Fjölbreyttni hjá Rauða krossinum

Nemendur sinna heimanámi í Þverholtinu.

Nemendur sinna heimanámi í Þverholtinu.

Hulda Margrét Rútsdóttir hefur verið ráðin í 50% starf sem verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ.
Hulda er með meistarapróf í alþjóða samskiptum og þróunarlandafræði frá háskólanum í Amsterdam og hefur síðustu ellefu ár starfað sem upplýsingafulltrúi á Gljúfrasteini-húsi skáldsins auk þess sem hún starfar við þýðingar.
Hulda hefur m.a. umsjón með sjálfboðaliðaverkefnunum Heimsóknavinir, Föt sem framlag og Heilahristingur. Þá heldur hún utan um fleiri verkefni sem eru í þróun og hefur umsjón með móttöku nýrra sjálfboðaliða og tekur þátt í átaksverkefnum.
Það er ýmislegt í gangi hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ sem er til húsa í Rauða kross húsinu að Þverholti 7.

Heilahristingur á mánudögum
Heilahristingur er heimavinnuaðstoð fyrir grunnskólanemendur. Sjálfboðaliðar sjá um að aðstoða börn við lestur og heimanám frá klukkan 15-17. Það er upplagt fyrir krakkana að koma með námsbækurnar og klára heimanámið. Andrúmsloftið er afslappað og krakkarnir fá aðstoð eftir þörfum.

Föt sem framlag á miðvikudögum
Á miðvikudögum kl. 13-16 er hópur vaskra sjálboðaliða sem prjóna, hekla og sauma föt fyrir hjálparstarf innanlands og erlendis. Garn, prjónar og efni eru á staðnum og rjúkandi kaffi og með því.

Opið hús á fimmtudögum
Opið hús frá 13-16. Öllum er frjálst að mæta til skrafs og ráðagerða eða bara til að fá sér kaffibolla.