvægt að framtíðarsýn í aðstöðumálum sé til staðar. En eins og góður maður sagði þá klárast þessi vinna aldrei, það er okkar að vera endalaust á vaktinni yfir því að viðhalda góðri uppbyggingu.
Með bættri aðstöðu má búast við auknum fjölda iðkenda og kröfu um góðan árangur. Talandi um góðan árangur þá verður tilkynnt um val á íþróttakarli og -konu ársins hjá okkur í Aftureldingu 27. desember nk. í Hlégarði, þetta er uppáhaldsviðburðurinn minn á árinu og það er alltaf jafn gaman að taka saman árangur ársins og sjá hversu mikinn félagsauð við eigum og flotta fulltrúa sem gera okkur stolt á hverjum degi.
Auðvitað snýst ekki allt um árangur en við gerum okkar besta við að sinna öllum hvort sem iðkendur eru að stunda sína íþrótt til þess að ná afreksárangri eða hreinlega til þess að vera í góðum félagsskap og hafa gaman. Best er þegar þetta fer saman því það er svo dýrmætt að geta sinnt báðum hópum saman.
Sjálfboðaliðinn er eitt af því mikilvægara sem við eigum í félaginu og auðvitað styrktaraðilarnir okkar líka en báða hópa viljum við halda fast í vegna þess að án ykkar kæmust við ekki langt. Rekstrarumhverfi íþróttafélaga hefur verið mikið rætt undanfarið og það er staðreynd að það verður erfiðara og erfiðara að halda úti öflugu starfi meistaraflokka og vera réttum megin við núllið. Eitthvað er um að fyrirtæki hafi dregið saman í styrkjum til íþróttafélaga sem gerir starf sjálfboðaliðanna enn erfiðara. Það er erfitt til þess að hugsa að forsvarsmenn sumra ráða séu hálfandvaka yfir því hvernig kljúfa eigi reksturinn, en margar hendur létta róðurinn og við megum alls ekki gefast upp.
Kæru iðkendur, foreldrar og aðrir stuðningsmenn, ég vona að þið eigið eftir að eiga gleðileg jól og ég hlakka til að sjá ykkur sem flest í Hlégarði 27. desember þar sem íþróttafólkið okkar verður valið. Ég fer stolt og full tilhlökkunar með Aftureldingu inn í árið 2020 og hlakka til þess að sjá ykkur sem flest á viðburðum félagsins.

Jólakveðja,
Birna Kristín Jónsdóttir, formaður Aftureldingar

Framlög til íþróttamannvirkja fordæmalaus

Haraldur Sverrisson

Haraldur Sverrisson

Framtíðarsýn okkar er sú að Mosfellsbær sé fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi. Traustur rekstur er lykill þess að að vöxtur sveitarfélagsins sé efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbær.
Á undanförnum árum hefur bærinn okkar stækkað, eflst og dafnað. Það má segja að fordæmalaus fjölgun hafi verið hér síðustu tvo áratugina en síðustu árin hefur fjölgað um allt að 1.000 íbúa á ári. Þessu hefur fylgt mikil innviðauppbygging til að mynda í skólum, gatnakerfi og ekki hvað síst í íþrótta- og tómstundamannvirkjum.
Mosfellsbær hefur alltaf verið mikill íþrótta- og útivistarbær og hér búa barnmargar fjölskyldur og því er okkur mikilvægt að hér sé fyrsta flokks aðstaða til íþrótta-, útivistar- og tómstundaiðkunar. Þá er Mosfellsbær heilsueflandi samfélag og við tökum það eins og allt annað alvarlega og sinnum okkar skyldum í þeim efnum.

Framkvæmt fyrir um 5.500 m.kr. á síðustu 17 árum
Síðustu árin hefur mikið áunnist í aðstöðu fyrir íþrótta-, útivistar- og tómstundastarf í Mosfellsbæ. Samantekið hefur á síðustu 17 árum verið varið rétt um 5,5 milljörðum króna til uppbyggingar á innviðum í þessum málaflokki.
Hér að neðan er tafla sem sýnir framkvæmdirnar í heild sinni.

Íþróttamiðstöðin að Varmá 1.823
Tungubakkar 72
Gervigrasvöllur 477
Íþróttamiðstöðin Lágafell 2.222
Golfvellir og íþróttamiðstöð 447
Skíðasvæðin 77
Reiðhöll og reiðstígar 265
Skátaheimili og stikaðar gönguleiðir 101
Mótomos 12
Samtals 5.496

Eins og sjá má af töflunni er hér um verulega miklar framvæmdir að ræða en upphæðirnar eru á verðlagi dagsins í dag. Stærsta einstaka framkvæmdin er bygging Íþróttamiðstöðvarinnar við Lágafell.
Tilkoma Lágafellslaugar var bylting í sundaðstöðu hér í bæ og laugin er ein vinsælasta sundlaug landsins. Að Varmá hafa verið geysimiklar framkvæmdir og nemur upphæð þeirra með framkvæmdum við gervigrasvöll um 2.300 m.kr. á þessu tímabili. Þar ber hæst bygging fimleikahúss, fjölnota knatthúss og gervigrasvallar.
En mörgum fleiri smærri framkvæmdum hefur verið lokið á þessu tímabili. Má þar nefna að í ár lauk vinnu við að skipta um gólfefni í öllum sölum íþróttamiðstöðvarinnar að Varmá, búningsklefar undir sundlauginni hafa verið stækkaðir og endurnýjaðir, ný stúka byggð við gervigrasvöllinn auk þess sem nýtt gervigras var lagt á hann í fyrra.
Töluvert fjármagn hefur einnig verið lagt í uppbyggingu golfvalla bæði í Bakkakoti og á Hlíðavelli sem og uppbyggingu íþróttamiðstöðvar við Hlíðavöll. Reiðhöll hefur verið byggð á þessu tímabili og fé lagt í skátaheimili í Álafosskvos svo eitthvað sé nefnt.

Áfram skal haldið
Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árin 2020-2023 er sem fyrr gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu á íþrótta-, útivistar- og tómstundaaðstöðu fyrir bæjarbúa eða rúmir 1,6 milljarðar króna. Þar er meðal annars tekið mið af þeirri vinnu sem sett var af stað með samráðsvettvangi bæjarins og Aftureldingar um uppbyggingu að Varmá.
Þar er verið að skoða möguleika á nýjum gervigrasvelli í stað grasvallarins, stúkubyggingu og aðstöðu fyrir félagsstarf ungmennafélagsins. Á næsta ári er m.a. gert ráð fyrir að að innrétta húsnæði í millibyggingu milli fimleikahúss og íþróttasalar fyrir starfsemi Aftureldingar, bæta við búningsklefum sem bæði geti nýst sundlaug og íþróttasvæðinu og endurnýja lýsingu í sal 1 og 2 með hágæða led lýsingu sem bætir birtu og dregur úr rekstrarkostnaði. Loks er gert ráð fyrir að þak salar 1 og 2 verði nánast endurgert.
Það er mikið um að vera í Mosfellsbæ um þessar mundir enda íbúafjölgun mikil sem kallar á fjárfestingu í innviðum. Íþrótta-, útivistar- og tómstundamál eru þar ekki undanskilin sem sést vel á þeim miklu fjármunum sem hefur verið varið í uppbyggingu í þessum málaflokki á undanförnum árum og því sem stendur til að gera á komandi árum.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri

Eflum menntasamfélagið í Mosfellsbæ

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár var afgreidd á bæjarstjórnarfundi þann 27. nóvember síðastliðinn. Eins og áður eru fræðslumálin langstærsti málaflokkurinn og fer um 52% af útgjöldum bæjarins í málaflokkinn eða um 5.712 mkr.
Áætlunin ber merki þess að bæjarstjórn leggur mikla áherslu á að efla menntasamfélagið í Mosfellsbæ. Mikil fjölgun barna í bænum hefur kallað á aukið fjármagn til málaflokksins og aukast framlög til hans um 11% milli ára.

Helstu áherslur fjárhagsáætlunar í fræðslumálum eru:
Stoðþjónusta efld. Mikil áhersla hefur verið lögð á að efla stoðþjónustuna í skólum bæjarins. Aðstaða til sérkennslu og stuðnings hefur verið bætt til að mæta þörfum nemenda.
Einnig má nefna aukið stöðugildi talmeinafræðings hjá Mosfellsbæ sem kemur að frumgreiningu barna með skertan málþroska. Börnum af erlendum uppruna hefur fjölgað og hefur stoðin fyrir þau börn verið aukin, svo eitthvað sé nefnt.

Upplýsinga – og tæknimál. Á næsta ári verður haldið áfram að efla upplýsinga- og tækniumhverfi grunnskólanna með megin­áherslu á spjald- og fartölvur fyrir nemendur og innleiðingu nýrra kennsluhátta.

Ný ungbarnadeild opnar. Þrír leikskólar munu bjóða pláss fyrir yngstu börnin. Leikskólinn Hlíð er ungbarnaleikskóli, á Huldubergi eru tvær ungbarnadeildir og opnar ný deild í Leirvogstunguskóla. Mun plássum því fjölga um 25.
Mosfellsbær er einnig með samninga við ungbarnaleik­skóla og dagforeldra í öðrum sveitarfélögum. Ungbarnaskóli/deildir er ný þjónusta samhliða dagforeldrum og stefnir í að öll börn 12 mánaða og eldri verði komin með pláss í vor, mun fyrr en áætlað hafði verið.
Leikskólagjöld lækka. Til að koma enn frekar til móts við fjölskyldur verða leikskólagjöld lækkuð um 5% þriðja árið í röð.
Stöðugildum í Listaskólanum fjölgar. Mikil ásókn er í tónlistarnám og var ákveðið að fjölga stöðugildum í Listaskólanum til að koma til móts við þá eftirspurn. Kennsla verður aukin út í grunnskólunum, sérstaklega kennsla fyrir yngstu nemendurna.

Nýsköpunar– og þróunarsjóður stofnaður. Til að styðja betur við kennara og skólana okkar hefur Mosfellsbær ákveðið að stofna nýsköpunar– og þróunarsjóð. Verður hægt að sækja um styrki til að koma nýjum hugmyndum á laggirnar eða þróa enn frekar starf sem þegar er í gangi.
Fræðslunefnd mun ákveða hverjar áherslur hvers árs verða og auglýsa eftir styrkumsóknum.
Markmið sjóðsins er að stuðla að nýsköpun og framþróun í skóla- og frístundastarfi leik- og grunnskólum. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að verkefnin verði kynnt í skólasamfélagi Mosfellsbæjar og heimilt verði að nota verkefnin af öðrum en styrkhöfum. Nýsköpunar- og þróunarverkefnum verður gert hátt undir höfði með sérstökum viðburði og kynningu þegar kemur að styrk­afhendingu, slíkt er afar jákvætt og hvetjandi fyrir starfsemi leik- og grunnskóla í Mosfellsbæ.

Stjórnendur og starfsfólk bera uppi starfið
Stjórnendur og starfsfólk skólanna bera uppi skólastarfið og verður seint fullþakkað fyrir þeirra mikilvæga starf. Mosfellsbær vill standa vörð um skólastarfið í öllum skólum bæjarins og halda áfram að byggja upp framúrskarandi skólastarf.
Þessi hópur, starfsfólk Mosfellsbæjar, leysir verkefni sín á grunni virðingar, jákvæðni, framsækni og umhyggju fyrir þeim verkefnum sem þeim eru falin. Þannig stöndum við saman að uppbyggingu menntasamfélagsins í Mosfellsbæ.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir,
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar

Felldu tillögur um nýjan veg og lækkun fasteignaskatts á fyrirtæki

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Undirritaður bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar flutti tvær tillögur við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 sem var til afgreiðslu í bæjarstjórn í síðustu viku.
Fyrri tillagan laut að því að inn kæmi nýr liður í fjárfestingaráætlun undir liðnum gatnagerð, sem bæri nafnið „Skammadalsvegur frá Helgafelli að Bjargsvegi” og til fjárfestingarinnar yrði varið 10 milljónum á árinu 2020.
Tilgangur tillögunnar var að þegar yrði hafinn undirbúningur að lagningu nýs vegar frá Auganu svokallaða í Helgafellshverfi og að Bjargsvegi sem fælist í gerð kostnaðaráætlunar vegna nýja vegarins og undirbúnings uppkaupa á landi. Undirritaður hefur bent á nauðsyn þess, í ræðu og riti, að þessi vegtenging komi sem allra fyrst þar sem uppbygging á IV. og V. áfanga í Helgafellshverfi er þegar komin á dagskrá.
Fyrstu hugmyndir um veg­tengingar inn og út úr Helgafellshverfinu voru um núverandi Álafossveg. Að auki stóð til að vegur lægi yfir Varmá á móts við Ístex og upp á Reykjalundarveg, og svo að lokum sá vegur sem undirritaður gerði tillögu um að hafinn yrði nú undirbúningur að.
Síðari tillagan laut að breyttri álagningarprósentu fasteignagjalda í skattflokki C, það er vegna verslunar-, skrifstofu- og iðnaðarhúsnæðis. Tillagan laut að lækkun á álagningarprósentu um 6,2% þannig að hún færi úr 1,6% af fasteignamati húss og lóðar og niður í 1,5%. Þess má geta að raunhækkun á fasteignamati atvinnuhúsnæðis milli 2019-2020 sem tekur gildi um nk. áramót er ca. 14%. Hér var því gerð tillaga um að koma til móts við þá hækkun um tæpan helming.
Undanfarin ár hefur Mosfellsbær ekki látið hækkun fasteignamats vegna íbúðarhúsnæðis koma að fullu til framkvæmda en ekkert hefur verið komið til móts við eigendur atvinnuhúsnæðis. Það er ekki fyrr en allt í einu núna að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna leggur til lækkun um heil 0,015%.
Það er mikilvægt í huga undirritaðs að einmitt núna þegar dregur úr þenslu og hagvexti og horfur eru á að tekjur fyrirtækja séu að dragast saman, komi sveitarfélagið á móti atvinnulífinu með því að lækka gjaldtöku af fasteignaskatti.
Því miður er skemmst frá því að segja að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna felldi báðar þessar tillögur án nokkurra umræðna.

Stefán Ómar Jónsson
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar