Ræktum okkur sjálf í sumar!

Berta Þórhalladóttir

Sumarið er frábær tími til þess að rækta okkur og blómstra! Þar sem sólin skín hátt, dagarnir eru lengri og gleðin er við völd! Á sumrin erum við orkumeiri, njótum útiverunnar betur, förum oftar í sund og jafnvel niður á „strönd“.
Þegar við fækkum fötum vaknar ef til vill sjálfsóöryggið og púkinn á öxlinni byrjar að tala! En við ætlum ekki að láta púkann né óöryggið stoppa okkur í að njóta og gera það sem okkur langar í sumar!
Hér koma fimm atriði til að minna sig á til að njóta sumarsins í botn – fáklædd sem velklædd!

1. Notum líkamann okkar
Líkaminn okkar er mun meira en það sem við sjáum. Hann er gerður til að hreyfa sig, upplifa ævintýri, leika sér og framkvæma nýja hluti. Í stað þess að einblína á útlitið skulum við hugsa um styrkinn og frelsið sem líkaminn veitir okkur. Prófum nýja hluti eins og fjallagöngur, hjólreiðar, sjósund eða bara eitthvað sem veitir okkur vellíðan. Það eflir sjálfmyndina að sjá og upplifa hvað líkaminn okkar er fær um.

2. Iðkum þakklæti
Við erum oft of upptekin af því hvað megi betur fara þegar við skoðum líkamann. Með því að iðka þakklæti og þakka fyrir allt sem líkaminn gerir fyrir okkur getur margt breyst. Verum þakklát fyrir að geta gengið, teygt okkur, beygt okkur, hjólað, synt eða hlaupið. Sundlaugar landsins eru mikil auðlind. Er kannski kominn tími á sundferð?

3. Stundum jákvætt sjálfstal
Það er auðvelt að detta í niðurrrif. Sérstaklega þegar púkinn er mættur á öxlina! Þá er mikilvægt að vera meðvitaður um að hann sé mættur og grípa inn í og eiga falleg orð um okkur. Hvatningin styrkir okkur og heldur okkur á beinu brautinni.

4. Verðlaunum okkur
Hér er ekki verið að tala um mat eða nudd á hverjum degi heldur það að gera eitthvað sem veitir okkur raunverulega vellíðan daglega. Þetta eru litlu hlutirnir sem hjálpa okkur að líða vel eins og göngutúr, fara í bað eða heitan pott, hugleiða eða velja okkur þau verðlaun sem næra okkur og veita okkur orku. Þessar einföldu aðgerðir geta hjálpað okkur til að öðlast aukinn styrk og enn meiri vellíðan.

5. Hættum að fylgja þeim sem láta okkur líða illa á samfélagsmiðlum
Fylgjum fólki sem veitir okkur innblástur og vellíðan. Þar sem samfélagsmiðlar geta haft gríðarlega áhrif á líðan okkar, ýmist nært okkur eða dregið úr okkur orku. Það er okkar að velja það sem bætir okkur og kætir.

Látum ekki leiðindapúkann á öxlinni okkar halda aftur af okkur í sumar! Gerum það sem okkur langar og njótum þess að vera til. Við eigum það skilið!
Berum höfuðið hátt og verum stolt af sjálfum okkur!
Gleðilegt sumar!

Berta Þórhalladóttir

Bylting í umhverfismálum á Íslandi

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Bygging gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi er eitt stærsta umhverfisverkefni sem Íslendingar hafa ráðist í hingað til. Upphaf verkefnisins má rekja til ársins 2013 með undirritun eigendasamkomulags allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um meðhöndlun úrgangs. Fram kom m.a. í eigendasamkomulaginu að byggð skyldi gas- og jarðgerðarstöð og með því gert kleift að hætta urðun lífræns úrgangs. Stöðin er í samræmi við stefnu sem sveitarfélögin hafa mótað í sameiginlegri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs.
Nú er komið að stóru stundinni en starfsemi hefst í gas- og jarðgerðarstöðinni (GAJA) á næstu dögum.

Stenst allar kröfur
Álfsnes er í eigu Reykvíkinga en blasir við í bakgarði okkar Mosfellinga og því hafa bæjarstjóri, bæjarfulltrúar og fulltrúar bæjarins í stjórn Sorpu lagt mikla áherslu á að urðun yrði hætt í Álfsnesi. Fulltrúar Sorpu, tæknimenn sveitarfélaga og verkfræðingar frá verkfræðistofum lögðust yfir hvaða lausn væri heppilegust og var niðurstaðan sú lausn sem nú hefur verið byggð.
Gas- og jarðgerðarstöðin í Álfsnesi stenst allar nútíma kröfur og var gert enn betur þegar samþykkt var að stöðin yrði yfirbyggð að kröfu okkar Mosfellinga. Við það hækkaði kostnaðurinn en það er nauðsynleg viðbót af umhverfsástæðum, sérstaklega fyrir okkur Mosfellinga.
GAJA markar byltingu í umhverfismálum á Íslandi og mun jafngilda því að taka 40 þúsund bensín– og díselbíla úr umferð og hefur mikil áhrif á kolefnisbúskapinn hér á landi. Um 80% landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu og stöðin því stórt skref í þá átt að koma umhverfismálum höfuðborgarsvæðisins í lag.

Tilgangurinn að hætta urðun lífræns úrgangs
Í stöðinni verður heimilissorpi eða lífrænum úrgangi breytt í metangas og moltu. Það skal skýrt tekið fram að tilgangur GAJA er ekki að framleiða metangas eða moltu heldur að hætta urðun lífræns og brennanlegs úrgangs og um leið spara útblástur sem nemur 90 þúsund tonnum af koltvísýringi árlega.
Allur úrgangur sem safnað er frá heimilum á samlagssvæði SORPU er forflokkaður í móttökustöðinni í Gufunesi og lífrænu efnin síðan flutt í GAJA. Lífrænu efnin verða unnin í stöðinni í metangas og jarðvegsbæti eða moltu, en málmar og önnur ólífræn efni svo sem plast fara til endurnýtingar.
Metangas og molta eru jákvæðar afurðir stöðvarinnar sem munu nýtast samfélaginu. Mikið hefur verið horft á þessar afurðir og margir efast um ágæti stöðvarinnar af þeim sökum. Stöðin var ekki byggð til að framleiða metagas og moltu, hún var byggð til að hætta urðun úrgangs samkvæmt Evróputilskipun og kröfum Umhverfisstofnunar og einnig að kröfu okkar Mosfellinga.

Komið að tímamótum
Þótt ferlið að byggingu stöðvarinnar hafi verið langt og strangt er ánægjulegt að það sé komið að þeim tímamótum að taka í notkun gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi. Sérstaklega er þetta ánægjulegt fyrir okkur Mosfellinga því þegar GAJA verður komin í full afköst mun lyktarmengum úr Álfsnesi heyra sögunni til.
Nánari upplýsingar um starfsemi GAJA á www.sorpa.is

Kolbrún Þorteinsdóttir bæjarfulltrúi
og fulltrúi Mosfellsbæjar í stjórn Sorpu.

Í sumarbyrjun

Stefán Ómar Jónsson

COVID-19, í senn áskoranir og tækifæri
Öll þekkjum við glímuna við veiruna skæðu sem undanfarna rúma tvo mánuði hefur ekki aðeins breytt daglegu lífi okkar Mosfellinga heldur allra Íslendinga og íbúa heimsins. Ýmsar áskoranir hafa mætt starfsfólki í hinum ýmsu þjónustustörfum hjá Mosfellsbæ, skipuleggja hefur þurft breytt vinnubrögð, setja upp viðbragðsáætlanir, sóttvarnir og svo framvegis. Þessar áskoranir hafa starfsmenn leyst vel úr hendi og af yfirvegun og það ber að þakka.
Við kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn og nefndum bæjarins höfum einnig þurft að breyta venjum okkar varðandi fundarhöld. Tækifæri okkar fólst m.a. í því að með breytingu á sveitarstjórnarlögum var heimilað að halda svokallaða fjarfundi. Skemmst er frá því að segja að sú frumraun tókst með miklum ágætum og ekki kæmi á óvart og reyndar væri skynsamlegt að útvíkka þessa heimild þannig að nota mætti hana í venjulegu árferði ef svo ber undir og þá væri þessi heimild til staðar þegar við þurfum næst á að halda.
Þegar er ljóst að efnahagslegar afleiðingar af COVID-19 verða miklar, sumir hagfræðingar segja þær mestu sem heimurinn hefur upplifað. Mosfellsbær mun því miður ekki fara varhluta af þessu. Núna eru fram undan og bíða okkar bæjarfulltrúa áskoranir í þessum efnum bæði hvað varðar áhrif þessa á núgildandi fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 og þá ekki síður vegna komandi fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021. Tækifæri okkar og áskorun liggur í því að okkur auðnist að taka ákvarðanir í þessum efnum, með samtali þar sem allar raddir fái að hljóma, af yfirvegun og af ábyrgð.

Skipulagsmál
Núna er hafin í skipulagsnefnd vinna við endurskoðun á aðalskipulagi fyrir Mosfellsbæ. Aðalskipulag hvers sveitarfélags er eins konar stjórnarskrá um fjölmarga hluti. Hluti eins og hvar við ætlum að byggja og hvernig, hvar útivistarsvæðin eigi að vera, hvar eigi að vera hverfisvernd og fjölmörg önnur atriði sem hér er of langt mál að tíunda. Þetta verður í senn krefjandi en líka spennandi verkefni því hver vill ekki eiga hlut í að semja stjórnarskrá sem ætlað er að vera lifandi plagg um áratugi. Hugur þess sem þetta ritar er að Mosfellingar hafi sem mesta og besta aðkomu að þessari endurskoðun.

Vonandi tekst okkur Mosfellingum að gæta áfram allra varúðarreglna og takast sem best á við veiruna skæðu. Með þeim orðum óska ég Mosfellingum öllum gleðilegs sumars og velfarnaðar.

Stefán Ómar Jónsson
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Félagsskapur er lýðheilsumál

Silja Ingólfsdóttir

Manneskjan er félagsvera. Fólki sem býr við langvarandi félagslega einangrun er hættara við ýmsum líkamlegum kvillum og verri heilsu en öðrum. Félagsskapur, má því segja, er því lýðheilsumál. Félagsleg einangrun á sér gjarnan erfiðan fylgifisk: Einmanaleikann.
Nú á tímum COVID-19 eru margir að upplifa einangrun í fyrsta sinn og eiga erfitt með að takast á við tilfinningarnar, streituna og þá vanlíðan sem getur fylgt því. Sjálfsefi, kvíði og erfiðar hugsanir geta leitað á fólk. Það er eðlilegt að eiga erfitt með að takast á við aðstæðurnar, við höfum fæst þurft að gera þetta áður.
Einmanaleiki er ekkert til að skammast sín fyrir, við getum öll upplifað hann. Til allrar hamingju er ástandið tímabundið fyrir flesta. Því miður er það þannig að sumir þekkja aðstæðurnar alltof vel og hafa glímt við slíkt í lengri tíma. Félagsleg einangrun og einmanaleiki eru allt of algeng og fylgja fólki á öllum aldri í öllum kimum samfélagsins.

Á meðan við sjáum fólk fjalla um áskoranir sem fylgja því að vinna heima með alla fjölskylduna og börnin í kringum sig þá eru margir sem búa einir og hafa ekki þann félagsskap í kringum sig. Að búa einn og vinna að heiman, hafa lítil sem engin tengsl við vinnufélagana eða fólkið sem maður hittir annars oft í viku í líkamsrækt eða öðrum tómstundum. Þarna skiptir miklu máli að átta sig á því að það er eðlilegt að finna fyrir erfiðum tilfinningum í einangrun og þessum óeðlilegu aðstæðum.
Það skiptir öllu máli að átta sig á því að þetta ástand tekur enda og á meðan getum við öll leitað eftir aðstoð, tengt okkur við félagsskap, leitað til Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og fengið síma- eða gönguvin hjá Rauða krossinum til að spjalla við.

Við berum öll ábyrgð á því að gera það sem við getum til að sýna náunganum kærleik og eftirtekt. Við eigum öll erindi og skiptum öll máli í samfélaginu. Fólk sem fer nú út að ganga: Takið hvert eftir öðru, horfið á fólk, heilsið, brosið hvert til annars. Allir þessir litlu hlutir sem kosta okkur ekki neitt gera samt svo ótrúlega margt til að bæta samskipti og samfélagið. Rétt eins og við erum öll almannavarnir og öll barnavernd, þá erum við öll mikilvægur hluti af samfélaginu sem við byggjum saman.
Á meðan faraldurinn er enn viðloðandi eru margir kvíðnir, hræddir og smeykir við að fara út úr húsi. Á meðan býður Rauði krossinn fólki að fá símavin eða gönguvin. Símavinir eru sjálfboðaliðar sem hringja daglega, eða tvisvar í viku, í fólk sem þess óskar.
Á nokkrum vikum hefur fjöldi þátttakenda í símavinunum margfaldast, margir eru tímabundið í einangruðum aðstæðum á meðan aðrir glíma við það til lengur. Rauði krossinn kemur til móts við þarfir hvers og eins. Fólk sem vill gjarnan fara út að ganga, en vill síður gera það eitt eða þarf smá hvatningu til að fara, getur fengið gönguvin. Þá miðast samveran við að farið sé í göngutúr einu sinni í viku og spjallað.
Hægt er að óska eftir tímabundnum göngu- og/eða símavin á kopavogur@redcross.is og það má líka halda því opnu hvort maður vill e.t.v. halda áfram að hitta sjálfboðaliða þegar COVID-19 takmörkunum verður aflétt.

Silja Ingólfsdóttir,
deildarstjóri Rauða krossins í Kópavogi.

„Það bera sig allir vel“

Margrét Guðjónsdóttir

Þennan texta hafa landsmenn sungið með Helga Björnssyni tónlistamanni á hverju laugardagskvöldi meðan hinn alræmdi COVID-19 sjúkdómur hefur gengið yfir heimsbyggðina.
Segja má að með þessum orðum hafi Helgi hitt naglann á höfuðið, við höfum almennt borið okkur vel. Ekki hefur þessi veira þó látið okkur Íslendinga ósnerta með andláti tíu einstaklinga sem smituðust af veirunni og aðrir þjást enn af eftirköstum sjúkdómsins.

Þessi veira hefur líka leikið efnahag þjóðarinnar grátt og margir einstaklingar eiga í vanda vegna þess. Atvinnuleysi er mikið sem getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir hvern þann sem í því lendir. Vonandi er þó að aðeins sé um tímabundið ástand að ræða í þeim málum. Þessi veira hefur þó líka orðið til þess að við höfum haft meiri tími til að sinna okkar nánustu fjöldskyldu og haft tíma til að staldra við og fara yfir hvað það er sem er verðmætast í okkar lífi.

En við höfum borið okkur vel og virðumst vera að koma ótrúlega vel út úr þessu hættustigi sem enginn vissi hvert gæti leitt okkur. Þetta hefur verið óvissuferð en við höfum öll verið í henni saman. Samstaða og samtakamáttur þjóðarinnar allrar hefur verið til fyrirmyndar, fagmenn fengið að stjórna og eigum við mörgum að þakka.

Það hefur oft sýnt sig að með samtakamætti stendur íslenska þjóðin saman þegar vá steðjar að. Upplýsingafundir um stöðu mála frá degi til dags hafa veitt þjóðinni öryggi og vissu um að heilbrigðiskerfið réði við verkefnið. Þetta gagnsæi er mjög mikilvægt í hverju verki sem er og á það einnig við á sveitarstjórnarstigi. Að íbúar séu vel upplýstir um hvað stendur til, bæði í þeirra nærumhverfi og sveitarfélaginu öllu og komi þannig að stefnumótun allri.

Ég veit að ef við stöndum saman og leyfum þeim mannauði sem byggir landið okkar góða að njóta sín eigum við góða tíma fram undan. Við skulum þó ekki horfa fram hjá því að margir eiga erfitt og hugum að þeim eins og kostur er. Lítum í kringum okkur og athugum hvort við séum fær um að veita hjálp.
Það er óskandi að þetta erfiða tímabil verið skammvinnt og með hækkandi sól getum við horft bjart fram á veginn, því lífið er gott sem betur fer.

Margrét Guðjónsdóttir
Höfundur er varabæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Þakkir til skólafólks í Mosfellsbæ

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Mikið hefur gengið á í samfélagi okkar síðustu mánuði og má segja að allt hafi breyst á einni nóttu.
Bregðast þurfti hratt og vel við kröfum Almannavarna og tókst skólafólki í Mosfellsbæ að stokka upp í skólastarfinu á met tíma. Unnið var dag og nótt við að undirbúa breytta kennslu og jafnframt tryggja öryggi nemenda og starfsfólks.
Mikilvægt var að halda starfsemi leik- og grunnskólanna gangandi þrátt fyrir erfiðleika og því er að þakka þolgæði, útsjónarsemi og forgangsröðun okkar kennara og skólafólks.

Skólinn í framlínu
Það var óbærileg tilhugsun að skólahald yrði lagt niður um tíma og tókst að bjóða öllum nemendum kennslu eftir þeim aðstæðum sem skólarnir hafa upp á að bjóða. Skólarnir í Mosfellsbæ eru fjölbreyttir og tókst að nýta húsnæði hvers skóla eins og kostur var miðað við kröfurnar sem gerðar voru um fjöldatakmörkun í hverju rými.
Gott skipulag og úrræðagott starfsfólk sá til þess að hægt var að halda úti kennslu eins og kostur var. Einnig tókst að bjóða öllum leikskólabörnum dvöl hluta úr viku og var frekar reynt að lengja vistina yfir daginn en að bjóða upp á fáar klukkustundir á hverjum degi.
Enn og aftur sannast það hve skólinn spilar stóran þátt í lífi okkar allra. Skólinn er meginstoð samfélagsins og miðjan í lífi fjölskyldna. Skólafólk er í framlínu alla daga og sannast það best þegar á reynir.

Velferð barna
Fátt er mikilvægara börnum og unglingum en að halda rútínu, stunda námið sitt og hitta vinina eins og kostur er. Að hafa unglinga heima í reiðuleysi getur kallað fram önnur vandamál sem erfitt getur verið að vinda ofan af. Skólinn er ramminn utan um líf barna og unglinga þar sem þau læra nýja hluti, takast á við áskoranir og styrkja sjálfsmyndina.
Þó að skólastarf sé hafið að fullu að nýju eru erfiðleikarnir ekki að baki. Kórónuveirufaraldurinn hefur haft áhrif á andlega líðan fólks og er mikilvægt er að vera vakandi yfir velferð barna og unglinga á erfiðum tímum.

Skólaþróun á methraða
Í Mosfellsbæ tókst að halda úti starfsemi í skólum og leikskólum í samkomubanninu án þess að nokkur vandræði kæmu upp. Skólafólk hélt þétt utan um hvert annað en það skiptir miklu máli að samstarfsfólk hlúi hvert að öðru og gæti þess að börnunum líði sem best. Þetta var áskorun og sýndi það sig að gott samstarf og samskipti gera kraftaverk.
4. maí rann upp og nemendur á öllum skólastigum mættu í skólann eins og þau þekkja hann best. Við lærðum öll heil­mikið á þessu tímabili og má segja að mörg stór skref hafi verið stigin í skólaþróun á Íslandi.
Að lokum vil ég koma á framfæri að í bókunum fræðslunefndar og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar er gríðarsterku skólasamfélagi færðar miklar þakkir fyrir ómetanlega vinnu á erfiðum tímum.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir,
formaður fræðslunefndar

Furðulegir tímar

Bryndís Haraldsdóttir

Við lifum svo sannarlega furðulega tíma. Ástandið er erfitt, þungt og tekur á okkur öll. Hið opinbera hefur nú hlutverk sem aldrei fyrr að milda höggið og tryggja velferð allra. Því er mikilvægt og gott að ríkissjóður og sveitarsjóður hafi verið vel reknir.
Við höfum borgað okkar skatta og skyldur og kjörnir fulltrúar og starfsmenn hins opinbera hafa lagt sig fram um að veita góða þjónustu með sem minnstum tilkostnaði. Skuldir hafa verið greiddar upp í stórum stíl og einmitt nú kemur það sér býsna vel því ljóst er að í gegnum þetta komumst við ekki nema hið opinbera taki að láni fjármuni til að koma okkur í gegnum brimskaflinn.
Um leið þarf að tryggja áframhaldandi tekjur hins opinbera til lengri tíma litið. Það er mikilvægt að lífvænleg fyrirtæki í ferðaþjónustu komist í hýði og geti vaknað aftur þegar ferðamenn fara aftur að streyma til landsins, því það munu þeir svo sannarlega gera.
Það er mikilvægt að við höldum uppi eðlilegri eftirspurn í þjóðfélaginu þannig að veitingarstaðirnir okkar, kaffihúsin, verslanir, iðnaðarmenn o.s.frv. geti áfram starfað.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar og sveitarstjórna miða allar að því að milda höggið, tryggja framfærslu fjölskyldna og standa vörð um þau fyrirtæki sem eiga möguleika, uns erfiðleikarnir eru að baki.

Núllstilling og nýtt upphaf
Það eru tækifæri í öllu, líka þeim ógnunum sem við nú stöndum frammi fyrir. Margir hafa verið undir miklu álagi í vinnu á síðustu misserum og haft of lítinn tíma til að sinna sér og sínum. Því er tækifærið nú þegar allt hefur farið í hægagang að sinna því sem skiptir öllu máli, heilsunni og fjölskyldunni. Notum þann tíma vel því þar er raunverulegur auður okkar allra.
Hagkerfið okkar og heimsins alls hefur stækkað mikið á síðustu árum og í of miklum mæli á kostnað umhverfisins. Nú er tækifæri til að núllstilla okkur og huga að sjálfbærni, byggja upp öflugt gott atvinnulíf og samfélag sem tekur mið bæði af þörfum mannsins en líka þörfum umhverfisins og vistkerfisins alls. Við getum öll lagt okkar að mörkum við að styðja umhverfisvænar lausnir, tryggja að neysla okkar byggi á raunverulegum þörfum. Segjum bless við sóun sem einkennt hefur líf okkar fram að þessu.

Mosfellsbær fjölskylduvænn útivistabær
Það fallega og góða í þessu ástandi er að fylgjast með fólki stunda útivist í gríð og erg og sjá fjölskyldur fara saman í göngu og hjólatúra, slaka á og njóta augnabliksins.
Við í Mosó erum einstaklega rík af fallegri­ náttúru og góðum svæðum sem við getum notið. Leirvogurinn, fellin, fossarnir, árnar, fjörurnar og allir okkar frábæru stígar. Það eru ótrúleg forréttindi að geta á örskotsstundu farið út í ósnortna náttúru. Höldum áfram að huga að líkama og sál og njótum fallega bæjarins okkar.
Vonandi getum við svo bráðlega knúsað fleiri en þangað til brosum við og gefum frá okkur hlýju.

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins

Fornleifar og elstu húsin í Mosfellsbæ

Guðjón Jensson

Innan Mosfellsbæjar eru einungis tvennar fornleifar sem eru á skrá yfir friðaðar fornminjar. Fyrir áratugum voru þær teknar á skrá og þar við situr.
Þær eru annars vegar gamlar fjárborgir sitt hvoru megin við þjóðveginn uppúr Mosfellsdal, um einn kílómetra austan við Gljúfrastein. Þá eru fornminjar lengst og vestast í Mosfellsbæ á utanverðu Blikastaðanesi sem á síðustu árum hafa verið að eyðast sökum sjávarrofs. Fyrir um 40 árum birtist grein eftir Kristján Eldjárn fyrrum forseta um rústir þessar og má lesa um þær í greininni: Leirvogur og Þerneyjarsund sem birtist í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1980, bls. 25 og áfram. Talið er að þær séu leifar aðstöðu tengdar verslun og siglingum á miðöldum um Leirvog og Þerneyjarsund.
Spurning er hversu unnt er að bjarga því sem bjargað verður. Sjórinn nagar stöðugt í bakkann og skolar jarðveginum burt og þar með þessum fornu rústum.

En það eru ýmsar áhugaverðar menningaminjar innan lögsögu Mosfellsbæjar. Syðst í bæjarlandinu er eyðibýlið Elliðakot sem var á ofanverðri 19. öld stórbýli en var yfirgefið skömmu fyrir miðja síðustu öld. Þar er að finna einstakt fyrirbæri sem óvíða má sjá orðið á Íslandi, gamlar traðir um hlaðvarpann.
Þessar traðir voru almennt eyðilagðar þegar skurðgröfur og jarðýtur voru teknar í notkun til að slétta út tún. Líklega eru þessar gömlu traðir einna best sýnilegar að Keldum á Rangárvöllum og Núpsstað austast á Síðunni í Skaftafellssýslu.

Í Seljadal er gömul rétt, Kambsrétt, sem vel kann að vera að þar hafi verið Viðeyjarsel á miðöldum. Þar er gömul þjóðleið inn eftir Seljadalnum, vestasta gamla leiðin sem yfir Mosfellsheiðina liggur. Þar var leið þriggja konunga.
Því miður hafa ökumenn verið að aka eftir þessari leið og verður það að teljast mjög miður því þessar gömlu hestagötur voru ekki lagðar fyrir jeppa sem kannski eru þyngri en 2 tonn.
Eins er með gömlu leiðirnar yfir Mosfellsheiðina. Hefur leiðin sem nefnd hefur verið Gamli Þingvallavegurinn verið stórskemmd af akstri jeppa undanfarinna áratuga. Þetta eru hestavegir og þess vegna góðar gönguleiðir, kannski hjólandi en alls ekki ætluð vélknúnum ökutækjum.
Aðrar gamlar minjar eru víða eins og gamlar leiðir, vörður, seljarústir og rústir tveggja sæluhúsa. Líklega verða þær ekki taldar í hættu þar sem þær eru utan almennra leiða en æskilegt væri að varðveita sem mest.
Nú er miðað við 100 ára aldur mannvirkja þegar um fornleifar er að ræða. Lagaumhverfið eru lög nr.80/2012 um minningarminjar sem leysti af eldri lög eins og þjóðminjalög, lög um húsafriðun og fleira.
Gömul hús og byggingar eru ekki mörg innan Mosfellsbæjar. Elsti hluti Laxnessbæjarins er frá lokum 19. aldar þá Páll Vídalín hrossakaupmaður var þar með sína starfsemi. Skammt þar frá er gamli bærinn að Hraðastöðum frá því í byrjun 20. aldar.
Elsta húsið á Blikastöðum, gamli bærinn, er frá því um 1910 og stendur að húsabaki norðan við. Og ekki má gleyma sjálfri Lágafellskirkju, eitt fegursta og mesta húsadjásnið í Mosfellsbæ. Gamli bærinn á Lágafelli var fluttur niður í kvosina ofan við Hlíðartúnshverfið. Það hús er frá því um aldamótin 1900.

Þá er í Mosfellsdal gamalt frístundahús, Hjaltastaðir sem Hjalti Jónsson, Eldeyjar-Hjalti, reisti fyrir um 100 árum síðan. Líklega er þetta eitt af elstu húsum sinnar tegundar og er augljóst vitni um nýja og betri tíma þegar íslensk borgarastétt kemur sér upp sveitarsetri.
Þetta lágreista hús ber aldurinn vel en því hefur verið mjög vel haldið og er í eigu niðja Hjalta að því mér best skilst. Þar er gamall trjálundur sem mun vera nálægt 90 ára gamall að stofni til og Eldeyjar-Hjalti gróðursetti.

Og það mætti sjálfsagt bæta við þessa skrá en það er hlutverk samtíðarinnar hverju sinni að færa til bókar það sem rétt þykir að halda til haga.

Guðjón Jensson

Vorið kemur, heimur hlýnar

Michele Rebora

Þvílík forréttindi eru að búa í nánd við náttúru, í bæjarfélagi sem umkringt er fallegum gönguleiðum hvort sem er við sjávarsíðu, í skóglendi eða upp á fjalli. Fuglasöngur og hófadynur fylla loftið í kvöldkyrrðinni. Ríkidæmi sem ekki er sjálfgefið og ber að varðveita. Passa þarf upp á að stækkandi bær glati ekki sérstöðu sinni sem sveit í borg.
Umhverfismál eru sífellt fyrirferðarmeiri í hugum flestra. Margir bæjarbúar láta sér ekki nægja að fegra og snyrta garðinn sinn, heldur taka til hendinni í nærumhverfi og leggja sitt af mörkum, til dæmis með því að plokka. Þeim fjölgar sem líta á reiðhjól sem raunhæfan kost í samgöngum.
Það sem af er kjörtímabilinu hefur gott samstarf milli fulltrúa allra lista náðst á vettvangi umhverfisnefndar bæjarins og hefur það meðal annars skilað sér í metnaðarfullri umhverfisstefnu Mosfellsbæjar, sem samþykkt var síðasta haust.
En mikilvægt er að efndir fylgi orðum og stefnan sé höfð að leiðarljósi í allri starfsemi sveitarfélagsins.
Spennandi áfangar eru í sjónmáli, svo sem langþráð opnun gas- og jarðgerðarstöðvar SORPU í Álfsnesi, sem mun umbylta meðhöndlun lífræns úrgangs frá heimilum höfuðborgarsvæðisins og stórauka framboð á vistvænu svansvottuðu íslensku eldsneyti, metani.
Unnið er með Umhverfisstofnun að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Álafoss og Tungufoss og horft er til mögulegrar stækkunar á friðlýstu svæði við Varmárósa. Leitað er varanlegra leiða til að tryggja vernd og notagildi Varmár sem útivistarsvæðis í hjarta bæjarins. Mörg önnur verkefni á sviði umhverfismála bíða okkar og ég hlakka til þeirra.
Göngum vel um náttúru og njótum sumarsins í fallega bænum okkar.

Michele Rebora
Aðalmaður Vina Mosfellsbæjar í umhverfisnefnd

Stöndum saman og styðjum hvert annað!

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Kveðja frá Lágafellskirkju
Sjaldan eða kannski aldrei höfum við glaðst eins yfir komu sumarsins eins og þetta árið. Enda hafa síðustu vikur og mánuðir verið fordæmalausir tímar vegna lítillar veiru sem hefur ógnað ekki bara okkur hér á landi heldur allri heimsbyggðinni.
Við höfum fundið fyrir henni á margvíslegan hátt vegna þeirra takmarkana sem settar hafa verið á líf okkar og sett líf og starf úr skorðum. Allt hefur það verið gert í þeim tilgangi að forðast útbreiðslu COVID-19, að verja þau í samfélagi okkar sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, aldraða og svo að heilbrigðiskerfi okkar gæti ráðið við ástandið.
Þetta virðist hafa tekist og öllum er okkur létt, þó að við séum ekki alveg komin á leiðarenda á þessari göngu. Enn er samfélagið í áfalli sem hefur haft áhrif á okkur öll andlega og líkamlega og á hag okkar ýmislegan.

Það tekur tíma að jafna sig og vinna úr áfalli og svo mun einnig vera fyrir okkur sem einstaklinga og samfélag. Það mun okkur takast með Guðs og góðra manna hjálp.
Það er ósk og von okkar presta og starfsfólks Lágafellskirkju að sóknarbörn Mosfellsprestakalls hafi og verði fyrir sem minnstum skaða á heilsu og högum öllum. Þess biðjum við einnig fyrir alla jarðarbúa.
Vegna samkomubanns og þeirra tilmæla sem því fylgja þá féll allt safnaðarstarf og hefðbundið helgihald í kirkjunum okkar niður. Þar með talið voru fermingar vorsins, sem voru fluttar á aðrar dagsetningar, meðal annars til haustsins.
Hjónavígslur hafa verið afpantaðar eða fluttar á aðrar dagsetningar og útfarir fluttar til stærri kirkna. Eins og með mörg ykkar, var að einhverju leyti unnið heima, fundað með fjarfundabúnaði og almennt tæknin tekin með okkur í lið. Það þýddi að við sendum frá okkur, „steymuðum“ guðsþjónustum, bænastundum og öðru efni á samfélagsmiðlum og má nú finna það efni á heimasíðu kirkjunnar, Facebook-síðu hennar eða Youtube.

Í þessum töluðu orðum er breytingin í starfi okkar takmörkuð vegna tveggja metra reglunnar og stærðar á því húsnæði sem við ráðum yfir. Við bjóðum áfram í sálgæslu í safnaðarheimilinu og við munum á komandi tíma bjóða upp á guðsþjónustur með breyttu sniði í kirkju eða undir beru lofti. Hægt verður að fylgjast með auglýsingum um þær á heimasíðu kirkjunnar.
Við tökum einn dag í einu. Við erum með ykkur í sama liði, stöndum saman og gerum okkar besta hvert og eitt okkar og sem samfélag með það/þau verkefni sem okkur er falið á hverjum stað og tíma.
Guð gefi okkur öllum góða tíð og fallegar stundir.

Fyrir hönd starfsfólks og presta Lágafellssóknar.
Sr. Ragnheiður Jónsdóttir
sóknarprestur

Rússneska keisaradæmið í Mosfellsbæ

Sveinn Óskar Sigurðsson

Ánægjulegt er að líta til baka og sjá hvað hefur áunnist síðustu misserin. Það sem einna mest hefur komið á óvart er hve fundir bæjarstjórnar eru líflegir og sérstaklega þegar slökkt er á myndavélinni og forseti bæjarstjórnar tilkynnir fundarmönnum að skollið sé á fundarhlé.
Vinarþel og varfærni í orðfari fara þá oft veg allrar veraldar þegar vígvöllurinn er í raun mest lifandi. Stundum eru atlot bæjarstjórnarmanna góð og oft skapast þar ansi náin kynni. Það er sérstaklega ánægjulegt enda slíkt vel þekkt úr hinum rómaða rússneska bókmenntaarfi.
Á vígvellinum er síðan slökkt þegar kveikt er á upptökutækjum fundarins. Prúðbúnir bæjarfulltrúar og nýkjörnir pörupiltar Mosfellsbæjar birtast þá á alheimsnetinu eins og styrjöld hafi aldrei verið háð og skotgrafir aldrei grafnar.

Eftir ósigur Rússa í Krímstríðinu 1856 varð öllum í Rússlandi ljóst að til einhverra umbóta varð að grípa svo rússneska keisaradæmið ætti ekki að liðast í sundur. Fullyrt er að gerspillt embættismanna- og stjórnkerfi, lélegar samgöngur og frumstæður iðnaður hafi ekki síður átt þátt í ósigri Rússa en hrakfarir á vígvellinum. Brugðist var m.a. við með því að breyta skipan sveitarstjórnarmála í Rússlandi. Lénsherrar höfðu ráðið yfir sveitarstjórnum svo áratugum skipti, ef ekki öldum. Hafði Nikulás I á þessum tíma nýlega gefið upp öndina og var fáum harmdauði. Alexander II, sonur hans, tók við og hóf að hrinda miklum umbótum í framkvæmd.
Þó svo að Alexander II hafi nú ætlað sér að hefja umbótastarf hafði hann engin áform um að hrófla við einveldinu frekar en faðirinn. Losaði hann bændur undan átthagafjötrum en skuldsetti þá hressilega í staðinn. Hver þekkir ekki þessa áhugaverðu aðferð við lánveitingar og kröfugerðir?
Vildi Alexander II auka samkeppnishæfni Rússa gagnvart öðrum ríkjum og það fór með hann eins og aðra ágæta umbótamenn að hann var sprengdur í loft upp 1881. Tók þá við sonurinn, Alexander III, og hafði þá frétt að faðir hans hafi hlotið ömurleg örlög eftir allan velgjörninginn sem hann hafði veitt almúganum er fólst m.a. í því að hætta að pína fólk og limlesta. Alexander III tók upp gamla iðju og dró til baka umbætur föður síns og gott betur. Það má segja í þessu samhengi að brennt barn forðist eldinn.

Í ljósi þessa sögubrots frá Rússlandi er afar áhugavert sögulega séð að enn sé á Íslandi hinu góða einhvers staðar ríkjandi virk ritskoðun, skotgrafahernaður og raunveruleg barátta á virkum vígvelli með öllum þeim rómans og ástríðu sem finna má í bestu bókmenntaverkum sögunnar.
Það eru því forréttindi fyrir hvern sem er að sitja í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Þar er af nægu að taka þó svo að umbætur undanfarin kjörtímabil hafi verið afar takmarkaðar. Í einhverjum mæli hefur verið um afturför að ræða eftir að hörundsárir hafa farið í baklás eftir að hafa skaðbrennt sig á umbótum. Fram undan eru nú bjartir tímar og gleðilegir. Ef þessi ástríða og allt þetta umrót heldur áfram með ,,dash“ af umbótum getur maður nærst vel í nágvígi því sem felst með setu í bæjarstjórn Mosfellsbæjar.

Sveinn Óskar Sigurðsson
Fulltrúi Miðflokksins í bæjarstjórn Mosfellsbæjar

Fjölmiðlafrumvarpið og svæðisfjölmiðlarnir

Bryndís Haraldsdóttir

Ég er sannfærð um að samfélagið okkar hér í Mosfellsbæ er ríkara vegna bæjarblaðsins okkar, Mosfellings.
Mosfellingur færir okkur fréttir úr nærsamfélaginu, fréttir sem alla jafna birtast síður í landsblöðunum, og í gegnum Mosfelling geta sveitarfélagið, stofnanir og fyrirtæki í bænum komið til okkar upplýsingum og við opinberað skoðanir okkar um sameiginleg málefni, t.d. með aðsendum greinum. Bæjarbúar virðast vera þakklátir fyrir bæjarblaðið og um 90% íbúa lesa það. Blaðið er samfélagslega mikilvægt.

Allt kostar þetta sitt og rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur verið erfitt í áranna rás. Því hefur menntamálaráðherra lagt fram frumvarp um ríkisstuðning til handa einkareknum fjölmiðlum til efla þá og vernda lýðræðis­hlutverkið sem þeir gegna. Frumvarpið gerir ráð fyrir styrkjum sem numið geta 18% af kostnaði viðkomandi fjölmiðils við öflun og miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllun um samfélagsleg málefni. Gert er ráð fyrir allt að 400 milljónum af ríkisfé á ári hverju vegna þessa stuðnings.

Málið er umdeilt, eðlilega, enda á aldrei að vera sjálfsagt mál að stofna til ríkisútgjalda. Ég tel að hlutverk hins opinbera sé fyrst og fremst að búa til einfalt og gott rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki fremur en að grípa til sértækra aðgerða fyrir einstaka atvinnugreinar. Slíkar aðgerðir þarf að rökstyðja vel, þær þurfa að hafa skýran tilgang og mega ekki valda óæskilegum áhrifum á markaðnum. Hið opinbera verður hins vegar að bregðast við markaðsbresti og það er ljóst að markaðsbrestur er til staðar á íslenskum fjölmiðlamarkaði.
Markaðsbresturinn er einna helst tilkominn af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að ríkisrekni fjölmiðillinn RÚV keppir við frjálsa fjölmiðla um auglýsingatekjur og hins vegar að ríkur hluti af fjölmiðlaneyslu nútímafólks er í gegnum samfélagsmiðla. Þessir samfélagsmiðlar, hvort sem er YouTube, Facebook, Instagram eða aðrir, keppa við íslenska fjölmiðla um auglýsingatekjur en búa ekki við sama rekstrarumhverfi, sömu skatta og skyldur og þeir íslensku.

Með lagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi er stigið ákveðið skref í að viðurkenna mikilvægi fjölmiðla fyrir lýðræðið í landinu. Fjölmiðlar hafa upplýsingahlutverk og eru mikilvægir fyrir tjáningarfrelsi fólks. Ég hygg að allir geti verið sammála um að nauðsynlegt sé að laga og eða bregðast við þeim bresti sem er á fjölmiðlamarkaði. En lög um ríkisstuðning ein og sér geta ekki verið meðalið. Það hlýtur að vera nauðsynlegt samhliða að taka RÚV af auglýsingamarkaði, auk þess sem ástæða er til að skoða hvort mögulegt sé að jafna rekstrarskilyrði íslenskra fjölmiðla og erlendra samfélagsmiðla þegar kemur að auglýsingasölu.

Minni fjölmiðlar, héraðsfréttablöð og bæjarblöð eins og Mosfellingur hafa bent á galla í frumvarpinu þar sem krafa um árlega útgáfu 48 tölublaða að lágmarki er skilyrði fyrir stuðningi. Við þessu verður að bregðast verði frumvarpið að lögum. Enda betur heima setið en af stað farið verði lögin til þess að rugla enn frekar samkeppnisstöðuna á fjölmiðlamarkaði.
Illfært er að færa rök fyrir því að fjölmiðlar eins og Morgunblaðið, Fréttablaðið, Kjarninn eða Stundin séu samfélagslega mikilvægari fyrir íbúa í Mosfellsbæ og eigi því frekar rétt á stuðningi frá skattgreiðendum heldur en sjálft bæjarblaðið Mosfellingur.

Bryndís Haraldsdóttir,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins

Styrkir til íþróttaiðkunar barna á efnaminni heimilum

Valdimar Birgisson

Viðreisn í Mosfellsbæ hefur lagt fram tillögu tvö ár í röð um að stofnaður verði sjóður til styrktar börnum efnaminni foreldra til íþrótta- og tómstundaiðkunar í Mosfellsbæ.
Sjóður þessi hefði til ráðstöfunar um 1,5 milljón króna árlega og væri það fé til viðbótar því sem ætlað er til íþrótta- og tómstundastarfs. Sjóðurinn ætti því að vera fagnaðarefni fyrir íþrótta- og tómstundafélög í bænum. Tillagan var felld bæði árin.

Í drögum að sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins fyrir árið 2020 til 2024 er sérstaklega tekið fram að auka þurfi þátttöku barna frá efnaminni og fjölskyldum af erlendum uppruna í íþrótta- og tómstundastarfi.
Ástæðan er öllum ljós. Íþróttaiðkun barna er jákvæð á allan hátt fyrir þau og á unglingsárum hefur íþróttaiðkun verulega jákvæð áhrif á líkamlegt ástand, sem og andlegan og félagslegan þroska. Hún stuðlar að ábyrgri hegðun, eykur námsárangur, trú á eigin getu og styrkir traust á samfélagið.
Það er því afar mikilvægt að vel sé staðið að íþrótta- og tómstundaiðkun í bænum og að Mosfellsbær styrki áfram þau íþróttafélög sem starfa í bænum.
Það er hins vegar staðreynd að fjárhagsstaða foreldra hefur áhrif á þátttöku íslenskra barna í íþróttum.

Sama í hvaða flokki við stöndum þá hljótum við flest að vera sammála um að gefa börnum jöfn tækifæri. Þannig er það ekki í dag, kostnaður við íþróttaiðkun barna er það hár að börn hafa ekki sömu tækifæri og brottfall úr íþrótta- og tómstundastarfi af þeim sökum er staðreynd.
Við eigum að gera allt sem í okkar valdi er til þess að breyta þessu. Kostnaðurinn er ekki mikill fyrir samfélagið en ávinningurinn getur verið það.

Valdimar Birgisson
fulltrúi Viðreisnar í bæjarstjórn

Meira og betra sjálfstraust, hver vill það ekki?

Lóa Björk Kjartansdóttir

Í vetur hefur starf Powertalk deildarinnar Korpu verið fjölbreytt og skemmtilegt. Starf samtakanna gengur út á sjálfstyrkingu og að auka sjálfsöryggi fólks.
Það er mismunandi hvar fólk stendur þegar það byrjar. Margir eiga erfitt með að tjá sig fyrir framan hóp af fólki. Sumir eiga ekki í neinum vandræðum með að standa upp og láta ljós sitt skína á vinnufundum eða brúðkaupum. En myndu koma efni sínu enn betur og faglegar til skila með æfingu og markvissum undirbúningi. Það eiga allir erindi í starfið, því hver og einn vinnur að því að styrkja sjálfan sig.

Það er margsannað að fólk sem stendur í ræðustól þarf að hafa nokkur atriði í huga ef það vill að áheyrendur taki eftir og muni það sem verið er að koma á framfæri. Það er ekki alltaf nóg að hafa þor til að standa upp, þótt það sé vissulega fyrsta skrefið og mikilvægt.
Starf Korpu gengur út á að fræða fólk og gefa því tækifæri til að flytja ræður og kynningar. Þannig öðlast fólk öryggi og sjálfstraust til að flytja efni á vinnufundum eða skólakynningum. Því æfingin skapar meistarann. Þegar fólk hefur reynslu af því að standa í ræðustól kemur það betur undirbúið og er afslappaðra. Áheyrendur í sal njóta betur og taka betur eftir þegar kynning eða ræða er flutt af fólki sem veit hvað það ætlar að segja og hefur undirbúið efnið og flutning vel.

Starfið gengur ekki bara út á að koma og flytja ræðu. Fólk kemur í samtökin til að öðlast þekkingu á fundarsköpum og fær tækifæri til að stjórna fundum, taka að sér viðburðastjórnun og skipuleggja einstaka fundi svo fátt eitt sé nefnt.
Starfið gengur út á jafningjafræðslu. Þeir sem hafa verið í samtökunum í nokkurn tíma leiðbeina og gefa endurgjöf til þeirra sem koma nýir. Í samtökin hefur fólk komið úr öllum áttum og þannig hefur tengslanet félaga stækkað. Margir eignast vini til lífstíðar því hópurinn verður þéttur og vinnur vel saman.

Ef þú hefur verið að velta fyrir þér möguleikum til að styrkja þig á þessu sviði þá er tilvalið að mæta á fund hjá Korpu. Þann 4. mars kemur Ingveldur Ýr frá Þekkingarmiðlun á fundinn og mun flytja erindið „Styrkari og öruggari rödd“. Við hvetjum fólk til að mæta og kynna sér samtökin og deildina hér í Mosfellsbæ. Gestir eru ávallt velkomnir á alla fundi.

Fundir Korpu eru fyrsta og þriðja miðvikudag í hverjum mánuði klukkan 20:00, í Safnaðarheimili Lágafellssóknar, Þverholti 3 á 2. hæð. Sendu okkur póst ef þú vilt frekari upplýsingar um starfið á korpa@powertalk.is

Lóa Björk Kjartansdóttir

Einelti

Fjalar Freyr Einarsson

Þegar einstaklingur verður fyrir endurteknu og langvarandi áreiti sem honum mislíkar og á erfitt með að verjast því er talað um einelti. Ýmsar skilgreiningar eru til fyrir einelti og misjafnt hversu þröngar þær eru en skilgreiningin hér að framan er alla jafna notuð í grunnskólum.
Sænski prófessorinn dr. Dan Olweus sem Olweusaráætlunin er kennd við telur að um einelti sé að ræða þegar einstaklingur verður fyrir endurteknum neikvæðum verknaði yfir ákveðið tímabil af hendi eins eða fleiri aðila. Einelti á sér einnig stað þegar aflsmunur er á milli einstaklinga. Ekki er talað um einelti þegar átök milli jafn sterkra barna er að ræða. Það sem einum þykir einelti þykir öðrum kannski bara vera stríðni þar sem sársaukamörk barna eru misjöfn.

Ábyrgð skóla og annarra
Í lögum um grunnskóla er kveðið á um að þeir skuli hafa heildstæða stefnu um hvernig fyrirbyggja eigi ofbeldi í skólastarfi og að þeir setji sér aðgerða­áætlun gegn einelti með virkri viðbragðsáætlun til að takast á við eineltismál í skólanum. Lögin eru nokkuð ítarleg þar sem meðal annars er kveðið á um ábyrgð skólans (kennara og stjórnenda), foreldra og aðila í grenndarsamfélaginu sem starfa með börnum og unglingum. Aðgerðaáætlun gegn einelti er hluti af skólanámskrá og á að kynna sérstaklega eftir því sem þurfa þykir og á að birta opinberlega. (Lög um grunnskóla, nr. 91/2008, 3. mgr. 30. gr.)

Einelti á netinu
Einelti hefur breyst talsvert á síðustu árum frá því að vera augljóst einelti með beinum líkamlegum verknaði og/eða útilokun, í falið einelti eins og í gegnum netið. Samskiptin í gegnum netið geta verið sérstaklega ljót og særandi og auðvelt fyrir geranda að eiga í nafnlausum samskiptum. Því er mikilvægt fyrir foreldra að vera vel vakandi yfir því hvernig barnið þeirra notar netið og kenna þeim að nota netið á réttan hátt. Gott er fyrir foreldra að kanna hvaða reglur gilda um forritin sem barnið þeirra notar og skynsamlegt er að fara eftir reglum útgefenda um aldurtakmörk notenda en of algengt er að börn skrái skrái inn rangt fæðingarár, til dæmis inn á samfélagsmiðla, til að geta stofnað reikning.
Reynsla mín í vinnu með börnum og ungmennum hefur kennt mér hversu rík ástæða er fyrir því að það eru aldurstakmörk á notendur samfélagmiðla því börn hafa einfaldlega ekki þroska til að umgangast samfélagsmiðla á þann hátt sem ætlast er til. Ef allir foreldrar tækju sig saman um að virða aldursreglur myndi það minnka til muna flækjustigið í lífi barnsins.
Börn eru mjög varnarlaus gagnvart einelti því þau gera sér ekki alltaf grein fyrir því að um einelti er að ræða og stundum eru þau hreinlega of hrædd við gerandann til þess að þora að segja frá. Börn reyna líka oft að leyna því að þau séu lögð í einelti því þau skammast sín og vilja ekki valda foreldrum sínum áhyggjum.

Einkenni eineltis
Foreldrar þurfa að vera vakandi fyrir þeim einkennum sem barnið getur sýnt verði það fyrir einelti. Helstu einkenni geta verið að barnið vill ekki lengur fara í skólann, kvartar undan verkjum, er niðurdregið eða virðist óhamingjusamt. Önnur einkenni eru ef það kemur heim óvenju skítugt eða það sér á fötum þess, hlutir fara að týnast og það jafnvel sér á líkama þess án þess að barnið geti gert grein fyrir því af hverju.

Hvað er til ráða?
Ef grunur vaknar um einelti þarf að byrja á því að ræða við barnið og komast að því hvort grunurinn reynist réttur. Ef eineltið á sér stað í skólanum skal strax hafa samband við umsjónarkennara barnsins og í mörgum skólum þarf að tilkynna formlega grun um einelti.
Skynsamlegt getur verið að senda deildarstjóra eða skólastjóra afrit til að allir þeir sem máli skipta séu strax upplýstir um stöðuna. Treysti foreldrar sér ekki til að tilkynna eineltið til umsjónarkennara eða stjórnenda skólans geta þeir haft samband við skólaskrifstofu bæjarfélagsins sem tekur þá við keflinu.
Sé grunur um einelti utan skóla þarf að hafa samband við forráðamenn meints geranda og segja þeim frá upplifun ykkar barns. Oftast kemur það foreldrum á óvart þegar þeir heyra af því að það líti út fyrir að barnið þeirra leggi í einelti en flestir foreldrar vilja strax taka fullan þátt í að leysa vandann. Þótt einelti barna eigi sér stað utan skóla er samt skynsamlegt að upplýsa skólann um stöðuna enda skólinn samofinn lífi barnsins.

Mikilvægi foreldra
Foreldrar eru lykilaðilar í að uppræta og koma í veg fyrir einelti. Án aðkomu þeirra og samstarfsvilja er mjög erfitt að stöðva einelti. Stundum getur verið gott að fá hlutlausan þriðja aðila til að vinna með báðum aðilum en oft geta foreldrar leyst málin sín á milli með börnum sínum þegar unnið er af yfirvegun og skynsemi. Það er öllum til hagsbóta.

________________________
Fjalar Freyr Einarsson,
aga- og uppeldisráðgjafi
www.agastjornun.is