Vinir Mosfellsbæjar bjóða fram í sveitarstjórnarkosningum í vor

Stefán Ómar Jónsson

Það var skömmu fyrir sveitarstjórnarkosningar vorið 2018 sem hópur fólks með ýmsar stjórnmálaskoðanir og ólíkan bakgrunn kom saman og ákvað að stofna hreyfingu með það eina markmið að beita sér fyrir hagsmunum íbúa Mosfellsbæjar og gera þannig góðan bæ betri.
Þetta var fólk en ekki flokkur og þannig varð L-listi Vina Mosfellsbæjar til.

Þrátt fyrir mjög skamman fyrirvara fékk framboðið góðar viðtökur eða tæp 11% atkvæða og einn bæjarfulltrúa af níu. Vinir Mosfellsbæjar hafa starfað í bæjarstjórn og í nefndum bæjarins af ábyrgð og yfirvegun, tekið þátt í mörgum góðum ákvörðunum fyrir bæjarfélagið og bæjarbúa alla, staðið vörð um góða stjórnsýsluhætti og starfað af heiðarleika og gegnsæi.

Vinir Mosfellsbæjar eru sannfærðir um að óháður bæjarlisti þar sem aðeins hagsmunir íbúa bæjarins ráði för, eigi fullt erindi í Mosfesllsbæ og hafa því ákveðið að bjóða fram við komandi bæjarstjórnarkosningar þann 14. maí nk.
Innan skamms munu Vinir Mosfellsbæjar kynna undirbúning og tilhögun framboðsins nánar. Vinir Mosfellsbæjar telja það mjög mikilvægt að vanda til alls undirbúnings og að allir þeir sem þátt taka á framboðslistanum séu meðvitaðir um að störf sem þeim eru falin sem kosnir eru til starfa fyrir bæjarfélagið, eru samfélagsstörf í þágu allra bæjarbúa.

Stefán Ómar Jónsson
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar