Davíð Ólafsson

Menning í Mosfellsbæ

Davíð Ólafsson

Davíð Ólafsson

Um miðjan október var haldinn opinn íbúafundur í Hlégarði um menningarstefnu Mosfellsbæjar. Góð mæting var á fundinn og setið á hverju borði.
Þátttakendum var skipt upp í nokkra vinnuhópa þar sem mótaðar voru hugmyndir íbúa Mosfellsbæjar. Verið er að vinna úr niðurstöðum en ljóst er að Hlégarður á sérstakan sess í hjörtum bæjarbúa.
Margir fundargesta hvöttu okkur til að halda sambærilegan fund með unga fólkinu í Mosfellsbæ til að tryggja að raddir þeirra og hugmyndir fái vægi í þessari vinnu. Við ætlum því að endurtaka leikinn og fá unga fólkið til að koma með tillögur við mótun menningarstefnu Mosfellsbæjar og verður það verkefni kynnt fljótlega.

Ég vil fyrir hönd nefndarinnar þakka öllum sem mættu á fundinn og starfsmönnum bæjarins góða skipulagningu.

Davíð Ólafsson
formaður Menningar- og nýsköpunarnefndar Mosfellsbæjar.

Valdimar Birgisson

Gefum öllum börnum jöfn tækifæri

Valdimar Birgisson

Valdimar Birgisson

Viðreisn í Mosfellsbæ lagði fram tillögu í bæjarráði um að stofnaður verði sjóður til styrktar börnum efnaminni foreldra til íþrótta- og tómstundaiðkunar í Mosfellsbæ. Sjóður þessi hefði til ráðstöfunar um 1,5 milljónir króna árlega.
Íþróttaiðkun barna er jákvæð á allan hátt fyrir þau og á unglingsárum hefur íþróttaiðkun verulega jákvæð áhrif á líkamlegt ástand, andlegan og félagslegan þroska. Hún eykur ábyrga hegðun, námsárangur, trú á eigin getu og styrkir traust á samfélagið. Það er því afar mikilvægt að vel sé staðið að íþrótta- og tómstundaiðkun í bænum og að Mosfellsbær styrki áfram þau íþróttafélög sem starfa í bænum.
Það er hins vegar staðreynd að fjárhagsstaða foreldra hefur áhrif á þátttöku íslenskra unglinga í íþróttum. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Ársæls Más Arnarssonar, prófessors við Háskóla Íslands frá árinu 2017 er brottfall úr íþróttum meira hjá þeim sem telja fjárhagsstöðu foreldra slæma en hinna sem telja hana góða. Alþjóðlegur samanburður er heldur ekki Íslandi í hag að þessu leyti og eru vísbendingar um að hér sé kostnaður við íþróttaiðkun barna meiri og fari hækkandi.
Það er því brýnt að brugðist verði við og við stöndum betur að verki. Sama í hvaða flokki við stöndum þá hljótum við flest að vera sammála um að gefa börnum jöfn tækifæri óháð efnahag heimila. Þannig er það ekki í dag, kostnaður við íþróttaiðkun barna er það hár að börn hafa ekki jöfn tækifæri.
Þessum viljum við breyta með þessari tillögu. Kostnaðurinn er ekki mikill en ávinningurinn getur verið það.

Valdimar Birgisson

varmagrein

Mætum færni framtíðarinnar

varmagrein

Tækni er eitt af stóru málum samtímans og tími gervigreindar og vélmenna að renna upp miklu hraðar en nokkurn óraði fyrir.
Fjórða iðnbyltingin er hafin þar sem áherslan er á sjálfvirknivæðingu sem mun hafa gríðarleg áhrif á vinnumarkað og daglegt líf okkar allra. Sérfræðingar spá því að á næstu 20-30 árum verði meiri tækniframfarir en hafa orðið á síðustu 300 árum. Börn á grunnskólaaldri eru að búa sig undir störf sem eru mörg hver ekki til í dag og því mikilvægt að horfa til framtíðar þar sem grunnþekking á tækni og forritun er forsenda þess að geta tekist á við breytt samfélag.

Upplýsingatækni er orðin órjúfanlegur hluti af samfélaginu og þykir til dæmis ómissandi tæki í atvinnulífinu við miðlun þekkingar, gagna og til samskipta. Menntakerfið hefur ekki náð að fylgja tækniþróuninni eftir og til að breyta því þarf stórátak.
Mikilvægt er að sveitarfélög móti sér skýra stefnu í upplýsingatækni og geri skólunum kleift að búa nemendur undir framtíð sem felur í sér margvíslegar áskoranir. Innleiða þarf heildstæða nýtingu stafrænnar tækni í skóla- og frístundastarf, styrkja innviði skólanna og ráða leiðtoga í upplýsingatækni, nýsköpun og þróun nýrra kennsluhátta.

Innleiðing rafrænnar kennslu og fjölbreyttra kennsluhátta er grundvallarbreyting á skólastarfi og krefst samstillts átaks allra er málið varðar. Stafrænn skóli er ekki tæknilegt vandamál heldur viðhorf og felur í sér fjölmörg tækifæri. Reynsla þeirra skóla sem lengst eru komnir í rafrænni kennslu hér á landi er góð og hefur til að mynda opnað nýja leið fyrir nemendur með námsörðugleika.
Í umhverfi stöðugra tækniframfara verður að gera skólunum kleift að fylgja eftir þessari hröðu þróun og undirbúa börnin undir þær samfélagslegu breytingar sem eru handan við hornið. Leggja þarf áherslu á þá þætti sem greina að fólk og vélar. Öll þekking heimsins er í aðeins 10 sekúndna fjarlægð og því hefur dregið úr þörf fyrir utanbókarlærdóm.
Mikilvægt er að efla færni barnanna í því sem vélarnar eru ekki góðar í, svo sem samskiptum, samvinnu, skapandi hugsun, tilfinningagreind, frumkvæði, aðlögunarhæfni, samhygð og gagnrýninni hugsun.

Stjórn foreldrafélags Varmárskóla skorar á bæjaryfirvöld að hefja vinnu við mótun nýrrar skólastefnu í samvinnu við skólasamfélagið, atvinnulífið og sérfræðinga á sviðinu. Tryggja þarf að sú vinna skili ekki aðeins fögrum fyrirheitum heldur að skólarnir séu í stakk búnir til að mæta þörfum nútímans.
Setjum framtíð barnanna í fyrsta sæti og markmið um að skólar í Mosfellsbæ verði í fremstu röð.

Fyrir hönd stjórnar Foreldrafélags Varmárskóla
Elfa Haraldsdóttir

Sigrún Guðmundsdóttir

Heimsmenning – fjölmenning – okkar menning

Sigrún Guðmundsdóttir

Sigrún Guðmundsdóttir

Er heimurinn að minnka? Okkur finnst það stundum því við fáum innsýn (oft án þess að við leitum eftir því) og erum sjálf í tengslum við fjarlægar slóðir.
Við getum farið heimshorna á milli og heimshornaflakkið kemst jafnvel léttilega fyrir í sumarfríinu okkar. Það eru sem sagt töfrandi tímar fyrir mörg okkar sem njótum heimsmenningar. En við heyrum líka daglega af hryllilegum átökum í ýmsum heimshornum og flóttamannastraumurinn er víða, þótt ekki komi margir flóttamenn hingað.
Straumur verkafólks hingað er hins vegar talsverður. Mikið er um láglaunastörf hér sem verkafólk frá Evrópu er velkomið að sinna. Aðrir, helst fólk utan Evrópusambandsins fær enga vinnu hér, þótt það sé bláfátækt og fái ekki vinnu heima hjá sér.
Við Íslendingar erum hins vegar svo vel „í sveit sett“ að mörg okkar geta farið til nágranna okkar í Noregi og fengið þar góð laun. Það þykir sjálfsagt að fara, jafnvel þótt við séum ekki bláfátæk og getum fengið eitthvað að gera hér.
Við Íslendingar getum líka farið í háskóla víða um heim, og ég gerði einmitt það, fyrir akkúrat 30 árum. Ég valdi að kynnast mínum upprunaslóðum, Þýskalandi. Ég kynntist vel fólkinu mínu sem upplifði seinni heimsstyrjöldina, með öllum þeim hryllingi sem henni fylgdi eins og hungri og herþjónustu.
Ég man að mér fannst ansi pirrandi þegar ætlast var til af mér trekk í trekk að klára matinn á boðstólum af því ég væri svo ung …­ þangað til ég fattaði þetta með hungrið … Þegar samhengi fæst við raunveruleika annarra verður oft svo miklu auðveldara að takast á við það sem manni finnst ekki við hæfi (eða er framandi). Þegar ég var að alast upp hér heima kynntist ég dómum landans á seinni heimsstyrjöldinni. Þessir dómar höfðu þau áhrif á mig að ég skammaðist mín fyrir upprunann, langt fram eftir aldri.
En af hverju á barn að skammast sín fyrir uppruna sinn? Það er ekki gott veganesti. Auðvitað er það ekki ætlunin, en fjölmörg börn verða fyrir alls kyns misrétti vegna uppruna síns. Þetta á ekki bara við um börn, ég tala bara sérstaklega um þau því það auðveldar skilning á efninu. Ég er að tala fyrir frjálslyndi til hagsbóta fyrir samfélagið. Maður getur ekki vitað forsögu hvers og eins en maður kemst langt á fordómaleysi, velvilja og kurteisi í að móta gott samfélag.
Rauði krossinn hér í Mosfellsbæ vinnur að ýmsum fjölmenningarverkefnum. Síðasta vetur var hér brilljant enskukennsla í boði fyrir hælisleitendur, kennarararnir Björk Ingadóttir og Elín Eiríksdóttir (FaMos) gáfu vinnu sína í þágu hælisleitenda.
Fjölmargir Mosfellingar tóku svo til hendinni þegar flóttafólkið okkar frá Úganda kom hingað síðasta vetur, gerðu húsnæði þeirra vistlegt og leiðbeina þeim nú um íslenskt samfélag – fyrsta kastið hér á Fróni.
Hjá Rauða krossinum gefast ýmis góð tækifæri til að vera með og kynnast fólki víða að úr heiminum. Já, og Rauði krossinn í Mosfellsbæ er ávallt opinn fyrir góðum hugmyndum og hvet ég sérstaklega, frjálslynda heimsmenningarsinna að vera í bandi.
Með heimsmenningarkveðju.

Sigrún Guðmundsdóttir
ritari í stjórn RK Mosfellsbæ

Heiða

Trjágróður á lóðarmörkum

Hér má sjá hvernig samspil gróðurs  í görðum og umferðar á að vera.

Hér má sjá hvernig samspil gróðurs í görðum og umferðar á að vera.

Heiða

Heiða Ágústsdóttir

Ágætu bæjarbúar.
Mikilvægt er að garðeigendur hugi að því að trjágróður þeirra hafi ekki vaxið út á stíga eða götur með tilheyrandi óþægindum og mögulegri hættu fyrir vegfarendur, sérstaklega núna í skammdeginu þegar fjöldi barna er á ferðinni vegna skóla og tómstunda.
Gangstéttir og göngustígar liggja víða um bæinn og eru mikilvæg til útivistar og samgangna milli staða, jafnt fyrir gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk. Þegar trjágróður vex út fyrir lóðarmörk og út yfir gangstéttir og stíga bæjarins getur það skapað veruleg óþægindi og jafnvel hættu fyrir vegfarendur.
Dæmi er um að trjágróður skyggi á umferðarmerki, götumerkingar og lýsingu, og byrgi þannig sýn. Í tilfellum sem þessum er bæjaryfirvöldum heimilt að klippa og fjarlægja þann gróður sem vex út fyrir lóðarmörk á kostnað lóðarhafa.
Reglur um gróður á einkalóðum eru skýrar. Í byggingarreglugerð er skýrt kveðið á um að lóðarhafa sé skylt að halda vexti trjáa og runna innan lóðarmarka. Ekki má planta hávöxnum trjátegundum nær lóðarmörkum aðliggjandi lóða en 4,0 metra og við lóðarmörk má hæð þeirra ekki verða meiri en 1,8 metrar, nema með samþykki nágranna.
Trjágróður sem liggur að götu, gangstétt eða opnu svæði má ná meiri hæð ef fyrir liggur samþykki veghaldara eða umráðaaðila viðkomandi svæðis.
Garðeigendur í Mosfellsbæ eru hvattir til að klippa og snyrta allan þann gróður á lóðarmörkum og jafnframt að huga almennt að garðinum öllum og næsta umhverfi. Þar með talið eru bílhræ, tæki og tól í niðurníðslu sem eiga það til að safnast fyrir innan lóðarmarka.
Þannig getum við öll hjálpast að við að hafa bæinn okkar snyrtilegan og fallegan.

Frekari upplýsingar um umhirðu gróðurs má finna hjá þjónustustöð Mosfellsbæjar og á heimasíðu Mosfellsbæjar, www.mosfellsbaer.is/thjonusta/skipulag-og-umhverfi/thjonustustod/

Heiða Ágústsdóttir
Fagstjóri garðyrkju og skógræktar

varmagrein

Atómstöðin, Gerpla og Heimsljós

varmagreinÍ Varmárskóla stunda hátt í 1.000 börn nám og er þetta kraftmikill hópur með fjölbreytta reynslu og styrkleika sem býr yfir mikilli lífsgleði og sköpunarkrafti.
Til að tryggja að börnin fái notið bernsku sinnar þarf að búa vel að yngstu íbúum bæjarins og leggja áherslu á snemmtæka íhlutun. Allir eiga rétt á kennslu við sitt hæfi og því þarf að taka mið af þroska hvers og eins, ólíkum þörfum og bakgrunni. Námsumhverfið þarf að vera hvetjandi svo hægt sé að laða fram hæfileika allra nemenda með markvissum hætti því öll börn eru einstök. Vellíðan í skóla er grundvöllur námsárangurs og því mikilvægt að nota fjölbreyttar uppeldis- og kennsluaðferðir til að geta mætt börnunum þar sem þau eru stödd.
Atómstöðin, Gerpla og Heimsljós eru stofur í eldri deild Varmárskóla sem nefndar eru eftir verkum nóbelskáldsins. Um er að ræða þrjú námsver, þar af tvö ný, þar sem allir nemendur geta leitað sér stuðnings varðandi nám og líðan og átt athvarf í erli dagsins.

Á stuttum tíma hefur Áslaug Harðardóttir, deildarstjóri sérkennslu í eldri deild, ásamt sínu góða starfsfólki unnið grettistak í að móta heildarsýn á aðstæður þar sem hagsmunir barnsins eru ávallt hafðir að leiðarljósi og lögð áhersla á að það fái verkefni, kennslu og stuðning við hæfi. Það hefur verið magnað að fylgjast með, síðan námsverin voru tekin í notkun, því trausti sem hefur myndast milli nemenda og starfsmanna sem standa alltaf vaktina, líka í frímínútum og hádegismat. Áslaug og hennar teymi leggja mikið upp úr að vera til staðar á „gólfinu“ og hlusta á nemendur í umhverfi þeirra til að geta betur sett sig inn í aðstæður hvers og eins af umhyggju og virðingu.

Nemendum á einhverfurófinu hefur verið veitt sérstök athygli og það skilað góðum árangri. En þjónustan er ekki bundin við afmarkaðan hóp nemenda heldur leita sífellt fleiri í námsverin sem vilja nýta sér þessa frábæru aðstöðu sem stendur öllum nemendum til boða. Mikil ánægja er meðal foreldra með þessa uppbyggingu þar sem umhyggja, sveigjanleiki, hvatning og virðing er í fyrirrúmi. Samskipti heimilis og skóla eru markviss, foreldrar meðvitaðri en áður um hagi barna sinna og hvaða þjónustu þau eru að fá.
Áslaug og hennar teymi eiga mikið lof skilið ásamt fræðsluyfirvöldum fyrir þá aðstöðu og vinnu sem lögð hefur verið í að gera námsverin að veruleika. Ánægjulegt er að sjá hversu vel nemendur taka þessari þjónustu og þann marktæka árangur sem hún er að skila. Áhugavert verður að fylgjast með námsverunum vaxa og styrkjast enn frekar enda mikilvægt að hlúa vel að styrkleikum hvers og eins þannig að börnin séu í stakk búin til að takast á við líf í síbreytilegu samfélagi.

Fyrir hönd stjórnar Foreldrafélags Varmárskóla
Elfa Haraldsdóttir

Lóa Björk Kjartansdóttir

Hlustar fólk á þig?

Lóa Björk Kjartansdóttir

Lóa Björk Kjartansdóttir

Það nennir enginn að hlusta á fólk röfla á fundum og það er erfitt að hlusta á fólk í ræðustól sem er að hugsa hvað það ætlar að segja jafnóðum.
Það getur verið heilmikið vit í því sem viðkomandi vill koma á framfæri, en ef það er illa sett fram þá hættir fólk fljótt að hlusta og man ekkert af því sem sagt var.

Hvort sem það er verið að halda ræðu eða tjá sig um mál á fundum, þá er best að vera vel undirbúinn. Vita hvað maður vill segja og koma skoðun sinni eða efni á framfæri þannig að fólk hlusti og taki eftir. Það er mjög algengt að fólk byrji að undirbúa ræðu kvöldið áður en á að flytja hana. Svo eru nokkrir sem mæta algjörlega óundirbúnir, vita svona um það bil hvað þeir vilja segja en stama og endurtaka sig í sífellu þegar á hólminn er komið.
Ræður eru alls konar og af ýmsu tilefni. Sumir þurfa að flytja erindi á fundum í vinnunni, á ráðstefnum eða á námskeiðum. Fæstir eru að flytja ræður reglulega en flest myndum við vilja vera öruggari þegar persónulegir viðburðir eru í okkar nærumhverfi. Til dæmis í veislum, afmæli, brúðkaup eða skírn.
Það er alltaf gaman að hlýða á vini og vandamenn sem standa upp og tala til veislugesta, segja frá vinskap og gefa heilræði. Það er gaman þegar fólk stígur fram þokkalega undirbúið og veit hvað það ætlar að segja.

Góður undirbúningur er lykilatriði. Ef þig langar að flytja ræðu í brúðkaupi er gott að byrja á því að hugsa hvað þig langar að segja. Punktaðu niður t.d. sögur, heilræði og almennan fróðleik. Raðaðu svo efninu niður þannig að flæðið verði gott, upphaf, miðja og endir.
Upphaf ræðu þarf að vera grípandi, þú vilt að fólk hlusti á þig. Miðjan þarf að vera áhugaverð því þú vilt halda athyglinni. Lokaorðin mega gjarnan vera minnisstæð, þannig að ræðan þín sitji eftir í huga áheyrenda.

Það geta allir flutt ræðu og hjá Korpu færðu tækifæri til að þjálfa framkomu, ræðuflutning og almennt að tjá þig í hóp. Þar viðheldur fólk bæði þekkingu og þjálfun með því að mæta á fundi og bæta í reynslubankann með þátttöku í skemmtilegu starfi.

Fundir Korpu eru 1. og 3. miðvikudag í hverjum mánuði klukkan 20:00, í Safnaðarheimili Lágafellssóknar, Þverholti 3 á 2. hæð. Allir eru velkomnir á fundi og vel er tekið á móti gestum. Frekari upplýsingar um starfið má finna á powertalk.is
Næstu tveir fundir verða miðvikudaginn 7. nóvember og miðvikudaginn 21. nóvember klukkan 20.00.

Lóa Björk Kjartansdóttir
Ritari Korpu 2018-2019

andlegt

Andlegt ferðalag

andlegtÍ lífi manna gengur mismikið á en hjá flestum safnast upp, með tímanum, atvik og tilfinningar sem erfitt getur verið að vinna úr. Sumt er meðvitað en annað ómeðvitað og því oft mjög erfitt að átta sig á því.

Ég er þarna engin undantekning og eftir því sem leið á, fann ég að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Eitthvað hafði slökknað innra með mér. Ég hélt samt áfram því ég þurfti að sjá fyrir mér og mínum! Það kom svo að því að ég varð algerlega uppgefinn. Ég var orðinn ómeðvitaður um eigin tilfinningar og þarfir, mér leið eins og ég væri tilfinningalaus! Gleðin var horfin úr lífi mínu og ég vissi ekki hvað ég vildi eða þurfti. Mér fannst fólk ráðskast með mig, bæði persónulega og í vinnu. Þó ég hefði einhverjar skoðanir stóð ég ekki á þeim heldur flaut bara með. Ég hafði lítið sjálfsálit og dæmdi mig hart ef eitthvað gekk ekki eins og ég vildi. Mér leið ekki vel og einangraði mig og sinnti í engu mínum eigin þörfum. Mér fannst ég hafa misst stjórnina á lífinu.

Dag einn hitti ég gamlan vin sem greinilega tók eftir breytingu á mér og kannaðist við ástandið því hann fór að segja mér frá hvernig hann hafði endurskoðað líf sitt með aðferðum 12 sporanna. Með því hafði hann náð tökum á lífi sínu á ný. Hann lýsti því hvernig það að skoða líf sitt á þennan hátt, fékk hann til að koma auga á ýmislegt sem betur mátti fara. Á einum vetri hefði hann náð góðum tökum á lífi sínu á ný. Hann hafði tileinkaði sér nýjan lífsstíl þar sem hann notar aðferðir 12 sporanna til að tækla lífið og tilveruna. Með því var hann nú orðinn sáttur við líf sitt, sig og sína.
Vinur minn hvatti mig til að koma með sér á sporafund hjá Vinum í bata og athuga hvort ég finndi þar leið fyrir mig. Ég varð hissa því ég hélt að 12 sporin væru eingöngu fyrir þá sem ættu við áfengis- eða fíkniefnavanda að stríða.
Það er skemmst frá því að segja að ég sló til og fór í 12 sporin og get nú ekki hugsað mér lífið án þeirra. Með hjálp sporanna tileinkaði ég mér nýjan lífsstíl sem gerði mér kleift að ná tökum á lífinu, finna gleðina á ný og lifa í sátt við sjálfan mig og aðra.

Vinir í bata er hópur karla og kvenna á öllum aldri sem hafa tileinkað sér Tólf sporin til að vinna úr sínum málum, hvort sem er úr fortíð eða í nútíð.

Kynningar fundurinn verður í safnaðarheimili Lágafellskirkju að Þverholti 3, í kvöld fimmtudag kl. 19 og fimmtudagskvöldið 25. október, kl. 19. Það er síðasta tækifærið til að slást í hópinn þennan veturinn því eftir það verður hópnum lokað og hin eiginlega 12 spora vinna hefst.

Bestu kveðjur
Vinur í bata

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir

Skólastarf, viðhald og það sem ekki fæst keypt

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir

Þeir sem fylgdust með kosningum sl. vor tóku kannski eftir því að mikið var ritað og rætt um skólana okkar og þá sérstaklega Varmárskóla.
Það hafa allir skoðanir á skólum, skólastjórum og kennurum enda varðar skólinn allar fjölskyldur. Mörg orð vorum látin falla og stundum efast ég um að þau orð hafi verið öll til gagns. Ég veit þó að allir höfðu það markmið að leiðarljósi að bæta skólana okkar. Allir vilja bæta skólasamfélagið og lífið heldur áfram.
Nýtt skólaár er að hefja göngu sína og á ég fáar óskir heitari en þær að allt gangi vel og öllum líði vel. Sem formaður fræðslunefndar mun ég leggja mig alla fram við að styðja við skólasamfélagið í Mosfellsbæ af heilum hug.

Aukið fjármagn í innra starf og húskroppa
Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ hafa ávallt haft skólamálin í forgangi enda er þetta stærsti og mikilvægasti málaflokkurinn okkar. Sannarlega hefur íbúum í Mosfellsbæ fjölgað mikið á síðustu árum enda veit fólk að það er gott að ala upp börn í Mosfellsbæ. Við gerð fjárhagsáætlunar undanfarinna ára hefur fjármagn til skólanna verið aukið til muna. Það var gert um leið og fjárhagur vænkaðist.
Öll sveitarfélög eru að auka fjármagn til sinna skóla hvort sem það er í skólastarfið sjálft eða í húskroppana. Hvort tveggja þarf að vera í lagi. Í kjölfar kjarasamninga kennara var settur á laggirnar rýnihópur úr hópi kennara sem skrifaði lista um hvað vantaði og hvað þyrfti að bæta svo skólastarfið gengi betur. Sá listi fór inn í fjárhagsáætlun og er nú unnið samkvæmt listanum til að mæta óskum kennara.

Viðhald á skólunum
Allt viðhald á skólunum og öðrum stofnunum Mosfellsbæjar er í umsjón umhverfissviðs. Þar eru gerðar áætlanir um viðhald og viðgerðir undir vökulum augum sérfræðinga. Komi upp grunur hjá stjórnendum stofnana um skemmdir á skólahúsnæði þá fara málin í ákveðið ferli og húsnæðið lagað.
Grunur kom upp um rakaskemmdir í Varmárskóla og var í kjölfarið gerð úttekt á húsnæðinu af sérhæfðri verkfræðistofu og í kjölfarið farið í lagfæringar á húsnæðinu. Viðhald og endurbætur á húsnæði bæjarins er verkefni sem sífellt er í gangi.

Það mikilvægasta
Að lokum langar mig að nefna það sem hvorki fæst keypt né lagað af sérfræðingum í viðhaldi bygginga en það eru samskiptin, umhyggjan, þolinmæðin, umburðarlyndið og gagnkvæm virðing. Jafnvel í fullkomnum heimi þar sem til væri nóg af peningum og allt til alls, ef þetta vantaði væri skólastarfið farið fyrir lítið.
Ég veit sem kennari til margra ára að kennarastarfið er ekki auðvelt og oft reynir á í samskiptum við nemendur og foreldra. Það er markmið okkar sem komum að skólamálum í Mosfellsbæ að styðja við skólamenninguna svo öllu starfsfólki, kennurum og nemendum líði vel í sátt og samlyndi hvert við annað. Þannig eiga skólarnir okkar að vera og þannig náum við árangri saman.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
formaður fræðslunefndar

Lóa Björk Kjartansdóttir

Framtíðin veltur á því sem þú gerir í dag

Lóa Björk Kjartansdóttir

Lóa Björk Kjartansdóttir

Kannastu við þvala lófa, öndunarerfiðleika og jafnvel öran hjartslátt þegar athyglin beinist að þér?
Flestir finna fyrir kvíðaeinkennum þegar þeir standa upp og tjá sig á fundum. Staðreyndin er sú að mjög reyndir ræðumenn finna margir fyrir kvíða þegar þeir tala fyrir framan hóp af fólki. Því hefur jafnvel verið haldið fram að fólk óttist dauðann minna en að tala opinberlega.

Það er eðlilegt að vera taugaóstyrkur og það veldur því að við erum aðeins á tánum. Við erum líklegri til að undirbúa okkur þannig að vel takist til þegar við finnum fyrir fiðrildum í maganum. Ef maður er of afslappaður og ákveður að þetta reddist allt saman þá er maður ekki tilbúinn þegar á hólminn er komið.

Okkur finnst vont að vera kvíðin og taugaóstyrk, þá er ágætt að vita að auðvelt er að hafa stjórn á þessum tilfinningum. Markmiðið er að hafa stjórn, ekki að komast alveg yfir taugaóstyrkinn. Gott er að hafa í huga hvað það er sem veldur kvíðanum. Erum við hrædd við áheyrendur? Þeir eru bara venjulegt fólk. Erum við hrædd um að ræðan okkar sé ömurleg, eða að spurningin sem við viljum bera upp hallærisleg? Eða erum við hrædd við það óþekkta, verð ég kjánaleg, flækist ég í snúru á leiðinni í pontu? Get ég svarað öllum spurningum?
Þegar við tökumst á við þennan ótta og skiljum hvað það er sem veldur honum þá undirbúum okkur í samræmi við það. Það versta sem við gerum er að hætta við allt saman, sitja bara heima og segja ekki neitt.

Á fundum hjá Korpu mætir fólk og þjálfar sig í að takast á við þessar aðstæður. Það undirbýr erindi sín vel, bæði skrifin og flutning. Það finnur oft fyrir kvíða þegar það mætir og þegar það stendur upp og tjáir sig eða flytur ræður. En satt að segja þá sést það yfirleitt ekki á fólki, þeir sem á hlýða greina sjaldnast mikinn taugaóstyrk hjá þeim sem tala. Því fólk hefur undirbúið sig. En fólk undirbýr sig ekki bara heima áður en það mætir.

Hluti af góðum undirbúningi er t.d. að kynna sér salinn þar sem það ætlar að tala. Koma snemma og kynna sér umhverfið, passa að hljóðneminn sé ekki til vandræða, verði hann notaður. Ákveða fyrirfram hvaða leið best sé að ganga í ræðustól. Ef það á að nota skjávarpa, tölvu eða önnur tæki þá er gott að prófa allt slíkt áður en fundur hefst og vera viss um að allt virki áður en kemur að flutningi. Allur svona undirbúningur minnkar líkur á vandræðagangi og eykur öryggi flytjanda.

Það er alltaf gott að minna sig á að áheyrendur eru ekki komnir til að horfa á þig mistakast, þeir vilja í raun gjarnan að þér takist vel til, þeir eru með þér í liði. Það er eins með þetta og allt annað, reynslan byggir upp sjálfstraust og það er lykillinn að góðum ræðuflutningi og þátttöku á fundum.
Hjá Korpu færðu endalaus tækifæri til að þjálfa framkomu, ræðuflutning og almennt að tjá þig í hóp. Þar viðheldur fólk bæði þekkingu og þjálfun með því að mæta á fundi allan veturinn og bætir í reynslubankann með þátttöku í skemmtilegu starfi.

Fundir Korpu eru 1. og 3. miðvikudag í hverjum mánuði klukkan 20:00, í Safnaðarheimili Lágafellssóknar, Þverholti 3 á 2. hæð. Allir eru velkomnir á fundi og vel er tekið á móti gestum. Frekari upplýsingar um starfið má finna á powertalk.is
Næstu tveir fundir verða miðvikudaginn 3. október og miðvikudaginn 17. október klukkan 20.00. Ég hvet þig til að mæta og láta ekki kvíðann stjórna þér.

Lóa Björk Kjartansdóttir
Ritari Korpu 2018-2019

Hanna Símonardóttir

Til hamingju Afturelding! Til hamingju Mosfellsbær!

Stúkan á gervigrasvellinum var þétt setin á öllum leikjum í sumar

Stúkan á gervigrasvellinum var þétt setin á öllum leikjum í sumar.

Hanna Símonardóttir

Hanna Símonardóttir

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu náði þeim frábæra árangri um helgina að sigra í 2. deildinni og þar með tryggja sér sæti í Inkasso-deildinni 2019. Stelpurnar héldu sér í Inkasso í ár og 3. flokkur karla varð Íslandsmeistari á dögunum.
Eftir uppskeru sem þessa er heldur betur ástæða til að líta um öxl og velta síðustu áratugum í starfi knattspyrnudeildar aðeins fyrir sér. Hjá mér er einkum tvennt sem kemur upp í hugann:
Annars vegar er það hversu magnað starf er unnið af þó allt of fáum sjálfboðaliðum í þágu allra bæjarbúa, og hins vegar er það aðstaðan sem starfið býr við.

Aðstaða 1960 og 2018
Árið 1959 þegar malarvöllur var vígður var íbúafjöldi í Mosfellssveit liðlega 700 manns. Knattspyrnuiðkendur höfðu þá sambærilega aðstöðu og þá sem best þótti á þeim tíma; malarvöll í fullri stærð.
Árið 2018 þegar íbúafjöldi er kominn yfir 11.000 er aðstaðan sem boðið er upp á til knattspyrnuiðkunar einn gervigrasvöllur. Breytingin hjá félögum almennt frá 1970 er að gervigras hefur leyst malarvelli af hólmi.
Staðreyndin sem við búum við í okkar ágæta Mosfellsbæ er því að einn knattspyrnuvöllur árið 1960 þjónaði um 700 íbúum en í dag yfir 11.000 íbúum.
Knattspyrnuiðkendur í Mosfellsbæ í dag eru um 600 talsins. Dag eftir dag eru yfir 130 börn á æfingu á þessum eina velli okkar á sama tíma. Það gefur auga leið að plássleysið á þeim æfingum er gríðarlegt. Ef einn af flokkunum á mótsleiki þá falla æfingar niður hjá allt að 250 iðkendum þann daginn.
Gervigrasið ætti að vísu ekki að vera svona þétt setið nema níu mánuði á ári því á sumrin höfum við Tungubakkana líka. Þeir þóttu á árum áður hinir myndarlegustu vellir, en staðreyndin er sú að fæstir flokkar innan knattspyrnudeildar Aftureldingar vilja æfa þar lengur á sumrin, heldur berjast um æfingatíma á gervigrasinu.
Nánast ekkert hefur verið gert í viðhaldi valla á Tungubökkum síðustu áratugi og eru þeir orðnir svo ósléttir að gæði æfinga jafnast á við gæðin fyrir 50 árum á megninu af svæðinu. Ef iðkendum fjölgar áfram eins og verið hefur má búast við að takmarka þurfi aðgengi barna að knattspyrnuæfingum vegna skorts á æfingaaðstöðu, það yrði nú saga til næsta bæjar ef sú staða kæmi upp í heilsueflandi bænum Mosfellsbæ.

Fögur fyrirheit en fátt um efndir
Hversu oft hef ég, sjálfboðaliði til yfir 20 ára, farið vongóð heim af fundum höldnum af Aftureldingu og/eða Mosfellsbæ varðandi úrbætur í aðstöðumálum? Ég hef ekki tölu á þeim en finnst lítið sem ekkert hafa áunnist þrátt fyrir fögur fyrirheit.
Aðstöðuleysið, sem er óumdeilanlegt, hefur þau áhrif að erfiðara er að fá sjálfboðaliða til að taka að sér verkefni þar sem enginn hlutur á sér samastað. Slegist er um hvern krók og kima til allra hluta bæði tengdum æfingum og félagsstarfi. Ætli vangaveltur um aðstöðuleysi í klefa- og félagsmálum sé ekki efni í næstu grein hjá mér hér í Mosfellingi? Í þessari umræðu má þó ekki gleyma því að starfsfólkið í íþróttamiðstöðvunum og á skrifstofu Aftureldingar á hrós skilið fyrir að vera ávallt boðið og búið til að aðstoða.
Lokaniðurstaðan eftir samanburð á vallaraðstöðu 1960 og í dag er sú að einn völlur sem dugði 700 íbúum til knattspyrnuiðkunar þá, á að duga fyrir rúmlega 11.000 íbúa í dag. Er ekki eitthvað bogið við það?
Gleðilegt komandi Inkasso-sumar, vonandi í bættri aðstöðu.

Hanna Sím. – sjálfboðaliði í rúm 20 ár.

Þorbjörn Kl. Eiríksson

Orð um tónlistarhús

Þorbjörn Kl. Eiríksson

Þorbjörn Kl. Eiríksson

Til þeirra sem stjórna og koma til með að stjórna í þessu bæjarfélagi, MOSFELLSBÆ.

Það virðist eins og allir vilji gera þennan bæ okkar að menningarbæ þar sem búa og starfa þekktustu listamenn á öllum sviðum. Þar með talinn fjöldi kóra sem er í Mosfellsbæ, en það er engin aðstaða fyrir þá til æfinga né til söngs og aðrar uppá­komur fyrir bæjarbúa og aðra til að hlusta á í almennilegu tónlistarhúsi.

Kór eldri borgara, Vorboðar, varð að fá inni í Reykjavík vegna söngtónleika sem kórinn stóð fyrir ásamt fjórum öðrum kórum sem hafa skipt með sér kórahaldi á hverju ári, og kom nú í hlut Vorboða að halda sameiginlega kvöldvöku sem milli 200-300 manns sækja.
Hvert var farið til þessarar samkomu? Alla leið í félagsheimili Seltjarnarness.

Það er oft búið að tala um, og ég held af öllum flokkum nema þeim sem eru að kom inn núna, (það fólk sem er þar þekkir þetta), að stækka þarf Hlégarð, en ekkert gerist í þeim málum. En ef rætt er um að við þurfum að stækka við Varmárhöllina þá er rokið í það og líka að byggja yfir fótboltavöllinn. Allt er það gott og gilt, en það þarf að forgangsraða.
Ég vil koma þessari samantekt til þeirra sem eru að huga að sókn í stjórnun bæjarfélagsins og þeirra sem verða á hliðarlínunni. Brettið nú upp ermar og gangið í stækkun Hlégarðs strax!

Þegar ég setti þetta á Facebook á sínum tíma, jú þá þóttust allir hafa haft þetta á stefnuskrá sinni, (gömlu) flokkarnir voru með þetta á sínum kosningabæklingum, en ég sá það ekki hjá hinum.

Þorbjörn Kl. Eiríksson

Ólöf Kristín Sívertsen

Göngum, göngum!

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Staðfest hefur verið með fjöldamörgum rannsóknum að regluleg hreyfing gegnir lykilhlutverki fyrir heilsu og vellíðan alla ævi.
Hreyfing eykur líkamshreysti, hreyfifærni, vellíðan og lífsgæði almennt fyrir utan það að minnka líkurnar á flestum langvinnum sjúkdómum. Auk beinna áhrifa á heilsu og líðan getur lífsstíll, sem felur í sér daglega hreyfingu, einnig skapað tækifæri til að mynda og styrkja félagsleg tengsl og haft góð áhrif á andlega líðan okkar.

Hvernig aukum við hreyfingu?
Það þarf ekki að vera flókið að auka við hreyfingu í daglegu lífi. Ein einfaldasta leiðin er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup og almenningssamgöngur.
Það besta er að ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við líkamlega vellíðan heldur hefur regluleg hreyfing verulega jákvæð áhrif á andlega heilsu okkar. Þess utan er þetta einnig umhverfisvænn og hagkvæmur kostur til að komast á milli staða.

Göngum í skólann
Verkefnið Göngum í skólann hófst í gær, 5. september, og lýkur formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 10. október. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Með því gefst jafnframt tækifæri til að draga úr umferðaþunga, hraðakstri og mengun nálægt skólum. Munum að þarna erum við fullorðna fólkið mikilvægar fyrirmyndir eins og í mörgu öðru.

Lýðheilsugöngur FÍ 2018
Ferðafélag Íslands stendur fyrir lýðheilsugöngum vítt og breitt um landið kl. 18:00 alla miðvikudaga í september. Þetta eru 60-90 mínútna fjölskylduvænar göngur og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.
Í Mosfellsbæ verður gengið frá Reykjalundi kl. 18:00 alla miðvikudaga í september og hægt er að sjá nánari upplýsingar á www.fi.is/lydheilsa

„Vér göngum svo léttir í lundu, því lífsgleðin blasir oss við“ kvað Freysteinn Gunnarsson um árið og ef við leggjum textann út frá hreyfingu og vellíðan má segja að þarna hafi hann einmitt hitt naglann á höfuðið. Ganga og önnur hreyfing léttir nefnilega lundina og framkallar jákvæðari sýn á lífið.

Komdu og vertu með – allir vinna þegar þú tekur þátt!

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Guðjón Jensson

Að gefnu tilefni

Guðjón Jensson

Guðjón Jensson

Í árslok 1970 birtist í Morgunblaðinu grein Halldórs Laxness: „Hernaðurinn gegn landinu“. Þá var ég í námi í Menntaskólanum í Hamrahlíð og þessi grein kveikti bókstaflega í mér sem öðru ungu fólki. Síðan hef ég tekið töluverðan þátt í þjóðfélagsumræðunni, mörgu tengdu umhverfismálum og vona ég að ég verði enn að meðan ég lifi. Ég starfaði töluvert í Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar um aldarfjórðungsskeið.
Við hjónin tókum gjarnan börnin okkar með í gróðursetningu og við að hlúa að skóginum meðan ung voru. Þá voru fjöruferðirnar í Leirvoginn okkur mjög lærdómsríkar. Ætli náttúran sé ekki eitt besta tækifærið að ala upp börn við holla og góða hreyfingu og fylgjast með lífinu á marga lund. Drengirnir okkar sem nú eru komnir á fertugsaldur minnast oft á þessar stundir sem einar þær bestu í bernsku þeirra.

Fyrir rúmum 11 árum átti ég þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélag Mosfellsbæjar. Því miður hefur starf þess legið niðri en það þarf að endurvekja við fyrstu hentugleika. Höfða ég sérstaklega til yngra fólksins að taka við keflinu enda erum við sem erum að hefja eftirlaunaárin ekki lengur miklir bógar. En við getum veitt mikið frá okkur og miðlað, bæði þekkingu og reynslu.

Mosfellsbær hefur tekið mjög miklum stakkaskiptum frá því við Úrsúla fluttum úr Reykjavík og hingað í ársbyrjun 1983. Alltaf er okkur minnisstætt þegar gríðarlega stór hópur snjótittlinga sveimaði á móti okkur þegar við ókum í flutningabílnum með fremur fátæklega búslóðina okkar niður Arnartangann. Nánast hvergi var trjágróður að sjá og hvergi skjól fyrir næðingnum og skafrenningnum sem oft fyllti götur og gerði þær mjög oft torfærar á vetrum.

Í Mosfellspóstinum sem þá kom út mátti oft sjá lesendabréf garðeigenda sem skömmuðust út af öllum rollunum sem víða óðu um garðana og átu allt sem tönn á festi.
Þá voru Mosfellingar einungis rúmlega 2.000 að tölu. Síðan hefur Mosfellingum fjölgað mjög mikið og verið iðnir við að rækta garðana sína og sinna nánasta umhverfi sínu. Er nú svo komið að Mosfellsbær er eitt af fegurstu sveitarfélögum landsins sökum fjölbreytts gróðurs.

Ég er þakklátur Mosfellingum fyrir að veita mér viðurkenningu á bæjarhátíðinni fyrir störf mín tengd umhverfismálum. Hún er mér dýrmæt og mun hvetja mig áfram við að halda áfram mínu striki þótt einhver óvænt hliðarspor verði.
Góðar stundir!

Guðjón Jensson
Arnartanga 43
Mosfellsbæ

Unnur Pálmarsdóttir

Haustið er tíminn – Fimm ráð til að koma sér af stað

Unnur Pálmarsdóttir

Unnur Pálmarsdóttir

Helstu kostirnir við að gera líkamsrækt að lífsstíl og stunda daglega eru aukið heilbrigði, andleg og líkamleg vellíðan.
Þegar við breytum slíkum lifnaðarháttum þá fylgir aukin orka, ónæmiskerfið verður sterkara, bætt sjálfsmynd og aukið sjálfstraust.

Hér eru fimm kostir þess að stunda reglulega líkamsrækt og hreyfingu allt árið.

1. Bætir skapið og styrkir ónæmiskerfið
Þarftu að fá útrás? Eða þarftu að losa um streituna eftir erfiðan dag? Iðkun líkamsræktar eða ganga 30 mínútur rösklega getur hjálpað við að losa um streitu.
Líkamsrækt örvar ýmis efni heilans sem gera þig tilfinningalega hamingjusamari og hefur áhrif á eigin vellíðan sem gerir það að verkum að við verðum enn skapbetri í skammdeginu. Ónæmiskerfið styrkist með daglegri líkamsrækt og hreyfingu. Sjálfstraust og vellíðan á líkama og sál eykst.

2. Borðaðu á þriggja tíma fresti
Borðaðu á tveggja til þriggja tíma fresti til að halda brennslunni gangandi. Þegar þú ætlar að taka þig verulega á þá er nauðsynlegt að skera niður sætindi, gosdrykki, kex og kökur.
Allt er þó leyfilegt einu sinni í viku á nammidegi (t.d. á laugardögum). Verið dugleg að drekka nóg af vatni yfir allan daginn og einnig meðan á æfingu stendur. Vatn er allra meina bót.

3. Haltu matardagbók
Mjög gott er að halda utan um mataræðið sitt með því að skrifa matardagbók. Með því að halda matardagbók fær maður betri yfirsýn yfir það sem maður lætur ofan í sig og hefur betri yfirsýn yfir fæðuval.
Ég mæli með að borða fimm til sex máltíðir á hverjum degi. Það er morgunmatur, millimál, hádegismatur, millimál, kvöldmatur og kvöldsnarl.

4. Betri svefn
Áttu í erfiðleikum með svefn? Regluleg hreyfing getur hjálpað þér að sofna og dýpkar svefn þinn. Stundaðu líkams- og heilsurækt daglega og þú munt finna mun á svefninum.
Þegar við stundum meiri hreyfingu þá þurfum við meiri svefn. Svefnleysi getur m.a. stuðlað að því að þú borðar meira og finnur frekar til svengdar. Því er nauðsynlegt að ná góðum svefni til að ná meiri árangri í heilsurækt.

5. Betra kynlíf
Finnst þér þú vera of þreytt/ur eða langar ekki að njóta líkamlegrar nándar við maka þinn? Regluleg líkamsrækt getur haft jákvæð áhrif á kynlíf þitt. En það er meira en það. Regluleg hreyfing getur valdið aukinni örvun fyrir konur.
Karlmenn sem æfa reglulega eiga minni líkur á að lenda í vandræðum með ris­truflanir en þeir sem nýta ekki orkuna í að stunda reglulegt kynlíf. Kynlíf er hollt fyrir líkama, nándina og sálina.

Líkamsrækt er lífstíll
Íþróttir og líkamsrækt er besta og skemmtilegasta leiðin til að varðveita eigin heilsu. Við eigum aðeins einn líkama og heilsan okkar er það dýrmætasta sem við eigum. Líkamsrækt gefur þér tækifæri til að slaka á og njóta lífsins sem gerir þig hamingjusamari. Aukin líkamsrækt getur einnig hjálpað þér að tengjast betur fjölskyldu eða vinum í skemmtilegu félagslegu og hvetjandi umhverfi.

Ég vil hvetja þig kæri lesandi að byrja strax að hreyfa þig. Gangi þér vel!

Unnur Pálmarsdóttir, MBA
Mannauðs- og markaðsstjóri Reebok Fitness