Lærum að lesa, reikna, leika og lifa

Sara Hafbergsdóttir

Við getum gert svo ótrúlega margt. Sem barn vildi ég gera svo ótrúlega margt og lifa lífinu, leika mér og sjá heiminn, helst allan í einu.
Það voru ekki allir á því að þetta væri leiðin en ég var alveg með það á tæru hvað ég vildi gera. Það var ekki hægt að vera með eitthvað múður við mig. Það sem ég sá að aðrir vildu var ekki endilega það sem ég vildi og alls ekki vildi ég þrýsta á aðra að gera það sem ég vildi gera. Ég tel alveg fullvíst að börn hafi ekkert breyst hvað þetta varðar.

Hvað hefur þá breyst? Krafan er hugsanlega meiri bæði á börn í skólum og aðstandendur þeirra, foreldra. Hvað ef mamma og pabbi hafa ekki húsnæði? Hvað með vörumerkjasamkeppnina? Hvað með eineltið og þau börn sem hafa ekki sama aðbúnað, öryggi og umhyggju? Hvað er það sem veldur því að tölur Embættis landlæknis sýna að sjálfsvígum ungs fólks á aldrinum 18-29 ára rýkur upp á milli áranna 2019 og 2020? Hvað veldur því að um 17,9 karlar af hverjum 100.000 íbúa á Íslandi völdu sjálfsvíg að meðaltali árlega frá 2011 til 2020 en 5,1 kona? Hvað getum við gert til að búa fólk undir lífið svo það velji ekki að yfirgefa það?

Skólar eru skjól. Því þurfum við að tryggja í framtíðinni að starfsfólk þessara stofnana geti tekist á við vandann, sé með aukna þekkingu á þessu sviði og að umbúnaður skólanna verði bættur til að tryggja að þeir sýni enn betur að þar séu allir velkomnir eins og við vitum að er. Hér í Mosfellsbæ þarf að skoða það alvarlega að búa til fleiri úrræði og bæta við starfsfólki með sérþekkingu. Við búum nú þegar að því að eiga í Mosfellsbæ frábæra kennara og aðra starfsmenn sem gera sitt allra, allra besta. En hvernig getum við bætt í með skynsömum hætti?

Það er spurning hvort samtakamáttur bæjarbúa geti leitt til þess að hér verði sett á laggirnar greiningarmiðstöð fyrir ungmenni og fleiri leiðir verði boðnar börnum í skólakerfinu en aðeins þessi hefðbundna. Í bænum okkar eru fjölmörg fyrirtæki sem starfa á mörgum sviðum. Þar gætu gefist tækifæri til verklegrar kennslu og nýlega hafa framhaldsskólar fengið heimildir til að sjá um kennslu iðngreina og nú jafnframt geta þeir stuðlað að því að koma t.a.m. nemendum í starfsgreinum á samning. Þetta eigum við að kynna í skólum enn meira en áður. Við eigum að dekra meira við börnin okkar og hjálpa forráðamönnum þeirra að gera það líka, auka samveru foreldra og barna í skólunum og sýna virkilega fram á að börn, hvernig sem þau eru af Guði gerð séu velkomin nú sem fyrr. Skólinn er og á að vera börnum skjól. Kennum börnum því að lesa, reikna, leika og lifa.

Sara Hafbergsdóttir, varafulltrúi Miðflokksins
í fræðslunefnd Mosfellsbæjar