Gunnlaugur Johnson

„Fermetrar með þaki“ eða byggingarlist

Gunnlaugur Johnson

Gunnlaugur Johnson

Undanfarin misseri hefur mikið verið byggt í Mosfellsbæ. Ný hverfi hafa risið í Helgafellslandi og Leirvogstungu, íbúðabyggingar af ýmsum stærðum og gerðum. Sömuleiðis hefur atvinnuhúsnæði verið byggt við Desjamýri, og víða eru framkvæmdir inni í eldri hverfum bæjarins.
Undirritaður hefur setið síðastliðin 3 ár í skipulagsnefnd sem fulltrúi Íbúahreyfingarinnar og fylgst með þessari framkvæmdasemi á ýmsum stigum og reynt að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að beina þeim í farsælan farveg.
Við hönnun byggingar er að ýmsu að hyggja. Hún þarf að uppfylla kröfur og þarfir húsbyggjandans en jafnframt að falla vel inn í umhverfi sitt, og vera augnayndi fyrir nágranna og aðra. Hún þarf að samræmast fyrirliggjandi deiliskipulagi og uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar.
Rétt eins og við aðrar athafnir mannanna eru margir sem koma að svona verki; hver fagmaður veit hvar hans hæfileiki og þekking nýtist best og sinnir sínu hlutverki af kostgæfni og alúð.
Eða hvað?
Við uppskurð koma ýmsir að verki, skurðlæknir, hjúkrunarfræðingar, svæfingarlæknir, lyfjafræðingar og fleiri. Allir vita hvað til síns friðar heyrir og engum dettur í hug að sinna öðru en sínu hlutverki.
Við hönnun bygginga ætti sama verklag að gilda. Arkitektinn hannar bygginguna með tilliti til rýmisuppbyggingar og flæðis, stýrir birtu og litavali og nýtir listfengi sitt til að byggingin sé prýðileg umhverfinu. Verkfræðingurinn sér um að húsið sé traust og öruggt og uppfylli fagurfræðilegar væntingar arkitektsins, og tækni- og byggingarfræðingurinn tryggja að húsið hvorki leki né mygli eða sé tæknilega ófullnægjandi. Síðan eru gerðar lagnateikningar fyrir rafmagn og hitaveitu, vatnslagnir og fráveitu og ýmislegt annað. Oft kemur landslagsarkitekt að hönnun umhverfis hússins, veranda og garðs. Allir vita hvað til síns friðar heyrir og engum dettur í hug að sinna öðru en sínu hlutverki.
Því miður er veruleikinn annar í raun. Löggjafinn lítur svo á að allir sem eiga tölvu með teikniforriti hljóti að geta gert það sama, og því skuli þeir allir hafa sömu réttindi. Allmargir bygginga- og tæknifræðingar gefa sig út fyrir að vera jafn hæfir arkitektum við húsahönnun, þótt uppbygging náms þeirra sé á engan veg sambærileg, og taka að sér að gera aðalteikningar af húsum.
Þessu hefur verið líkt við að gefa slátrara læknisleyfi. Húsbyggjendur eru grandalausir og treysta sínum hönnuði í blindni. Þegar svo byggingin er risin og mistökin og klúðrið blasa við er of seint að iðrast.
Vitaskuld er ekkert mál að búa í vondu húsi. Maður getur sofið víðast, salernið virkar yfirleitt og gegnumsneitt kemst maður af fyrirhafnarlítið. En þó skynja allir á eigin skinni muninn á „fermetrum með þaki“ og góðri byggingarlist, og oftast er byggingarlistin ódýrari þegar til kastanna kemur, og ánægjulegri, bæði fyrir eigandann og umhverfið.
Sem nefndarmaður í skipulagsnefnd hef ég því miður horft upp á hvernig húsbyggjendur í Mosfellsbæ hafa látið vanhæfa aðila hanna sín hús og þannig klúðrað þeim möguleikum sem spennandi lóðir hafa boðið upp á.
Ég hef margoft lýst eftir byggingarlistarstefnu Mosfellsbæjar, sem boðuð er í núverandi aðalskipulagi en hefur ekki enn séð dagsins ljós. Gildandi byggingarreglugerð er mjög yfirgripsmikil varðandi byggingartækni og öryggismál, en þar er hvergi tæpt á fagurfræði eða formskyni, sjónmenntun eða öðru sem gæti hjálpað byggingarfulltrúum landsins til að verjast verstu smekkleysunni.
Ég hvet alla sem hyggja á húsbyggingar að vanda val sitt á ráðgjöfum og muna að vel skal til þess vanda sem lengi á að standa.

Gunnlaugur Johnson
Höfundur er arkitekt og fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í skipulagsnefnd Mosfellsbæjar

Guðjón Jensson

Er gott að búa í Mosfellsbæ?

Guðjón Jensson

Guðjón Jensson

Á heimasíðu Mosfellsbæjar www.mosfellsbaer.is eru einkunnarorðin: „Virðing – Jákvæðni – Framsækni – Umhyggja“
Ekki veit ég hversu margir taka þessi orð alvarlega né hversu margir líta á þessa yfirlýsingu sem eins og hver önnur innantóm orð.
Þessi fjögur orð voru sett á heimasíðu Mosfellsbæjar fyrir um áratug. Sjálfsagt er að þeim sem þar áttu hlut að máli hafi ekki gengið nema gott eitt til.

Um aldamótin síðustu var vinstri meirihluti við stjórn í Mosfellsbæ. Á vegum hans var sett upp umræðusíða í tenslum við síðu Mosfellsbæjar sem margir Mosfellingar notuðu mikið, sumir jafnvel daglega. Á þessari umræðusíðu gátu Mosfellingar skrifað sitt hvað sem þeim þótti ástæða til að tjá sig um, bentu á sitt hvað sem betur mætti fara. Urðu þar oft mjög þarfar umræður um þessi mál.
En eitt yfirsást þeim meirihlutamönnum: að ráða sérstakan ritstjóra og umsjónarmann síðunnar. Ekki væri birt efni nema þar gætti hófsemi og um málefnaleg sjónarmið væri að ræða. Því miður urðu það endalok þessarar umræðusíðu að einn aðili tók sér það bessaleyfi og vald að birta oft á tíðum mjög óviðunandi athugasemdir við það efni sem var honum ekki að skapi. Varð þetta til að margir urðu miður sín og urðu jafnvel sárir fyrir svona uppivöðslusemi.
Sennilega hefur lýðræði íbúa aldrei komist jafnlangt og á þessum tíma í Mosfellsbæ.
Eitt af fyrstu verkefnum Sjálfstæðisflokksins eftir kosningarnar vorið 2002 var að taka ofan þennan spjallvettvang. Til stóð að endurvekja hann en nú er liðinn meira en hálfur annar áratugur án þess nokkuð hafi gerst né eitthvað bendi til að aftur verði tekinn upp þráðurinn.
Spurning er hvort „virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja“ séu ekki aðeins orðin tóm. Ég tel mig alla vega vera í þeim hópi efasemdarmanna.
Ég hefði gjarnan viljað benda á sitt hvað sem þarf að skoða betur í bæjarfélaginu. Eitt mjög lítið dæmi er að fyrir nokkru hefur einhver húseigandi bæjarins séð ástæðu til að saga ofan af trjám sem bæjarstarfsmenn gróðursettu um aldamótin. Hefði ekki verið æskilegt að íbúar bæjarins geti rætt saman um mál eins og þetta fremur en að einhver taki lögin í sínar hendur og eyðileggi að þarflausu opinberar eigur?
Kannski hefði farið betur að hafa samráð við íbúa á sínum tíma um hvort rétt væri að planta hávöxnum trjám rétt utan við stofugluggann. Sumar trjátegundir geta jafnvel orðið tugir metrar á hæð.

Það þarf að opna að nýju umræðugrundvöll á heimasíðu Mosfellsbæjar eins og vinstri meirihlutinn átti veg og vanda af á sínum tíma.
Þegar kosningar fara í hönd þá ræða Mosfellingar gjarnan um skattana sína og fyrir hvað þeir fá til baka í opinberri þjónustu: Er skólamálum nægilega sinnt? Hvað með málefni barnafjölskyldna? Hver er staða félagsmála, húsnæðismála og heilbrigðismála? Hvernig er staðið að umhverfismálum og almenningsþjónustu? Og hvað með málefni aldraðra? Þannig má lengi áfram telja.

Við viljum að tekjur sveitarfélagsins nýtist sem best og opið bókhald sveitarfélagsins er stór áfangi að opna lýðræðuslegar umræður.

Guðjón Jesson
Arnartanga 43

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Ég brenn fyrir verkefnunum

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Það eru forréttindi að fá tækifæri til að taka þátt í stjórnmálum í samfélagi eins og Mosfellsbæ. Í Mosfellssveit, sem hún hét þá, eyddi ég æsku minni áhyggjulaus þar sem vinirnir, hesthúsin, íþróttahúsið og skólinn, í þessari röð, skiptu mestu máli.
Það var langt til Reykjavíkur og við vorum sjálfum okkur næg framan af. Ég ólst upp í stórum systkinahópi og börðust foreldrar mínir í bökkum til að hafa ofan í okkur og á. Aðstæður heima voru ekki alltaf þær bestu en við lærðum að standa á eigin fótum og að ekkert kemur af sjálfu sér. Mosfellssveitin ól okkur upp og þurftum við ekki mikið en í þessu umhverfi fannst okkur við vera óhult.
Umhverfið og náttúran mótaði mig og gerir það að verkum að ég brenn fyrir því að börn eigi að búa í góðu og öruggu samfélagi. Auðvitað hafa tímarnir breyst. Það var ekki allt gott í gamla daga en þorpið sem ég var svo heppin að alast upp í á í mér hverja taug. Vinataugin á milli vina úr Mosó slitnar ekki svo auðveldlega og er svo ótrúlega gaman að heyra yngri kynslóðir segja einmitt það sama.
Eftir nokkurra ára fjarveru fannst mér mikilvægt að mín börn fengju að kynnast því sama og ég fékk að upplifa. Að eignast vini, fara í skólann, taka þátt í tómstundum og vera örugg í sínu samfélagi. Nú eru barnabörn að koma til sögunnar og á meðan ég hef orku til mun ég leggja mitt af mörkum til að Mosfellsbær verði áfram góður staður fyrir fólk til að halda utan um sína fjölskyldu. Þar skipta skólarnir mestu máli og þjónustan sem bærinn veitir.
Þetta er ástæðan fyrir þátttöku minni í stjórnmálum. Það er mikilvægt að fá að móta og bæta samfélagið. Það gerir enginn einn. Nú er aftur komið að kosningum og eftir að hafa íhugað málin vel, athugað bensínið á tanknum þá finn ég að eldmóðurinn og áhuginn er enn til staðar. Ég er ekki í pólitík til að koma höggi á aðra heldur til að gera samfélaginu gagn. Ég veit að reynsla mín og þekking kemur að gagni og hef því ákveðið að leggja mig alla fram eitt kjörtímabil í viðbót.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
bæjarfulltrúi býður sig fram í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ

Bjarki Bjarnason

Söfnun og endurvinnsla á plasti

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason

Sérsöfnun á plasti í Mosfellsbæ hefst 1. mars nk. Frá þeim degi geta Mosfellingar sett allt hreint plast í poka sem fer síðan í orkutunnuna (dökkgráu/svörtu tunnuna) við heimili bæjarbúa.
Söfnun þessi er samstarfsverkefni fjögurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem eru: Mosfellsbær, Hafnarfjörður, Garðabær og Seltjarnarnes.

Pokarnir verða fluttir í endurvinnslustöð SORPU þar sem þeir verða aðskildir frá öðru sorpi með sérstökum blástursbúnaði. Plastið verður síðan baggað, sett í gáma og flutt sjóleiðis til Svíþjóðar þar sem það verður endurunnið fyrir nýjar vörur. Flestar tegundir plasts er hægt að endurnýta, harðplast er til dæmis endurunnið sem efni í flíspeysur en það plast sem er ekki endurvinnanlegt verður brennt til orkunotkunar.
Þetta framfaraspor mun ekki hafa áhrif á gjaldskrá fyrir móttöku úrgangs úr orkutunnunni, enda er gert ráð fyrir að úrvinnslugjaldið kosti þær breytingar sem SORPA hefur lagt í vegna þessa verkefnis. Góður árangur í plastsöfnun getur hins vegar leitt til lækkunar á móttökugjaldi.

Örn Jónasson

Örn Jónasson

Á næstu vikum mun SORPA kynna þetta verkefni, í nánu samstarfi við sveitarfélögin fjögur. Það er von okkar að við náum strax sem bestum árangri í því, enda er það til mikilla hagsbóta fyrir umhverfi okkar og náttúruna. Því má þó ekki gleyma að framtíðarsýn okkar er ævinlega sú að minnka notkun á plasti sem allra, allra mest.

Bjarki Bjarnason,
formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.
Örn Jónasson, varaformaður.

Helga Jóhannesdóttir

Helga gefur kost á sér í 3. sæti

Helga Jóhannesdóttir

Helga Jóhannesdóttir

Ágætu Mosfellingar.
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ fyrir bæjarstjórnarkosningarnar nú í vor. Ég hef mikinn áhuga á málefnum bæjarins almennt, verkefnum bæjarins sem og þeirri þjónustu sem bærinn veitir íbúum sínum og er ég tilbúin að leggja mitt af mörkum næstu árin til að bæta og efla þjónustu bæjarins í þágu íbúanna.
Í prófkjörinu sem haldið verður laugardaginn 10. febrúar nk. sækist ég eftir 3. sæti á lista Sjálfstæðismanna.
Mínar áherslur er tengjast verkefnum og þjónustu bæjarins eru skýrar en sjálfsögðu verða þær að samrýmast stefnu þeirri sem mótuð er og verður gildandi fyrir Mosfellsbæ sem bæjarfélag.
Áframhaldandi ábyrg fjármálastjórn er forsenda góðra verka í bæjarfélaginu sem og skilvirk og gagnsæ stjórnsýsla. Samskipti bæjarbúa við bæjaryfirvöld eiga að mínu mati að byggja á einföldu en öruggu fyrirkomulagi.
Í ört vaxandi bæjarfélagi er að mörgu að hyggja í skipulagsmálum. Samgöngumál í bæjarfélaginu þarf að skoða og jafnvel endurskipuleggja, og samhliða því þarf meðal annars að byggja upp miðbæjarkjarna með góðri þjónustu bæjarbúum í hag.
Í dag tekur það okkur Mosfellinga oft ansi langan tíma að sækja vinnu og þjónustu til nágrannnasveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þessu þurfum við að breyta og er orðið tímabært að skoða þá möguleika sem í boði eru til að stytta ferðatíma okkar meðal annars til og frá vinnu.
Skólamál skipta okkur öll miklu máli og er mikilvægt að umgjörð skólanna sé til fyrirmyndar. Hér eru það sjálfir skólarnir og aðstaða sú sem við bjóðum starfsfólki þess og nemendum sem við þurfum að huga vel að. Þar er okkur öllum mikilvægt að aðstaðan sé í góðu lagi og að við bjóðum upp á þann aðbúnað og aðstöðu sem þarf til í skólunum.
Foreldrar með ung börn eiga að hafa kost á því að börn þeirra geti farið á ungbarnaleikskóla. Þetta er að mínu mati sjálfsagður hlutur í dag þar sem samfélag okkar hefur breyst mikið og mikilvægt að þessi valkostur sé í boði.
Ég hef verið svo heppin að fá að taka þátt í starfi Aftureldingar og síðan Ungmennafélags Íslands í nokkur ár, en þar hef ég kynnst æskulýðs- og íþróttahreyfingunni vel. Íþrótta- og félagsstarf eru góðar forvarnir fyrir alla bæjarbúa óháð aldri.
Við eigum að mínu mati sem sveitarfélag að efla og auka þátttöku bæjarbúa í félags- og íþróttastarfi. Mosfellsbær býður upp á góða aðstöðu og yndislegt umhverfi, en alltaf má gera betur og efla þarf bæjarfélagið sem Heilsueflandi samfélag.
Verkefnin eru mörg og fjölbreytt og það er margt sem við getum gert og lagt áherslu á. Ég hef einungis nefnt hér lítinn hluta þeirra verkefna sem eru bæjarins. Umhverfismál, menningarmál, málefni eldri borgara, félagsmál, atvinnumál eru sem og önnur verkefni einnig mikilvæg.
Málefni Mosfellinga eru okkar mál og það er okkar að huga vel að bæjarbúum óháð aldri þeirra, kyni, efnahag, búsetu, félagslegri stöðu eða áhuga.

Helga Jóhannesdóttir

Haraldur Sverrisson

Bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu

Haraldur Sverrisson

Haraldur Sverrisson

Töluverð umræða hefur verið að undanförnu um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.
Þessi umræða hefur snúist um ástandið eins og það er í dag en sífellt lengri tíma tekur að ferðast um höfuðborgarsvæðið á álagstímum. Einnig hefur umræðan snúist um hver stefnan eigi að vera til framtíðar og hverjir séu valmöguleikarnir í stöðunni.

Hágæða almenningssamgöngur eða einkabíll?
Staðan í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu er víða orðin óviðunandi. Ferðatími hefur aukist, biðraðir lengst og á þetta sérstaklega við á álagstímum, þ.e. á morgnana og síðdegis. Þetta ástand skapast fyrst og fremst vegna fjölgunar íbúa, stóraukinnar bílaeignar og fjölgunar ferðamanna.
Samkvæmt spám á íbúum á höfuðborgarsvæðinu eftir að fjölga mikið á næstu árum eða um 70 þúsund fram til ársins 2040. Ef ekkert verður að gert mun því ástandið í samgöngumálum íbúa höfuðborgarsvæðisins versna á næstu árum og áratugum. En hvað er til ráða? Einkum hafa tvennskonar lausnir verið nefndar til sögunnar, annars vegar hágæða almenningssamgöngur sk. Borgarlína og hins vegar að bæta þurfi vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu verulega.
Umræðan hefur litast af því að annaðhvort er talað fyrir borgarlínuverkefninu eða að það þurfi að bæta vegakerfið. En þetta er alls ekki svo, það þarf nefnilega hvoru tveggja til. Veruleg þörf er orðin á að leggja meira af vegafé ríkisins til að bæta stofnvegakerfið hér á höfuðborgarsvæðinu eftir áralangt svelti til þess að greiða fyrir umferð og gera hana öruggari. Samhliða er nauðsynlegt að hugsa almenningssamgöngukerfið upp á nýtt. Borgarlínuverkefnið sem öll sveitarfélög standa að er leið til þess. En Borgarlína er hágæða almenningssamgöngukerfi sem hefur mikla flutningsgetu, hátt þjónustustig og ferðast í sérrými, þ.e. kemst greitt milli staða óháð töfum í bílaumferð. Forsenda fyrir Borgarlínu til Mosfellsbæjar er að uppbygging í Blikastaðalandi og óbyggðum svæðum Reykjavíkurmegin eigi sér stað. Það verkefni mun taka þónokkur ár. Borgarlínan er því ekki að verða að veruleika í Mosfellsbæ á næstu árum. Mosfellsbær er þátttakandi í þessu verkefni og Borgarlínan verður hluti af þeim nauðsynlegu samgöngubótum sem þurfa að koma til á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum, ásamt því að byggja upp betra vegakerfi fyrir einkabílinn. Þetta tvennt þarf algjörlega að fara saman.

Nauðsynlegt er að bæta samgöngur í gegnum Mosfellsbæ
Vesturlandsvegur í gegnum Mosfellsbæ er einn umferðarmesti þjóðvegur landsins en þar aka um 30 þús. bílar að meðaltali á sólarhring. Hann er í dag 2+1 vegur að hluta og er orðinn farartálmi fyrir þá sem eru á leið út úr bænum eða í bæinn sem og Mosfellinga. Eins uppfyllir vegurinn ekki öryggiskröfur um umferðarmikinn veg eins og þennan. Tvöföldun vegarins er á samgönguáætlun en sú áætlun hefur ekki verið fjármögnuð að fullu af ríkissjóði. Brýnt er að ráðast í tvöföldun vegarins sem allra fyrst og ætti þessi framkvæmd að vera í fyrsta forgangi hvað varðar úrbætur á þjóðvegakerfi landsins.
Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ munu halda áfram að berjast fyrir því að þessi framkvæmd komist á koppinn sem allra fyrst því hún er afar nauðsynleg í öllu tilliti. Ég sem bæjarstjóri Mosfellsbæjar mun halda áfram að vinna í þessum málum og þrýsta á að aukið fjármagn fáist til samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu. Það á bæði við um bráðnauðsynlegar vegabætur og bættar almenningssamgöngur því ljóst er að verkefni eins og Borgarlína verður ekki að veruleika nema með verulegri kostnaðarþátttöku ríkisins.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri

Hildur Margrétardóttir

Framtíð Hlégarðs

Hildur Margrétardóttir

Hildur Margrétardóttir

Málefni Hlégarðs eru nú til umræðu í menningarmálanefnd Mosfellsbæjar.
Framtíð hússins er óviss en niðurstaða mikilvæg því hún hefur þýðingu fyrir svarið við þeirri spurningu hvort Mosfellsbær er úthverfi frá Reykjavík í félagslegu og menningarlegu tilliti eða bæjarfélag með sterka sjálfsímynd.

Um langt skeið hefur húsið verið leigt út til einkaaðila sem samið hafa um reksturinn við bæinn. Einn slíkur samningur er nú að renna sitt skeið og mál margra að rétt sé að endurskoða hann, áður en lengra er haldið, með það að leiðarljósi að efla félagslegan þátt starfseminnar og auka framboð og um leið fjölbreytni viðburða. Sú staðreynd að Hlégarður er eina samkomuhús Mosfellinga leggur bæjaryfirvöldum ríkar skyldur á herðar.

Félagsheimilið Hlégarður var byggt um miðja síðustu öld. Nú er 21. öldin gengin í garð og félagslegar forsendur allt aðrar. Sú spurning vaknar hvort yfirhöfuð sé þörf fyrir samkomuhús í Mosfellsbæ. Til þess að varpa ljósi á það er vert að skoða upphafið og rekja sig þaðan til dagsins í dag.

Upp úr 1900 urðu miklar breytingar á búsetu fólks á Íslandi. Þéttbýli tók að myndast og úr þeim jarðvegi spruttu m.a. ungmennafélög sem þurftu þak yfir höfuðið.
Í loftinu lá krafa um að blása lífi í íslenskt menningarlíf. Lítil samkomuhús litu dagsins ljós en eftir því sem leið á öldina fjölgaði stærri félagsheimilum á borð við Hlégarð.

Sigrún Pálsdóttir

Sigrún Pálsdóttir

Framan af hýstu þessi hús nánast allt félags- og menningarlíf á Íslandi en með tilkomu íþróttamiðstöðva, tónlistarhúsa, leikhúsa, danshúsa, skátaheimila, félagsmiðstöðva eldri borgara og húsnæðis fyrir ýmsa aðra félagsstarfsemi dró úr eftirspurninni. Samkeppnin við kvikmyndahúsin og sjónvarpið hafði líka sín áhrif.

Í upphafi voru samkomuhús samstarfsverkefni félagssamtaka og hreppa. Um miðja öldina lagði ríkið svo sitt lóð á vogarskálarnar með stofnun félagsheimilasjóðs. Sameiginlegur rekstur og bygging samkomuhúsanna tengdi fólkið saman og það sem meira var íbúana og stjórnvaldið. Samkomustaðirnir urðu þannig sameiningartákn.
Öflugt félagsstarf styrkti ímynd hreppanna og gaf fólkinu tilfinningu fyrir því að það væri hluti af sterkri liðsheild. Með því að efla félagsstarfið sendu hrepparnir jafnframt frá sér þau skilaboð að búseta þar væri eftirsóknarverð, að sveitin væri sjálfri sér nóg, ekki eftirbátur annarra.
Viðfangsefni bæjarins núna er að skera úr um hvort bæjarfélagið fullnægi þessum þörfum. Hvort það skilgreini sig sem bæjarfélag eða úthverfi, hvort félagsheildin Mosfellsbær sé sjálfri sér nóg? Mælikvarðinn á það eru innviðirnir, ekki síst félags- og menningarlegir.

Ljóst er að skapandi greinar gætu haft mikil not fyrir Hlégarð. Ungmenni, eldri borgarar, íbúasamtök og önnur félagssamtök sömuleiðis. Húsið var byggt til að hýsa leiksýningar, tónlistarflutning, dansleiki og félagsstarf hverskonar. Forsendan fyrir gróskumiklu starfi þessara hópa er að þeir eigi sér afdrep þar sem fólk getur mælt sér mót, æft sig, talað saman og troðið upp í til þess gerðu umhverfi. Um samfélagslegt gildi þess að njóta í sameiningu líðandi stundar „í hléi fyrir mesta vindinum“ leikur enginn vafi.

Íbúahreyfingin hefur viðrað þá hugmynd að kalla áhugasama íbúa, félagssamtök og fagfólk til skrafs og ráðagerða um framtíð Hlégarðs. Allir hefðu gagn af því.

F.h. Íbúahreyfingarinnar
Hildur Margrétardóttir og Sigrún H. Pálsdóttir

Ásgeir Sveinsson

Taktu þátt, kjóstu þinn fulltrúa í bæjarstjórn!

Ásgeir Sveinsson

Ásgeir Sveinsson

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ fer fram 10. febrúar.
Mikilvægt er að sem flestir íbúar taki þátt í að velja fólk á listann og hafa þannig áhrif á gang mála í bæjarfélaginu.
Ég býð mig fram í 2.-3. sæti í prófkjörinu þann 10. febrúar og hér að neðan eru helstu áherslur mínar varðandi rekstur og þjónustu bæjarins á næstu misserum.

Rekstur og þjónusta
Bæjarmálin snúast um að veita hágæða þjónustu sem þjónar hagsmunum allra bæjarbúa. Mikilvægt er að kappkosta að forgangsraða í fjárfestingum á vegum bæjarins og gæta aðhalds þegar kemur að stórum og dýrum framkvæmdum. Það er mikilvægt því það eru mörg verkefni sem þarf að ráðast í á næstu misserum á vegum bæjarins.
Á sama tíma er það forgangsmál að halda álögum á íbúa sem lægstum. Það þarf að skoða hvort svigrúm sé til að lækka fasteignaskatta enn frekar en þegar hefur verið gert, og þá sérstaklega á eldra fólk.

Íþrótta og tómstundamál
Mosfellsbær er lýðheilsu- og íþróttabær. Að mínu mati þarf að byggja upp íþróttaaðstöðu í bænum umfram það sem þegar er búið að ákveða. Hér má nefna viðbyggingu við Íþróttamiðstöðina að Varmá sem innihéldi nýja búningsklefa, fjölnota rými sem myndi nýtast Varmárskóla í kennslu og öðrum verkefnum, og sem félagsaðstaða fyrir íþrótta og tómstundafélög í Mosfellsbæ. Það bráðvantar annan gervigrasvöll í fullri stærð, ný gólfefni á íþróttasalina að Varmá og lagfæra aðstöðuna á Tungubökkum.
Þetta eru víðtæk og stór verkefni en mjög aðkallandi. Það er hlutverk bæjaryfirvalda að finna leiðir og fjármagn til þess að þessar framkvæmdir geti orðið að veruleika sem allra fyrst. Framúrskarandi aðstaða er lykillinn að því að tómstundastarf blómstri.
Hröð fjölgun íbúa og iðkenda kallar á hraða uppbyggingu í þessum málum.

Skólamál
Í Mosfellsbæ eru góðir skólar og leikskólar og þar starfar frábært starfsfólk.
Mosfellsbær leggur áherslu á að skólarnir og leikskólarnir okkar séu í fremstu röð, þar á öllum að líða vel. Með fjölgun bæjarbúa eykst álag á skólana sem ekki má bitna á á faglegu starfi þeirra. Hér má nefna húsnæðismál og ráðningar faglærðs fólks bæði í skóla og leikskóla. Það þarf að bæta starfskjör og aðstöðu kennara og fagfólks innan skóla og leikskóla bæjarins.

Skipulagsmál, umhverfismál og samgöngur
Skipulags og umhverfismál eru stórir málaflokkar í Mosfellsbæ. Stækkun bæjarins og ný hverfi þarf að byggja upp í sátt við íbúa, umhverfi og náttúru.
Við eigum einstaka náttúru allt í kring um bæinn okkar og þurfum að passa upp á grænu svæðin og halda áfram uppbyggingu á göngustígum o.fl.
Samgöngumál verða einnig fyrirferðarmikil á næstu árum og miklar breytingar fram undan í þeim málum. Hagsmunir Mosfellinga þurfa að vera í fyrirrúmi þegar umferðarmál í og umhverfis bæinn eru mótuð. Þar þurfa bæjaryfirvöld að taka virkan þátt með nágrannasveitarfélögum í að móta raunhæfar hugmyndir bæði varðandi einkabílinn og almenningsamgöngur.

Málefni og velferð eldri borgara
Hlutfall fólks 65 ára og eldra mun hækka verulega á næstu árum samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands. Málefni eldri borgara í Mosfellsbæ eru að mörgu leyti í góðu horfi en það þarf að hlúa enn betur að sumum málefnum þessa hóps. Plássleysi er farið að há félagsstarfi og það þarf að virkja betur lýðheilsustefnu fyrir þennan hóp. Það vantar t.d. stærri aðstöðu fyrir skipulagða leikfimi. Aukin áhersla á lýðheilsu eldri borgara er mjög góð fjárfesting, stuðlar að betri heilsu, auknum lífsgæðum og styrkir félagslega virkni og tengsl þeirra.

Látum verkin tala
Það eru skemmtilegir og krefjandi tímar á næsta kjörtímabili í rekstri Mosfellsbæjar og mikilvægt að bæta úr þar sem þörf er á ásamt því að grípa tækifærin sem gefast.
Ég býð fram krafta mína og víðtæka reynslu sem stjórnandi úr atvinnulífinu auk mikillar reynslu úr félagsmálum til þess að vinn af krafti og heilindum að þeim verkefnum.
Ég óska eftir stuðningi þínum í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 10. febrúar.

Ásgeir Sveinsson

Óskar Guðmundsson

Tilboð! Afsláttur! Lækkun!

Óskar Guðmundsson

Óskar Guðmundsson

Við lifum góðæristíma.
Góðærinu er þó misskipt og lítt fer fyrir því að lagt sé í félagsleg verkefni þegar svo vel árar.
Okkur er þess í stað tjáð að fram undan sé svo bjart að við eigum að fá „lækkun“ en ekki það sem raunin er … „afsláttur“ af hækkun.
Hér er viðtekna módelið að ef ég boða 20% hækkun en hækka svo „bara“ um 10% hafi ég lækkað eitthvað um 10%, jafnvel 50%. Til að koma þessu á skiljanlegt form getur verið gott að fjarlægja „%“ og setja í staðin orðið „hnefahögg“.
Mosfellsbær hefur undanfarin misseri grætt vel á að geta selt lóðir meðan að þéttingastefna Reykjavíkurborgar hefur keyrt lóðaverð á SV-horninu uppúr öllu valdi. Uppkeyrt lóðaverð og uppkeyrt íbúðaverð kemur með uppkeyrð fasteignagjöld hvers grunnur skapar nú rými fyrir „tilboð, afslátt, lækkun“.
Hér í bæ er verið að taka fullan þátt í því sem hefur hækkað húsnæði hvað mest á landsvísu og haldið uppi verðbólgu á tímum sem hefðu átt að vera tímar eðlilegrar verðhjöðnunar. Skortstefna lóða hefur gríðarleg áhrif enda hefur verð lóða farið á einum áratug úr því að vera 5-6% byggingakostnaðar og upp í 25%. Fjármögnunarkostnaður lóða er hærri en fasteigna og eru áhrifin á verðmyndun íbúða því enn meiri. N.B. að svo virðist vera að bæta eigi við innviðagjaldi til að hækka lóðaverð verulega í viðbót og koma lóðaverðinu í 30-33% byggingakostnaðar og þar með 35-40% endanlegs verðs.
Raunin er að við gjaldendur og nýir Mosfellingar hefðu grætt mest á því að lóðir/íbúðir hefðu verið ódýrari og hækkun íbúðaverðs sem og fasteignagjalda þá minni, verðbólga minni, kaupmáttur meiri.
Ekki verður séð að stefnan hafi breyst m.v. að þær 105 íbúðir sem rísa munu við Háholt/Bjarkarholt verða ekki á vegum félags án hagnaðarsjónarmiða líkt og Bjargs íbúðafélags heldur þvert í hina áttina enda verða íbúðirnar á vegum eins þess aðila sem borið hefur uppi verðbólgu síðastliðinna ára með gegndarlausum hækkunum á leiguverði.
Það að „fleyta rjómann“ með slíkum hætti er mjög hættulegt þar sem slíkt kerfi gerir ekki ráð fyrir stöðnun, hvað þá niðursveiflu en þegar að slíkar koma þarf oftar en ekki að grípa niðurskurðarhnífinn og beita á stærsta kostnaðarliðinn … skólana.
Endanlega eru sveitarfélögin á villigötum. Þau hafa tekið við verkefnum frá ríkinu án nauðsynlegs fjármagns eða að ríkið hefur breytt eða aukið kröfurnar eftir á svo að sveitin þarf nú að leita auka fjármögnunar. Útsvar er á flestum stöðum í botni og þá aðeins eitt til ráða … eignasala.
Mest fæst fyrir það sem takmarkað framboð er af og hafa sveitarfélögin því mörg hver valdið lóðaskorti, keyrt upp verðið en um leið íbúðaverð og verðbólgu. Nákvæmlega þetta er það sem veldur því að hér vex nú úr grasi kynslóð sem verður bráð gamma enda munu þau aldrei geta fjármagnað eigin íbúðakaup enda hækkar verðið hraðar og meira en sparnaðurinn.

Óskar Guðmundsson
Greinarhöfundur er formaður
Framsóknarfélags Mosfellsbæjar

Davíð Ólafsson

Kjósum menningu

Davíð Ólafsson

Davíð Ólafsson

Einu sinni spjallaði ég við forstjóra Villeroy & Boch eftir tónleika sem ég söng á í Þýskalandi. Ég spurði af hverju þeir væru að styrkja tónleika í svona litlu bæjarfélagi.
Svarið var einfalt: „Til að fá hæft fólk til starfa verðum við að halda uppi öflugu menningarlífi á svæðinu. Enginn vill búa þar sem ekkert er um að vera.‘‘
Ég býð mig fram í 3.-5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ. Ég hef starfað við tónlist og skipulagningu menningarlegra viðburða í 15 ár. Í bæjarstjórn Mosfellsbæjar þarf að vera öflugur fulltrúi menningar og menntamála.
Ég mun standa vörð um það góða starf sem hér hefur verið unnið og efla það á allan hátt fái ég umboð til þess. Ég treysti á ykkar stuðning.

Davíð Ólafsson

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Konur hafa líka skoðanir

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Undirbúningur sjálfstæðismanna til sveitarstjórnarkosninga í vor er nú í fullum gangi. Margir einstaklingar með ólíka sýn á bæjarmálum gefa kost á sér sem mér finnst mjög jákvætt því það leiðir til fjölbreyttra hugmynda um hvernig hægt sé að gera Mosfellsbæ betri bæ til að búa í, þótt gott sé að búa þar í dag og óvíða betra.

Ég hef alltaf haft áhuga á bæjarmálum en aldrei fundist rétti tíminn eða þorað að hella mér í framboð því ég hélt að ég hefði ekki nægjanlega reynslu til að stíga skrefið til fulls sem er svo oft með okkur konur. Við erum oft sjálfar duglegastar að draga úr okkur kjarkinn og höldum að við séum ekki nægilega hæfar.
Við þurfum ekki að kunna allt eða hafa þekkingu á öllu til að taka áskorunum heldur lærum við af öðrum reynsluboltum sem hafa starfað á þessum vettvangi. Mér finnst að við konur ættum að vera duglegri að ögra okkur sjálfum og sýna hver annarri meiri stuðning í daglegu lífi hvort sem það er innan veggja heimilisins, í vinnu eða komandi kosningum.

Við getum gert bæinn okkar enn betri, bæ sem fólk vill búa í til frambúðar og það er svo sannarlega gott að búa í Mosfellsbæ. Hér er frábært að ala upp börnin sín og einnig fyrir börn að alast upp fullyrðir dreifbýlistúttan ég, Kristín Ýr, sem naut þess að alast upp í litlu þorpi út á landi.
Mér finnst Mosfellsbær einmitt vera eins og lítill bær út á landi, stutt er í náttúruna, frábærar gönguleiðir, frábært íþróttastarf fyrir alla og nánd við nágrannana.
Nú hvet ég allar konur að velta þessum hlutum fyrir sér, skrá sig í flokkinn og flykkjast á kjörstað og sýna í verki að við konur getum líka gert gagn þó svo að ég sé ekki að gera lítið úr karlmönnunum sem starfa í bæjarmálunum hér.

Það er mín skoðun að konur ættu að fá meira vægi í stjórnmálum almennt. Ég tók ákvörðun fyrir þremur árum að ég ætla aldrei að hallmæla öðrum konum, ég ætla að ögra sjálfri mér, hafa þor til að taka ákvarðanir, þor til framkvæmda, kynnast nýju fólki og taka fólki eins og það er og mynda mér skoðanir um fólk þegar ég hef kynnst því en halda samt sem áður áfram að vera ég sjálf.
Ég er nefnilega mamma, eiginkona, vinkona og mig langar að geta gert gagn í bæjarmálum hér í Mosfellsbæ.

Kristín Ýr Pálmarsdóttir.
Sækist eftir 5.-9. sæti í prófkjöri
Sjálfstæðisflokksins þann 10. febrúar.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Rúnar Bragi í 4. sætið

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Í vor eru átta ár liðin síðan ég ákvað að gefa kost á mér í fyrsta skipti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Þegar ég tók þessa ákvörðun var það ekki vegna þessa að ég hafði einhvern sérstakan áhuga á pólítik heldur langaði mig að láta gott af mér leiða og um leið leggja mitt af mörkum til að bæta samfélagið okkar.

Á þessum tæpum átta árum hef ég verið afar lánsamur að fá tækifæri til að starfa með mörgum af þeim frábæru starfsmönnum sem starfa hjá Mosfellsbæ og fulltrúum allra flokka sem setið hafa þessi tvö kjörtímabil. Hefur sú reynsla og tími reynst mér afar afar dýrmætur og lærdómsríkur.
Ég hef verið varabæjarfulltrúi sl. tvö kjörtímabil sem hefur gefið mér aukið innsæi og þekkingu í öll þau stóru mál sem þarf að vinna og fram undan eru. Ég tel að með reynslu minni á þessum tíma sé ég tilbúinn að taka næsta skref og láta verkin tala enn frekar.
Til að það geti orðið að veruleika þarf ég á þínum stuðning að halda og bið ég því þig um að kjósa mig í 4. sætið í komandi prófkjöri Sjálfstæðismanna sem fer fram 10. febrúar nk.

Rúnar Bragi Guðlaugsson, varabæjarfulltúi.

Sturla Sær Erlendsson

Ég er stoltur Mosfellingur

Sturla Sær Erlendsson

Sturla Sær Erlendsson

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðismanna sem fram fer 10. febrúar næstkomandi. Í dag er ég varabæjarfulltrúi og varaformaður þróunar- og ferðamálanefndar sem hefur verið frábær reynsla.
Fyrir 4 árum var ég ekki viss um hvort stjórnmál væru fyrir mig, en eftir að hafa tekið þátt hefur áhuginn vaxið og því ákvað ég að halda áfram. Margir spyrja fyrir hvað ég standi og hverju ég ætla að vinna að í bæjarstjórn. Þar sem ég er tuttugu og þriggja ára myndu einhverjir segja að ég væri fulltrúi unga fólksins í hópnum, en án gríns þá er fátt sem ég hef ekki áhuga á.
Ég er stoltur Mosfellingur og hef alveg ólæknandi áhuga á því sem er að gerast í bænum mínum. Það er ánægjulegt hvað Mosfellingar eru ánægðir með bæinn sinn eins og Gallup kannanir hafa sýnt. Það vil ég að verði áfram. Mosfellsbær er bærinn minn og sá staður sem ég vil búa með minni fjölskyldu og veit ég að margir jafnaldrar mínir eru mér sammála.
Ég hvet Mosfellinga til að taka þátt í prófkjörinu sem fram fer 10. febrúar og óska eftir stuðningi í 4.-6. sæti.

Sturla Sær Erlendsson

Hafsteinn Pálsson

Áframhaldandi árangur

Hafsteinn Pálsson

Hafsteinn Pálsson

Mosfellsbær er ört vaxandi bæjarfélag og hér er gott að búa. Ég hef haft mikla ánægju af virkri þátttöku í bæjarlífinu sem bæjarfulltrúi og eiga skoðanaskipti við bæjarbúa. Ég hef sinnt þessu starfi af áhuga og alúð og býð mig fram til áframhaldandi góðra verka fyrir bæjarfélagið.

Áherslur
Það er mikilvægt að þjónusta bæjarins haldist í hendur við þá miklu fjölgun bæjarbúa sem átt hefur sér stað og allt bendir til að eigi sér stað á næstu árum. Þjónusta við barnafjölskyldur og sífellt stækkandi hóp eldri Mosfellinga er mikilvægur hluti af starfsemi bæjarfélagsins og gerir það eftirsóknarvert að búa í Mosfellsbæ.
Áherslur mínar eru að efla og styrkja það framsækna samfélag sem við höfum búið okkur hér í bænum. Mér er umhugað um að bæjarfélagið sé fjölskylduvænt og þá bæði umhverfið og sú þjónusta sem er veitt með virðingu fyrir þörfum allra aldurshópa.
Áhugasviðin eru fræðslumál, skipulagsmál, íþrótta- og æskulýðsmál og sú grunnþjónusta sem veita þarf af umhyggju í fjölskylduvænu umhverfi.

Reynsla
Ég er formaður bæjarráðs og hef áður á kjörtímabilinu meðal annars verið forseti bæjarstjórnar og formaður fræðslunefndar. Áður gengdi ég m.a. formennsku í íþrótta- og tómstundanefnd.
Samstarf við bæjarfulltrúa, nefndarmenn, starfsmenn bæjarins og ekki síst við bæjarstjóra hefur verið ánægjulegt. Sá stöðugleiki sem ríkt hefur við stjórn bæjarins og samstarf við bæjarbúa hefur verið bænum farsælt. Ég tel mikilvægt að haldið sé áfram á sömu braut með þátttöku reynslumikils fólks við stjórnun bæjarins.

3. sæti
Ég gef kost á mér til áframhaldandi setu í bæjarstjórn og sækist eftir 3. sæti á listanum. Ég býð mig fram með mína reynslu og á sömu forsendum og áður að leggja góðum málum lið.
Sjálfstæðismenn veljum reynslu og stöðugleika til farsældar fyrir bæjarfélagið.

Hafsteinn Pálsson
formaður bæjarráðs

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Um áramót

Fireworks display on 4th of July. Fireworks display on dark sky background. Independence Day, 4th of July, Fourth of July or New Year.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Kæru Mosfellingar!

Við áramót er okkur tamt að taka stöðuna, leggja mat á það sem gerðist á liðnu ári um leið og við horfum fram á veginn. Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg og hvernig blasir framtíðin við okkur?
Árið 2017 var gott ár fyrir marga. Mikil hagsæld hefur ríkt í okkar góða landi undanfarin ár sem skilað hefur sér til þjóðarinnar með meiri velmegun og auknum kaupmætti. Það mátti lesa í fjölmiðli um daginn að yfir stæði fordæmalaust góðæri og laun hefðu aldrei verið hærri. Þótt líklegt megi teljast að við séum nú á toppi hagsveiflunnar, er útlitið til næstu ára samt sem áður bjart. Áfram er spáð vexti í hagkerfinu, fjölgun ferðamanna, góðri stöðu fiskistofna og tryggri afkomu þjóðarbúsins.
Töluvert umrót var í landsmálapólitíkinni á sl. ári. Ríkisstjórnin sprakk eftir stutta setu og kosningar fóru fram. Niðurstaðan leiddi til myndunar nýrrar ríkisstjórnar með mjög breiða pólitíska skírskotun þar sem Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn mynduðu ríkisstjórn með þátttöku Framsóknarflokksins. Í Mosfellsbæ hafa Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn myndað meirihluta í bæjarstjórn frá árinu 2006 þrátt fyrir að annar þessara flokka hafi lengst af haft nægan styrk í bæjarstjórn til að vera einn í meirihluta. Þetta samstarf hægri og vinstri flokks hefur gefist afar vel í Mosfellsbæ enda hefur ríkt traust og trúnaður milli aðila. Nú má segja að „Mosfellsbæjarmódelið“ hafi verið tekið upp í landsmálunum og ég hef þá trú að þessi nýja ríkisstjórn eigi eftir að reynast þjóðinni vel og geti haldið áfram þeim góðu verkum sem hafa verið í gangi.
Fyrir Mosfellsbæ var árið gott og ánægja ríkti meðal íbúanna með bæinn sinn samkvæmt könnunum. Mig langar sérstaklega að nefna eitt verkefni sem efnt var til á árinu en það er lýðræðisverkefnið „Okkar Mosó“. Það verkefni tókst einstaklega vel og var þátttaka íbúa mikil sem leiddi til margra góðra verka sem íbúar óskuðu eftir að hrint yrði í framkvæmd. Ljóst er að framhald verður á verkefnum sem þessum.

Mikil íbúafjölgun í Mosfellsbæ
Mjög mikil íbúafjölgun varð í Mosfellsbæ eða um 8% á árinu 2017. Segja má að hér sé um fordæmalausa fjölgun að ræða. Mestu munar um nýju hverfin okkar Leirvogstungu og Helgafellshverfi og er fjölbýlishluti þess hverfis nú að verða fullbyggður. Töluvert er þó eftir af sérbýlishluta Helgafellshverfis en fullbyggt munu um 3.000 íbúar búa þar. Þessu til viðbótar eru að fara af stað verkefni í miðbænum sem felur í sér um 250 nýjar íbúðir við Bjarkarholt, Háholt og Þverholt ásamt verslunarhúsnæði. Það mun setja nýjan svip á miðbæinn okkar og gera hann mun samkeppnishæfari um verslun, þjónustu og menningu ýmis konar.
Svona mikil uppbygging kallar á fjárfestingar í innviðum. Helgafellsskóli er nú í byggingu og er gert ráð fyrir að fyrsti áfangi hans verði tekinn í notkun í upphafi árs 2019. Önnur stór framkvæmd sem ráðist verður í á árinu 2018 er bygging knatthúss að Varmá. Húsið verður byggt þar sem eldri gervigrasvöllur er nú og verður um 3.800 fm að stærð. Auk knattspyrnuvallar verður í húsinu hlaupabraut ásamt göngubraut, áhorfendaaðstöðu og snyrtiaðstöðu. Húsið verður án alls efa bylting fyrir íþróttafólk, sérstaklega knattspyrnu, í Mosfellsbæ. Með húsinu verður til góð æfingaaðstaða allan ársins hring.
Áfram verður haldið með atvinnuuppbyggingu í bænum. Lóðum verður fjölgað í Desjamýri og uppbygging þar komin vel á veg. Gerður hefur verið samningur um uppbyggingu á lóðum við Sunnukrika sem er hluti af miðsvæði bæjarins. Þar hefur þremur af fjórum lóðum á svæðinu verið úthlutað þar sem reisa á skrifstofu- og þjónustuhúsnæði, aðstöðu fyrir ferðaþjónustuaðila og í skoðun er að þar verði einnig 4-5 stjörnu hótel með veitingastað. Uppbygging á Leirvogstungumelum er hafin en þar hefur landeigandi selt lóðir undir atvinnustarfssemi. Þetta eru allt saman góðar fréttir fyrir Mosfellsbæ sem mun auka atvinnutækifæri í bænum sem og tekjur bæjarsjóðs sem hægt er að nota til að bæta enn frekar þjónustu við bæjarbúa.

Álögur lækka og þjónusta efld
Samkvæmt fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2018 munu skattar og gjöld lækka jafnframt því að þjónusta við íbúana verður efld. Þrátt fyrir þetta er gert ráð fyrir rúmlega 300 mkr. afgangi af rekstri bæjarsjóðs á árinu. Aukin hagsæld, fjölgun íbúa ásamt traustum rekstri gerir það að verkum að svona er hægt að standa að málum hjá Mosfellsbæ.
Meðal þess sem fjárhagsáætlunin inniheldur má nefna:
Þjónusta við börn og unglinga aukin. Áfram verður unnið að því að auka þjónustu við 12-18 mánaða börn og plássum fjölgað um 20 á þeim ungbarnadeildum sem stofnaðar hafa verið. Frístundaávísun mun hækka um 54% og fara í 50 þúsund kr. og gjaldskrár leikskóla miðast við 13 mánaða aldur í stað 18 mánaða. Jafnframt var ákveðið að almennt gjald í leikskóla lækki um 5% frá áramótum. Þá verður unnið að verkefnum til að skapa enn betri aðstöðu í leik- og grunnskólum m.a. með því að efla tölvukost og aðrar umbætur með verulegum fjármunum á árinu 2018.

Álögur á einstaklinga og fyrirtæki lækka. Álagningarhlutföll fasteignaskatts, fráveitu- og vatnsgjalds lækka um 11% og lækkar kostnaður íbúa og af fasteignum sem því nemur auk þess sem lækkun fráveitu- og vatnsgjalds hefur áhrif til lækkunar fyrir fyrirtæki í bænum. Þá verða ekki almennar hækkanir á gjaldskrám fyrir þá þjónustu sem bærinn veitir og lækka gjaldskrár því að raungildi milli ára þriðja árið í röð. Framlög til afsláttar á fasteignagjöldum til tekjulægri eldri borgara hækka um 50% milli ára. Loks mun verð á heitu vatni lækka um 5% þann 1. janúar 2018.
Með þessu er tryggt að allir muni með einhverjum hætti njóta góðs af bættu rekstrarumhverfi sveitarfélagsins.
Í vor verður kosið til sveitarstjórna og þá munu landsmenn ganga að kjörborðinu og kjósa fulltrúa í bæjarstjórnir. Ég vænti þess að við Mosfellingar munum sýna lýðræðisvitund okkar í verki og flykkjast á kjörstað síðasta laugardag í maí.
Mosfellsbær fagnaði 30 ára kaupstaðarafmæli þann 9. ágúst sl. Haldið var veglega upp á afmælið og komu m.a. forsetahjónin í vel heppnaða opinbera heimsókn í bæinn okkar. Hátíðarhöldin enduðu síðan með glæsilegri bæjarhátíð „Í túninu heima“ síðustu helgina í ágúst.

Framtíðin er björt í Mosfellsbæ og með gildin okkar góðu VIRÐINGU – JÁKVÆÐNI – FRAMSÆKNI og UMHYGGJU að leiðarljósi eru okkur allir vegir færir. Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf, samskipti, vináttu og stuðning á árinu 2017 og megi árið 2018 verða okkur gæfuríkt og gleðilegt.

Haraldur Sverrisson,
bæjarstjóri