Stöndum vörð um mannréttindi

Margrét Lúthersdóttir

Margrét Lúthersdóttir

Þann 6. október 1982 var Rauði krossinn í Mosfellsbæ stofnaður í Hlégarði og fagnar því 37 ára afmæli sínu um þessar mundir.
119 árum áður hafði Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) verið stofnað og 56 árum eftir það, árið 1919 var Alþjóðasamband landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans stofnað. Burðarás hreyfingarinnar eru hugsjónirnar 7; mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi, sjálfstæði, sjálfboðin þjónusta, eining og alheimshreyfing.
Hvað þýða þessar hugsjónir eiginlega? Þær þýða það að við leitumst við að létta þjáningar fólks og koma í veg fyrir þær. Við verndum líf og heilsu einstaklinga og tryggjum að allir njóti þeirrar virðingar sem þeim ber. Við gerum ekki mun á milli fólks eftir þjóðerni þess, uppruna, trúarbrögðum, kyni, stétt eða stjórnmálaskoðunum. Við tökum ekki þátt í deilum vegna stjórnmála, uppruna, trúarbragða eða hugmyndafræði. Við gætum þess ávallt að vera sjálfstæð svo grundvallarhugsjónir séu okkar leiðarljós í öllum okkar gjörðum. Við virkjum almenning til þess að dreifa þessum boðskap með okkur í formi sjálfboðinnar þjónustu. Við erum opin og reynum eftir fremsta megni að tryggja aðgengi allra að hreyfingunni. Við berum ábyrgð á því að koma til hjálpar þar sem okkar er þörf.

Á Íslandi leggjum við upp úr því að bæta og efla íslenskt samfélag og bregðast við á neyðarstundu. Sé litið til grundvallarhugsjóna hreyfingarinnar er eitt allra stærsta hlutverk okkar að standa vörð um mannréttindi og virðingu samborgara okkar. Í því felst að nálgast nágranna okkar á jafningjagrundvelli, tala gegn hatursorðræðu og fræða um fjölmenningu.

Mosfellingar, Kjalnesingar og Kjósarbúar, við hvetjum ykkur til að sameinast okkur í grundvallarhugsjónum hreyfingarinnar og bjóða nýja íbúa velkomna og taka þeim sem fyrir eru með opnum örmum.
Langi þig til að gerast sjálfboðaliði getur þú sótt um á heimasíðu Rauða krossins, www.raudikrossinn.is. Hafir þú ekki tíma má alltaf gerast Mannvinur.

Margrét Lúthersdóttir
Deildarstýra Rauða krossins í Mosfellsbæ

Ævintýragarðurinn í Mosfellsbæ – ert þú með góða hugmynd?

Ásgeir Sveinsson

Ásgeir Sveinsson

Í framhaldi af hugmyndasamkeppni sem var haldin um hönnun á Ævintýrgarðinum í Mosfellsbæ hefur verið unnið að uppbyggingu garðsins í samráði við sigurvegara samkeppninnar og hafa framkvæmdir staðið yfir frá árinu 2010. Nú er í gangi deiliskipulagsvinna fyrir svæðið og Mosfellsbær óskar eftir hugmyndum frá íbúum inn í þá skipulagsvinnu.

Hvað er búið að framkvæma?
Stígagerð hefur verið ríkjandi á þessum fyrstu stigum framkvæmdanna, þar sem lagður hefur verið malbikaður og upplýstur aðalstígur, sk. „Rósastígur“, í gegnum garðinn frá miðbæ Mosfellsbæjar að Leirvogstungu, með göngubrýr yfir Varmá og Köldukvísl í hvorum enda.
Lagður hefur verið sk. „Ætistígur“ þar sem gróðursettar hafa verið ýmsar tegundir ætiplantna við malarstíg sem liggur út frá Rósastígnum og settir upp áningarstaðir. Mikið hefur verið unnið að gróðursetningu í garðinum og þá sérstaklega í kringum Rósastíginn og Ætistíginn.
Unnið hefur verið við uppsetningu áningarsvæða þar sem m.a. eru notaðir náttúrulegir bekkir frá Ásgarði. Fræðsluskilti um garðinn hefur verið sett upp þar sem komið er inn í garðinn að sunnanverðu þar sem upplýsingar eru um helstu svæði í garðinum og þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er skv. vinningstillögu hugmyndasamkeppninnar.

Bryndís Brynjarsdóttir

Bryndís Brynjarsdóttir

Fjölbreytt leiktæki, frisbígolfvöllur og hundagerði
Í garðinum er fjöldi skátaleiktækja sem voru sett upp í suðurenda garðsins í samvinnu við Skátafélagið Mosverja. Um er að ræða ýmis klifur- og þrautaleiktæki fyrir alla aldurshópa, s.s. klifurbrú, hlaupakött, klifurturn og klifurslá.
Svæðið er mikið notað, m.a. af ýmsum skólum og námskeiðum. Ásgarður gaf Mosfellsbæ árið 2013 nokkur leiktæki úr tré sem sett hafa verið upp með skátaleik­tækjum, s.s. traktor og dýr. Sett hefur verið upp klifurnet og áningarstaður norðan við fyrirhugað miðsvæði.
Hannaður var 9 holu frisbígolfvöllur í garðinum sem nýtist bæði almenningi og keppendum í íþróttinni. Sett hefur verið upp afgirt hundagerði á hluta íþróttaflatar, þar sem heimilt er að sleppa hundum lausum undir eftirliti og þar settur upp bekkur, merkingar og ruslafata.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar ákvað á 30 ára afmæli bæjarins árið 2017 að setja sérstakt fjármagn í uppsetningu á leiktæki og var keyptur stór klifurkastali sem hentar vel í náttúrulegu umhverfi eins og í Ævintýragarðinum. Auðvelt verður að tengja kastalann við fleiri leiktæki í framtíðinni við uppbyggingu garðsins.

Skipulagsvinna í gangi
Hafist hefur verið handa við deiliskipulag fyrir Ævintýragarðinn. Þessi vinna mun skapa heildstætt skipulag fyrir garðinn, skila sér í skýrari verkaskiptingu, forgangsröðun og betri yfirsýn yfir uppbyggingu garðsins. Þessi deiliskipulagsvinna er í höndum skipulagshönnuða og undir umsjón skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar.
Forgangur í áframhaldandi uppbyggingu svæðisins verður á miðsvæði garðsins. Þetta svæði hentar mjög vel fyrir leik- og útivistarsvæði, og verður lögð áhersla á að koma upp nýju og fjölbreyttu leiksvæði með náttúrulegu yfirbragði, á því svæði sem núverandi kastali og klifurnet eru staðsett.
Hugsunin er að leiksvæðið verði heildstætt safn útivistarleiktækja sem falla muni vel að hugmyndafræði og umhverfi garðsins. Í þeirri vinnu er m.a. gert ráð fyrir fleiri leiktækjum og grillskýli á svæðinu, sparkvelli, minigolfvelli, litlu leiksviði og fleiri skemmtilegri afþreyingu fyrir íbúa Mosfellsbæjar á öllum aldri.

Kynning Í túninu heima
Kynning á skipulagsvinnu fyrir Ævintýragarðinn verður fyrir framan íþróttamiðstöðina að Varmá á bæjarhátíðinni Í túninu heima laugardaginn 31. ágúst kl. 13.00-15.00. Þar munu hönnuðir frá verkfræðistofunni Landmótun auk fulltrúa frá Mosfellsbæ svara spurningum og taka við góðum hugmyndum frá íbúum Mosfellsbæjar varðandi áframhaldandi uppbyggingu á Ævintýragarðinum í Mosfellsbæ.

Ásgeir Sveinsson formaður skipulagsnefndar Mosfellsbæjar
og Bryndís Brynjarsdóttir varaformaður skipulagsnefndar.

Blak í bænum í 20 ár

Guðrún K. Einarsdóttir

Guðrún K. Einarsdóttir

Blakdeild Aftureldingar var stofnuð árið 1999 og fagnar því 20 ára afmæli sínu í ár. Stofnendur voru konur sem langaði að spila blak.
Haustið 1999 mætti undirrituð á fyrstu æfinguna. Árið 2001 tók ég við formennsku blakdeildarinnar og var fyrsta verkefnið að sækja um Öldungamótið sem við héldum árið 2002 og breytti það starfi deildarinnar því í kjölfarið stofnuðum við barna- og unglingadeild og er barnastarfið í blakdeildinni því aðeins 17 ára gamalt.
Í dag státar Afturelding af karla- og kvennaliðum í úrvalsdeildum, unglingalið pilta og stúlkna spila í 1. deildum karla og kvenna ásamt kvennaliði. Auk þess er stúlknalið sem spilar í 3. deild kvenna og tvö lið í 4. og 5. deildum kvenna. Afturelding hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn kvennamegin þrisvar sinnum og bikarmeistaratitilinn fjórum sinnum frá því að við byrjuðum haustið 2011. Árið 2016 vann Afturelding alla titla kvennamegin sem í boði voru og árið eftir urðu bæði karla- og kvennaliðin bikarmeistarar BLÍ. Á síðustu leiktíð unnu bæði liðin brons í efstu deild eftir mikið uppbyggingarstarf í deildinni í 3 ár og erum við mjög sátt með að komast beint í undanúrslit Íslandsmótsins. Með nýju og glæsilegu gólfi að Varmá og umgjörð sem við höfum náð að skapa þar viljum við gera Varmá að erfiðum heimavelli og ætlum okkur stóra hluti í framtíðinni með leikmönnum uppöldum í félaginu.
Fyrir utan að taka þátt í Íslandsmótum þá æfa hópar sem teljast til almennings­íþrótta og æfa bæði karla- og kvennahópar 1-2 sinnum í viku. Segja má að gamli salurinn að Varmá sé nýttur til hins ýtrasta því þar eru oft 3 mismunandi hópar að æfa samtímis. Alls eru 11 hópar og lið sem æfa á vegum deildarinnar. Margir einstaklingar koma í blak­íþróttina á fullorðinsaldri og koma því þeir hafa æft blak í menntaskóla eða í grunnskóla. Blak er íþrótt sem gott er að eldast í hafi maður áhuga á boltaíþróttum
Barna- og unglingadeildin rekur metnaðarfullt starf og hafa margir af okkar iðkendum tekið þátt í landsliðsverkefnum og staðið sig mjög vel. Miklir möguleikar eru á háskólanámi erlendis í gegnum blakíþróttina og hafa m.a. 2 stúlkur úr Mosfellsbæ nýtt sér þann möguleika.
Ég vil hvetja foreldra í Mosfellsbæ til þess að benda börnum sínum á að koma og prufa þessa skemmtilegu íþrótt sem blakið er því þótt þau haldi ekki áfram þá kemur það til með að skila þeim kunnáttu seinna meir í íþrótt sem þau geta stundað sér til gleði langt fram eftir aldri. Líklega er hægt að segja að blak sé ein vinsælasta almenningsíþrótt á landinum hvað hópíþróttir snertir því að yfir 3.400 manns stunduðu þessa íþrótt á Íslandi árið 2017 samkvæmt tölum ÍSÍ.
Blakdeild Aftureldingar býður börnum og unglingum að koma og æfa frítt frá skólabyrjun og til 15. september. Auk þess býður deildin upp á æfingar fyrir grunnskólamót UMSK í blaki sem haldið verður 6. október og vonandi taka grunnskólarnir í Mosfellsbæ þátt í því móti.
Velkomin í blakið í Mosó.
Áfram Afturelding

Guðrún K. Einarsdóttir
formaður blakdeildar Aftureldingar

Breyting á deiliskipulagi í Helgafellshverfi – Stórir bílar?

torg2

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Framboð Vina Mosfellsbæjar lagði á það áherslu í stefnu sinni fyrir kosningarnar 2018 að stemma ætti stigu við sífelldum deiliskipulagsbreytingum og að rök fyrir þeim breytingum sem fallist væri á ættu að vera í almannaþágu og til bóta fyrir heildina jafnt og umsækjendur breytinganna.
Á 487. fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar þann 31.05.2019 var fyrsta mál á dagskrá mál nr. 2017081506 – Torg í Gerplu­stræti – breyting á deiliskipulagi. Í gögnum þess máls var ekki að finna gögn sem rökstuddu það að breytinguna ætti að gera og því lagði undirritaður til að hætt yrði við breytinguna og til vara að henni yrði frestað meðan leit væri gerð að gögnum sem rökstutt gætu breytinguna. Breytingin er fólgin í því að beygjuradíusar á endum torgsins eru rýmkaðir fyrir beygjur „stórra bíla“ eins og það er orðað á deiliskipulagsuppdrættinum.

Hvaða stóru bíla er átt við? Eða af hverju rýmka þarf fyrir þá núna liggur ekki fyrir í gögnum málsins eins og fyrr segir. Þrátt fyrir lipurð og velvilja starfsmanna umhverfissviðs hafa gögn sem rökstyðja þessa breytingu ekki fundist. Undirritaður hefur því óskað eftir því við bæjarstjóra að hann gangi í það að finna þessi gögn og leitað verði til arkitektastofunnar, sem bjó deiliskipulagsgögnin til, svo varpa megi ljósi á undirliggjandi rök í málinu. Undirritaður bíður nú svara bæjarstjóra.
Það kann að vera að það sé skynsamlegt að rýmka beygjuradíus torgsins en þá hefðu rök fyrir því átt að fylgja með þegar deiliskipulagsbreytingin var auglýst á sínum tíma. Því þá hefðu íbúar Helgafellshverfis og aðrir hagsmunaaðilar haft fyrirliggjandi skýr og gagnsæ rök þegar þeir tóku afstöðu til breytingarinnar.

Með sumarkveðju til allra Mosfellinga
Stefán Ómar Jónsson
aðalmaður í skipulagsnefnd og
bæjarfulltrúi L-lista Vina Mosfellsbæjar

Jafnrétti í íþróttum

Birna Kristín Jónsdóttir

Birna Kristín Jónsdóttir

Það sem veðrið er búið að leika við okkur hérna megin landsins í byrjun sumars, þetta er bara dásamlegt.
Við fjölskyldan erum til dæmis búin að fara á tvö stór fótboltamót í Vestmannaeyjum og á Sauðárkróki og það hefur varla rignt, þetta gerir allt svo miklu betra og auðveldara. Ég er mjög upprifin yfir þessum fótboltaferðum, það er fyrir það fyrsta svo gaman að fylgjast með börnunum sínum takast á við sig sjálf, taka framförum, hafa gaman með liðsfélögum og ekki síst kynnast foreldrar á allt annan hátt þar sem svona mikil samvera á sér stað.
Við sem komum að skipulagningu íþróttastarfs vitum vel hversu mörg handtök sjálfboðaliðanna eru fyrir svona viðburði og kann ég þessum skipuleggjendum bestu þakkir fyrir frábæra umgjörð.
Það er þó eitt sem situr í mér á árinu 2019. Hvernig er jafnréttinu háttað í íþróttum barnanna okkar? Er það jafnrétti að á sama fótboltamóti í sama bæjarfélagi sjá stelpurnar sjálfar um skemmtiatriðin með hæfileikakeppni meðan strákarnir fara í skrúðgöngu og fá skemmtiatriði frá skemmtikrafti ?
Eða
Á sambærilegum fótboltamótum er stelpum 9–10 ára boðið upp á Tímon og Púmba sem hentar kannski á leikskóla og strákarnir hlusta á Jón Jónsson skemmta.
Eða
Þú ferð á leik í Inkasso hjá stelpunum og það er ekki einu sinni boltasækir á vellinum (sem ég varð vitni að á Kópavogsvelli) eða leik í sömu deild hjá strákunum þar sem umgjörðin er öll önnur.
Þetta er umræða og viðhorf sem við verðum að opna hugann fyrir. Ég veit að það er erfitt að breyta fullorðna fólkinu en berum alla vega gæfu til þess að ala það upp í börnunum okkar að kynin eru jöfn og hafa jafnan rétt.
Oft vill umræðan í íþróttum fara að snúast um krónur og aura, en hjá börnunum okkar er sama gjald til að iðka íþróttir hvort sem við erum kvenkyns eða karlkyns og það er sama mótsgjald fyrir stelpur og stráka. Þó að ég vitni í persónulega reynslu í fótboltanum er ég sannarlega með allar greinar í huga.
Ég held eftir að hafa pælt mikið og talað við ýmsa þar á meðal fulltrúa KSÍ, fyrrum landsliðskonu og foreldra, að við í Aftureldingu stöndum okkur mjög vel í samanburði við önnur félög EN betur má ef duga skal. Ef þið hafið góða hugmynd til þess að auka jafnrétti í íþróttum er ég mjög tilbúin til að heyra hana, en fyrst og fremst verðum við að byrja á okkur sjálfum.
Áfram Afturelding.

Birna Kristín Jóndóttir,
mamma og formaður Aftureldingar.

Hlégarður menningar­miðstöð Mosfellsbæjar

Olga Jóhanna Stefánsdóttir

Olga Jóhanna Stefánsdóttir

Á 8. fundi menningar- og nýsköpunarnefndar Mosfellsbæjar 21. maí sl. lagði undirrituð áheyrnarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar í Menningar- og nýsköpunarnefnd fram tillögu undir heitinu „Stefnumótun til framtíðar í menningarmálum fyrir Mosfellsbæ“.
Tillagan var svohljóðandi:
Menningar- og nýsköpunarnefnd samþykkir að hluti af endurskoðun menningarstefnu fyrir Mosfellsbæ verði stefnumótun til framtíðar í menningarmálum fyrir Mosfellsbæ þar sem horft verði til þess að Hlégarður og svæðið þar í kring yrði þungamiðjan í uppbyggingu og hýsingu safna- og menningarstarfs í Mosfellsbæ.

Samþykkt var samhljóða á ofangreindum fundi menningar- og nýsköpunarnefndar að vísa tillögu Vina Mosfellsbæjar inn í þá vinnu sem nú stendur yfir um mótun stefnu og framtíðarsýnar á sviði menningarmála.
Tillaga Vina Mosfellsbæjar var síðan samþykkt samhljóða á 740. fundur bæjarstjórnar.
Í greinargerð með tillögunni er lagt til að efnt verði til formlegs samstarfs við fulltrúa hinna ýmsu menningarfélaga í Mosfellsbæ um þá hugmynd að Hlégarður og svæðið þar í kring verði þungamiðjan í uppbyggingu menningarstarfsemi Mosfellsbæjar, með aðstöðu fyrir söng, tónlist, leiklist og aðra menningartengda starfsemi í Mosfellsbæ.

Með vandaðri stefnumótun, sem unnin yrði í samstarfi við hin fjölmörgu menningarfélög sem starfa í Mosfellsbæ, væri markmiðið að ná utan um þarfir og óskir þessara félaga. Samhliða yrðu óskir menningarfélaganna lagaðar að stefnu og þörfum þeirrar menningartengdu starfsemi sem Mosfellsbær sjálfur hefur með höndum s.s. Bókasafns Mosfellsbæjar, Héraðsskjalasafns Mosfellsbæjar, Listasalar Mosfellsbæjar og Listaskóla Mosfellsbæjar svo eitthvað sé nefnt.
Einnig mætti huga að því í þessu sambandi hvort og þá hvernig ef til vill mætti koma upp vísi að sögusafni byggða-, stríðsminja-, iðnaðar- og verslunarsögu.

Það er mikilvægt að marka sem fyrst langtímastefnu í menningarmálum fyrir Mosfellsbæ og er sú vinna hafin með tilliti til kannana og niðurstöðu þeirra. Framtíðarsýn sem hér um ræðir er langtímaverkefni þar sem Hlégarður væri miðdepillinn. Mikilvægt er að vanda vel til verks og gera áætlanir með tilliti til þess hvað við viljum byggja upp og hvernig það er framkvæmt.
Lagt er til í greinargerðinni að efnt verið til hugmyndasamkeppni um uppbyggingu á Hlégarðssvæðinu. Álitlegustu hugmyndirnar yrðu síðan kostnaðarmetnar og framkvæmdir færu fram í áföngum á næstu 10 árum eða hraðar eftir atvikum. Aðalatriðið er að sátt verði um stefnumörkunina þannig að öllum sé ljóst í hvaða átt er stefnt.

Síðast en ekki síst er ánægjulegt hvað mikil samstaða var um tillöguna enda þörfin mikil fyrir endurbætt og ný rými fyrir menningartengda starfsemi í bænum okkar sem fer ört stækkandi.

Á meðfylgjandi slóð má skoða myndræna framsetningu af skjalinu „Hlégarður – menningarmiðstöð Mosfellsbæjar“.
https://bit.ly/2NrqHQe

Olga Jóhanna Stefánsdóttir
áheyrnarfulltrúi L-lista Vina Mosfellsbæjar í menningar- og nýsköpunarnefnd

Framtíð Hlégarðs

Björk Ingadóttir

Björk Ingadóttir

Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar vinnur nú að endurskoðun á nýtingarmöguleikum á félagsheimilinu Hlégarði í komandi framtíð.
Liður í þeirri vinnu var opinn íbúafundur í Hlégarði 16. október 2018 þar sem Mosfellingum gafst kostur á að koma sínum tillögum á framfæri. Hlégarður var vígður við hátíðlega athöfn 17. mars 1951 og hélt Halldór Laxness þar ræðu, hrósaði húsinu og sagði meðal annars: „Slíkt hús sem þetta á að vera sveitúngum skjól og afdrep sem þeir leiti til úr stormviðrum hversdagslífsins og finni skemmtun og menntun.“

Húsið hefur í gegnum tíðina þjónað sínum tilgangi þar sem ýmis starfsemi hefur verið rekin. Hins vegar eru flestir sammála um það í dag að húsið hafi undanfarið ekki staðið undir því að vera menningarhús Mosfellsbæjar. Skoðanir um einsleitni viðburða í Hlégarði og takmarkað aðgengi hafa einkennt umræðuna.
Það komu margar góðar hugmyndir fram á opna íbúafundinum og virðast Mosfellingar bera sterkar taugar til Hlégarðs og hafa mikinn áhuga fyrir því að skoða nýtingarmöguleika hússins og hvernig megi koma upp reglulegri viðburðadagskrá sem höfði til allra bæjarbúa.
Í beinu framhaldi voru ráðgjafar KPMG fengnir til þess að taka út starfsemina í Hlégarði og leiða fram greiningu á valkostum um rekstrarform Hlégarðs með tilliti til markmiða Mosfellsbæjar um menningarstarfsemi í húsinu. Lagt var mat á fjóra ólíka valkosti á rekstrarformi Hlégarðs:
A: Áframhaldandi útleiga með úrbótum, B: Mosfellsbær annast rekstur Hlégarðs, C: Samstarf um rekstur og D: Hlégarður auglýstur til sölu.
Menningarmálanefnd hefur lagt til að farin verði leið C sem gengur út á sameiginlegan rekstur utanaðkomandi rekstraraðila og bæjarins, en hver valkostur var metinn út frá kostum og annmörkum rekstrarfyrirkomulags fyrir Mosfellsbæ ásamt væntri fjárþörf.

Sólveig Franklínsdóttir

Sólveig Franklínsdóttir

Forstöðumanni bókasafns- og menningarmála hefur verið falið að gera tillögu að útfærslu þeirrar leiðar sem felur m.a. í sér að Mosfellsbær leggi til viðburðastjóra sem skipuleggi og byggi upp reglubundna menningarstarfsemi í Hlégarði og yrði sú staða auglýst síðar til umsóknar. Samhliða þessu skipi menningar- og nýsköpunarnefnd þriggja manna hóp skipaðan fólki tengdu viðburðahaldi sem hittist a.m.k. fjórum sinnum á ári og móti hugmyndir um viðburði sem eru til þess fallnir að efla starfsemi Hlégarðs með það að markmiði að auka vægi „mosfellskra“ viðburða.

Á síðustu fimm árum hefur verið unnið eftir þeirri stefnumörkun varðandi húsnæði Hlégarðs að endurnýja allt ytra byrði hússins og er þeirri vinnu nú lokið. Það var beðið með umbreytingu á innra rými hússins þar til fyrir lægju tillögur að nýtingu þess í framtíðinni. Nú liggja þær tillögur fyrir og því hefur forstöðumanni bókasafns og menningarmála jafnframt verið falið að hefja viðræður við núverandi rekstraraðila um fyrirhugaðar breytingar á samningi. Til að unnt verði að byggja upp áformaða menningarstarfsemi í Hlégarði er skynsamlegt að gera ráð fyrir því að leigusamningur þurfi að ná til allt að fimm ára. Forstöðumanni bókasafns og menningarmála hefur einnig verið falið að ræða við umhverfissvið um val á arkitekt til að vinna tillögur að breytingum á innra útliti Hlégarðs og gera tillögu að áfangaskiptingu breytinganna. Tillögurnar eru ekki bindandi, einungis leiðbeinandi um leið og þær gefa betri sýn á möguleikana og auðvelda ákvarðanatöku og koma í veg fyrir tvíverknað.

Misjafnar skoðanir eru á því hvernig skal ráðast í breytingar. Sumir vilja breyta húsinu þannig að það nýtist betur án þess að skemma söguna en aðrir vilja ekki að sagan hefti framkvæmdir. Áhersla verður lögð á að finna samræmt heildaryfirbragð og skipulag hússins með því móti að sem flestir geti nýtt sér aðstöðuna og mæta þannig þörfum ólíkra hópa sem vantar húsnæði, t.d. kórar, leikfélög, viðburðir á vegum bæjarins, tónleikahald, ráðstefnur o.fl.
Enn viðameiri framkvæmdir þyrfti svo að fara í ef starfrækja á kaffihús í Hlégarði, byggja við alhliða tónlistarhús eða færa leikfélag inn í Hlégarð. Sérstök áhersla verður lögð á að gæta að heildaryfirbragði breytinganna af virðingu við höfundareinkenni byggingarinnar og sögu þess um leið og gætt verði að notagildi og framtíðarmöguleikum.

Sagan sýnir að það tekur tíma að byggja upp farsæla menningarviðburði í Mosfellsbæ. Óháð rekstrarfyrirkomulagi þarf að fara í úrbætur á húsnæðinu að innan ef Hlégarður á að verða fyrirmyndar félagsheimili og menningarhús. Á næstunni verður farið í að hreinsa allt drasl út úr húsinu og lagfæra flygilinn svo eitthvað sé nefnt.
Menningar- og nýsköpunarnefnd fagnar því að gert verður ráð fyrir tilgreindum úrbótum á húsnæði Hlégarðs í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar á næstu árum.
Með ósk um gleðilegt sumar og bjarta framtíð Hlégarðs fylgir hér vísa til gamans sem samin var og flutt við vígsluna árið 1951 en við vitum því miður ekki hver höfundur hennar er:

Hús var byggt við Héraðsbraut,
Mosfellshreppur á það.
Það ætti að standa ofan í laut,
Svo enginn þyrfti að sjá það.

Björk Ingadóttir, formaður Menningar- og nýsköpunarnefndar.
Sólveig Franklínsdóttir, varaformaður Menningar- og nýsköpunarnefndar.

Unglingar og veip

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir

Undanfarna áratugi hefur náðst mikill árangur hvað varðar reykingar og áfengisdrykkju ungmenna. Rúmlega 90% unglinga hafa aldrei reykt eða neytt vímuefna en því miður steðja stöðugt nýjar ógnir að unga fólkinu okkar.
Notkun á rafsígarettum eða veipi mælist meiri hér í bæ miðað við notkun á landsvísu en sambærilega þróun má sjá um allt land
Fyrir rúmum áratug gerðu Mosfellsbær og Rannsóknir og greining með sér samning um að gera reglulega kannanir á högum og líðan barna á miðstigi og áfengis- og vímuefnaneyslu unglinga í 8., 9. og 10. bekk. Niðurstöður undanfarinna ára sýna að ungmennin okkar standa sig vel upp til hópa og eru heilbrigð og skynsöm.

Foreldrar vaknið
Niðurstöður úr könnun sem var lögð fyrir alla nemendur í 8., 9. og 10. bekk í febrúar 2019 sýna að nú þarf að bregðast við óheillaþróun. Ungmennum fjölgar sem hafa prófað marijúana og unglingar allt niður í 8. bekk veipa daglega. Einnig fjölgar þeim sem reykja sígarettur daglega og í 10. bekk erum við fyrir ofan landsmeðaltal hvað það varðar.
Þetta er vond þróun og maður spyr sig hvað veldur. Rafrettur er nýtt fyrirbæri á markaði og með minnkandi sölu á tóbaki í heiminum sjá framleiðendur sér nýjan leik á borði. Rafrettur komust í tísku og þykja spennandi. Þær voru markaðssettar sem góð aðstoð við þá sem vilja hætta að reykja og geta í mörgum tilfellum virkað vel sem slík.
tafla_kollaEn börn niður í 8. bekk eru ekki að reyna að hætta að reykja. Þau eru galopin fyrir þessari vöru sem lítur út eins og fallegur tyggjópakki í sjoppum. Við vitum að eitt leiðir af öðru og má setja alls konar olíur í hylki rafsígarettunnar án þess að foreldrar átti sig, þ.m.t. olíur ólöglegra og ávanabindandi vímuefna.
Foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum og verða að vera vakandi fyrir þessari þróun. Það er vont að spyrja erfiðrar spurninga en það er leiðin til að fylgjast með og sýna sanna umhyggju.

Auðvelt aðgengi
Rafrettur hafa verið aðgengilegar í sjoppum í Mosfellsbæ og þeim verið stillt upp með áberandi hætti en það er nú bannað samkvæmt lögum. Löggjafinn hefur nú loks brugðist við með reglum varðandi sölu á rafrettum. Ekki er lengur í boði að hafa aðgengið óheft og fyrir allra augum.
Í 11. grein laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur stendur að hvers konar auglýsingar séu bannaðar og að rafrettur séu ekki sýnilegar viðskiptavinum. Sérverslanir hafa þó leyfi til að hafa vöruna sýnilega.

Von er að bót verði á og allir verslunar­eigendur fari eftir lögum og reglum. En það að taka vöruna úr augsýn þýðir ekki að vandinn hverfi. Með samstilltu átaki getum við snúið þessari þróun við og haldið áfram að eiga heilbrigð og skynsöm ungmenni.
Líkt og áður gildir gamla máltækið að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Foreldrar, afar og ömmur, bærinn, félagsmiðstöðvar, skólarnir, íþrótta- og tómstundafélögin og aðrir sem koma að daglegu lífi barna og unglinga í Mosfellsbæ verða að halda áfram að standa vörð um þann góða árangur sem hefur náðst hingað til. Nýjum tímum fylgja nýjar áskoranir og þeim verðum við að taka.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir,
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar.

Ef svarið er nei, reynir barnið bara aftur

Fjalar Freyr Einarsson

Fjalar Freyr Einarsson

Mörg þeirra vandamála sem uppaldendur standa frammi fyrir er hægt að koma í veg fyrir með nokkrum grundvallar atriðum uppeldis.
Fyrir börn merkir nei ekki nei heldur aðeins „reyndu betur“. Flestir uppalendur þekkja það þegar barnið fær neitun við því sem það biður um að það fer til annars fullorðins á svæðinu og reynir þar að fá vilyrði.
Uppalandinn verður svo ósáttur þegar hann uppgötvar að barnið er að gera það sem hann hafði nýverið neitað því um. Barnið er skammað en þegar það svarar því til að hinn uppalandinn hafi gefið leyfi eru vopnin úr höndum þess sem áður hafði neitað.
Þetta er auðvitað afleitt fyrir hinn fullorðna en hegðun barnsins er skiljanleg. Ástæðan fyrir því að börn gera þetta er sú að aðferðin virkar og því oftar sem hún virkar því oftar er hún notuð. Barnið fær jákvæða styrkingu í hvert sinn sem hún virkar.

Uppalendur tali saman
Þegar um er að ræða spurningar sem hafa nokkuð augljós svör svo sem hvort hægt sé að kaupa nýju PlayStation tölvuna eða nýja FIFA leikinn er ólíklegt að barnið fái mismunandi svör. Þegar um spurningar er að ræða þar sem svarið veltur að miklu leyti á geðþótta er líklegra að barnið geti fengið sitt hvort svarið, eftir því við hvern það talar.
Dæmi um slíka spurningu gæti verið hvort barnið megi fá kex þótt stutt sé í matartímann eða hvort það megi fara út eftir matinn o.s.frv.
Leiðin til að stöðva svona hegðun er einföld; uppalendur barnsins verða að tala saman. Ef uppalendur verða varir við að barnið noti þessa aðferð oftar en áður og oftar en ásættanlegt er verða þeir einfaldlega að vera á varðbergi í hvert sinn sem barnið spyr um eitthvað sem gæti verið álitamál.
Einföld leið fyrir uppalendurna er einfaldlega að spyrja barnið hvort það sé búið að spyrja hinn uppalandann. Flest börn svara slíkum spurningum sannleikanum samkvæmt, vitandi að ef það skrökvar fær það alls ekki það sem beðið var um ef það biður um það aftur síðar.

Beðið eftir svari
Oft þarf barnið heldur ekki að fá svarið hér og nú. Það getur verið gott fyrir barnið að þurfa að bíða. Þannig lærir það þolinmæði. Svarið sem þú getur gefið barninu gæti verið: „Ég ætla að hugsa málið og læt þig vita eftir matinn“ eða „Ég ætla að tala við pabba þinn/mömmu þína og svara þér svo.“
Ef barnið höndlar ekki að þurfa að bíða og kvartar yfir því eða tekur jafnvel reiðikast er svarið einfalt: „Ef þér finnst ekki þess virði að bíða eftir svarinu getur þetta ekki verið þér mikilvægt. Svarið mitt er því nei, þú getur ekki fengið það sem þú baðst um.“

Samheldni og samskipti foreldra
Þegar tekið er á svona kringumstæðum af festu og barnið sér að það kemst ekki upp með að fara á bak við foreldra sína á þennan hátt mun það gefast upp á að reyna og hættir því. Það er ekki þar með sagt að björninn sé unninn. Það þýðir í raun einfaldlega að barnið reynir nýja aðferð til að fá vilja sínum framgengt.
Þá reynir enn og aftur á samheldni og samskipti foreldranna. Séu þeir nógu duglegir að tala saman og miðla upplýsingum um líf barnsins sjá þeir fljótlega hvað barnið er að reyna. Þá þurfa foreldrarnir að ákveða hvernig best er að taka á því … af festu og mildi.
________________________
Fjalar Freyr Einarsson,
aga- og uppeldisráðgjafi
www.agastjornun.is

Með sól í hjarta…

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Vorið er skemmtilegur árstími enda dásamlegt að sjá dagana lengjast, trén laufgast, grasið grænka, unga klekjast úr eggjum og svo mætti lengi telja. Það lifnar yfir öllu og nú er um að gera að hlaða sig orku og jákvæðni fyrir sumarið.

Hjólað í vinnuna
Nú er tæp vika eftir af lýðheilsuverkefninu Hjólað í vinnuna sem hófst 8. maí sl. og stendur til 28. maí. Helsta markmið verkefnisins er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Þátttakendur eru hvattir til þess að ganga, hjóla, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu. Þegar þessi orð eru skrifuð er Mosfellsbær í þriðja sæti í sínum flokki og hvetjum við að sjálfsögðu alla sem vettlingi geta valdið að leggja sitt lóð á vogarskálarnar á lokametrunum! Nánari upplýsingar er hægt að sjá á www.hjoladivinnuna.is.

Hreyfivika UMFÍ – Move Week
Hreyfivikan verður dagana 27. maí – 2. júní nk. en hún er hluti af stóru lýðheilsuverkefni sem fram fer um gjörvalla Evrópu. Markmiðið er að fá hundrað milljónir fleiri Evrópubúa til að hreyfa sig reglulega fyrir árið 2020 og eru allir hvattir til að finna sína uppáhalds hreyfingu. Í fyrra var fjöldi viðburða í boði í Mosfellsbæ og allt stefnir í að það sama verði uppi á teningnum í ár. Nánari upplýsingar um viðburði verður hægt að finna á www.iceland.moveweek.eu, síðum bæjarins og síðum Heilsueflandi samfélags.

Heilsudagurinn í Mosfellsbæ 2019
Dagurinn verður að venju haldinn hátíðlegur í Hreyfiviku UMFÍ og mun, líkt og síðustu ár, hefjast á morgungöngu í samvinnu við Ferðafélag Íslands og ljúka svo með Heilsudagsmálþingi í Listasalnum um kvöldið. Meðal þess sem verður á dagskrá er afhending Gulrótarinnar, lýðheilsuviðurkenningar Mosfellsbæjar, en þetta verður í þriðja sinn sem viðurkenningin er afhent. Sölvi Tryggvason rithöfundur og fjölmiðlamaður mun einnig leiða okkur í gegnum vegferð sína til bættrar heilsu sem hann lýsir í nýútkominni bók sinni Á eigin skinni.

Við hvetjum ykkur sem fyrr eindregið til að taka þátt í því sem boðið er upp á og virkja fólkið í kringum ykkur til að gera slíkt hið sama – því maður er manns gaman – og félagslegi þátturinn er svo sannarlega mikilvægur í vegferð okkar til hamingju og heilbrigðis.

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Okkar Mosó 2019!

Margrét Guðjónsdóttir

Margrét Guðjónsdóttir

Kæru Mosfellingar.
Íbúalýðræði er eitt af stefnumálum Vina Mosfellsbæjar því við vitum að íbúarnir eru sérfræðingar í nærumhverfinu.
Það gleður okkur því að samráðsverkefnið Okkar Mosó 2019 var sett af stað eftir góðan árangur sem varð af verkefninu Okkar Mosó 2017, en þá var kosið á milli 25 hugmynda og komust tíu hugmyndir til framkvæmda. Má þar nefna fjölgun bekkja fyrir eldri borgara, ungbarnarólur á róluvelli bæjarins, fuglafræðslustíg meðfram Leirvogi og strandblakvöll á Stekkjarflöt. Í þeim kosningum nýttu sér um 14% íbúa kosningarétt sinn en nú skulum við gera enn betur.

Markmiðið með verkefni sem þessu er að fá almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku. Okkar Mosó er tilvalinn staður fyrir íbúa til að koma með bæði skemmtilegar hugmyndir svo og góðar ábendingar að nýframkvæmdum og viðhaldsverkefnum og í ár var ekki skortur þar á. Eiga þeir sem settu fram hugmyndir eða bentu á þörf verkefni þakkir skildar.
Í greinargerð með fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2019 var ákveðið að setja í pott 35 milljónir til verkefnisins. Hugmyndasöfnun er lokið og bárust alls 113 frábærar tillögur.
Hugmyndirnar voru metnar af sérfræðingum á umhverfissviði Mosfellsbæjar og varð niðurstaðan framsetning á 30 hugmyndum sem Mosfellingar geta nú kosið um og veitt því verkefni sem þeir hafa áhuga á sérstakt brautargengi. Verkefnin verða síðan boðin út og framkvæmd á tímabilinu júní 2019 til október 2020.
Hugmyndirnar í ár eru allt frá betri lýsingu á göngustíga, leiksvæði í Helgafellshverfi, ærslabelg við íþróttahúsið að Varmá, skautasvell á Miðbæjartorgi og sjálftæmandi flösku- og dósatunnur, svo eitthvað sé nefnt.

Rafræn kosning er hafin og stendur yfir til 28. maí nk. Ég vil hvetja Mosfellinga til að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni og hafa þannig áhrif á nærumhverfi okkar.
Allir íbúar sem hafa lögheimili í Mosfellsbæ geta tekið þátt og vil ég sérstaklega geta þess að kosningin er opin öllum sem verða 15 ára eða eldri á árinu 2019.
Kosning og nánari upplýsingar eru á vefsvæðinu mos.is/okkarmoso.

Tökum þátt, því með íbúalýðræði byggjum við upp betri bæ.

Margrét Guðjónsdóttir
Höfundur er varabæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar og aðalmaður í lýðræðis- og mannréttindanefnd.

Uppbygging og viðhald að Varmá

Ásgeir Sveinsson

Ásgeir Sveinsson

Afturelding, íþróttafélag allra Mosfellinga, heldur upp á 110 ára afmæli um þessar mundir. Það er óhætt að segja að afmælisbarnið beri aldurinn vel, mikill kraftur og eldmóður einkennir starfið innan félagsins og þannig hefur það verið alla tíð.
Með ört stækkandi Mosfellsbæ og fjölgun bæjarbúa fjölgar iðkendum og er það mjög jákvæð þróun í því heilsueflandi samfélagi sem Mosfellsbær er.
Afturelding er afar mikilvægur þáttur í okkar samfélagi í mörgu tilliti.
Mikil og víðtæk forvörn er fólgin í þátttöku barna og unglinga í íþrótta- og tómstundastarfi.

Bygging fjölnota knatthúss
Íþróttasvæði Aftureldingar að Varmá er í hjarta bæjarins og þar er í gangi mikil uppbygging og viðhald um þessar mundir sem gera góða íþróttaaðstöðu enn betri fyrir hina fjölmörgu iðkendur félagsins.
Stærsta framkvæmdin er bygging fjölnota knatthúss. Sú framkvæmd gengur vel og er á áætlun bæði hvað varðar kostnað og tímaramma. Jarðvinna og steypuvinna er langt komin og mun verða hafist handa við að reisa sjálft húsið seinnipartinn í júní. Það er svo áætlað að taka húsið í notkun fullbúið í október í haust og verður húsið mikil lyftistöng fyrir knattspyrnuna í Mosfellsbæ.

Sturla Sær Fjeldsted

Sturla Sær Fjeldsted

Ný gólf í keppnissalina að Varmá
Í haust var gerð úttekt á ástandi á gólfum á íþróttahúsunum að Varmá. Úttekt leiddi í ljós að kominn væri tími til að huga að endurnýjun á gólfefnum og var tekin ákvörðun um það í bæjarstjórn að fara í þær framkvæmdir síðastliðinn vetur og núna í sumar. Um síðustu áramót var skipt um gólf í gamla salnum að Varmá og var lagður nýr hágæða dúkur sem hefur komið mjög vel út.
Á næstu dögum hefjast framkvæmdir í stóra salnum og verður byrjað að leggja parketgólf í sumar sem lokið verður um miðjan ágúst. Gólfefnin voru valin í samráði við Aftureldingu og skólasamfélagið og er mikil ánægja með þessar framkvæmdir og þá bættu aðstöðu sem þær skapa.

Ný stúka við gervisgrasvöllinn
Nú í byrjun maí var tekin í notkun ný 300 manna stúka við gervigrasvöllinn að Varmá. Stúkan er mikil breyting í aðstöðu fyrir áhorfendur á heimaleikjum að Varmá. Nýtt gervigras var sett á völlinn fyrir rúmu ári og nú í vor var öryggissvæði í kringum völlinn stækkað.

Áframhaldandi uppbygging
Auk þess sem áður hefur verið nefnt eru fleiri framkvæmdir í gangi á Varmársvæðinu. Þar má nefna endurnýjun og stækkun á búningsklefum undir sundlauginni, auk þess sem unnið er að frumhönnun og skipulagningu á óinnréttuðu rými milli íþróttahúss og fimleikahúss. Þar eru hugmyndir um að geti verið aðstaða fyrir félagsaðstöðu og skrifstofu Aftureldingar.
Á æfingasvæðinu á Tungubökkum er einnig í gangi vinna við endurnýjun og lagfæringu á grasvöllum og verður því verkefni skipt í fjóra áfanga og eitt svæði tekið fyrir á hverju sumri á næstu fjórum árum.

Uppbygging íþróttaaðstöðu – langtímaverkefni
Efir síðustu kosningar var stofnaður samráðsvettvangur Mosfellsbæjar og Aftureldingar um stefnu og forgangsröðun um uppbyggingu og skipulag á Varmársvæðinu. Þar sitja fulltrúar Mosfellsbæjar og Aftureldingar og hefur vinna þessa hóps farið vel af stað.
Það er stefna þessa hóps að leggja fram hugmynd að framtíðarskipulagi fyrir Varmársvæðið í samræmi við afmælisgjöf Mosfellsbæjar til Aftureldingar og verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu.
Mosfellsbær mun halda áfram að stækka á næstu árum með tilheyrandi fjölgun iðkenda í íþrótta- og tómstundastarfi. Það er ljóst að uppbyggingu á íþróttaaðstöðu verður haldið áfram í takt við þá aukningu.

Ásgeir Sveinsson
Formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar
Sturla Sær Fjeldsted
Formaður íþrótta- og tómstundanefndar

Mosfellsbær – heilsueflandi samfélag

Hanna Guðlaugsdóttir

Hanna Guðlaugsdóttir

Mosfellsbær býður starfsmönnum sínum að sækja fjölbreytta íþróttatíma, þeim að kostnaðarlausu. Er þetta liður í að hvetja alla starfsmenn til að hreyfa sig með reglubundnum hætti, bæta heilsufar sitt, vellíðan og hreysti.
Þetta hefur mælst vel fyrir og hafa starfsmenn sótt tíma í jóga, vatnsleikfimi, Peak Pilates og nú bætast skokk- og hlaupahópar við fram á sumar.
Mosfellsbær hóf einnig að bjóða starfsmönnum sínum samgöngustyrk árið 2018 og hvetja þannig starfsmenn til að bæði hreyfa sig meira og nota vistvænan ferðamáta til og frá vinnu í a.m.k. 80% tilvika eða fjóra daga í viku.

Nú er að hefjast árlegt heilsu- og hvatningarverkefnið „Hjólað í vinnuna“. Meginmarkmið átaksins „Hjólað í vinnuna“ er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.
Allir sem nýta eigin orku til að ferðast til og frá vinnu eru gjaldgengir þátttakendur þ.e. hjóla, ganga, hlaupa, nota línuskauta/hjólabretti o.s.frv. Þeir sem nota almenningssamgöngur geta einnig tekið þátt en þá er skráð sú vegalengd sem gengin/hjóluð er til og frá stoppistöð.
Starfsmenn Mosfellsbæjar eru hvattir til að taka virkan þátt í átakinu og sækja þá einnig um samgöngustyrk. Mosfellsbær verður með hvatningarstöðvar á eftirtöldum dögum/stöðum þar sem þeir sem „Hjóla í vinnuna“ geta stoppað við eftir hjólatúrinn og fengið sér hressingu við skemmtilega tónlist áður en haldið er til vinnu.

hannagreinHREYFUM OKKUR INN Í SUMARIÐ!
Mosfellsbær – Heilsueflandi samfélag

Hanna Guðlaugsdóttir
Mannauðsstjóri Mosfellsbæjar

Tökum vel á móti íþróttafólkinu okkar!

Hanna Björk Halldórsdóttir

Hanna Björk Halldórsdóttir

Í fjölda ára hefur íþróttafólkið okkar í Aftureldingu farið til útlanda í keppnis- og æfingaferðir. Þessar ferðir eru frábærar fyrir svo margar sakir.
Í ferðunum eru krakkarnir saman nánast öllum stundum og kynnast því betur en ella. Iðkendur fá að æfa og keppa við bestu aðstæður, í góðu veðri og við nýjan andstæðing. Þetta bætir heldur betur í reynslubankann hjá íþróttafólkinu okkar. Þessar ferðir skapa liðsheild, vinskap og frábærar minningar.

Hjá Aftureldingu sjá foreldrarráðin, með hjálp stjórn deilda, um að skipuleggja þessar ferðir. Vinnan á bak við svona ferð er gríðarleg, hóparnir eru sumir hverjir stórir, sumir iðkendur kannski með einhverjar meiri þarfir en aðrir og einhverjir eru að fara til útlanda í fyrsta skipti. Að mörgu þarf að huga.
Kappkostað er að hafa þessar ferðir sem ódýrastar, alltaf kostar þetta þó sitt. Þar koma fjáraflanir inn, en vel skipulagðar fjáraflanir geta minnkað kostnaðinn allverulega ef iðkendur eru duglegir að taka þátt. Og það eru til dæmi um að iðkendur nái að safna sér fyrir allri ferðinni. Fjáraflanirnar einar og sér geta skapað sömu liðsheild, vinskap og minningar og ferðin sjálf. Svo talað sé ekki um uppeldislegt gildi þeirra.

Happdrætti, harðfiskur, hamingja
Fjáraflanir eru alls ekki allar jafn skemmtilegar. Sumar eru bara hreinlega leiðinlegar, en sumar eru nauðsynlegar. Ég var að öllum líkindum ekki sú vinsælasta þegar ég sendi krakkana út að tína rusl í bænum okkar í síðasta mánuði, og hreinlega með ólíkindum að ég hafi ekki verið með hiksta þegar það byrjaði að rigna og fjúka. Til þess að halda uppi fjörinu hafa foreldrafélögin reynt að hafa þær sem fjölbreyttastar. Á móti koma skemmtilegu fjáraflanirnar. Mosfellingar hafa eflaust fengið einhverja í heimsókn nú þegar með happdrættismiða eða harðfisk. Á næstu vikum fara af stað allra skemmtilegustu fjáraflanirnar, þ.e. maraþonin.
Í sumar fara nokkrir flokkar til útlanda. Frá handknattleiksdeildinni fara þrír flokkar, 4. og 5. flokkur kvenna og 4. flokkur karla, frá knattspyrnudeildinni fara 3. og 4. flokkur kvenna, frá sunddeildinni fer Gullhópur og frá frjálsíþróttadeildinni fara iðkendur 14 ára og eldri. Nú í maí og júní ætla þessar deildir að efna til maraþons, hver innan sinnar deildar. Þá eyða krakkarnir 10-12 klst saman í íþróttahúsum og sundlaugum bæjarins. Meirihuti tímans fer í að stunda þá íþrótt sem þau keppa í en svo er þessu einnig slegið upp í leik og keppnir í öðrum íþróttagreinum
Mig langar til því að biðja þig, kæri Mosfellingur, að taka vel á móti íþróttafólkinu okkar. Á næstu vikum eigið þið eftir að fá metnaðarfullt, jákvætt og duglegt íþróttafólk í heimsókn sem ætlar að safna áheitum fyrir maraþon. Þrjú maraþon, fjórar deildir og átta flokkar eru margir iðkendur. Öll stefna þau þó að því sama, að komast í keppnisferð og að verða betri. En höfum það í huga að öll stunda þau íþróttina sína hjá sama félagi.
Takk sjálfboðaliðar, takk foreldraráð og takk foreldrar fyrir að gera þessar ferðir mögulegar. Takk bæjarbúar, fyrir stuðningin og góðar móttökur.
Áfram Afturelding!

Hanna Björk Halldórsdóttir,
íþróttafulltrúi Aftureldingar

Vinnustaðurinn okkar, Varmárskóli

varmarskoligrein

Við undirritaðar vinnum í Varmárskóla og erum stuðningsfulltrúar. Við erum stoltar af því vinna í Varmárskóla og þar ríkir góður vinnuandi.
Okkur og fleirum þykir miður þessi neikvæða umræða um vinnustaðinn okkar, rúmlega 800 nemenda og 150 annarra starfsmanna sem hefur verið undanfarið. Í Varmárskóla starfar frábært starfsfólk sem leggur mikið á sig.
Í Stundinni birtist bréf sem byrjar á þessa leið: „Foreldrar og kennarar barna í Varmárskóla eru ósáttir við skólastjórnendur.“ Þótt við séum ekki kennarar við skólann þá vitum við að það er engin óánægja meðal starfsfólks með skólastjórnendur. Kannski er pistlahöfundurinn að vitna í starfsmann sem er löngu hættur störfum?
Mikil umræða hefur verið um myglu í skólanum, við starfsfólkið höfum verið mjög vel upplýst um gang mála. Haldnir hafa verið fundir með okkur starfsfólki með umhverfissviði bæjarins. Það hafa fundist rakaskemmdir sem er kannski ekki óeðlilegt í gömlu skólahúsnæði en reynt hefur verið að laga það og telja menn að það hafi tekist vel til en það þarf alltaf að vera á tánum í þessum málaflokki. Það er ekkert óeðlilegt að viðhald fari fram, ekki síst í húsnæði sem er notað kvölds og morgna.
Húsnæðið okkar nýta kórar og bekkjarfulltrúar eru duglegir að gera eitthvað skemmtilegt með krökkunum eftir að skóla lýkur. Það vekur furðu okkar að spyrja á pólitískri Face­book-síðu hér í bæ hvort fólk mæli með skólanum. Á síðu þar sem einmitt hefur verið ítrekað fundið að skólanum í einu og öllu. Að sjálfsögðu koma mismunandi sjónarmið eins og samfélagið er uppbyggt. Sum svörin dæma sig sjálf og það er dapurt að sjá einstaklinga kasta fram fullyrðingum sem ljóst er að skólinn getur ekki tjáð sig um.
Fullyrt er að það sé allt morandi í einelti og ekki tekið á því. Við skólann starfar mjög öflugt eineltisteymi sem fundar um leið og mál koma upp og setja í ferli. Málin eru hinsvegar ekki alltaf leysanleg ef heimilin koma ekki með í þá vegferð. Sumt á sér stað utan skóla, í netheimum og þar þurfa heimilin að stíga fast niður.
Einnig er talað um að það sé engin sérkennsla lengur í skólanum! Hvaðan fá aðilar þær upplýsingar? Í Varmárskóla yngri deild er stoðþjónustan örugglega með þeim allra bestu sem þekkist á landinu. Þar starfar 18 stuðningsfulltrúar, þrír sérkennarar, einn þroskaþjálfi og einn iðjuþjálfi.
Að auki hafa margir kennarar og stuðningsfulltrúar það hlutverk að vera lestrarstuðningur við þá nemendur sem ekki hafa náð lestrarviðmiðum og þurfa auka þjálfun. Við erum með Varmárstofu sem þjónustar nemendur meðal annars með einhverfu og aðrar raskanir.

Við erum stolt af skólanum okkar og teljum okkur vera að vinna gott starf. Uppbyggileg gagnrýni er að sjálfsögðu gild en þegar hún verður til niðurrifs hefur hún þá ekki snúist í andhverfu sína?

Fyrir hönd stuðningsfulltrúa við Varmárskóla
Margrét Gróa Björnsdóttir , Ása Þ. Matthíasdóttir, Birgitta
Jóhannsdóttir, Sandra Rut Falk og Sigríður F. Jónbjörnsdóttir