Margrét Lúthersdóttir

Hatrið mun sigra?

Margrét Lúthersdóttir

Margrét Lúthersdóttir

Hatur. Þetta orð heyrum við mikið um þessar mundir. Hatrið mun sigra. Hatari. Hatursorðræða.
Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þeirri þróun sem hefur verið að eiga sér stað í nágrannalöndum okkar. Smátt og smátt verða fordómar og hatursorðræða í garð minnihluta- og jaðarhópa eins og innflytjenda, hælisleitenda, hópa sem deila stjórnmála-, lífs- og trúarskoðunum samofnir þjóðfélaginu okkar. Við hættum að gefa þeim gaum og rasistar bera þann titil jafnvel með stolti.
Eitt af hlutverkum Rauða krossins á Íslandi er að standa vörð um mannréttindi og mannlega reisn. Hluti grundvallarhugsjóna hreyfingarinnar byggist á þeirri einföldu reglu; mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi, sjálfstæði. Mikilvægt er að vekja athygli á því hvernig hatursorðræða smeygir sér inn í innstu kima samfélagsins, jafnvel án þess að við veitum henni sérstakan gaum. Áður en við vitum af þykir ekkert tiltökumál að vera kallaður rasisti sem ber fyrir sig tjáningarfrelsi. En hvers virði er frelsið ef það nýtist ekki þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu okkar?
Það er svo auðvelt og þægilegt að hugsa; við og hinir. Ég er ekki í þessum aðstæðum, þetta snertir mig ekki, en við erum öll mennsk. Það er okkar skylda að mæta öðrum manneskjum þar sem þær eru, gera ekki greinarmun á þeim eftir þjóðerni, uppruna, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum eða kynhneigð. Það er okkar skylda að veita jaðarsettum hópum samfélagins aðstoð og styðja þá við að koma undir sig fótunum á ný.
Það flýr enginn sitt heimaland án þess að hafa ríka ástæðu til. Ef þér og fjölskyldu þinni væri ekki stætt á Íslandi lengur, hvað myndirðu vilja varðveita af þínum menningararf á nýjum viðkomustað? Hverja myndirðu tala við? Hvernig myndi þér líða?
Áður en við berum fyrir okkur tjáningarfrelsið. Áður en við leiðum hatursorðræðuna hjá okkur. Áður en við reynum að hundsa það sem erfitt er. Hugsum um hvers virði tjáningafrelsið er, hvers virði þægindin eru, ef við getum ekki staðið vörð um mannréttindi þeirra sem verst standa.
Við verðum að láta gjörðir fylgja orðum og sýna þeim sem verst standa að okkur er ekki sama. Við erum tilbúin til að standa saman gegn hatrinu, gegn fordómum og gegn fáfræðinni. Við erum tilbúin að fræða.
Því hatrið mun ekki sigra.

Margrét Lúthersdóttir
Deildarstýra Rauða krossins í Mosfellsbæ

Stefán Ómar Jónsson

Mosfellsbær laði nýútskrifaða kennara til starfa

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Nýverið kynnti mennta- og menningarmálaráðherra hugmyndir sínar sem byggðar eru á tillögum sem unnar voru í samráði við Sambands ísl. sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Háskólann á Akureyri, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Heimili og skóla o.fl. um að bjóða nemendum á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi launað starfsnám sem og námsstyrk til þess að sinna lokaverkefnum samhliða starfsnáminu. Ráðherra gerir ráð fyrir að tillögurnar komi til framkvæmda á hausti komanda.
Af þessu tilefni lagði undirritaður bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar fram svohljóðandi tillögu á 736. fundi bæjarstjórna þann 3. apríl sl.:
„Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkir að stofna starfshóp sem fái það verkefni að móta með hvaða hætti Mosfellsbær geti laðað nýútskrifaða kennara til starfa í skólum Mosfellsbæjar í framtíðinni. “
Tillagan var samþykkt samhljóða og henni vísað til bæjarráðs til afgreiðslu. Á 1396. fundi bæjarráðs þann 24. apríl sl. var samþykkt samhljóða að vísa tillögunni til umsagnar framkvæmdastjóra fræðslusviðs Mosfellsbæjar.
Brautin er því bein í þessu efni eftir samhljóða samþykktir tillögunnar í bæjarstjórn og bæjarráði og vonast undirritaður til þess að umsögn fræðslusviðs verði með þeim hætti að Mosfellsbær setji sig í stellingar til þess að, bæði vinna með tillögum ráðherra um þetta efni og í leiðinni stígi einhver þau skref að Mosfellsbær geti tryggt sér í auknum mæli réttindakennara til starfa í bæði leik- og grunnskólum bæjarins.
Í greinargerð undirritaðs með tillögunni segir þetta:
„Bæjarráði verði falið að skipa starfshópinn, en hann skoði meðal annars hvernig samstarfi skóla Mosfellsbæjar við mennta- og menningarmálaráðuneytið og háskóla vegna fyrirhugaðs starfsnáms kennaranema verði best háttað og vinni tillögur um hvernig Mosfellsbær getur laðað til starfa nýútskrifaða kennara til dæmis með því að veita þeim laun á starfsnámstíma þeirra hjá Mosfellsbæ og eða styrk þegar þeir hefja störf að lokinni útskrift, gegn því að þeir skuldbindi sig til þess að starfa í tiltekinn tíma hjá bænum.“

Stefán Ómar Jónsson
Bæjarfulltrúi L lista Vina Mosfellsbæjar

Ása Þ. Matthíasdóttir

Vinaliðaverkefni í Varmárskóla

Ása Þ. Matthíasdóttir

Ása Þ. Matthíasdóttir

Vinaliðaverkefnið er norskt að uppruna. Það hefur á fáum árum náð mikilli útbreiðslu og er nú starfrækt í yfir 1000 skólum í Noregi.
Vinaliðaverkefnið gengur út á það að hvetja nemendur til meiri þátttöku í afþreyingu í frímínútum og skapa betri skólaanda. Verkefnið hófst í yngri deild skólans, þar sem nemendum í 4.-6.bekk bauðst að taka þátt en unglingadeild skólans bættist svo við þar sem nemendur þróuðu verkefnið áfram fyrir 7.-10.bekk og buðu upp á afþreyingu við sitt hæfi.
Eitt leiðarljós verkefnisins er að nemendur hlakki alla daga til að mæta í skólann sinn og auki því jákvæðni og vellíðan en aðalmarkmið verkefnisins er að vinna gegn einelti með því að bjóða upp á jákvæða afþreyingu á skólalóðinni í frímínútum.

Þeir nemendur sem eru kosnir til að vera vinaliðar fá sérstakt leikjanámskeið og leiðtogaþjálfun. Þeir sjá um að setja upp stöðvar í frímínútum á mánudegi til fimmtudags. Vinaliðar eiga að láta vita af því ef þeir halda að nemendum leiðist, séu einmana eða ef þeir verða vitni að einelti, útilokun eða öðru sem getur valdið vanlíðan. Vinaliðar fara á fundi reglulega, ákveða skipulag verkefnanna tvær vikur fram í tímann og stýra leikjum á skólalóðinni með stuðningi fullorðinna gæsluaðila.
Mín upplifun er sú að vinaliðaverkefnið sé kærkomin viðbót sem forvörn gegn einelti. Það skiptir gríðarlega miklu máli að nemendur hafi möguleika á jákvæðri afþreyingu í frímínútum. Þegar nemendur fara út í frímínútur vita þeir upp á hvaða leiki verður boðið, leikjastöðvar eru tilbúnar og allir eru hvattir til að taka þátt. Helst af öllu myndum við vilja útrýma einelti, en á sama tíma erum við meðvituð um að það getur reynst afar erfitt.

Í dag er skynsamleg notkun upplýsingatækninnar ofarlega á baugi. Ein af áskorunum foreldra og skóla er að setja börnum okkar mörk er kemur að notkun snjalltækja. Samskipti, heilsa og heilbrigði eru og verða mikilvægir þættir í skólastarfi, að eiga samskipti augliti til auglitis við annað fólk, fá nægan svefn og borða næringarríkan mat og hreyfa okkur.
Í vinaliðafrímínútum eiga nemendur sannarlega í samskiptum við aðra, hreyfa sig og víðast hvar er lögð áhersla á að snjalltæki séu lögð til hliðar á meðan. Það hefur sýnt sig í þeim skólum sem verkefnið hefur verið innleitt en árangurinn hefur komið hratt og örugglega í ljós, nemendum til hagsbóta og það höfum við orðið vör við í okkar skóla. Það er mitt mat að vinaliðaverkefnið sé mjög góð viðbót við allt það góða starf sem fram fer í Varmárskóla.
Nú er ég að ljúka mínum störfum fyrir Varmárskóla, en þar hef ég starfað síðastliðin 13 ár sem stuðningsfulltrúi og hef verið verkefnastjóri Vinaliðaverkefnis í 4 ár.
Ég geng stolt frá borði og er þakklát fyrir þá reynslu að hafa starfað í grunnskóla og ekki síst unnið með frábæru fólki, stjórnendum, kennurum og öðru starfsfólki.

Ása Þ. Matthíasdóttir
verkefnastjóri vinaliðaverkefnisins í Varmárskóla

Guðjón Jensson

Mosfellsheiði

Guðjón Jensson

Guðjón Jensson

Árbók Ferðafélags Íslands 2019 kemur óvenjusnemma þetta vorið eða í fyrrihluta apríl. Á liðnum árum hefur útkoman verið nokkru síðar eða í maí.
Að þessu sinni er Mosfellsheiðin tekin fyrir og er margt gott að finna í ritinu einkum þar sem lýst er leiðum eftir gömlum en misjafnlega niðurföllnum vörðum. Munu vera nálægt 800 vörður og vörðubrot á heiðinni en Mosfellsheiði var lengi vel ein fjölfarnasta leið í landinu og er enn.
Sitthvað má finna að þessu verki. Titill árbókarinnar er Mosfellsheiðin en spyrja má hvar höfundar þessa rits draga mörkin því einn kaflinn er teygður á gamla þingstaðinn og getið allra þeirra hátíða sem þar fóru fram allt frá 19. öld. Auðvitað áttu þeir sem leið á Þingvöll oftast leið um Mosfellsheiði en hefði ekki þurft að minnast á þetta atriði sérstaklega í titli verksins ef þetta átti að vera hluti ritsins?
Ein mjög slæm staðreyndavilla kemur fram í bókinni. Fyrrum var Seljadalur í Mosfellsbæ mikilvægur vettvangur seljabúskapar fyrrum. Örnefnið Seljadalur ber með sér að þar hafi verið tvenn eða jafnvel fleiri sel þar í Dalnum. Þekkt er Nessel undir suðurhlíð Grímannsfells en hvar er hitt eða hin selin? Við mynni hans er gömul rétt, Kambsrétt sem var lögskilarétt fram um miðja 19. öld. En um miðja þá 16. verða siðskiptin sem bókstaflega gjörbyltu íslensku samfélagi. Má um það lesa í ritgerð um Þingvallaskóg í Skógræktaritinu 2010.

Viðeyjarsel var eftir máldögum í Seljadal en bókarhöfundar flytja það suður fyrir Lækjarbotna undir Selfjall.
Eitt frægasta hestakvæði á íslenskri tungu er án efa Fákar. Sagt er að Einar Benediktsson hafi fengið hugmyndina að þessu einstaka kvæði á reið sinni um Mosfellsheiðina. Í nokkurs konar boðsriti um þessa bók var á þetta minnst en einhverra hluta vegna hefur þetta ekki ratað í árbókina sem verður að teljast mjög miður. Í staðinn er vikið að gamalli kjaftasögu sem Jón Ólafsson ritstjóri 18 blaða kom á flot en þegar Einar Benediktsson var á leið haustið 1904 austur í Rangárvallasýslu sem nýskipaður sýslumaður, reið hann sökum fótarmeins í kvensöðli í stað venjulegs hnakks. Auðvitað átti þetta vissulega að vera vel valin sneið til skáldsins. Jón Ólafsson átti til að vera nokkuð dyntóttur og gat oft ekki setið á sárs manns höfði enda ritstjórinn til í ýmis konar uppákomur eins og frægt er í sögunni.

Frá Skálabrekku var Hjörtur Björnsson myndskeri og rithöfundur. Hann var þekktur fyrir náttúrurannsóknir sínar. Hann fann a.m.k. tvær sjaldgæfar jurtir við austurbrún Mosfellsheiðar.
Hjörtur dó ungur úr berklum og ritaði kennari hans, Ríkharður Jónsson myndskurðarmeistari, mjög fögur eftirmæli um hann í Vísi 1942. Nokkrum árum áður birtist ritgerð hans um örnefni á Mosfellsheiði í Árbók fornleifafélagsins 1939. En Hjörtur var mjög góður rithöfundur og hefði mátt segja ögn frá honum enda fáir á 20. öld sem tengjast jafn traustum böndum og hann.
Í kaflanum „Náttúrufar“ er gott yfirlit um jarðfræði heiðarinnar sem hefur verið mörgum jarðfræðingum mikill og góður efniviður. Þaðan hafa gríðarmikil grágrýtishraun runnið um langan veg og mótað landslag norðurhluta höfuðborgarsvæðisins. Árni Hjartarson jarðfræðingur hefur bent á að jarðfræðin er í raun nokkuð flóknari. Er bent á það í ritinu og vísað í heimildir.
Gróðurfar á Mosfellsheiði er á margan hátt nokkuð sérstætt. Í dag ber eðlilega mest á mosanum en svo hefur ekki alltaf verið. Gróðurfar hefur breyst mikið á Mosfellsheiði á liðnum öldum. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1704 er getið um að enn séu skógarleifar í landi Elliðakots. Sjálfsagt hefur rányrkja og einkum vetrarbeit sauðfjár gengið nærri birkinu, hinum upphaflega gróðri heiðarinnar.
Um gróðurfarið er einkum byggt á tölvupóstum sem farið hafa milli höfunda og Ágústar H. Bjarnasonar. Ekki ber ég neitt vantraust til hans en ég minnist þess hvergi að hafa rekist jafnoft vísað í tölvupósta og hér í þessu riti. Það verður að teljast mjög óvenjulegt. Tilvísanir og heimildir eru til þess ætlaðar að hefja rit á hærri stall og greinir eðlilega milli vísindarita og skáldsagna.

Það hefði aukið gildi ritsins um Mosfellsheiðina að dokað hefði verið með útgáfu og fengnir hefðu verið staðfróðir aðilar til að lesa yfir og bæta úr göllum. Ekkert mannanna verk er það fullkomið að ekki megi bæta það í einhverju.
Gallarnir eru nokkrir og hefur verið vikið að nokkrum þeirra hér. En mjög margt er vel ritað og sérstaklega þykir mér vel ritaðir kaflarnir um sæluhúsin sem byggð voru á 19. öld og fylgdi ferðamönnum við viðsjárverð veður bæði einsemd og jafnvel draugagangur. Gamlar ljósmyndir af sæluhúsunum á heiðinni eru birtar og hafa þær væntanlega ekki komið fyrir sjónir margra fram að þessu. Og ekki síðri er kaflinn um veitingastaðina eftir að þeir komu við sögu. Má segja að þarna sé upphafið að „sjoppumenningu“ landsmanna sem hvarvetna blasir við ferðamönnum á Íslandi í dag. Þessir veitingastaðir voru víða á leið ferðamanna yfir Mosfellsheiðina og einn þeirra meira að segja uppi nánast á háheiðinni, „Heiðarblómið“ sem bjartsýnn danskur maður kom á fót fyrir rúmlega öld. Þá er kaflinn um samgöngurnar á bifreiðaöld mjög vel ritaður og upplýsandi.

Þingvallaleiðin var eðlilega mjög oft farin. Hún tengdi landshluta saman, Faxaflóasvæðið við Suðurland og algengt var að farið var um Kaldadal og áfram norður að sumri. Langur kafli er um erlenda ferðamenn yfir heiðina og rakin ummæli þeirra um heiðina sem þeim þótti bæði löng og leiðinleg einkum þegar veður voru misjöfn. Þennan kafla hefði mátt stytta verulega enda ekki nauðsynlegt að segja nema í stuttu máli hvaðan þeir komu, hvert þeir fóru og hverja þeir hittu og höfðu misjafnlega reynslu af landsmönnum. Þar reyndi verulega á úthald mitt sem lesanda sem var spenntur að lesa meira um heiðina sjálfa.

Eitt þykir mér vanta um kaflann um Gamla Þingvallaveginn sem tengja mætti jafnframt nútímanum. Þessi gamli vegur var „hannaður“ fyrir ríðandi ferðamenn sem og umferð hestvagna. Í dag gætir sá misskilnings hjá sumum að með því að þræða gamla vegi sé ekki verið „að aka utan vega“. Þessir gömlu vegir voru lagðir með frumstæðri tækni og ekki ætlast til að eftir þeim væri ekið í þungum ökutækjum sem eru kannski 2-3 tonn. Þessir gömlu vegir voru „börn“ síns tíma og þarf að umgangast þá með virðingu. Mjög víða meðfram gamla Þingvallaveginum má allt of mikið af utanvegaakstri þar sem ekið hefur verið eftir að vegurinn sjálfur hefur orðið ófær.

Niðurstaða:
Ágætt og læsilegt rit sem betur hefði mátt úr garði gera. Ljósmyndir eru margar sem sumar hefðu mátt hafa verið teknar við betri aðstæður hvað birtu og árstíð varðar. Villur eru fáar nema nokkrar staðreyndavillur sbr. um Viðeyjarsel sem er flutt nokkuð úr leið. Frágangur ritsins er ágætur, meinlegar prentvillur engar en undirbúning hefði mátt betur vanda.

Guðjón Jensson

varmagrein

Menntun í takt við tímann

varmagreinMenntun og mannauður eru mikilvægar forsendur góðra lífskjara og því til mikils að vinna að yngsta kynslóðin fái þá menntun sem þörf er fyrir á hverjum tíma.
Fjórðu iðnbyltingunni sem þegar er hafin fylgja miklar breytingar á störfum og tækni. Sérfræðingar telja að 65% starfa sem grunnskólabörn munu vinna við séu ekki til í dag og að störf framtíðarinnar muni í auknum mæli byggjast á læsi á tækni og forritunarkunnáttu.
Nú þegar er misræmi á milli þeirrar færni sem atvinnulífið sækist eftir og færni þeirra sem eru á vinnumarkaði. Mikilvægt er því að efla kennslu í tækni og forritun til að mæta þessari hröðu samfélagslegu þróun.
Þótt tækni sé orðin samofin öllu okkar daglega lífi eru flest börn aðeins neytendur á tækni en skapa ekkert sjálf. Það má því segja að þau séu læs á tækni en ekki skrifandi. Í dag er hins vegar orðið nauðsynlegt að hafa grundvallarskilning á því hvernig þessi tæki virka.
Í gegnum forritunarkennslu læra börnin að nálgast vandamál með skapandi og lausnamiðuðum hætti auk þess sem þau þjálfast í rökhugsun, samvinnu og þrautseigju.
Nágrannasveitarfélög okkar eru að efla kennslu í tækni og forritun, auka framboð á forritunarnámi í skóla- og frístundastarfi og veita kennurum fleiri tækifæri til starfsþróunar. Í þeim skólum sem eru hvað lengst komnir er forritun orðin skyldufag sem má auðveldlega samþætta við aðrar greinar.
Hver er stefna og framtíðarsýn Mosfellsbæjar í upplýsinga- og tæknimálum? Í Vegvísinum svokallaða frá 2017 komu fram skýrar óskir kennara um endurskoðun fyrirkomulags á upplýsinga- og tæknimálum.
Nú þegar kennarar eru komnir með aðgang að vinnutölvum og búið er að tengja alla skólana við umheiminn er tímabært að tryggja skólunum tækjabúnað og veita kennurum nauðsynlegan stuðning við innleiðingu á fjölbreyttari kennsluháttum. Við verðum að undirbúa börnin fyrir framtíðina og veita þeim menntun í takt við kröfur nútímans.

F.h. stjórnar Foreldrafélags Varmárskóla
Elfa Haraldsdóttir

Úrsúla Jünemann

Útikennslustofan við Varmá

Úrsúla Jünemann

Úrsúla Jünemann

Nú leyfir heilsan mín mér loksins að ganga lengri vegalengdir en síðustu 2 árin. Ég kemst aftur á gamlar slóðir hér um bæinn okkar. Í dag löbbuðum við hjónin um Ævintýragarðinn eftir endalöngu fram og tilbaka. Þetta er orðið vinsælt og fallegt útivistarsvæði.
En ég varð fyrir áfalli þegar ég sá hvernig útikennslusvæðið Varmárskólans er útileikið. Þarna er búið að brjóta og bramla og eyðileggja allt sem hægt er að skemma. Ég veit ekki hversu lengi það er búið að vera svona.
Þetta þótti á sínum tíma með flottustu útikennslusvæðum á landinu og ég vann á sínum tíma við þróun þess. Ég notaði þá svæðið mikið í minni kennslu. Varmárskólinn fékk Grænfánann sem er viðurkenning fyrir starf í þágu umhverfismenntunnar og átti þetta fyrirmyndar útikennslusvæði þátt í því.
En núna virðist enginn lengur hafa áhuga á þessu starfi og ekkert annað er til ráða en að rífa og fjarlægja það sem stendur eftir af útikennslustofunni. Svona skemmdarverk eru slæm fyrirmynd. Þetta er ekki neinum til sóma og hefur neikvætt uppeldisgildi fyrir ungmennin okkar. Vonandi verður svæðið hreinsað sem fyrst. Spurningin er hvort þetta væri ekki með brýnustu verkefnum í „Okkar Mósó“.

ursula_greinÚrsúla Jünemann

Ólöf Kristín Sívertsen

Af hverju sofum við?

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Mikið hefur verið rætt um svefn og mikilvægi hans á síðustu misserum og ekki hvað síst í tengslum við tilfærslu klukkunnar.
Vissir þú til dæmis að nægur svefn styrkir ónæmiskerfið og gerir okkur betur í stakk búin til að mæta alls kyns umgangspestum? Að rannsóknir hafa einnig staðfest samhengi milli of lítils svefns og aukinnar hættu á of háum blóðþrýstingi, þunglyndi, offitu, sykursýki, heilablóðföllum og hjartaáföllum?
Í bókinni Why we sleep eftir dr. Matthew Walker kemur einnig fram að nægur og góður svefn bætir námsgetu, rökhugsun og minni auk þess að gefa okkur betri stjórn yfir tilfinningum og matarlyst.

Svefnleysi skerðir lífsgæði
Við þekkjum það flest hversu erfitt það getur verið að komast í gegnum daginn eftir svefnausa nótt enda hefur sú iðja að svifta fólk svefni verið notuð sem pyntingaraðferð í gegnum aldirnar. Athygli okkar og einbeiting skerðist og við verðum pirruð, fyllumst orkuleysi og jafnvel vonleysi. Svefnleysi getur því haft mjög víðtæk áhrif á líðan okkar og hegðun og komið niður á starfi okkar, fjölskyldu- og félagslífi.

Hvað þarf að sofa mikið?
Svefnþörf er einstaklingsbundin en fullorðnir þurfa að sofa a.m.k. 7-8 klst á sólarhring en börn og ungmenni þurfa talsvert meiri svefn. Sem dæmi má nefna að frá 5 ára aldri og fram á unglingsár er svefnþörfin á bilinu 9-11 klst. og upp í 15,5 klst. hjá yngri börnum.

Góður svefn hægir á öldrun
Svefn veitir hvíld, endurnærir hug og líkama og endurnýjar orkuna sem gerir okkur kleift að takast á við dagsins gleði og amstur.
Á heimasíðu Svefnrannsóknarfélagsins kemur fram að vaxtarhormón myndast í djúpum svefni fyrri hluta nætur. Þessi hormón stýra vexti hjá börnum og unglingum en eru einnig mikilvæg þeim sem eldri eru þar sem þau hraða endurnýjun á frumum líkamans og geta þar af leiðandi hægt á öldrun.

Í hraða nútímasamfélagsins virðist gildi svefns því miður alltof oft vanmetið og viðhorf til svefns nokkuð brenglað. Í hugum margra virðist það tengt dugnaði og atorkusemi að sofa lítið og stærir fólk sig stundum af slíku á meðan það að sofa virðist frekar tengt leti og metnaðarleysi.
Þarna er búið að snúa málinu alveg á hvolf því nægur svefn er ein af grunnþörfum mannsins og einfaldlega lífsnauðsynlegur til að ná þeim árangri sem við viljum ná í lífinu.

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Tökum höndum saman

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Umhverfis- og loftlagsmál eru mikið í umræðunni þessa dagana, það er líka mjög jákvætt hvað ungir krakkar eru orðnir meðvitaðir um þessi mál.
Þau geta haft mikil áhrif á aðra og hafa virkilega mikinn baráttuvilja til að koma í veg fyrir hlýnun jarðar með ýmsum leiðum. Þar er hægt að nefna Gretu Thunberg frá Svíþjóð sem berst fyrir framtíðinni.
Hún byrjaði með þöglum mótmælum í þeim tilgangi að fá fólk til að opna augun fyrir þessum vanda og hefur hún breytt út boðskapinn þannig að keðjan rúllaði af stað og fleiri og fleiri krakkar í öðrum löndum, þar á meðal Íslandi, eru farnir að hugsa meira um umhverfis- og loftslagsmál og gera sér grein fyrir því að ef allir leggjast á eitt í baráttunni fyrir umhverfis- og loftlagsvernd þá er hægt að hægja á og jafnvel koma í veg fyrir hlýnun jarðar.
Það er hægt og þú getur tekið þátt í því með því að flokka sorpúrgang frá heimilinu meira, labba meira, keyra minna, fljúga minna og kaupa minna af fötum og hætta eða minnka að kaupa óþarfa hluti sem gefa okkur gervigleði.

Ég hef verið svo heppin að vinna með frábærum hóp af ólíku fólki í umhverfisnefnd að gera umhverfisstefnu Mosfellsbæjar að veruleika. Nú er verið að leggja lokahönd á þá vinnu og vonumst við til að það hjálpi í þeirri alvarlegu stöðu sem loftslagsmálin stefna í ef ekki verður gripið til aðgerða í þeim efnum.
Tökum höndum saman og lofum sjálfum okkur því að við ætlum að gera betur í dag og næstu ár en við höfum gert hingað til.

„Við þurfum í raun að grípa til aðgerða núna. Við höfum 10-12 ár, rúman áratug, til þess að breyta því hvernig við lifum og koma í veg fyrir gríðarlegar afleiðingar sem hlýnun jarðar og súrnun sjávar mun hafa. Núna er tækifærið og við verðum að grípa það.“

Staðreyndir um þessi mál
Þannig munu jöklar og hafís bráðna og minnka og yfirborð sjávar hækka um allt að 7 metra á næstu 10 árum, með þeim afleiðingum að stór láglend landsvæði myndu sökkva, eins og hluti af Bangladesh, Hollandi og Flórída, og margar litlar úthafseyjar
Mosfellsbær er einn af eigendum að Sorpu sem er að taka í notkun gas og jarðgerðastöð sem verður í Álfsnesi. Hún verður tekin í notkun 2020 þar sem molta og metan verður búið til og verður því hægt að nýta það áfram sem er jákvætt fyrir umhverfið og gott er að taka jákvæð lítil skref sem verða að stórum markmiðum síðar.

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Fjalar Freyr Einarsson

Einvera – einföld leið til agastjórnunar

Fjalar Freyr Einarsson

Fjalar Freyr Einarsson

Einvera er aðferð til að stöðva hegðunarvanda með því að koma barninu úr þeim kringumstæðum sem það er í á skjótan og einfaldan hátt.
Aðferðin er notuð á börn á aldrinum tveggja til tólf ára. Um leið og barn sýnir óásættanlega hegðun fær það aðvörun þannig að talið er frá einum upp í þrjá. Fyrst er sagt „einn“ um leið og brotið á sér stað, sé brotið ekki þeim mun alvarlegra. Ef barnið lætur sér ekki segjast fer talningin upp í tvo. Dugi það ekki til fer talningin upp í þrjá og samhliða er sagt: „Einvera.“
Barninu er því næst fylgt á fyrir fram ákveðinn stað (þegar barnið er komið í þjálfun getur það farið sjálft) þar sem það bíður í einveru í jafnmargar mínútur og aldur þess er í árum. Fjögurra ára barn myndi þannig vera í einveru í fjórar mínútur.

Fjarri öðru heimilisfólki
Sumir agaráðgjafar telja áhrifaríkast að barnið sitji á stól t.d. í herberginu sínu þar sem það situr í einverunni án þess að mega hafa neitt fyrir stafni. Aðrir agaráðgjafar telja nóg að barnið sé í herberginu sínu og því sé frjálst að gera það sem það vill að undanskildum öllum raftækjum (sjónvarpi, síma, spjaldtölvum o.þ.h.).
Agaráðgjafar sem aðhyllast þessa aðferð eru þó sammála um að fjarlægja þurfi barnið þaðan sem hegðunin á sér stað og koma því á stað þar sem það er fjarri öðru heimilisfólki. Þess vegna er það kallað einvera því að barnið á að vera eitt.

Tíminn öllum ljós
Mikilvægt er að tíminn sem barnið er í einveru sé öllum ljós. Gott er að hafa sjónrænar klukkur (niðurteljara) eða svokallaða tímavaka hjá barninu svo það sjái hvað tímanum líður. Tímavakar fást t.d. í skólatengdum verslunum. Einnig er hægt að birta sjónrænar klukkur á tölvuskjá eða spjaldtölvu, en munið að barnið á ekki að leika sér í tölvunni.
Leitarorðið „timetimer online“ kemur þér á sporið. Barnið fylgist þannig sjálft með tímanum og kemur fram þegar klukkan sýnir að einverunni sé lokið.

Allir komast í kælingu
Kosturinn við einveru er að allir aðilar komast strax úr kringumstæðunum og í kælingu. Það er nefnilega þannig að við, hinir fullorðnu, þurfum stundum sjálfir stund til að ná áttum. Með því að barnið fari strax í einveru fer hinn fullorðni ekki að skamma barnið og æsa jafnvel sjálfan sig upp.
Þegar einverunni er lokið hefur barnið tekið út sína refsingu og engin orð þarf að hafa meira um það. Sé rétt að málum staðið veit barnið hvers vegna það var sett í einveru. Barnið kemur því úr einverunni búið að taka út sína refsingu og þarf ekki að kvíða eftirmálum.
Þegar um mjög ung börn er að ræða (tveggja til fjögurra ára) er samt skynsamlegt að útskýra fyrir barninu með einni til tveimur setningum hvers vegna það fór í einveru. Gott er að spyrja barnið hvort það viti af hverju það fór í einveru til að tryggja að skilningurinn sé til staðar.

Stöðva óásættanlega hegðun
Einveru er hægt að nota þegar stöðva þarf óásættanlega hegðun. Einveru ætti ekki að nota þegar börn neita að gera hluti s.s. að taka upp dótið sitt, sinna heimanámi eða æfingum. Einnig skal varast að nota einveru gagnvart öllu því sem miður fer. Veldu heldur örfá hegðunarbrot (tvö er alveg nóg) til að vinna með í einu, sérstaklega til að byrja með.
Sé einvera rétt notuð er hún örugg og árangursrík aðferð við að stöðva óásættanlega hegðun barns. Hægt er að finna gagnrýni á þessa aðferð eins og flest allt annað. Ég hef engu að síður engar rannsóknir séð sem sýna fram á að einvera skaði börn tilfinningalega að því gefnu að aðferðin sé rétt notuð.

Fjalar Freyr Einarsson, aga- og uppeldisráðgjafi
www.agastjornun.is

Una Hildardóttir

Nýtum kosningarétt okkar

Una Hildardóttir

Una Hildardóttir

Kæru Mosfellingar!
Dagana 7.–21. er vefur samráðsverkefnisins Okkar Mosó opinn fyrir tillögum íbúa. Með þátttöku í verkefninu geta bæjarbúar haft áhrif á forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ.
Í ár er gert ráð fyrir 35 milljónum króna í framkvæmdirnar og hækkar fjármagnið um 10 milljónir króna milli ára en í málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna var samþykkt að setja meira fjármagn í lýðræðisverkefnið Okkar Mosó.
Verkefnið byggir á hugmyndum um umræðulýðræði, þátttökulýðræði og þátttökufjárhagsáætlunargerð og því er ætlað að virkja aðkomu almennings að ákvarðanatöku við framkvæmdir sem snerta nærumhverfi sitt.
Verkefnið gekk vonum framar árið 2017 en 14% íbúa nýttu kosningarétt sinn. Í ár stefnum við á að gera betur og vonumst eftir 20% kjörsókn.
Fyrsta skref verkefnisins er áður­nefnd hugmyndasöfnun en allir íbúar Mosfellsbæjar 16 ára og eldri geta komið með tillögur á því stigi. Skora ég því á íbúa að skila inn hugmyndum á vefnum https://okkar-moso.betraisland.is en Mosfellsbær verður allur eitt svæði bæði í hugmyndasöfnun og kosningu.
Árið 2017 komu margar skemmtilegar hugmyndir frá bæjarbúum og urðu 10 þeirra að veruleika, til dæmis fuglaskoðunartígur meðfram Leirvoginum, blakvöllur á Stekkjarflöt og vatnsbrunnar og loftpumpur á hjólastígum bæjarins.

Tökum öll þátt og gerum góðan bæ enn betri.

Una Hildardóttir formaður lýðræðis- og mannréttindanefndar Mosfellsbæjar.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Leikskólar í Mosfellsbæ í fremstu röð

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Mosfellsbær leggur sig fram við að bjóða sem besta þjónustu í öllum sínum skólastofnunum. Dagforeldrar, ungbarnadeildir, leikskóladeildir og grunnskólar veita mikilvæga þjónustu sem skiptir flestöll heimili í bænum miklu máli.
Hér verður stuttlega fjallað um þjónustuna fyrir foreldra yngstu barnanna.

Fjölgun plássa á ungbarnadeildum
Á undanförnum tveimur árum hefur verið gert sérstakt átak í þjónustu við 12 – 18 mánaða gömul börn í Mosfellsbæ. Árið 2017 opnaði fyrsta ungbarnadeildin á leikskólanum Hlíð en stefnt er að því að árið 2021 verði leikskólinn Hlíð ungbarnaleikskóli fyrir eins til þriggja ára börn. Á leikskólanum Huldubergi er ein ungbarnadeild en markmiðið er að fjölga ungbarnaplássum smám saman eða eins og þörfin kallar á.
Næsta haust verður gert ráð fyrir alls um 70 plássum á ungbarnadeildum okkar. Á ungbarnadeildunum er lögð áhersla á tilfinningalegt öryggi, umhyggju, streitulaust umhverfi og aldurshæfandi örvun. Starf leikskólanna í Mosfellsbæ er einstakt þar sem fagmennska er ávallt í fyrirrúmi. Horft er til leikskólanna okkar varðandi ýmislegt í innra starfi eins og t.d. verkefnið Leikur að læra sem er ávallt notað á fleiri og fleiri leikskólum um allt land.
Mosfellsbær hefur einnig gert þjónustusamning við sjálfstætt starfandi ungbarnaleikskóla í Reykjavík sem tryggir pláss fyrir börn úr Mosfellsbæ.
Nú eru starfandi fjórir dagforeldrar með þjónustusamning við Mosfellsbæ og hefur verið auglýst eftir fleirum til þeirra starfa en foreldrar vilja gjarnan hafa val þegar kemur að gæslu fyrir svo ung börn. Dagforeldrar fá mikla fræðslu, upplýsingar og stuðning til að efla sig frekar í því starfi.
Foreldrar greiða sama gjald fyrir börn sín frá 13 mánaða aldri hvort sem þau eru hjá dagforeldri, á ungbarnadeild eða í almennu leikskólaplássi. Það gjald hefur lækkað um 10% sl. tvö ár.

Leikskólarnir
Í Mosfellsbæ eru átta leikskólar: Hlaðhamrar, Hlíð, Reykjakot, Leirvogstunguskóli, Höfðaberg, Hulduberg, Krikaskóli og sá nýjasti í Helgafellsskóla. Mikil fjölgun barna í bænum hefur kallað á fjölgun leikskólaplássa. Í Helgafellsskóla hefur verið brugðist við með því að hraða innritun yngri barna fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir í fyrstu.
Umhyggja starfsfólks er lykilatriði þegar kemur að starfi þessara leikskóla og daggæslu. Það er kappsmál okkar sem komum að fræðslumálum að foreldrar fái sem besta og faglegasta þjónustu fyrir börn sín. Þessi málaflokkur er stærsti málaflokkur sveitarfélagsins og er lögð mikil áhersla á gæði þjónustunnar og umgjörð starfsins. Við viljum að Mosfellsbær sé í fremstu röð hvað þessa þjónustu varðar.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Vorkoman og fermingar

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Á þessum tíma á hverju ári breytist takturinn í kirkjunni hér í Lágafellssókn. Það eru fyrstu vorboðarnir sem gefa nýjan takt – fermingarbörnin.
Nú er undibúningur komandi fermingarathafna genginn í garð og kominn á fullt skrið í kirkjunni. Væntanlega er það, eða verður einnig reyndin í fjölskyldum þeirra barna sem fermast. Tími eftirvæntingar og gleði.
Undanfarin mörg ár hefur tíðkast að birta nöfn barnanna í safnaðarblaðinu og bæjarblaðinu okkar, Mosfellingi. Þessi hefð hefur glatt margan manninn, nágranna, vini og fjarskylda ættingja, að sjá og gleðjast yfir að geta fylgst með að – „Já! – einmitt þessi stúlka eða drengur er að fermast“ – og geta sent þeim og fjölskyldum þeirra blessunaróskir í huganum, skeyti eða eitthvað annað.
Nú er sá tími liðinn að birting nafnanna sé heimil, því miður. Því veldur ný persónuverndarlöggjöf sem gekk í gildi á umliðnu hausti. Þar segir að upplýsingar um aðild að trú- eða lífskoðunarfélagi flokkast undir „viðkvæmar persónuupplýsingar“ sem megi aðeins birta með sérstöku samþykki viðkomandi einstaklinga og í tilfelli fermingarbarnanna, með samþykki foreldra þeirra. Hvort við í framtíðinni munum ráðast í þá framkvæmd að leita eftir og nálgast þær undirskriftir sem þetta útheimtir og hvort allir verða því hlynntir á eftir að koma í ljós.
Það eru 120 börn sem munu fermast í kirkjunum okkar, Lágafells- og Mosfellskirkju á þessu vori. Athafnirnar verða níu og verða fyrstu fermingarathafnirnar í Lágafellskirkju þann 24. mars næstkomandi kl. 10:30 og kl. 13:30.

Á næstu dögum mun safnaðarbréfið berast inn um lúguna á heimilum Lágafellssóknar, bæklingur með upplýsingum um helgihaldið, safnaðarstarfið o.fl. á komandi mánuðum, allt fram til haustsins. Í þessu blaði fylgja einnig sérstakar upplýsingar um væntanlegar fermingar ársins 2020 og skráningarblað. Athugið að safnaðarbréfinu er aðeins dreift á heimili sem leyfa „fjölpóst“.
Við viljum benda á að hægt verður að nálgast upplýsingarnar á heimasíðu kirkjunnar: www.lagafellskirkja.is.
Fyrir hönd Lágafellssóknar óska ég fermingarbörnunum og fjölskyldum þeirra til hamingju með ferminguna og daginn.

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir, sóknarprestur Mosfellsprestakalls.

Bryndís Haraldsdóttir

Samgönguáætlun og fjármögnun samgöngumannvirkja

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Nýverið samþykkti Alþingi samgönguáætlun, í fyrsta skipti til 15 ára með aðgerðaáætlun til 5 ára. Er það hluti af breyttum áherslum í Stjórnarráðinu um að horft sé til lengri tíma í allri stefnumótun. Umræðan um samgönguáætlun var að miklu leyti um hugmyndir að því hvernig hægt sé að hraða enn frekar uppbyggingu samgöngumannvirkja með gjaldtöku. Alþingi fól samgönguráðherra að koma fram með slíkar tillögur. Ísland er strjálbýlt land og vegakerfið okkar mjög umfangsmikið miðað við fólksfjölda. Fjárfestingarþörfin í heild er á milli 350–400 milljarðar kr.

Við útfærslu hugmynda um veggjöld er lögð áhersla á að við endurskoðun almennra gjalda, þ.e. olíu- og bensíngjalds og bifreiðaskatts, þarf að tryggja að sértæk gjaldtaka eins og veggjöld auki ekki álögur á bifreiðaeigendur umfram þann ábata sem hlýst af greiðara og öruggara umferðarflæði og bættu umhverfi.
Lögð er áhersla á að gætt verði meðalhófs við ákvörðun fjárhæðar gjaldsins og horft verði til þess að veita magnafslætti en einskiptisgjöldin verði hærri. Ekki er gert ráð fyrir að fjárframlög ríkissjóðs til samgönguframkvæmda lækki vegna gjaldtökunnar. Í umræðunni hefur það líka komið skýrt fram að ef komi til sölu ríkiseigna sé horft til þess að nýta þá fjármuni í samgöngumál.

Samgöngubætur í Mosfellsbæ
Í Mosfellsbæ eru tvær mjög brýnar framkvæmdir á áætlun. Fyrst vil ég nefna Vesturlandsveg milli Skarhólabrautar og Hafravatnsvegar, þar er nauðsynlegt að ráðast í öryggisumbætur og tryggja örugga og greiða umferð á 2+2 vegi með aðgreindar aksturstefnur. Nú er tryggt að af því verkefni verður á þessu ári.
Þá er það Þingvallavegur en nauðsynlegt er að tryggja þar öruggar samgöngur bæði fyrir þá sem í gegnum Mosfellsdal fara en ekki síður fyrir þá sem þar búa og þurfa að komast leiðar sinnar hvort sem er gangandi, hjólandi eða akandi.
Mosfellsbær hefur unnið að deiliskipulagi vegarins með hringtorgum, undirgöngum og öruggum hjóla- og göngustíg. Þessi framkvæmd er nú komin á samgönguáætlun og verður vonandi lokið að fullu árið 2021.

Borgarlína og breyttar samgönguvenjur
Öll borgarsamfélög í heiminum leggja áherslu á auknar almenningssamgöngur. Ástæðan er helst betri landnýting og bætt borgarsamfélag en ekki síður loftslagsmál og umferðaröryggismál.
Við vitum að okkur mun fjölga og ef við náum ekki að breyta ferðavenjum mun umferð bíla aukast um 40% fram til ársins 2030. Það væri þvert á stefnu sveitarfélaganna og myndi tryggja að við næðum ekki markmiðum okkar í loftlagsmálum.
En þrátt fyrir breyttar ferðavenjur mun umferðin aukast um allt að 24% á þessum tíma. Þörfin er því brýn bæði í bættum stofnvegum og öflugri almenningssamgöngum. Því er brýnt að hugmyndir að Borgarlínu verði að veruleika í góðu samstarfi ríkis og sveitarfélaga.

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Sjálfstæðisflokks

Arna Hagalínsdóttir

Hugurinn skapar þann veruleika sem við upplifum…

Arna Hagalínsdóttir

Arna Hagalínsdóttir

Í janúar er ár frá því að ég tók þeirri áskorun að stíga inn í okkar pólitíska umhverfi. Árið hefur verið mér afar lærdómsríkt og ég er ykkur einstaklega þakklát fyrir allan þann stuðning sem mér hefur verið sýndur.
Eftir síðustu kosningar tók ég sæti varabæjarfulltrúa sem 5. maður á lista Sjálfstæðisflokksins og sit í fræðslunefnd bæjarins.

Það sem af er kjörtímabilinu hef ég lagt mig fram að kynnast málefnum bæjarins, sækja bæjarstjórnafundi og sinna starfi mínu í fræðslunefnd. Ég er afar stolt af bænum okkar og öllu því starfi sem hér er í gangi og ekki síst öllu því góða fólki sem leggur sitt af mörkum til að gera bæjarfélagið eins og það er í dag.

Á bæjarstjórnarfundum er oft tekist á um málefni þar sem ólíkar skoðanir mætast í lýðræðislegu samfélagi. Þetta getur verið flókið samspil enda skapar hugurinn þann veruleika sem við upplifum og sem varabæjarfulltrúi hef ég fengið einstakt tækifæri til að hlusta, skilja og sjá. Sjá hvernig umræðan sem ætti að vera málefnaleg helgast af misskilningi aðila á milli.

Bæjarstjórn okkar Mosfellinga er skipuð 6 stjórnmálaflokkum og þrátt fyrir ólíkar áherslur og frábrugðinn skilning á samvinnu og samlyndi á hinum ýmsum málefnum má finna einhug innan meirihlutans og okkar sjálfstæðismanna. Einhug um að skapa sterkt og öflugt samfélag. Samfélag sem hefur ekki einungis það hlutverk að auka velferð okkar heldur einnig að flétta saman þá þætti sem þarf til þess að tryggja velferð okkar bæjarbúa.

Einn þessara þátta er m.a fræðslunefndin. Í fræðslunefnd bæjarins situr gott og efnilegt fólk og við getum sagt með stolti að við eigum góða og öfluga skóla hér í Mosfellsbæ. Inni í fræðslunefnd sé ég að innan veggja skólanna eru góðir og metnaðarfullir kennarar, nemendur, stjórnendur og annað starfsfólk sem alla daga leggja sitt af mörkum við að gera sitt besta. Ég finn að utan veggja skólanna stendur kröftugur hópur foreldra sem óskar sér einskis annars en að börnum þeirra vegni vel.
Utan um þennan hóp allan heldur svo fræðsluskrifstofa bæjarins sem einnig leggur allt sitt af mörkum að aðstoða við að láta alla þessa ólíku hópa og skoðanir mætast til að skólasamfélagið í heild gangi upp í ört stækkandi bæjarfélagi. Það er heiður að fá að taka þátt í þessu starfi, fá tækifæri til að hlusta, sjá og læra inn á ólíkar skoðanir og skapa þann veruleika sem við upplifum.

Ég hlakka til að halda áfram að starfa í þágu bæjarins og í samstarfi við ykkur sinna starfi mínu í fræðslunefnd og sem varabæjarfulltrúi.

Arna Hagalíns, varabæjarfulltrúi
og nefndarmaður í fræðslunefnd.

Gunna Stína Einarsdóttir

Blakið að Varmá – glæsileg viðbót!

Gunna Stína Einarsdóttir

Gunna Stína Einarsdóttir

Frá því að blakdeild Aftureldingar tefldi fram liði í efstu deild á Íslandi hefur Afturelding ávallt verið í keppni um efstu sætin í úrvalsdeild kvenna.
Í haust var ákveðið að spila á ungu og reynsluminna liði bæði í meistaraflokki karla og kvenna með aðstoð frá eldri og reyndari leikmönnum. Markmiðið var og er að spila á heimafólki. Kvennaliðið situr nú í 4. sæti deildarinnar og karlaliðið í 3. sæti þegar nokkrar umferðr eru eftir.
Leikmenn og stjórn blakdeildar hafa lengi beðið eftir því að gólfið í sal 3, gamla salnum að Varmá, yrði endurnýjað og rættist draumurinn um jól og áramót þegar Mosfellsbær í samstarfi við Aftureldingu settu á glæsilegt gólf og eru leikmenn ákaflega ánægðir með undirlagið og ekki síður yfir því hversu birtan í salnum eykst og umgjörðin svo miklu betri og flottari.
Snemma var farið að ræða það að gera eins og gert er víða erlendis, að hafa myndir af leikmönnum hangandi í salnum þar sem blakið æfir og keppir og fóru leikmenn meistaraflokkanna í fjáröflun til að fjármagna það verkefni. Blakdeildin hefur nú látið útbúa fána með myndum af öllum leikmönnum okkar í efstu deildum, bæði karla og kvenna. Jakob Jóhannson grafískur hönnuður sá um alla vinnu og hönnun á fánunum og má sjá afraksturinn í opnu blaðsins í dag þar sem við erum með kynningu á leikmönnum okkar.
Við erum ákaflega ánægð með útkomuna og vonumst við til þess að fá að setja fánana upp í salinn þar sem við æfum og keppum, bæði til að hafa fyrirmyndir okkar sýnilegar yngri iðkendum en einnig myndi það að okkar áliti gera salinn enn flottari og heimavöllinn okkar svo sannarlega að Aftureldingargryfju.
Bæði karla- og kvennaliðið eru komin áfram í 8-liða úrslit Kjörísbikarsins og eiga þau bæði leik í vikunni. Karlaliðið á útileik við lið Álftaness í kvöld (fimmtudag) kl. 19:00 og á sunnudaginn fær kvennaliðið HK í heimsókn og hefst leikurinn kl. 15:00 að Varmá.
Við hvetjum Mosfellinga til að mæta á leikina og hvetja okkar lið því sigur í þessum leikjum gefur miða í „Final 4“ helgina sem spiluð verður í Digranesi 22.-24.mars nk. svo það er til mikils að vinna.
Þjálfari kvennaliðs Aftureldingar í blaki er Piotr Poskrobko og þjálfari karlaliðsins er Piotr Kempisty sem spilar einnig með liðinu og er númer 15 á mynd með karlaliðinu.
Áfram Afturelding!

Gunna Stína Einarsdóttir
Formaður blakdeildar Aftureldingar