Fjölgun stöðugilda á bæjarskrifstofunum

Anna Sigríður Guðnadóttir

Hún er lífseig umræðan um fjölgun starfsmanna á bæjarskrifstofunum í kjölfar stjórnkerfisbreytinga og auglýsingar sjö stöðugilda stjórnenda sumarið 2023.
Einhverjir virðast telja sig hafa af því hagsmuni að þvæla þá umræðu. Þess vegna er ástæða til að fara aftur yfir þær breytingar, ráðningarnar umtöluðu og forsendur þeirra.

Forsendur breytinga
Forsendur stjórnkerfisbreytinganna voru annars vegar málefnasamningur meirihlutans en í honum kemur eftirfarandi fram: „Stjórnkerfið og skipulag þess endurspegli umfang þeirrar þjónustu sem því er ætlað að veita. Þannig verði sjónum beint að því efla og auka þann mannauð sem býr í starfsfólki bæjarins í samræmi við aukinn íbúafjölda.“
Hins vegar tók bæjarstjórn ákvörðun um að láta gera stjórnsýslu- og rekstrarúttekt enda langt um liðið frá því starfsemin var síðast tekin út og skoðuð og bæjarbúum fjölgað margfalt.

Eftir stjórnkerfisbreytingar
Við stjórnkerfisbreytingarnar sumarið 2023 var bætt við einu sviði í stjórnkerfi bæjarins, sviði menningar, íþrótta og lýðheilsu. Ástæðan var m.a. áhersla meirihluta B, S og C lista á lýðheilsumál og vilji til að efla menningarlíf í bæjarfélaginu. Með þessari breytingu fjölgaði sviðsstjórum um einn.
Sumarið 2023 var ráðið í störf skrifstofustjóra umbóta og þróunar, sviðsstjóra mannauðs og starfsumhverfis, leiðtoga leikskóla og grunnskóla, umhverfis, Mosfellsveitna og leiðtoga fötlunarmála. Samtímis var starf sviðsstjóra þjónustu- og samskiptasviðs lagt niður sem og stöðugildi framkvæmdastjóra Skálatúns.
Fyrrum stjórnendur Mosfellsveitna, grunnskóla-, leikskóla-, umhverfis- og mannauðsmála ásamt sviðsstjóra fræðslu-og frístundasviðs höfðu ýmist horfið til annarra starfa eða hætt vegna aldurs. Í stað þess að ráða einstaka stjórnendur þegar stöður losnuðu var tekin ákvörðun um að fresta ráðningum þar til eftir stjórnsýsluúttekt og stjórnkerfisbreytingar.

Aukin verkefni
Starfsmönnum á velferðarsviði hefur hins vegar fjölgað frá því að núverandi meirihluti tók við vegna samninga við ríkið um verkefni eins og innleiðingu farsældar, samning um samræmda móttöku og nú síðast verkefnið Gott að eldast. Þau stöðugildi eru að fullu fjármögnuð með samningum við ríkið.
Ráðið var í nýtt stöðugildi viðburða­stjóra Hlégarðs og á fræðslu- og frístundasviði var bætt við stöðugildi vegna barna með sértækar þarfir í grunnskólum. Einnig var ákveðið að ráða skólasálfræðing og talmeinafræðing inn í skólaþjónustuna sem áður höfðu starfað sem verktakar og því ekki um útgjaldaaukningu að ræða.
Haustið 2022 var samþykkt í fjárhags­áætlun að styrkja skipulagssviðið sérstaklega enda sögulega stór verkefni í gangi. Fékk skipulagsfulltrúi til liðs við sig verkefnisstjóra auk þess sem lögfræðiþjónustan var styrkt. Hvort tveggja löngu tímabært með auknum umsvifum.
Síðan var samþykkt í fjárhagsáætlun að ráða sérstakan mannauðsráðgjafa fyrir leik- og grunnskóla og er sú auglýsing í gangi núna. Viðkomandi mun að mestu leyti starfa úti í skólunum.
Mosfellsbær tók nýlega að sér það umfangsmikla verkefni á sviði fötlunarmála að reka Skálatún. Þeirri breytingu fylgdu rúmlega 100 starfsmenn í 70 stöðugildum. Í öllum samanburði um fjölgun starfsmanna bæjarins þarf að hafa þessa breytu í huga.

Áfram gakk
Það er hollt að fara með reglubundnum hætti í gegnum skipulag og stjórnkerfi bæjarfélags eins og Mosfellsbæjar og ef ekki næst árangur með núverandi skipulagi, þá hikar meirihlutinn ekki við að endurskoða það enn frekar.
Mosfellsbær býr að miklum mannauði á öllum sviðum sinnar starfsemi. Þar starfar gamalreynt starfsfólk ásamt öflugum nýliðum sem saman efla og auðga starfsemi sveitarfélagsins og munu, undir forystu okkar frábæra bæjarstjóra, halda áfram að þjónusta bæjarbúa með fyllstu hagkvæmni að leiðarljósi.

Anna Sigríður Guðnadóttir,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Íbúakönnun vegna nýrrar þjónustu- og aðkomubyggingar að Varmá

Halla Karen Kristjánsdóttir

Íþróttasvæðið okkar að Varmá er mjög dýrmætt og mikilvægt að um það gildi skýr framtíðarsýn.
Því var ákveðið að mynda stýrihóp sem hefði það hlutverk að endurskoða framtíðarsýnina fyrir svæðið, kortleggja íþróttasvæðið að Varmá með tilliti til skipulegra þátta og þarfagreiningar vegna uppbyggingar til næstu 15 ára með áherslu á að styrkja íþróttastarf, bæta útivistaraðstöðu nemenda í aðliggjandi skólum og almennt auka gæði svæðisins fyrir íbúa Mosfellsbæjar.
Þeir sem eru í stýrihópnum eru kjörnir fulltrúar, tveir frá meirihluta og einn frá minnihluta, embættismenn og fulltrúi Aftureldingar ásamt bæjarstjóra.
Fyrsta verkefni stýrihópsins er að vinna að þarfagreiningu fyrir nýja þjónustu- og aðkomubyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá.
Nýrri byggingu er ætlað að verða miðpunktur íþróttamiðstöðvarinnar þar sem veitt er ýmiss konar þjónusta með fjölbreyttri aðstöðu fyrir iðkendur, starfsfólk, nemendur og gesti. Mikilvægur liður í þeirri vinnu er könnun meðal hagaðila og íbúa. Könnunin hefur þegar verið send á ýmsa hagaðila svo sem iðkendur og forsjáraðila, starfsfólk Mosfellsbæjar sem vinnur á eða tengt íþróttasvæðinu að Varmá, starfsfólk íþróttafélaganna, þjálfara og sjálfboðaliða. Könnunin er einnig opin öllum íbúum, því að sjálfsögðu viljum við heyra raddir sem flestra íbúa og hvetjum því öll til þátttöku í henni.

Könnunin er framkvæmd fyrir stýrihóp­inn um endurskoðun á framtíðarsýn
Verkefninu í heild er skipt upp í þrjá áfanga og má þar fyrst nefna fyrrnefnda endurskoðun á þarfagreiningu fyrir þjónustu- og aðkomubyggingu. Þá er það vinna við heildarskipulag Varmársvæðisins með hliðsjón af uppbyggingarþörf íþróttastarfs og annarri uppbyggingu. Að lokum er það framkvæmd kostnaðarmats valkosta með tilliti til uppbyggingar svæðisins og fjármögnunar íþróttamannvirkja.
Könnunin er hluti af fyrsta verkþætti verkefnisins sem er gert ráð fyrir að verði lokið í apríl næstkomandi, en tímalína verkefnisins í heild nær fram í september 2024.

Hvetjum öll til þátttöku
Könnunin sem er opin öllum á vef Mosfellsbæjar til og með 15. mars 2024 er nafnlaus og svör ekki rekjanleg til einstakra þátttakenda. Það er mikilvægt fyrir stýrihópinn að heyra raddir allra íbúa í tengslum við þessa greiningarvinnu og því hvetjum við öll til að taka þátt í könnuninni og vera hluti af því að móta framtíðarsýn fyrir íþróttasvæðið að Varmá.
Ég vil hrósa starfsfólkinu okkar hjá Mosfellsbæ sem heldur utan um þessa góðu og vönduðu vinnu sem jafnframt er unnin hratt og skipulega. Þetta er með skemmtilegri verkefnum sem ég hef komið nálægt og ég hlakka til að sjá niðurstöður könnunarinnar.
Ég hef miklar væntingar til þessarar vinnu og vil segja við þig: Mundu að þitt álit skiptir máli því þjónustu- og aðkomubygging skiptir fólk á öllum aldri máli þar sem flestir tengjast henni á einn eða annan hátt.

Halla Karen Kristjánsdóttir
formaður bæjarráðs og formaður stýrihóps um uppbyggingu á Varmársvæðinu

Mosfellsk menning

Franklín Ernir

Menningarlíf Mosfellsbæjar hefur svo sannarlega verið á hraðri uppleið undanfarna mánuði. Það eru margir þættir sem eiga þar hlut að máli. Óhætt er þó að segja að hugsjón og áhugi Mosfellinga ber þar hæst.
Með tilkomu nýs fyrirkomulags á rekstri Hlégarðs hefur komið í ljós hvað tækifærin til að efla menningu í Mosfellsbæ eru mikil og fjölþætt. Á núverandi kjörtímabili hefur mikil vinna farið í það að skapa fjölbreyttan vettvang til menningariðkunar og er þeirri vinnu aldeilis ekki lokið.

Menning í mars
En nú er marsmánuður genginn í garð og verkefnið okkar „Menning í mars“ þar með hafið.
Það er einlæg von okkar að þetta frábæra framtak muni ýta undir og styrkja menningarlíf Mosfellsbæjar til komandi framtíðar sem og veita listiðkendum tækifæri á því að kynnast öðru áhugafólki um listir og styrkja þar með menningarsamfélagið okkar enn frekar.

Helga Möller

Framtíð mosfellskrar menningar
Þá er mikil vinna fram undan hjá okkur í menningar- og lýðræðisnefnd Mosfellsbæjar sem snýr að því að efla menningarlíf bæjarins og verður spennandi að sjá hvernig fram vindur.
Eitt þeirra verkefna er að móta framtíð Hlégarðs. Sú vinna felur í sér áframhaldandi samræður við bæjarbúa þar sem þeim gefst kostur á því að viðra sínar hugmyndir og sýn á starfið í Hlégarði. Þannig mótum við framtíð mosfellskrar menningar saman.

Franklín Ernir Kristjánsson, fulltrúi D-lista í menningar- og lýðræðisnefnd
Helga Möller, fulltrúi D-lista í menningar- og lýðræðisnefnd

Brúarland, félags- og tómstundahús

Ásgeir Sveinsson

Fulltrúar D-lista í bæjarráði lögðu fram tillögu á fundi bæjarráðs þann 19. október sl. um að félagsstarf eldri borgara fái afnot af Brúarlandi fyrir starfsemi sína.
Tillögunni var vísað á fundi bækjarráðs til velferðarsviðs og á fundi bæjarráðs þann 29. febrúar var tillagan samþykkt og mun félagsstarf eldri borgara flytja í Brúarland þegar framkvæmdum við húsnæðið verður lokið.

Félags- og tómstundstarf eldri borgara
Í Mosfellsbæ er rekið öflugt félagsstarf fyrir eldri borgara. Íbúar Mosfellsbæjar 67 ára og eldri eru um 1.400. Félagsstarf eldri borgar í Mosfellsbæ er opið öllum sem náð hafa 60 ára aldri og er fjöldi íbúa 60 ára og eldri í Mosfellsbæ um 2.400. Þátttakendum í félagsstarfi fjölgar stöðugt og er núverandi húsnæði á Eirhömrum orðið of lítið fyrir starfsemina.
Með flutningi félagsstarfsins í Brúarland opnast tækifæri til að efla enn frekar starfið og auka fjölbreytni, auk þess sem hægt verður að þjóna betur ört stækkandi hóp eldri borgara sem vilja taka þátt í starfinu.

Svala Árnadóttir

Hentugt og vel staðsett húsnæði fyrir félags- og tómstunda­starfsemi
Undanfarna mánuði hefur verið haldið úti félagsstarfi í Hlégarði á þriðjudögum. Sú breyting hefur tekist mjög vel og mun vonandi halda áfram því félagsstarf í Brúarlandi og í Hlégarði mun styðja hvort við annað.
Staðsetning Brúarlands er afar heppileg fyrir þessa starfsemi, húsið er í nálægð við gönguleiðir í Ævintýragarðinum, við íþróttasvæðið að Varmá og við Hlégarð, ásamt því að bílastæði eru ekki af skorunum skammti þar líkt og hefur verið vandamál við Eirhamra.
Það kom einnig fram í okkar tillögum um nýtingu Brúarlands að mikilvægt væri að horfa til þess að nýta húsnæðið í þágu íbúa bæjarins á öllum aldri með einhvers konar blandaðri starfsemi. Það er kjörið tækifæri í að leigja hluta hússins út á kvöldin og um helgar í margvíslega félags- og tómstundastarfsemi, á þeim tímum sem félagsstarf eldri borgara er ekki í gangi.
Það er einnig mikilvægt að huga vel að þjónustu við þá eldri íbúa sem heilsu sinnar vegna ættu erfitt með að sækja starfið utan Eirhamra, að félagsstarf væri áfram í boði fyrir þann hóp á Eirhömrum.

Áhersla á málefni eldri borgara
Fulltrúar D-lista í bæjarstjórn hafa undanfarin ár lagt mikla áherslu á það mikilvægi sem lýðheilsa og aðgangur að öflugu félagsstarfi sé í boði í Mosfellsbæ og við munum halda áfram þeirri vinnu okkar í nefndum og í bæjarstjórn.
Við áttum frumkvæði og stóðum að því á síðasta kjörtímabili í samstarfi við VG að stórefla framboð og fjölbreytni í skipulögðum leikfimitímum fyrir eldri borgara sem hafa heldur betur notið vinsælda og við stóðum fyrir stofnun Karla í skúrum sem er mikilvægur og stækkandi félagsskapur.
Einnig komum við í framkvæmd könnun um þarfir og líðan eldri borgara þar sem fram hafa komið góðar ábendingar um hvað mætti betur fara í málefnum eldri borgara og unnið hefur verið í þeim málum undanfarin misseri.
Það er sérstaklega ánægjulegt að tillaga okkar um færslu félagsstarfsins í Brúarland skuli hafa verið samþykkt og hvetjum við eldri borgara sem nú þegar eru ekki að taka þátt í starfinu að skoða vel hvað er í boði, því allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Við hlökkum til að sjá Brúarland sem tómstundahús allra Mosfellinga.

Ásgeir Sveinsson bæjarfulltrúi, oddviti D-lista
Svala Árnadóttir fulltrúi D-lista í Öldungaráði

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ og samstarf við Grænland

Við erum tveir kennarar við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ og undir lok síðasta mánaðar héldum við í nokkurra daga ferðalag til Nuuk á Grænlandi.
Tilgangur ferðalagsins var að kanna möguleikann á samstarfi við grænlenskan framhaldsskóla með þau markmið að leiðarljósi að skapa vettvang fyrir bæði okkar nemendur og grænlenska nemendur til að kynnast sögu landanna, menningu þeirra og náttúru og að sjálfsögðu hvert öðru í gegnum samstarf á netinu og vettvangsferðir. Þetta ferðalag okkar var styrkt af Nordplus Junior sem veitir styrki til þróunarverkefna skóla.
Íslendingar og Grænlendingar eru nágrannaþjóðir og aukinn áhugi er á nánara samstarfi þeirra á milli eins og viljayfirlýsing forsætisráðherra Íslands, Katrínar Jakobsdóttur, og formanns landsstjórnar Grænlands, Múte B. Egede, frá desember 2022 ber með sér. Í yfirlýsingunni eru tilgreind sjö málefnasvið sem sérstök áhersla verður lögð á og eru menntun og menningarsamstarf þar á meðal. Við í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ höfum mikinn áhuga á að leggja okkar af mörkum í þessu aukna samstarfi enda mikilvægt að nemendur fái tækifæri til að kynnast og mynda dýrmæt tengst.
Í heimsókn okkar til Nuuk hittum við meðal annars kennara og stjórnendur í tveimur menntastofnunum, ræðismann Íslands á Grænlandi, skoðuðum Þjóðminjasafn Grænlands og undirbjuggum næstu skref í samstarfsverkefninu.
Heimsóknin til Nuuk var afar lærdómsrík og það var sönn ánægja að hitta grænlensku nágranna okkar og finna gestrisni þeirra og hvað við eigum margt sameiginlegt. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs sem mun vonandi gera okkur kleift að bjóða upp á Grænlands- og Íslandsáfanga styrktan af Nordplus Junior þar sem nemendur fá að fræðast um og ferðast til Grænlands með okkur í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.

Dóra Þorleifsdóttir, dönskukennari og Halldór Björgvin Emmuson Ívarsson, sögukennari

Fasteignagjöld í Mosfellsbæ hækka um 38%

Hákon Björnsson

Hér að ofan birti ég yfirlit yfir fasteignagjaldaálagningu Mosfellsbæjar á heimili mitt að Akurholti 1 í Mosfellsbæ fyrir árin 2022–2024.
Taflan sýnir að á síðustu tveimur árum hafa fasteignagjöldin hækkað um 37,9%. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 17,3% og launavísitalan um 15,7%. Hækkun fasteignagjalda í Mosfellsbæ á umræddu tímabili er því langt umfram hækkun almenns verðlags og hækkun launa.

Bæjarfulltrúar Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar rituðu grein í Mosfelling í nóvember 2023 þar sem þeir segja að í málefnasamningi meirihluta bæjarstjórnar Mosfellsbæjar sé „kveðið á um að álagningarprósentur fasteignagjalda verði lækkaðar til að koma til móts við hækkun fasteignamats og í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er staðið við það markmið meirihlutans“.
Eftir yfirferð á álagningu fasteignagjalda á heimili mitt síðustu tvö árin á ég erfitt með að skilja hvernig bæjarfulltrúar Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar telja sig hafa lækkað álögur á heimilin í Mosfellsbæ, en í millifyrirsögn í umræddri grein þeirra í Mosfellspóstinum stendur: „Lækkum álögur á heimilin“.

Hákon Björnsson

Blikastaðaland – samráð við íbúa mikilvægt

Valdimar Birgisson

Áform um íbúðabyggð á Blikastaðalandi hafa verið á aðalskipulagi í Mosfellsbæ í áratugi. Samhliða kynningu á drögum að nýju aðalskipulagi sl. vor voru frumdrög að rammahluta aðalskipulags fyrir Blikastaðaland kynnt.
Gert er ráð fyrir að Blikastaðir verði eitt þéttbýlasta íbúðarsvæði Mosfellsbæjar til samræmis við markmið svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og samgöngusáttmála sveitarfélaganna. Áhersla deiliskipulagsins verður á:
• Samspil byggðar og náttúru.
• Blágrænar ofanvatnslausnir.
• Samfélagsleg gæði.
• Gæði byggðar.
• Aukinn líffræðilegan fjölbreytileika grænna svæða
• Fjölbreytt íbúðarhúsnæði.

Skipulagsnefnd samþykkti 1. desember sl. að auglýsa skipulagslýsingu deiliskipulags. Tilgangur skipulagslýsingar er „að tryggja aðkomu almennings og hagsmunaaðila að skipulagsferlinu á fyrstu stigum þess”.
Athugasemdir sem bárust voru lagðar fyrir skipulagsnefnd 19. janúar sl.

Tímalína verkefnisins er eftirfarandi:
• Desember 2023. Skipulagslýsing auglýst.
• Nóvember 2023 – ágúst 2024. Skipulagstillögur unnar og samráð haft við umsagnar- og hagsmunaaðila.
• September 2024. Skipulagstillögur kynntar á forkynningarstigi, móttaka og úrvinnsla ábendinga. Almennur kynningarfundur.
• Október 2024 – maí 2025. Skipulagstillögur unnar áfram, frekara samráð við hagsmunaaðila, m.a. vegna mögulegra ábendinga.
• Vor 2025. Skipulagstillögur auglýstar og kynningarfundur haldinn. Móttaka og úrvinnsla athugasemda og ábendinga.
• Sumar 2025. Samþykktarferli og gildistaka. KYNNING, SAMRÁÐ OG SKIPULAGSFERLIÐ.

Þær athugasemdir sem bárust við skipulagslýsinguna voru mest ábendingar, m.a. á mikilvægi þess að fráveitumál væru vel skipulögð. Einnig kom ábending frá Umhverfisstofnun um að samkvæmt Náttúrufræðistofnun Íslands er heit uppspretta á skipulagssvæðinu. Náttúrufræðistofnun vekur athygli á því að ekki er ólíklegt að fuglalíf sé töluvert á svæðinu og eðlilegt að leggja mat á þá breytingu sem verður. Þá bárust jafnframt athugasemdir frá nýstofnuðum Hagsmunasamtökum íbúa í Mosfellsbæ.
Helstu athugasemdir þeirra eru að þau telja að skipulagsnefnd þurfi að útskýra fyrir almenningi hver sé ástæða þess að nefndin telji mikilvægt að hefja deiliskipulagsvinnu sem ekki er í samræmi við gildandi aðalskipulag.
Rétt er að benda á að í lögum er heimild til að vinna deiliskipulag á sama tíma og aðalskipulag er endurskoðað.
Önnur athugasemd samtakanna lýtur að því að þau telja nauðsynlegt að skipulagsnefnd útskýri fyrir almenningi af hverju nefndin telur tímabært að skipuleggja svona þétta byggð þegar augljóst er að uppbygging vegna Borgarlínu er ekki komin á það stig að hún sé tímabær.
Í þessu samhengi má benda á að pólitískur einhugur ríkir í bæjarstjórn Mosfellsbæjar um að hágæða samgöngur séu nauðsynlegar ætlum við að þróa bæinn okkar.
Þriðja athugasemd hagsmunasamtakanna lýtur að því að ekki hafi verið haft samráð við íbúa.
Hvað þetta varðar vil ég árétta að í gegnum þetta ferli hafa rammahlutinn, drög að aðalskipulagi og skipulagslýsingin verið auglýst og hafa íbúar geta kynnt sér þessar tillögur á vef Mosfellsbæjar eða Skipulagsstofnunar. Eins og fram kemur hér að ofan þá eru fyrirhugaðir að minnsta kosti tveir kynningarfundir og ekki verður hikað við að hafa þá fleiri ef þurfa þykir.
Hvað varðar þéttleika byggðarinnar er mikilvægt að finna jafnvægi á milli þéttleika byggðar, innviðauppbyggingar og mannlífs, og mun það verða leiðarljós í þeirri vinnu sem fram undan er. Þrátt fyrir meiri þéttleika en í öðrum hverfum Mosfellsbæjar, má benda á að þéttleiki verður samt sem áður minni en víða í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þéttari byggð skapar möguleika á fjölbreyttari íbúðargerðum og við þurfum sannarlega húsnæði fyrir alla. Það er ekki valkostur fyrir fyrstu kaupendur að kaupa fyrstu eign í sérbýli, eða stórar, dýrar íbúðir í fjölbýli. Betri nýting á landi skapar meiri þjónustu og styttra er fyrir íbúa að sækja þjónustu.

Valdimar Birgisson,
formaður skipulagsnefndar í Mosfellsbæ

Er Mosfellsbær að stuðla að betri heilsu bæjarbúa?

Halla Karen Kristjánsdóttir

Góð heilsa er eitt af því dýrmætasta sem við eigum eða eins og spakmælið segir „Góð heilsa er gulli betri“.
Við berum mikla ábyrgð á eigin heilsu en það er ýmislegt í umhverfinu okkar sem getur ýtt undir að við verðum duglegri að leggja inn í heilsubankann. Það sem skiptir sköpum í því eru foreldrar, vinir, skólasamfélagið allt, íþrótta- og tómstundafélög og aðrir sem bjóða upp á almenna heilsurækt hvort sem hún er andleg, líkamleg eða félagsleg. Sveitarfélagið sjálft hefur líka mikil áhrif með því að hafa gott aðgengi að íþróttamannvirkjum, útivistarsvæðum, sundlaugum, göngu- og hjólreiðastígum, bjóða upp á fræðslu, hvatningu og leggja áherslu á það sem eykur heilsu og vellíðan íbúa.
Mosfellsbær er Heilsueflandi samfélag. Það þýðir að við leitumst við að allar ákvarðanir séu teknar með lýðheilsusjónarmið í huga.

Ákvarðanir sem stuðla að aukinni lýðheilsu
Í kjölfar stjórnsýsluúttektar hjá Mosfellsbæ sem var framkvæmd á síðasta ári var ákveðið að leggja enn meiri áherslu á menningu, íþróttir og lýðheilsu með því að búa til nýtt svið sem vinnur sérstaklega að þessum mikilvægu málum.
Við erum íþrótta- og lýðheilsubær. Við erum með þrjár íþróttamiðstöðvar sem iða af lífi alla daga vikunnar. Við rekum tvær sundlaugar sem eru opnar frá morgni til kvölds. Opnunartíminn hefur verið lengdur um 30 mín alla virka daga og það er ókeypis fyrir börn undir 15 ára og 67 ára og eldri.
Mosfellsbær býður upp á frístundaávísanir fyrir börn og eldra fólk. Fjárhæðir hafa verið hækkaðar og reglum breytt þannig að hægt er að nota ávísanirnar í styttri námskeið eða yfir sumartímann.
Nýlega var gerður samningur við Sporið um að leggja skíðagöngubrautir hér víðsvegar um bæinn sem hafa notið mikilla vinsælda. Þetta framtak stuðlar að útiveru og hreysti fyrir alla aldurshópa.

Íþróttasvæðið okkar að Varmá er mjög dýrmætt og mikilvægt að um það gildi skýr framtíðarsýn. Þess vegna hefur stýrihópur sem á að endurskoða framtíðarsýn fyrir svæðið hafið störf. Hlutverk hópsins er að kortleggja íþróttasvæðið að Varmá með tilliti til skipulagslegra þátta og þarfagreiningar vegna uppbyggingar til næstu 15 ára.
Fyrsti áfanginn, sem ljúka á 1. apríl, er endurskoðun þarfagreiningar vegna þjónustubyggingar og hópurinn mun að sjálfsögðu nýta þau gögn sem þegar hafa verið unnin. Seinni áfanginn er þá framtíðarsýn fyrir uppbyggingu íþróttaaðstöðu í Mosfellsbæ og heildarsýn yfir uppbyggingu á Varmársvæðinu. Ég vænti mikils af starfi þessa hóps enda um mjög mikilvægt lýðheilsuverkefni að ræða sem skiptir fólk á öllum aldri hér í Mosfellsbæ máli.
Félag eldri borgara býður upp á mjög fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf sem ýtir heldur betur undir að fólki líði betur líkamlega sem og andlega. Maður getur hreinlega hlakkað til að eldast og fá að taka þátt í því fjölbreytta starfi.
Bærinn hefur tekið alfarið yfir rekstur félagsheimilisins okkar, Hlégarðs, og þannig stuðlum við að auknu menningarlífi fyrir íbúa en menning er mikilvægur hluti af lýðheilsu.

Við berum öll ábyrgð
Hér er aðeins stiklað á stóru en það eru fjölmörg verkefni og fjölmargir aðilar í Mosfellsbæ sem stuðla að aukinni lýðheilsu. Íþrótta- og tómstundafélög sem er stýrt af sjálfboðaliðum eru sérstaklega mikilvæg og þar eigum við Mosfellingar mikinn mannauð.
Það er nauðsynlegt að allir finni sér einhverja íþrótt eða tómstund sem ýtir undir að rækta líkama og sál en það sem skiptir líka miklu máli er hvað maður tileinkar sér og gerir dagsdaglega. Eins og að njóta útiveru, ganga í búðina, vera virkur heima við, fá nægan svefn, borða hollan mat, rækta garðinn sinn, moka snjó og ekki má gleyma að hugsa jákvætt.
Við lifum aðeins einu sinni og því þurfum við að vanda okkur og minna á að samfélagið okkar er betra með alla sem hraustasta, virkasta og glaðasta innanborðs.

Halla Karen Kristjánsdóttir
bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður bæjarráðs

Tökum fagnandi á móti nýju ári

Regína Ásvaldsdóttir

Kæru íbúar og starfsfólk Mosfellsbæjar.
Ég óska ykkur gleðilegs nýs árs með kærum þökkum fyrir samstarfið á liðnu ári.
Árið 2023 var fyrsta heila árið mitt í starfi bæjarstjóra og er óhætt að segja að það hafi verið viðburðaríkt.

Það var til dæmis ótrúlega gefandi að fylgjast með okkar flotta íþróttafólki vinna hvern sigurinn á fætur öðrum og ýmist sækja bikara heim eða komast í undanúrslit.
Þá var ekki laust við að hjartað tæki hopp af stolti þegar nafnið Afturelding rúllaði á sjónvarpsskjánum mörg sunnudagskvöld í fyrravetur. Afar vel gerðir og leiknir þættir sem vekja athygli á bænum okkar langt út fyrir landssteinana.
Bæjarhátíðin Í túninu heima heppnaðist afar vel og metþátttaka var á flestum viðburðum, þrátt fyrir að veðrið væri aðeins að stríða okkur.
Eitt af því sem ég upplifi að hafi haft mikið gildi fyrir Mosfellinga á síðasta ári er ákvörðun bæjarstjórnar að yfirtaka rekstur Hlégarðs og ráðning viðburðastjóra fyrir húsið. Það má með sanni segja að Hlégarður hafi fljótt náð fyrri sess sem eins konar hjarta Mosfellsbæjar og nýir dagskrárliðir hafi slegið í gegn.
Annar mikilvægur áfangi á árinu var samningurinn við innviðaráðuneytið, mennta-og barnamálaráðuneytið og IOGT um yfirtöku Mosfellsbæjar á þjónustu við íbúa á Skálatúni og sérstakt framlag til þess verkefnis frá Jöfnunarsjóði. Jafnframt var skrifað undir samning um stofnun nýs félags um uppbyggingu á þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur á lóð Skálatúns.
Meðal stofnana sem flytjast á svæðið eru Barna- og fjölskyldustofa, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og Ráðgjafa- og greiningarstöð ríkisins. Það er skýrt í öllum samningum að núverandi íbúar Skálatúns njóti forgangs og þurfi ekki að flytja, kjósi þeir það ekki. Svæðið er það stórt að það er pláss fyrir uppbyggingu samhliða búsetu þeirra á svæðinu.
Á árinu var einnig gerð rekstrar- og stjórnsýsluúttekt sem leiddi til stjórnkerfisbreytinga sem tóku gildi 1. september.
Það væri ekki rétt að segja að árið hafi liðið án nokkurra áskorana. Verkfall aðildarfélaga BSRB hafði til dæmis mikil áhrif á starfið í leikskólunum í vor og í sumar og á árinu var nýtt sorphirðukerfi tekið í notkun í samræmi við ný lög um hringrásarhagkerfið. Þær breytingar kröfðust útsjónarsemi í tengslum við nýtt flokkunarkerfi, ekki síst hjá íbúum.
Það er við hæfi að þakka bæjarbúum sérstaklega fyrir þolinmæðina og samstarfsviljann við innleiðinguna sem hefur gengið mjög vel.

Þjónusta við börn og fjölskyldur
Þjónusta við börn og fjölskyldur er í forgangi í Mosfellsbæ með öflugum leik- og grunnskólum, listaskóla, félagsmiðstöðvum og frístundastarfi. Þá er ótalið það góða starf sem íþróttafélög og önnur frjáls félagasamtök halda úti fyrir börn og unglinga. Það verður áfram haldið á þeirri braut að bjóða börnum sem verða eins árs 1. ágúst eða fyrr leikskólapláss en á árinu 2023 var plássum við einkarekna leikskólann LFA í Grafarvogi fjölgað um fjörutíu. Þá er uppbygging hafin á leikskólanum í Helgafellshverfi sem á að vera tilbúinn haustið 2025.
Á síðastliðnum 10 árum hefur orðið 40% fjölgun barna í leikskólum í bænum á móti 18% fjölgun grunnskólabarna. Á sama tíma hefur kostnaðarhlutdeild foreldra í rekstri leikskóla lækkað úr 32% í 10%.
Áfram verður unnið að innleiðingu menntastefnu Mosfellsbæjar og nýrra farsældarlaga. Þá hefur skólaþjónustan verið efld en á síðasta ári fengu 386 börn aðstoð sérfræðinga á vegum hennar.

Þjónusta við eldri borgara
Á nýju ári munum við taka þátt í verkefninu „það er gott að eldast“ sem er samþætting heimahjúkrunar og heimastuðnings.
Markmið þróunarverkefnisins er að flétta vandlega saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin þegar kemur að öldrunarþjónustu. Í Mosfellsbæ erum við með þjónustu á heimilum hjá rúmlega 200 eldri borgurum. Um þessar mundir er verið að gera könnun á upplifun þeirra á þjónustunni sem verður gagnleg inn í áframhaldandi vinnu við samþættinguna.

Þjónusta við fatlaða einstaklinga
Það var töluverð áskorun að taka við þjónustu við íbúa á Skálatúni sem eru 32 í dag og yfir 100 starfsmenn sem skiptu um vinnustað. Verkefnið hefur gengið vel og við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð frá þjónustuþegum og starfsmönnum. Haustið 2024 munum við opna nýjan búsetukjarna við Úugötu og velferðarsvið er að leggja drög að frekari uppbyggingu í málaflokknum. Þá höfum við bætt aðgengi fyrir fatlað fólk víða í bæjarfélaginu í samstarfi við verkefnið Römpum upp Ísland.

Fjárfestingar
Það eru stór fjárfestingarverkefni fram undan á árinu 2024. Leikskólinn í Helgafellshverfi er stærsta einstaka verkefnið á árinu. Búið er að bjóða út gerð undirlags við Varmárvelli en skipt verður um gervigras á aðalvellinum á árinu 2024 og í framhaldinu verður nýr frjáls­íþróttavöllur lagður. Lóðin við Varmárskóla verður tekin í gegn og framkvæmdum utanhúss lokið við Kvíslarskóla. Þá er fram ­undan endur­skoðun á þarfagreiningu vegna þjónustubyggingar og mótun framtíðarsýnar fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja í Mosfellsbæ. Áfram verður unnið að uppbyggingu atvinnusvæðis við Blikastaði, unnið að gerð rammaskipulags fyrir miðbæinn og nýtt aðalskipulag klárað.

Horfum fram á veginn
Frá því að ég hóf störf sem bæjarstjóri hef ég skrifað vikulega pistla sem hafa birst á heimasíðu bæjarins. Þeir eru 53 talsins en ég hef tekið frí frá skrifum þegar bæjarstjórn hefur farið í leyfi. Markmiðið var að gefa innsýn í störf bæjarstjórans. Ég mun halda áfram á þessari braut en gera þær breytingar að birta mánaðarlega pistla og fjalla þá meira um einstök mál í stað yfirferðar um þá fundi og viðburði sem ég hef sótt.
Jarðhræringar hafa einkennt seinni hluta ársins 2023 með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir Grindvíkinga og hugur þjóðarinnar hefur verið hjá þeim. Þá eru blikur á lofti í heimsmálunum, bæði vegna ástandsins í Úkra­ínu og nú síðast á Gasa-svæðinu þar sem við horfum á hræðilegar afleiðingar stríðsins nánast í beinni útsendingu á hverju kvöldi. Á þriðja tug þúsunda íbúa hafa látist, aðallega konur og börn.
Við þessar aðstæður er svo auðvelt að verða vanmáttugur og upplifa að það sé ekkert hægt að gera í þessari stöðu. En það er ýmislegt hægt að gera og það minnsta er að taka utan um þá sem hafa flúið stríðsátökin og veita þeim skjól til að vaxa og dafna.
Mín heitasta ósk fyrir árið 2024 er að við förum inn í nýtt ár með mannúð og kærleik að leiðarljósi. Í því samhengi skiptir hvert og eitt okkar máli, því við höfum öll rödd.
Tökum því fagnandi á móti nýju ári og horfum bjartsýn fram á veginn.

Regína Ásvaldsdóttir
bæjarstjóri

Þorum að horfa til framtíðar

Lovísa Jónsdóttir

Í desember var samþykkt fjárhagsáætlun fyrir árið 2024. Áætlunin er í senn metnaðarfull og ábyrg í því efnhagslega umhverfi sem nú ríkir.
Það er að mati meirihlutans skynsamlegra þegar kemur að framtíðaruppbygginu að taka sér tíma til að rýna hlutina og endurmeta þarfir sveitarfélagsins reglulega. Þannig að þær fjárfestingar sem ráðist er í séu hugsaðar til næstu 20-30 ára en ekki bara til að leysa bráðavanda. Sem dæmi má nefna að þarfagreining fyrir Varmársvæðið sem var unnin á árunum 2019-2021 gerði ekki ráð fyrir uppbyggingu á Blikastaðalandinu og tilheyrandi fjölgun íbúa.
Meirihluti B, S og C lista í bæjarstjórn vinnur samhentur að því að fylgja þeim markmiðum sem sett voru í málefnasamningi. Í því felst að horfa til framtíðar og gera raunhæfar áætlanir út frá greiningu. Við viljum meta þarfir bæjarbúa, áætla kostnað og fjárfestingargetu, vinna að fjármögnun og svo hefjast handa. Vinnulag sem flest öll fyrirtæki og heimili í landinu viðhafa.

Gjaldskrár og fasteignagjöld
Eins og áður er komið til móts við hækkun fasteignamats með því að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts. Notuð er nákvæmlega sama aðferð og mörg undanfarin ár. Þetta hefur starfsfólk fjármálasviðs ítrekað staðfest.
Milli umræðna í bæjarstjórn lagði meirihlutinn til að hækkun annarra gjalda yrði að meðaltali ekki hærri en 7,5% til að koma til móts við sameiginlega baráttu gegn verðbólgu. Jafnframt lýsti meirihlutinn því skýrt yfir að Mosfellsbær sé reiðubúinn til frekari lækkana ef þjóðarsátt allra aðila vinnumarkaðarins næst. Þessu til staðfestingar var samþykkt yfirlýsing þess efnis í bæjarstjórn í gær.
Sorphirðugjöld skera sig frá í þessum efnum þar sem nýsett lög kalla á breytingar í framkvæmd og krefjast þess að sveitarfélög rukki raunkostnað fyrir sorphirðu.

Breyttir stjórnarhættir
Ítrekað reynir Sjálfstæðisflokkurinn að slá ryki í augu bæjarbúa vegna breytinga á skipuriti. Því hefur meðal annars verið haldið fram að búið sé að stórauka starfsmannafjölda, sérstaklega í yfirstjórn. Hið sanna er hinsvegar að einungis hefur verið fjölgað um eitt stöðugildi í yfirstjórn.
Önnur aukning kemur í kjölfar yfirtöku bæjarins á rekstri Skálatúns og eðlilegrar fjölgunar starfsfólks í fræðslumálum og velferðarþjónustu í takti við aukinn íbúafjölda.
Í stjórnsýslu- og rekstrarúttekt sem unnin var fyrir bæinn kom margt í ljós sem þurfti að lagfæra í rekstri bæjarins og hefur frekari vinna sýnt þá ríku þörf sem var á að bæta verkferla og ákvarðanatöku.
Mörg gömul þrætuefni hafa verið til lykta leidd og vegur þar þyngst að fundin var lausn á málefnum Skálatúns.

Framtíðarsýn
Það þarf vissulega þor til að breyta vinnuháttum og að hugsa stærra, horfa lengra fram í framtíðina, en við höldum áfram ótrauð, óhrædd og samheldin. Já, við þorum getum og viljum, enda erum við að vinna fyrir bæjarbúa alla.
Með bestu óskum til allra bæjarbúa um farsælt ár og ósk um góða samvinnu og samveru á árinu.

Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar

Hlégarður kominn heim

Anna Sigríður Guðnadóttir

Hlégarður á sérstakan stað í hjörtum Mosfellinga á öllum aldri. Hlégarður skipar stóran sess í hugum allra íbúa sem unna menningu og félagslífi ýmiss konar.
Því er sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með öllu því lífi og allri þeirri gleði sem sívaxandi starfsemi í húsinu veitir út í samfélagið. Má í því sambandi nefna sögukvöld sem Menningar- og lýðræðisnefnd hefur staðið fyrir og mjög góður rómur var gerður að.
Félagsstarfið í Mosfellsbæ hefur staðið fyrir opnu húsi alla þriðjudaga þar sem alls kyns afþreying hefur staðið til boða fyrir eldri íbúa bæjarins. Þá hefur Félag aldraðra staðið fyrir reglubundnum menningaratburðum í húsinu. Fjölmennt ungmennaþing í tengslum við innleiðingu verkefnisins barnvænt sveitarfélag var haldið í húsinu og tókst frábærlega.
Við viljum líka nefna tónleika Barnajazz í Mosfellsbæ þar sem mosfellskir jazzkrakkar spiluðu með öðrum innlendum og erlendum jazzgeggjurum á sínu reki. Síðast en ekki síst var haldinn vel heppnaður íbúafundur um sköpun rýmis fyrir menningarstarfsemi í Mosfellsbæ.
Fyrir utan þessa viðburði hafa fjölmargir af svipuðum toga verið haldnir í húsinu sem og fjölbreyttir tónleikar. Er þar skemmst að minnast tónleika Gretu Salóme á aðventunni og vel heppnaðrar tónleikaraðar Gildrunnar síðastliðið haust. Þessi upptalning sýnir dæmi um þann fjölbreytileika sem ríkir í viðburðum í Hlégarði.

Hrafnhildur Gísladóttir

Reksturinn
Eitt þeirra áhersluatriða sem meirihluti B, S og C lista settu á oddinn í sínu meirihlutasamstarfi var að efla Hlégarð. Við vildum taka Hlégarð aftur heim en eins og kunnugt er hafði rekstri hússins verið útvistað til einkaaðila um langt árabil.
Nokkurn tíma tók að undirbúa þá ákvörðun enda þurfti að vanda vel til verka. Starfsfólk stjórnsýslu bæjarins skoðaði hvernig rekstri slíkra félagsheimila eða samfélagshúsa væri háttað og best fyrir komið. Niðurstaðan varð að setja rekstur Hlégarðs inn í svokallaðan B-hluta rekstur. Innan B-hluta rekstrar er starfsemi sem ekki er rekin beint af bæjarsjóði heldur innan sérstaks dótturfélags með skilgreint hlutverk og ábyrgð.
Það er alveg ljóst að hér í bænum er þörf fyrir og eftirspurn eftir aðstöðu eins þeirri sem Hlégarður býður. Þess þarf að gæta séstaklega vel að því að sú starfsemi sem einkaaðilar standa fyrir í húsinu, s.s. veislur eða tónleikar, sé ekki niðurgreidd af almannafé.
Einnig þarf að gæta að því að gjaldtakan undirbjóði ekki útleigustarfsemi af svipuðum toga í bænum enda um samkeppnismarkað að ræða. Gjaldskráin þarf því að taka mið af raunkostnaði við rekstur hússins að viðbættum virðisaukaskatti.

Framtíðin
Áfram þarf að halda með endurbætur á Hlégarði og móta þarf stefnu um hvers konar starfsemi eigi að vera á efri hæð hússins. Það stendur upp á kjörna fulltrúa. Sú stefna er nauðsynleg til að endurbætur þjóni væntanlegri starfsemi. Starfsemin í Hlégarði er þróunarverkefni sem tekur breytingum með aukinni reynslu og þekkingu þeirra sem þar koma að.
Við teljum okkur lánsöm að hafa ráðið öflugan og áhugasaman verkefnastjóra fyrir Hlégarð, Hilmar Gunnarsson, sem er öllum hnútum kunnugur í félags- og menningarlífi Mosfellsbæjar og nýtur samstarfs við fleira öflugt fólk innan stjórnsýslu bæjarins. Hlégarður er kominn heim og spennandi þróun fram undan.

Anna Sigríður Guðnadóttir bæjarfulltrúi S lista
Hrafnhildur Gísladóttir, formaður menningar- og lýðræðisnefndar, B lista

Gildistími frístundaávísana og fjárhagsáætlun

Dagný Kristinsdóttir

Þann 6. desember síðastliðinn var fjárhagsáætlun ársins 2024 samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar.
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar lagði fram tvær breytingartillögur við fjárhagsáætlun. Fyrri tillagan sneri að því að ráða inn fjármálaráðgjafa fyrir skólastjórnendur og sú seinni laut að frístundaávísunum og gildistíma þeirra.

Frístundaávísanir gildi í 12 mánuði
Frístundaávísun er framlag sveitarfélagsins til að börn eigi þess kost að sækja sér íþrótta- eða tómstundaiðkun, óháð efnahag og aðstæðum foreldra og forráðamanna.
Tillagan um frístundaávísanir laut að því að reglum um ávísanirnir yrði breytt á þann veg að gildistími þeirra verði 12 mánuðir í stað níu eins og nú er. Kostnaður við tillöguna er óverulegur, þar sem gert er ráð fyrir tiltekinni fjárhæð í fjárhagsáætlun fyrir frístundaávísanir.
Markmið tillögunnar er að öll börn sitji við sama borð og eigi jöfn tækifæri til að sækja sér íþróttaþjálfun eða tómstundanámskeið allt árið um kring. Við erum með hóp barna, íslensk sem erlend, sem finna sig ekki í hefðbundnu íþrótta- eða tómstundastarfi að vetri til og standa oft félagslega höllum fæti. Við sem eigum börn sem hafa átt erfitt félagslega vitum hversu erfitt er að virkja börnin og fá þau til að prófa hin ýmsu námskeið.
Hversu mikill vanmáttur felst í því að eiga ekki vin eða vinkonu sem getur farið með á námskeið eða á æfingu. Á sumrin breytist úrval námskeiða. Þá koma fram námskeið sem geta vakið áhuga barna, en þá er það fjárhagur foreldra sem ræður því hvort barn geti sótt námskeiðin.
Athygli okkar hjá Vinum Mosfellsbæjar var vakin á öðru sjónarhorni á sumarstarf barna og það eru foreldrar með lítið bakland, oft af erlendum uppruna sem þurfa að púsla saman sumarfrísmánuðum skólanna. Þau eru mörg að taka lengra sumarfrí og þá launalaust til að vera með börnum sínum. Því myndi sá möguleiki að nýta frístundaávísun að sumri til vera viðleitni sveitarfélagsins til að foreldrar geti sinnt sínum störfum og börnin verið ánægð á sínum námskeiðum.
Þessi tillaga var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og er ég þakklát samstarfsfólki mínu í bæjarstjórn fyrir það að gera öllum börnum kleift að sækja sér áhugaverðar frístundir allt árið um kring.

Dagný Kristinsdóttir
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Hvernig viljum við sjá bæinn okkar þróast?

Einar Páll Kjærnested

Á þeim 50 árum sem ég hef búið í Mosfellsbæ, þá hef ég verið sannfærðari og sannfærðari um að það sé best að búa í Mosfellsbæ.
Við höfum okkar sérkenni innan höfuðborgarsvæðisins sem erfitt er að útskýra fyrir utanbæjarmönnum, en hugtakið sveit í borg er ein leiðin til að útskýra þetta. Við erum enn pínu sveitó og ég held að flest okkar vilji bara vera það. Við eigum eitt íþróttafélag – við erum öll í Aftureldingu – vonandi breytist það aldrei. Svo eigum við félagsheimilið Hlégarð – hversu sveitó er það?

Ég var að rýna í niðurstöður úr áhugaverðri rannsókn sem Kolbeinn H. Stefánsson, dósent við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, vann fyrir Reykjavíkurborg um „Félagslegt landslag í Reykjavík (og nágrenni)“ og kynnt var sl. föstudag.
Í skýrslunni er mjög áhugaverður samanburður á íbúasamsetningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu út frá ýmsum sjónarhornum.
Þar kemur m.a. fram að:
– meðalaldur íbúa í Mosfellsbæ er lægstur á höfuðborgarsvæðinu (35,7 ár)
– hlutfall barna undir 18 ára aldri er hæst í Mosfellsbæ (26%)
– hlutfall fólks á eftirlaunaaldri (+66 ára) er með því hæsta á höfuðborgarsvæðinu (16,5%)
– hlutfall barna sem voru með lögheimili hjá einstæðu foreldri er með því lægsta á höfuðborgarsvæðinu (17,9%).
Svo þegar kemur að samanburði á tekjujöfnuði á milli sveitarfélaga, þá kemur Mosfellsbær best út allra sveitarfélaganna.
Við erum með lægsta Gini-stuðul ráðstöfunartekna (0,268), hlutfall á milli meðaltals og miðgilds eiginfjárstöðu heimila var það næst besta á höfuðborgarsvæðinu og lágtekjuhlutfall (innan við 60% af miðgildi ráðstöfunartekna) var það lægsta innan höfuðborgarsvæðisins (10,9%).
Þessi rannsókn sýnir okkur bara enn einn vinkilinn á því að Mosfellsbær er einstakt sveitarfélag samanborið við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.
Útskýringar á því af hverju Mosfellsbær kemur svona vel út úr þessari könnun eru eflaust margþættar, en ég efast ekki um að sú staðreynd að í Mosfellsbæ er áberandi önnur samsetning á íbúðabyggð en í hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, er ein af skýringunum.
Í Mosfellsbæ er ca. 50% íbúða í sérbýli og 50% íbúða í fjölbýli. Stærð í íbúða í sérbýli í Mosfellsbæ er líka sérstök, þar sem við erum með hátt hlutfall af litlum sérbýlishúsum. Einnig erum við með áberandi hátt hlutfall af litlum fjölbýlum, eins og 4-8 íbúða fjölbýlum með sér inngangi. Þetta hefur þó breyst mjög hratt sl. 10 ár, þar sem allur fókus hefur verið á að byggja stór fjölbýlishús með lyftu og bílakjallara.
Við þurfum að gæta að því að uppbygging íbúðarhúsa verði ekki of einsleit á næstu árum, til að eyðileggja ekki þetta jafnvægi á milli sérbýla og fjölbýla, sem við búum við í dag
Ég vona svo sannarlega að bæjarfulltrúar okkar kynni sér þessa könnun og að þeir velti fyrir sér, hvað er það sem skilgreinir okkur sem Mosfellinga og af hverju er svona gott að búa í Mosfellsbæ? Af hverju vilja fjölskyldur ala upp börn í Mosfellsbæ, og af hverju vill eldra fólki búa áfram í Mosfellsbæ?
Af hverju er félagslegur jöfnuður meiri í Mosfellsbæ en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu?
Að lokum vona ég að bæjarfulltrúar Mosfellsbæjar falli sem fyrst frá þeim hugmyndum að byggja upp þétta borgarbyggð í landi Blikastaða, en skv. drögum að aðalskipulagi, sem kynnt voru í sumar, þá gerir sveitarfélagið ráð fyrir að byggðin á Blikastöðum verði svo til þrefalt þéttari (45,3 íb/ha) en byggðin í Holta-, Tanga og Höfðahverfi (nú 15,4 íb/ha).
Þar ráðgerir Mosfellsbær að 80% allra íbúða skuli vera í fjölbýli, en eingöngu 20% í sérbýli.
Þetta er í engu samræmi við aðra byggð í bænum okkar og ég er sannfærður að þetta muni gjörbreyta þessu viðkvæma jafnvægi sem gerir Mosfellsbæ eins góðan og hann er í dag.

Einar Páll Kjærnested

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2024

Ásgeir Sveinsson

Meirihluti Framsóknarflokksins, Samfylkingar og Viðreisnar hefur samþykkt fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2024.
Það vakti mikla athygli að meirihlutinn lagði fram 14 breytingartillögur um eigin fjárhagsáætlun á milli umræðna, sem er einsdæmi og lýsir það kannski best hversu ósamstíga meirihlutinn er og sérkennilegum undirbúningi áætlunarinnar.

Meirihlutinn talar um viðsnúning í rekstri bæjarins, en bent skal á að tekjuafgangur og jákvæð niðurstaða rekstrar á líðandi ári stafar eingöngu af stórhækkuðum sköttum og álögum á bæjarbúa og að auki vegna hærri tekna t.d. af byggingaréttargjöldum og lóðasölu, sem reyndar eru einskiptis tekjur.
Fulltrúum meirihlutans er tíðrætt um erfitt efnahagsástand og að fjárhagsstaða Mosfellsbæjar sé erfið, en þrátt fyrir það eru engar tillögur í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2024 um aðhald eða sparnað. Þvert á móti er stóraukning útgjalda, aukning í starfsmannafjölda og þá sérstaklega í yfirstjórn og í skrifstofukostnaði bæjarins og er sú þróun í takt við nýtt skipurit í anda Reykjavíkurborgar.

Í þeirri óvissu sem nú er í efnahagsmálum, er mikilvægt að sýna ábyrgð í fjármálastjórnun og rekstri, forgangsraða rétt og að gera raunhæfar áætlanir bæði á tekju- og útgjaldahliðum.
Fulltrúa D-lista í bæjarstjórn vildu að í fjárhagsáætlunni yrði tekjuhlið bæjarins endurskoðuð, að lágmarka hækkanir á sköttum og álögum á íbúa og lögðum við m.a. fram tillögu varðandi aukið öryggi á golfvellinum, uppbygginu á Varmársvæðinu og lagfæringar á Hlégarði.

Skattar og álögur hækka áfram
Fasteignaskattar Mosfellinga munu hækka umtalsvert annað árið í röð, sorphirðugjöld hækka mjög mikið, auk þess sem aðrar gjaldskrár hækka of mikið að okkar mati. Þessar hækkanir eru ekki góðar í baráttunni við verðbólgu og hátt vaxtastig og ekki jákvæðar fyrir komandi kjarasamningsviðræður, auk þess að vera almennt íþyngjandi fyrir bæjarbúa í núverandi efnahagsástandi.

Það gengur hægt að þoka framkvæmdum í Mosfellsbæ áfram, lóðaútlutanir hafa ítrekað dregist á langinn, bygging leikskóla í Helgafelli verður 1-2 árum á eftir áætlun, auk þess sem algjör óvissa ríkir um hvenær nauðsynlegar löngu ákveðnar framkvæmdir á íþróttasvæðinu að Varmá fari í gang.
Samstarf Aftureldingar og Mosfellsbæjar er ekki í góðum farvegi eftir að forsvarsmenn Aftureldingar sögðu sig frá samstarfi við bæinn vegna samstarfsörðugleika við meirihlutann og er sú staða óásættanleg.

Á vegum bæjarins hafa verið settir á stofn ýmsir starfshópar, ráðnir hafa verið verkefnastjórar í alls konar verkefni sem sum hver er þegar búið að vinna innan sviða Mosfellsbæjar, en það dugir ekki til því pólitískt þor er ekki fyrir hendi hjá meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar til að taka mikilvægar ákvarðanir.
Þessi vinnubrögð gera það að verkum að áætlanir raskast með tilheyrandi óþægindum og kostnaðarauka fyrir skattgreiðendur í Mosfellsbæ.
Í rekstri ört stækkandi sveitarfélags eins og Mosfellbæjar, þarf öflugan, samheldinn og ábyrgan meirihluta sem þorir að taka erfiðar pólitískar ákvarðanir og standa með þeim, og láta verkin tala.

Bæjarfulltrúar D-lista í Mosfellsbæ munu áfram styðja góðar tillögur meirihlutans og hvetja þau áfram til góðra verka. Við munum einnig halda áfram að koma okkar tillögum og stefnumálum á framfæri og leggja þannig okkar af mörkum til að áfram verði best að búa í Mosfellbæ.
Ég sendi bæjarbúum öllum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Ásgeir Sveinsson
bæjarfulltrúi
oddviti D-lista

Njótum í núinu

Ólöf Kristín Sívertsen

Það er auðvelt í amstri hversdagsins að detta í sjálfstýringuna og sérstaklega í kringum hátíðirnar.
Mikilvægt er að við gefum sjálfum okkur þá gjöf að staldra við, draga djúpt andann og taka inn augnablikið. Upplifa og njóta líðandi stundar.

Veitum athygli
Allt sem við veitum athygli vex og dafnar. Veitum börnunum okkar óskipta athygli, hlustum á þau, verum áhugasöm og tökum virkan þátt í lífi þeirra. Þannig veitum við þeim gott veganesti út í lífið og munið líka að við fullorðna fólkið erum þeirra helstu fyrirmyndir. Veitum sjálfum okkur athygli, leyfum okkur að njóta og slaka á. Við þurfum ekki að gera allt í einu, einbeitum okkur að því sem við erum að gera þá stundina og veitum því athygli. Finnum fyrir eigin líðan og tilfinningum án þess að dæma. Þannig getum við öðlast innri ró sem gerir okkur auðveldara að takast á við áreiti daglegs lífs.

Lifum og njótum
Gefum okkur tíma með sjálfum okkur þar sem við fjarlægjum okkur frá áreiti hvers konar. Við getum t.d. farið í göngu, fundið hvernig veðrið leikur við andlitið, andað að okkur hreina loftinu, upplifað fegurð náttúrunnar, hvernig við segjum skilið við áhyggjur og byggjum upp nýja orku innra með okkur. Hlustum á ástvini okkar og veitum þeim óskipta athygli án þess að koma með óumbeðin ráð, stundum þarf nefnilega bara einhvern til að hlusta. Skipuleggjum samverustundir með fólkinu okkar, gerum eitthvað skemmtilegt og ekki er verra að hlæja saman. Sköpum dýrmætar minningar.

Gerum góðverk
Góðverk er hægt að gera á margvíslegan hátt, allt eftir efnum og aðstæðum hverju sinni. Gefum af sjálfum okkur, við höfum öll ýmislegt að gefa. Ræktum sambandið við ástvini okkar og heimsækjum og/eða spjöllum við þá sem eru einmana. Við getum látið eitthvað af hendi rakna til þeirra sem minna hafa á milli handanna. Aðstoðum aðra, þarf ekki að vera meira en að halda hurð opinni! Bjóðum góðan daginn og brosum – góðverk þurfa nefnilega ekki að kosta neitt en gleðja bæði þann sem nýtur og þann sem gefur.

Á þessum nótum óskum við, sem stöndum að Heilsueflandi samfélagi í Mosfellsbæ, ykkur gleðilegra jóla og hamingju og gleði á komandi ári um leið og við þökkum hjartanlega fyrir samstarfið á liðnum árum. Lifið heil!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsu­­fræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ