Hulda Margrét Eggertsdóttir

Velkominn Arnarskóli í Mosfellsbæ

Hulda Margrét Eggertsdóttir

Hulda Margrét Eggertsdóttir

Mig langar að byrja á því að bjóða þennan skóla velkominn í bæjarfélagið okkar og vekja athygli á því við nærsveitarmenn, og þá sérstaklega bæjaryfirvöld, hvers skonar fengur er þarna á ferð fyrir okkar bæjarfélag.
Ég er svo heppin að hafa notið þjónustu atferlisfræðinga sem þarna starfa. Þarna er verið að setja á fót skóla sem virkileg þörf er á á Íslandi, því þó að skóli án aðgreiningar sé fallegt hugtak og eigi að vera markmiðið fyrir alla, þá eru alltaf einhverjir sem þurfa meiri aðstoð og athygli en hægt er að veita í dag til þess að geta fengið að blómstra og njóta sín.
Eins og kemur fram á facebook-síðunni er Arnarskóli grunnskóli sem stefnt er að að verði stofnaður í síðasta lagi haustið 2017. Skólinn mun bjóða heildstæða þjónustu fyrir fötluð börn með fjölþættar þarfir byggða á aðferðum hagnýtrar atferlisgreiningar. Við viljum starfa eftir hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar og sjáum fyrir okkur að skólinn verði staðsettur í almennum grunnskóla með eins miklu samstarfi við þann skóla og mögulegt er. Skólinn yrði þó rekinn af sjálfseignarstofnun svo bjóða megi upp á þann sveigjanleika og sérþekkingu sem þarf til að koma til móts við þær þarfir sem væntanlegir nemendur okkar munu hafa.
Ég veit að það flotta fólk sem að þessum skóla stendur er að vinna dagsdaglega að ráðgjöf fatlaðra barna meðal annars hjá Greiningarstöð ríkisins og frábært hjá þeim að fara af stað og stofna skólann. Þörfin er mikil. Álag á fjölskyldur fatlaðra barna eins og til dæmis með einhverfu er mikið, ekki síst á barnið sjálft.
Vetrarfrí og sumarfrí eru erfið. Að púsla saman skóla, frístund, stuðningsfjölskyldum, liðveislu, talþjálfun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, atferlisþjálfun… á ég að halda áfram? Þetta er bara toppurinn á ísjakanum. Þarna er verið að bjóða upp á heildstæða þjónustu þannig að það sé samfella og föst rútína allan ársins hring. Atferlisþjálfun er mjög markviss aðferð sem reynist mjög vel að kenna fötluðum eins og til dæmis einhverfum sem eru kvíðnir eða með mótþróa.
Ég veit að lengi var leitað að heppilegu húsnæði undir skólann í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Því kom skemmtilega á óvart að hann skyldi vera stofnaður hér í þessum frábæra bæ Mosfellsbæ. Þar sem framtíðarmarkmiðið er að starfa við hlið almenns grunnskóla skora ég á bæjaryfirvöld að finna stað fyrir þennan skóla innan skólakerfis Mosfellsbæjar.
Eins og ég sagði í byrjun þá er mikill fengur fyrir okkur sem samfélag að fá þennan flotta skóla og mikla þekkingu inn í bæjarfélagið.

Hulda Margrét Eggertsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Bætt lífskjör almennings og kosningar

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Það er óhætt að segja að okkur vegni vel hér á landi þegar litið er til efnahags og lífskjara almennings.
Skuldastaða íslenska ríkisins hefur batnað hratt og hefur ekki verið lægri frá hruni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á að skuldirnar lækki enn meira enda er það besta leiðin til að geta ráðstafað auknu fé í velferðarmála, heilbrigðismál og samgöngumál.
Atvinnuleysi er hér mjög lágt og verðbólgan hefur haldist lág þrátt fyrir mikinn hagvöxt síðustu ára. Eða eins og seðlabankastjóri sagði í sumar „líklega hefur staða efnahagsmála aldrei verið betri í Íslandssögunni“. En þrátt fyrir það horfum við fram á enn aðrar kosningarnar. Ótrúlegt að okkur gangi ekki að halda meiri stjórnmálalegum stöðuleika, sérstaklega þegar horft er til þess sögulega árangurs sem náðst hefur í efnahagsmálum.
Auðvitað er það þannig að góð staða efnahagsmála þýðir ekki endilega aukna hamingju og lífsgæði almennings. En staðan hér er nú samt þannig að við erum með hamingjusömustu þjóðum og hér er jöfnuður hvað mestur.
Við Sjálfstæðismenn göngum keikir til kosninga og leggjum á borðið fyrir kjósendur grunnstefnu flokksins. Frelsi til orðs og athafna, allir eiga að hafa tækifæri til að láta drauma sína rætast.
Allir eiga að hafa jöfn tækifæri til menntunar og jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu. Við treystum best hinum vinnandi manni fyrir tekjum sínum og stefnum ávallt að því að halda skattaálögum í lágmarki.
Þrátt fyrir að mikið sé lagt á kjósendur að ganga til kosninga nú þegar aðeins er liðið ár frá síðustu alþingiskosningum vil ég þó leggja áherslu á að almenningur missi ekki trúna á stjórnmálunum.
Lýðræðið er ekki fullkomið en þó besti kosturinn. Kosningar eru hluti af lýðræðinu og því er það ekki bara æskilegt heldur skylda almennings að taka sér tíma til að kynna sér málefni framboðanna, mynda sér afstöðu og mæta á kjörstað 28. október næstkomandi.
Fyrir ári síðan gaf ég kost á mér til þingsetu og stóð í þeirri meiningu að það gerði ég til næstu fjögurra ára. Ég átti ekki von á kosningum ári seinna en það er staðan í dag. Ég er tilbúin að halda áfram að vinna með Sjálfstæðisflokknum að því að tryggja hér áframhaldandi lífsgæði almennings og mun því aftur bjóða fram krafta mína í komandi kosningum.

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins

Hulda Margrét Rútsdóttir

35 ár frá stofnun Rauða­krossdeildar í bænum

Hulda Margrét Rútsdóttir

Hulda Margrét Rútsdóttir

Þann 6. október næstkomandi verða liðin 35 ár frá því stofnfundur Rauðakrossdeildar Kjósarsýslu var haldinn í Hlégarði.
Á fundinn mættu 42 aðilar sem samþykktu samhljóða tillögu Hilmars Sigurðssonar og Árna Pálssonar um stofnun Rauðakrossdeildar „fyrir Mosfellssveit, Kjalarnes- og Kjósarhreppa.“ Fyrstu stjórnina skipuðu þau Úlfur Þór Ragnarsson, Valgerður Sigurðardóttir (formaður), Sigríður Jóna Friðriksdóttir, Magnús Leópoldsson og Gísli Jónsson.
Á þessum 35 árum hafa verkefnin verið margvísleg og tekið mið af tíðarandanum hverju sinni en alltaf er leitast við að standa vörð um mannréttindi og virðingu einstaklinga. Á 30 ára afmæli deildarinnar árið 2012 breyttist nafn Kjósarsýsludeildar í Rauði krossinn í Mosfellsbæ en starfssvæði og starfsemi deildarinnar er það sama þótt nafninu hafi verið breytt.
Rauði kross Íslands er aðili að Alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem er stærsta mannúðarhreyfing veraldar. Hreyfingin byggir allt sitt starf á sameiginlegum grundvallarmarkmiðum um mannúð, hlutleysi, óhlutdrægni, sjálfstæði, einingu, sjálfboðið starf og alheimshreyfingu.
Meginhlutverk hreyfingarinnar er að bregðast við hvers konar neyð hvort heldur er af náttúru- eða mannavöldum og standa vörð um og aðstoða einstaklinga eða hópa sem verst eru staddir.
Rauði krossinn byggir að stærstum hluta á sjálfboðnu starfi og ber öllum sjálfboðaliðum og starfsmönnum að starfa í samræmi við markmið hreyfingarinnar. Rauði krossinn í Mosfellsbæ er ein af 42 Rauðakrossdeildum sem starfandi eru víðsvegar um landið.
Öflugt net sjálfboðaliða er styrkur félagsins. Rauði krossinn hefur langa reynslu af neyðaraðstoð jafnt innan lands sem utan og er mikilvægur hlekkur í almannavörnum Íslands. Félagið vinnur með íslenskum stjórnvöldum að mannúðarmálum og fylgir eftir grundvallaratriðum Genfarsamninganna gagnvart þeim. Rauði krossinn kannar reglulega hvaða þjóðfélagshópar eru verst staddir í íslensku samfélagi og bregst við niðurstöðunum með breyttum áherslum í starfinu.
Sunnudaginn 1. október frá klukkan 12-14 verður opið hús og kynning á starfi Rauða krossins í Mosfellsbæ í húsnæði deildarinnar, Þverholti 7. Það verður súpa og brauð á boðstólum og heitt á könnunni. Þar gefst upplagt tækifæri til þess að kynna sér verkefnin okkar og spjalla við sjálfboðaliða, stjórnarmeðlimi og starfsmann. Allir velkomnir.

Hulda Margrét Rútsdóttir
Verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ

Úrsúla Jünemann

Hjólum til framtíðar

Úrsúla Jünemann

Úrsúla Jünemann

Evrópska samgönguvika var eins og venjulega í september, nánar tiltekið dagana 16. – 22. septem­ber. Þetta er árlegur viðburður þar sem allir eru hvattir til að huga að vistvænum samgöngum.
Fastur liður í þessari viku er málþingið „Hjólum til framtíðar“ og er það samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Mosfellsbær var gestgjafi á síðasta ári og tókst það vel. Á næsta ári verður það Seltjarnarnes. Í ár var málþingið haldið í Hafnarfirði undir yfirskriftinni „Ánægja og öryggi“.
Mikið var um góð og fróðleg erindi, bæði frá erlendum og innlendum fyrirlesurum. Hápunkturinn var tvímælalaust þegar forseti vor kom sæll og rjóður í kinnum inn í sal og skellti hjólreiðahjálminum sínum út í horn eftir að hafa hjólað frá Bessastöðum í Hafnarfjörðinn. Hans hlutverk var að afhenda Hjólaskálina sem er viðurkenning fyrir stofnanir og fyrirtækin sem hafa haft sig í frammi við að efla hjólreiðarmenninguna á einhvern hátt. Í þetta skipti var það Isavía sem hlaut þennan heiður. Mig minnir að Reykjalundur hér í bænum hafi áður fengið þessa viðurkenningu.
Ég kom heim eftir að dagskránni lauk, full af gleði yfir öllu sem var gert og er að gerast í þágu hjólreiða síðustu árin. Enda eru hjólreiðar ákaflega skemmtilegur samgöngumáti sem er bæði holl hreyfing, vistvænn og dregur úr umferðaþunga og þörf fyrir bílastæði. Ég hef stundað hjólreiðar frá því að ég flutti í Mósó fyrir meira en 30 árum og var ein þeirra sem var álitin stórskrítin af því að ég átti ekki bíl. Þá voru varla til hjólreiðastígar og eina leiðin til Reykjavíkur var meðfram Vesturlandsveginum.
Nú eigum við hér í bænum fullt af skemmtilegum hjólreiðaleiðum. En betur má ef duga skal. Mér detta strax nokkur atriði í hug. Með því að menn nota hjólin ekki einungis yfir hábjart sumarið eykst þörfin fyrir góða lýsingu á leiðunum.
Á stígnum fyrir neðan Holtahverfið til dæmis er allt of langt milli ljósastauranna og niðdimmt þar á milli. Huga þarf einnig að því í hönnun stíga að á þeim myndist ekki pollar sem verða svo að klaka í frosti og setja hjólreiðamenn í hættu. Loks get ég ekki skilið hvað kemur í veg fyrir að við veginn upp að Reykjalundi sé lagður stígur fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Oft er þörf en þarna er nauðsyn.
Ég óska öllum góðs göngu- og hjólreiðaárs og hvet menn að láta í sér heyra ef þeim finnst eitthvað ekki nógu gott.

Úrsúla Jünemann.
Höfundur er starfandi fyrir Íbúahreyfingu í umhverfisnefnd.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Neytendur, frjálslyndi og kerfið

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Það hefur löngum legið ljóst fyrir að það er ekki alltaf vinsælt að stokka upp í stöðnuðum kerfum. Ekki vegna þess að almenningur vilji ekki sjá fram á eðlilegar breytingar heldur fer kerfið sjálft og sterkir hagsmunaðilar því tengdir upp á afturlappirnar.
Neytendur hafa ekki verið sjálfsögð breyta hjá hugmyndasmiðum núverandi landbúnaðarkerfis. Árum saman hefur varðstaða verið uppi um óbreytt landbúnaðarkerfi. Samt koma sömu viðfangsefnin endurtekið upp líkt og í sauðfjárrækt. Bændur standa enn og aftur hjálparlausir frammi fyrir því að afurðarstöðvarnar lækka verðin til þeirra og verðlækkun til neytenda er ekki í myndinni. Samt má ekki hrófla við kerfinu né taka raunverulega á vandanum.
Lausnir gömlu flokkana felast í kyrrstöðu um kerfið. Og að venju borga neytendur og skattgreiðendur brúsann. Það sem verra er, lausnirnar gagnast bændum lítið til lengri tíma litið.
Kröfur um umfangsmikil birgðakaup og útflutningsskyldu sem heldur uppi verði til íslenskra neytenda hafa endurtekið verið settar fram af þingmönnnum Framsóknar, VG og Sjálfstæðisflokks í stað þess að ráðast að rót vandans. Það er óskiljanlegt og óverjanlegt fyrir neytendur.
Svipuð staða er uppi þegar litið er til mjólkurframleiðslunnar en hún er undanþegin samkeppnislögum. Eins og búið var að kynna í sumar á vef ráðuneytisins átti að afnema á þessu þingi undanþágu Mjólkursamsölunnar enda þarf að útskýra það sérstaklega af hverju sérlög eigi að gilda um fyrirtækið en ekki almenn lög. Lítil og meðalstór fyrirtæki í mjólkuriðnaði eiga einnig erfitt með að festa sig í sessi í þessu umhverfi með tilheyrandi tjóni fyrir neytendur. Mótspyrnan var hins vegar mikil frá sérhagsmunaaðilum og gömlu flokkunum. Nú eru breyttar aðstæður og kosningar fram undan. Mikilvægt er að frjálslynd sjónarmið eigi sér áfram talsmenn á þingi sem þora, þrátt fyrir mikla tregðu, að hreyfa við úreltum kerfum. Eðlilegar umbætur í takti við nútímann eru nauðsynlegar en þær koma ekki af sjálfu sér, hvað þá að kerfið sjálft hafi frumkvæði að þeim. Því þarf að breyta.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Höfundur er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þingmaður Viðreisnar.

Vilborg Eiríksdóttir

Kvenfélag Mosfellsbæjar

Vilborg Eiríksdóttir

Vilborg Eiríksdóttir

Kvenfélagið er nú að hefja sitt 109. starfsár og mun vera eitt af elstu starfandi félögum í Mosfellsbæ.
Félagið hefur starfað óslitið frá árinu 1909, fyrst undir nafninu Kvenfélag Kjalarnesþings. Stuttu seinna, eða 1910, var nafninu breytt í Kvenfélag Lágafellssóknar og bar félagið það nafn í rúm 100 ár en þá var samþykkt að breyta yfir í núverandi nafn. Kvenfélagið hefur frá upphafi haft að leiðarljósi að aðstoða með ýmsum hætti þar sem þörf er á, sérstakleg þó í nærumhverfinu.
Ekkert er félagskonum í raun óviðkomandi og í tímans rás hefur félagið komið að ótal mörgum góðum og þörfum verkefnum og tekið virkan þátt í uppbyggingu og framþróun sveitarfélagsins okkar. Kvenfélagið fundar einu sinni í mánuði yfir vetrartímann og gestir eru hjartanlega velkomnir.
Næsti fundur verður mánudagskvöld 2. október 2017 kl. 20:00 í Safnaðarheimili Lágafellssóknar, Þverholti 3, annarri hæð. Hvernig væri að slást í hópinn og taka þátt í gefandi og skemmtilegu starfi?

Vilborg Eiríksdóttir formaður KM

Ólöf Kristín Sívertsen

Gleði í kortunum

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Vonandi hafa allir notið sumarsins og bæjarhátíðarinnar í faðmi fjölskyldu og/eða vina og náð að hlaða sig orku og jákvæðni fyrir veturinn. Við í Heilsueflandi samfélagi ætlum að halda áfram uppteknum hætti og munu haustið og veturinn bera ýmislegt spennandi og skemmtilegt í skauti sér.

Göngum í skólann
Að velja virkan ferðamáta, s.s. göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta og/eða hjólabretti er ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi. Ávinningurinn er ekki eingöngu bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig hagkvæm og umhverfisvæn leið til að komast á milli staða. Markmið verkefnisins Göngum í skólann er einmitt að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Verkefnið stendur yfir frá 6. september til 4. október nk.

Endurskinsvesti fyrir 1. og 2. bekk
Það er löngu sannað að hreyfing hefur góð áhrif á heilbrigði, líðan og lífsgæði. Heilsueflandi samfélag hvetur alla Mosfellinga til að velja sér virkan ferðamáta og til að stuðla sérstaklega að öryggi yngstu grunnskólanemenda Mosfellsbæjar hafa Heilsuvin og Mosfellsbær í samvinnu við TM fært öllum nemendum í 1. og 2. bekk endurskinsvesti til eignar í tengslum við verkefnið Göngum í skólann. Við biðjum foreldra að hvetja börnin sín til að ganga í skólann, finna með þeim öruggustu leiðina og hjálpa þeim að muna að nota vestið til að auka öryggi þeirra.

Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands
Ferðafélags Íslands stendur fyrir lýðheilsugöngum í flestum sveitarfélögum á landinu nú í september sem eru einn af hápunktunum í 90 ára afmælisdagskrá félagsins. Göngurnar munu fara fram alla miðvikudaga í september kl. 18:00. Þetta eru fjölskylduvænar göngur sem taka u.þ.b. 60-90 mínútur og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.
Allar upplýsingar um göngustaði vítt og breitt um landið má nálgast á heimasíðunni www.fi.is­/lydheilsa en hér í Mosfellsbæ verða göngur annars vegar úr Álafosskvos og hins vegar upp á Úlfarsfell (úr Skógræktinni v/Vesturlandsveg) alla miðvikudaga í september kl. 18:00. Komið endilega með okkur, bjóðið fjölskyldu og vinum með og njótum þess að hreyfa okkur saman í fallega bænum okkar. Þátttaka er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.
Það er sem sagt nóg um að vera og hvetjum við ykkur sem fyrr til að taka þátt. Hlúum að okkur sjálfum og því sem okkur þykir vænt um – verum til fyrirmyndar!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og
verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Ingvar Ormarsson

Körfubolti í Mosfellsbæ – að sumri og vetri

Ingvar Ormarsson

Ingvar Ormarsson

Í Mosfellsbæ hefur verið rekin körfuboltadeild innan Aftureldingar um árabil. Starfið hefur í gegnum árin átt sínar hæðir og lægðir. Síðustu tvö ár hefur verið lagður talsverður metnaður í að reka deildina og hefur það skilað sér í fjölgun iðkenda.
Markmiðið með starfinu er að börn í Mosfellsbæ hafi aðgang að fjölbreyttu úrvali tómstunda. Flestir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og iðkendur körfunnar hafa fæstir verið að koma úr öðrum deildum eða íþróttafélögum heldur eru þetta börn sem hafa ekki fundið sig annars staðar.
Síðustu tvö sumur hefur verið boðið upp á sumaræfingar þar sem þátttakendur hafa fengið að leika sér í körfu úti og inni og allir hafa fengið bolta að gjöf frá Körfuknattleikssambandi Íslands. Framtakinu hefur verið vel tekið og mjög góð þátttaka. Menntaðir og reynslumiklir þjálfarar af báðum kynjum hafa leitt starfið og áhersla hefur verið lögð á að bjóða upp á góða og faglega þjálfun.
Í haust bætist við flokkur og þá verða í boði æfingar fyrir krakka í 1. til 7. bekk. Mikill uppgangur hefur verið í íþróttinni síðustu misseri og það hefur bein áhrif á starf í svona deild. Önnur íþróttafélög hafa boðið Aftureldingu sérstaklega velkomna í körfu og okkur hefur verið vel tekið.
Í haust verður iðkendum sem fæddir eru 2008 boðið að æfa frítt fram að áramótum. Æfingatímar eru tilbúnir og þjálfarar klárir og við hlökkum til að hefja starfið og bjóðum alla velkomna að koma og prófa að spila körfu. Áfram Afturelding!

Ingvar Ormarsson.
Formaður körfuknattleiksdeildar Aftureldingar.

Ásgerður Inga Stefánsdóttir

Hefur þú tíma aflögu?

Ásgerður Inga Stefánsdóttir

Ásgerður Inga Stefánsdóttir

Vilt þú taka þátt í skemmtilegu sjálfboðastarfi á vegum Rauða krossins?
Hér í Mosfellsbæ er starfrækt ein af 42 deildum Rauða krossins á Íslandi. Við sinnum mörgum verkefnum í nærsamfélaginu og hefur deildin virkan hóp sjálfboðaliða sem koma að ýmsu hjálparstarfi. Allir ættu að finna eitthvað sem vekur áhuga þar sem verkefnin eru bæði fjölbreytt og gefandi. Í starfi okkar er bæði að finna fasta liði sem og verkefni sem unnin eru eftir þörfum.

Heimanámsaðstoðin verður áfram á bókasafni Mosfellsbæjar á þriðjudögum milli klukkan 14 og 16 í vetur en þar gefst börnum í 1.-10. bekk tækifæri á að fá aðstoð með heimanám. Þar eru allir velkomnir og sér í lagi þeir sem eiga við námsörðugleika að stríða, hafa íslensku sem annað tungumál eða vilja félagsskap við heimalærdóminn.
Á miðvikudögum klukkan 13-16 hittast sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag þar sem prjónuð eru, hekluð og saumuð föt fyrir hjálparstarf innan- og utanlands. Útbúnir eru fatapakkar fyrir 0-12 ára börn í Hvíta Rússlandi. Þar eru kaldir og langir vetur og mikil þörf fyrir hlýjan og góðan fatnað. Í Þverholti er heitt á könnunni og góður félagsskapur.
Viltu skipta, barnafataskiptimarkaður fyrir 12 ára og yngri, er opinn í Rauðakrosshúsinu á miðvikudögum milli 13-16. Markaðurinn er ávallt opinn meðan starfsemi er í húsinu. Þarna gefst foreldrum og forráðamönnum tækifæri á að koma með föt sem eru orðin of lítil og skipta þeim í stærri. Þetta er bæði fjárhagslega hagkvæmt og náttúruvænt.
Heimsóknavinir er félagslegt verkefni þar sem sjálfboðaliðar heimsækja fólk í nærsamfélaginu. Það er vinanna að ákveða hvað felst í heimsóknunum en það getur verið spjall, gönguferðir, ökuferðir, upplestur, handavinna og þannig mætti lengi telja. Helsta hlutverk heimsóknavina er þó fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju.
Gönguvinir hittast fyrir utan Rauðakrosshúsið á mánudögum og fimmtudögum klukkan 16:15 og fara í létta gönguferð í góðum félagsskap.

Fjöldahjálparstöðvar eru opnaðar þegar á þarf að halda og sjá sjálfboðaliðar okkar um það ásamt liðsstyrk úr öðrum deildum. Þetta er mikilvægur þáttur í neyðaraðstoð þegar á þarf að halda. Þar er þolendum séð fyrir helstu grunnþörfum eins og mat, fatnaði og umfram allt húsaskjóli. Ýmis þjónusta kemur einnig inn í þessa neyðaraðstoð eins og skyndihjálp, sálrænn stuðningur, sálgæsla, ráðgjöf og upplýsingagjöf.
Rauði kross Íslands heldur fjölmörg námskeið fyrir sjálfboðaliða sína ár hvert og hefur verið boðið upp á ýmis námskeið og fyrirlestra hjá deildinni okkar í Mosfellsbæ, sem dæmi má þar nefna skyndihjálparnámskeið, Börn og umhverfi og sálrænn stuðningur.

Deildin hefur sinnt málefnum hælisleitenda sem staddir eru í Arnarholti og áður einnig í Víðinesi. Þar höfum við reynt að gera dvöl þeirra þægilegri með því að sinna félagslegum þörfum þeirra. Það hefur verið gert með því að bjóða upp á samveru við hin ýmsu tækifæri, halda enskunámskeið og útvega reiðhjól til afnota. Fram undan er svo áframhaldandi þróun á þessu verkefni og alltaf vantar sjálfboðaliða og nýjar hugmyndir.
Ef þú vilt slást í hópinn og láta gott af þér leiða, tökum við hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ vel á móti þér í Þverholti 7 en einnig er hægt að skrá sig á heimasíðu Rauða krossins: www.raudikrossinn.is. Nánari upplýsingar í síma 564 6035.

Ásgerður Inga Stefánsdóttir sjálfboðaliði
Rauða krossins og kennari í Varmárskóla

Gunnar Ingi Björnsson

Aðstaða fyrir alla Mosfellinga

Gunnar Ingi Björnsson

Gunnar Ingi Björnsson

Nú höfum við hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar tekið í notkun nýja aðstöðu við Hlíðavöll sem við höfum ákveðið að skíra Klett.
Um gríðarlega lyftistöng er að ræða fyrir GM sem mun skipta sköpum í rekstri og uppbyggingu klúbbsins til framtíðar.

Við hönnun hússins og lóðar höfum við horft til þess að gera sem flestum kleift að nýta húsið og aðstöðuna. Þó svo að húsið sé vissulega aðstaða kylfinga er það einnig aðstaða sem opin er öllum þeim sem hana vilja nýta. Tenging við stígakerfi Mosfellsbæjar mun þýða að allir sem vilja njóta útivistar á Blikastaðanesi og nágrenni geta nýtt þessa aðstöðu um leið.

Við munum í sumar koma fyrir hjólagrindum og búnaði til að setja loft í dekk og vatni. Þegar neðri hæð hússins verður tilbúin mun þar verða búningsaðstaða sem göngu-, hjóla- eða hlaupahópar geta nýtt sér. Göngu- og hlaupaleiðir út frá húsinu verða kortlagðar og merktar.

Til framtíðar viljum við hjá GM gjarnan sjá þessa aðstöðu einnig verða aðstöðu þeirra sem vilja njóta útivistar og samveru á besta stað í Mosfellsbænum. Okkar framtíðarsýn er að sjá aðstöðu GM í Bakkakoti, Mosfellsdal, fá sambærilegt hlutverk í Mosfellsdalnum. Með þeim hætti verður hægt að bjóða Mosfellingum og gestum að njóta þjónustu við í hvorum enda sveitarfélagsins.

Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag. Lykilatriði í góðri heilsu er að stunda heilnæma hreyfingu og útivist. Það er jákvætt að íþróttaaðstaða eins og golfvellir geti verið nýttir til eflingar lýðheilsu og stuðlað að aukinni hreyfingu allra aldurshópa.

Barna- og unglingastarf Golfklúbbsins Kjalar, og nú Golfklúbbs Mosfellsbæjar, er stolt klúbbsins. Við hlökkum mikið til þess að nýta nýja aðstöðu til að efla það til muna enda hefur æfingaaðstaða ungra kylfinga verið afar döpur og staðið okkur fyrir þrifum. En við hlökkum einnig mjög til að bjóða alla Mosfellinga velkomna í heimsókn og sjá hvernig þessi nýja aðstaða getur eflt heilsueflandi samfélag Mosfellinga.

Gunnar Ingi Björnsson, framkvæmdastjóri
Golfklúbbs Mosfellsbæjar

Ólöf Kristín Sívertsen

Njótum sumarsins saman!

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Bjartar sumarnætur eru dásamlegar og um að gera að njóta þeirra til fullnustu enda forréttindi að fá að upplifa slíkt.
Margir tengja þennan tíma, þegar sólin er hvað hæst á lofti, við langþráð sumarfrí þar sem við fáum tækifæri til að einbeita okkur að því að njóta og gera það sem okkur finnst skemmtilegast.

Samvera og vellíðan
Lífsmynstur margra breytist á þessum árstíma og flest okkar fá tækifæri til að njóta enn meiri tíma með fjölskyldum okkar og vinum. Njótum þess að vera saman, heimsækja fólkið okkar, tala saman, velta upp hugmyndum, skiptast á skoðunum, gefa af okkur, prófa eitthvað nýtt, spila, leika okkur og hlæja dátt. Gerum alla þessa litlu sjálfsögðu hluti sem eru í raun félagslegur fjársjóður hverrar manneskju.

Njótum náttúrunnar á hreyfingu
Sumarið er ekki hvað síst tíminn til að njóta hinnar dásamlegu fegurðar náttúrunnar og þar hefur heilsubærinn Mosfellsbær svo sannarlega upp á margt að bjóða. Nýtum okkar dásamlegu sundlaugar og hvernig væri síðan að gera gönguáætlun með fjölskyldunni?
Við fjölskyldan erum t.d. búin að ganga á Úlfarsfellið og Mosfell oftar en einu sinni í ár og stefnum á fleiri. Svo eru einnig spennandi göngu- og hjólaleiðir á láglendinu, t.d. meðfram ströndinni, í kringum Álafosskvos, í Reykjalundar­skógi, meðfram Varmánni og svo mætti lengi telja.
Þess utan er líka gaman að nýta þá frábæru aðstöðu sem er t.d. í boði á Stekkjarflöt, í Hamrahlíðarskóginum og Ævintýragarðinum til að bregða á leik og endurvekja barnið í sjálfum sér. Þarna er hægt að ná skemmtilegu markmiði í hverri ferð þar sem náttúran og félagsskapurinn spila að sjálfsögðu stærsta hlutverkið. Hugmyndirnar og möguleikar á útfærslum eru endalausir, hvern langar t.d. ekki í útivistarbingó?

Fjölbreyttur matur – vöndum valið
Munum eftir grænmetinu og ávöxtunum, leggjum upp með hollt nesti, verum dugleg að grilla fisk og gerum í raun hvaðeina sem okkur langar til. Það er enginn alheilagur í þessum efnum en verum samt meðvituð um að gæða hráefni skiptir sköpum og er „gott fyrir kroppinn“ eins og ég segi gjarnan við drengina mína.

Við sem stýrum Heilsueflandi samfélagi þökkum ykkur öllum fyrir frábæra samvinnu í vetur enda er samvinna og jákvætt viðhorf lykill að árangri þegar kemur að uppbyggingu heilsueflandi og -hvetjandi umhverfis hér í Mosfellsbæ.
Við vonum að þið eigið dásamlegt sumar og hlökkum svo sannarlega til að halda vegferðinni áfram í haust í samvinnu við ykkur frábæru Mosfellingar. Njótum sumarsins saman!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og
verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Jón Jósef Bjarnason

Kæru Mosfellingar

Jón Jósef Bjarnason

Jón Jósef Bjarnason

Eftir niðrandi framkomu bæjarráðsmanna einn ganginn til, þungar og staðlausar ásakanir þeirra í minn garð, neitun um að fá að bóka í fjórgang, sem er lögbrot og fundarsköp sem væru ósæmandi grunnskólanemum og í algerri andstöðu við samþykktir bæjarfélagsins, sé ég mér ekki fært að starfa áfram fyrir ykkar hönd.
Þær persónulegu fórnir sem ég hef þurft að þola eru einfaldlega of miklar og ég gefst upp.

Mér þykir fyrir því að skilja ykkur eftir með stjórnmálamenn sem hugsa fyrst um sig, þá um flokk sinn og að lokum um stjórnmálastéttina án þess að gagnrýnisrödd fái að heyrast.

Jón Jósef Bjarnason
varabæjarfulltrúi

Bryndís Haraldsdóttir

Borgarlína í Mosfellsbæ?

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Hvað er Borgarlína?
Borgarlína er hágæða almenningssamgöngur sem keyra á sérakgreinum og eru þannig ekki háðar annarri umferð.
Borgarlínan er leið sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu til að taka á móti þeim 70.000 íbúum sem áætlað er að bætist við til ársins 2040 án þess að umferð aukist í sama hlutfalli.
Þrátt fyrir eflingu almenningssamgangna með Borgarlínu er enn gert ráð fyrir því að einkabíllinn verði helsta samgöngutæki svæðisins. En með slíkri uppbyggingu aukast möguleikar heimila til að nota einkabílinn minna og kannski myndu mörg heimili frekar kjósa að eiga einn bíl í stað tveggja til fjögurra sem er staðan á mörgum heimilum í Mosfellsbæ í dag.

Af hverju Borgarlínu?
Vegna þess að það er mikilvægt að tryggja að ferðatími okkar aukist ekki til allra muna með fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Umferðarspár benda til þess að ómögulegt verði að uppfylla ferðaþarfir fólks til framtíðar eingöngu með uppbyggingu hefðbundinna umferðarmannvirkja.
Það sýna rannsóknir og reynslan bæði hérlendis og erlendis. Kostnaðar- og ábatagreining sýnir fram á það með óyggjandi hætti að það er þjóðhagslega hagkvæmt að setja fjármuni í Borgarlínu. Það dregur úr fjárfestingarþörf hins opinbera í öðrum dýrum samgöngumannvirkjum, það er umhverfisvænt, það minnkar samgöngukostnað heimilanna og bætir lýðheilsu almennings.

Fær Mosfellsbær Borgarlínu?
Svarið við því er JÁ, í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir að allir miðbæjarkjarnar á svæðinu tengist Borgarlínunni. Nú er í forkynningarferli skipulag sem tekur frá rými fyrir Borgarlínu, en samkvæmt þeirri tillögu mun Borgarlína keyra í gegnum væntanlega byggð í Blikastaðalandi, fara Baugshlíðina fram hjá Lágafellsskóla, Bogatanga og svo Þverholtið inn að miðbænum okkar.
Það er mikilvægt fyrir sveitarfélagið okkar að vera tengt þessari miklu samgöngubót sem Borgarlínan verður. Það er þó ástæða til þess að taka það fram að Borgarlínan mun aldrei þjónusta öll hverfi sveitarfélagsins vegna þess að þéttleiki í kringum slíkar stöðvar þarf að vera meiri en gengur og gerist í Mosfellsbæ, þar sem þéttleiki byggðar er almennt­ lítill. Þannig er gert ráð fyrir að þéttleiki á Blikastaðalandi verði meiri en við þekkjum í núverandi hverfum, svo og er gert ráð fyrir meiri þéttleika í miðbænum okkar.

Hvenær og hvernig verður þjónustunni háttað þangað til?
Borgarlínan mun ekki leysa af hólmi hinn almenna Strætó sem mun þjóna öðrum hverfum og tengja þau þannig við Borgarlínu. Ekki er hægt að fullyrða um það hvenær Borgarlínan rís í Mosfellsbæ en það mun verða í tengslum við uppbyggingu Blikastaðlands, líklega á næstu 10-20 árum. Þangað til mun hinn hefðbundni Strætó þjóna íbúum.
Bæjaryfirvöld leggja áherslu á að bæta þjónustu Strætó eins og kostur er. Þannig er brýnt að Strætó keyri í Helgafellshverfi enda byggist það hratt upp með fjölda íbúða. Eins er uppbygging í Leirvogstungu mikil og þar er í skoðun hvernig hægt er að bæta núverandi þjónustu með umhverfislegum og hagkvæmum hætti. Einnig er mikilvægt að kanna hvort ekki sé hægt að auka tíðni ferða, sérstaklega yfir sumartímann.

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður og bæjarfulltrúi

Ólöf Kristín Sívertsen

Með gleði inn í sumarið!

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Þá er sumarið gengið í garð og um að gera að njóta þess til fullnustu með þeim sem okkur þykir vænst um.

Hreyfivika UMFÍ
Það er óhætt að segja að Mosfellsbær hafi verið á iði síðustu vikurnar og viljum við þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessu ævintýri með okkur. Kettlebells, Lágafellssókn, Hestamannafélagið Hörður, World Class, Elding líkamsrækt, Afturelding, Golfklúbbur Mosfellsbæjar, Mosó skokk og Ferðafélag Íslands – bestu þakkir fyrir að opna allar dyr og/eða standa fyrir viðburðum sem gerðu okkur hinum kleift að prófa og njóta.
Við viljum sömuleiðis þakka ykkur öllum sem tókuð þátt, þið öll gerðuð þessa viku frábæra og lögðuð svo sannarlega ykkar lóð á vogarskálarnar til að efla eigin heilsu og skapa þá umgjörð sem hvetur aðra til gera slíkt hið sama – TAKK!

Gulrótin 2017
Það var hátíðleg stund þegar Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri, afhenti Svövu Ýr Baldvinsdóttur Gulrótina 2017 á Heilsudagsmálþinginu í FMOS í síðustu viku.
Þetta er í fyrsta skipti sem Gulrótin er veitt en hún er ný lýðheilsuviðurkenning sem ætlað er að hampa einstaklingi, hópi, fyrirtæki eða stofnun fyrir brautryðjendastarf í þágu heilsueflingar og bættrar lýðheilsu íbúa Mosfellsbæjar. Heilsuvin og Mosfellsbær standa að baki viðurkenningunni sem felur í sér þakklæti fyrir frumkvæði og störf í anda lýðheilsu og á jafnframt að vera hvatning til allra á þessum vettvangi í bæjarfélaginu.
Svava Ýr er svo sannarlega vel að þessari viðurkenningu komin en hún hefur til áratuga unnið ötullega að lýðheilsu og heilsueflingu allra aldurshópa í Mosfellsbæ. Hún hefur virkjað marga í íþróttum, m.a. sem handboltaþjálfari og umsjónarmanneskja Morgunhananna, ásamt því að kenna, fræða og byggja upp stóra hópa með heilsueflingu að leiðarljósi. Svava Ýr er ekki hvað síst þekkt fyrir að starfrækja Íþróttaskóla barnanna hjá Aftureldingu en hún hefur rekið hann í heil 25 ár. Við óskum henni hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna!
Eins og sést þá hefur verið heilmikið um að vera í heilsubænum okkar nú á vordögum og við erum hvergi nærri hætt þótt skipulagðir viðburðir verði í lágmarki í sumar. Svo þið missið ekki af neinu þá hvetjum við ykkur eindregið til að fylgjast með á fésbókarsíðunni okkar „Heilsueflandi samfélag Mosfellsbæ“ en þar birtum við ýmislegt bæði skemmtilegt og praktískt til efla heilsu og auðga andann.
Förum með gleði inn í sumarið!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Signý Björg Laxdal

Sumarið handan við hornið

Signý Björg Laxdal

Signý Björg Laxdal

Nú fer að líða að sumarfríi hjá deildinni okkar í Mosfellsbæ. Sjálfboðaliðar okkar fóru í árlega vorferð daginn fyrir Uppstigningardag, en sú ferð hefur undanfarin ár verið farin stuttu fyrir sumarlokun deildarinnar.
Að þessu sinni var farið umhverfis Snæfellsnesið og Borgarfjarðardeild Rauða krossins einnig heimsótt á heimleiðinni. Ferðin vakti mikla lukku að vanda. Nú fara helstu verkefni okkar í dvala þar til líður að hausti, en skrifstofa deildarinnar verður lokuð frá 19. júní til 14. ágúst nk. Þótt skrifstofa deildarinnar verði lokuð á þessu tímabili og helstu verkefni í dvala, þá er alltaf hægt að ná í okkur í síma deildarinnar ef mikið liggur við. Hælisleitendum og heimsóknarvinum verður sinnt, auk þess sem Gönguvinirnir verða á ferðinni í mestallt sumar.
Á uppstigningardag fór stjórn deildarinnar í vinnuferð til Hveragerðis í stefnumótun og samveru. Þar gafst okkur tækifæri til að yfirfara verkefnin okkar, ræða ný og hvernig við getum gert enn betur á næsta starfsári. Mosfellsbæjardeildin hét áður Kjósarsýsludeild en Kjalarnes og Kjós tilheyrir enn okkar starfssvæði. Margir hælisleitendur eru á okkar svæði í Arnarholti og Víðinesi, þar sem menn hafa lítið við að vera og samgönguleiðir þeirra afar torveldar. Reynt hefur verið að létta þeim samgönguleysið með því að útvega þeim reiðhjól m.a. í samvinnu við Barnaheill, sem hafa í nokkur ár safnað reiðhjólum fyrir börn og ungmenni. Síðastliðnar vikur hefur verið enskunámskeið fyrir þá í húsnæði okkar að Þverholti 7.
Námskeiðið var mjög vel heppnað að sögn sjálfboðaliða og nemenda. Þetta eru allt karlmenn á ýmsum aldri og af mjög mismunandi þjóðerni. Við viljum sérstaklega hvetja karlmenn til þess að kynna sér starf með hælisleitendum.
Okkur þykir gríðarlega mikilvægt að mæta þörfum þeirra sem nýta sér þjónustu okkar og um leið sýna framtíðar sjálfboðaliðum hve gefandi og áhrifaríkt það getur verið að gefa brot af tíma sínum. Það má alltaf hafa samband við okkur í gegnum Fésbókarsíðu deildarinnar eða með því að senda tölvupóst á starfsmann okkar hulda@redcross.is fyrir nánari upplýsingar. Verkefnin eru fjölbreytt en við munum kynna þau betur í haust fyrir forvitna og opna huga.
Fyrir tæplega tveimur árum tók ég þá ákvörðun að gerast heimsóknarvinur en það sem kom mér mest á óvart við það var hve verðmæt ein klukkustund á viku varð. Sjötíu ára aldursmunur okkar varð að engu þegar við sátum saman að skoða gamlar ljósmyndir og drekka kaffi.
Í vor kvaddi sú kæra vinkona en eftir sitja fallegar minningar og þakklæti fyrir kynni okkar. Verkefni geta verið svo miklu meira en bara verkefni. Að lokum er tilvalið að rifja upp sígild orð sem eru eitthvað á þá leið að enginn getur allt, en allir geta eitthvað.
Fyrir hönd stjórnar RKÍMOS þakka ég fyrir velvild í okkar garð og vel unnin störf ómetanlegra sjálfboðaliða. Sjáumst í túninu heima!

Signý Björg Laxdal, varaformaður
Rauða Krossins í Mosfellsbæ.