Viltu hafa áhrif? – Taktu þátt!
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar.
Gengið er í garð enn eitt kosningaárið og að þessu sinni eru það bæjarstjórnarkosningar sem haldnar verða í maímánuði. Fram undan eru frjóir og skemmtilegir tímar þar sem stjórnmálaflokkarnir sem bjóða fram í bæjarstjórnarkosningunum ydda stefnu sína og ákveða hvaða málefni skuli leggja höfuðáherslu á í kosningabaráttunni.
Við í Samfylkingunni leggjum mikla áherslu á að stefnumótun framboðsins fari fram í breiðu og opnu samtali við flokksmenn og annað stuðningsfólk jafnaðarstefnunnar. Þess vegna er núna akkúrat tækifærið fyrir áhugasamt félagshyggjufólk að koma og taka þátt í samræðum og ákvörðunum fyrir kosningarnar í vor.
Málefnin sem eru undir í sveitarstjórnarmálum eru af ýmsum toga en eiga það langflest sameiginlegt að snerta líf fjölskyldnanna í bænum með beinum hætti. Þar getum við nefnt leik- og grunnskóla, húsnæðismál, ýmsa þjónustu fyrir eldri borgara, skipulagsmál í nærumhverfinu og þjónustu við fatlað fólk svo snert sé á nokkrum stórum málaflokkum. Til að bærinn okkar þróist og eflist á jákvæðan hátt er nauðsynlegt að raddir íbúanna heyrist og á þær sé hlustað. Ekki bara fyrir kosningar heldur alltaf.
Ef þú lesandi góður hefur áhuga á að taka þátt í mótun og þróun bæjarins okkar og ert félagshyggjumegin í litrófi stjórnmálanna þá er gott tækifæri núna á næstu mánuðum að mæta til leiks hjá okkur og taka þátt í skemmtilegu og frjóu flokksstarfi með góðum hópi jafnaðarfólks.
Ég hvet allt félagshyggjufólk sem hefur áhuga á að leggja sínar hugmyndir og úrlausnir inn í umræðuna um betra samfélag að kíkja til okkar í Samfylkingunni – jafnaðarmannaflokki Íslands, fylgjast með fundarboðum á Facebooksíðunni okkar, Samfylkingin í Mosfellsbæ, og mæta í opið hús á laugardagsmorgnum í félagsheimili okkar að Þverholti 3.
Einnig má senda á mig fyrirspurnir á póstfangið erna@lagafell.com og það má hringja í mig í síma 8694116.
Erna Björg Baldursdóttir,
formaður Samfylkingarinnar i Mosfellsbæ.