Viðreisn setur þjónustu við fólk í fyrsta sæti
Fyrir fjórum árum stofnuðum við nokkrir félagar í Viðreisn félag í Mosfellsbæ og hófum undirbúning að framboði fyrir sveitastjórnarkosningarnar vorið 2018.
Við veltum því vandlega fyrir okkur hvort við ættum að blanda okkur í þennan slag, hvort við ættum brýnt erindi við kjósendur og hvort við gætum látið gott af okkur leiða til að gera mannlífið betra og rekstur sveitarfélagsins skilvirkari og opnari.
Niðurstaða okkar var sú að okkar hugmyndir um framfarir hér í bæ og stefna Viðreisnar um að setja almannahagsmuni framar sérhagsmunum ættu sannarlega erindi við kjósendur.
Það sem við settum á oddinn voru lýðræðislegar umbætur og ábyrgð í fjármálum. Við vildum komast að til þess að breyta. Ekki til þess að gera einhvern að bæjarstjóra sem gekk með það í maganum eða til höfuðs bæjarstjóra. Við kærðum okkur kollótt um slíkt. Við vildum einfaldlega þjóna bæjarbúum og gera betur.
Við náðum þeim árangri að vera með næstflest atkvæði af þeim átta framboðum sem buðu fram og höfum því undanfarin fjögur ár átt bæjarfulltrúa í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og fulltrúa í nefndum sveitarfélagsins.
Við höfum unnið eftir þeim áherslum sem við settum okkur í upphafi og teljum líkt og fyrir fjórum árum að breytinga sé þörf í Mosfellsbæ og því er þörf á frjálslyndu afli í stjórn Mosfellsbæjar.
Okkar áherslur undanfarin fjögur ár markast helst af því að við höfum veitt meirihlutanum aðhald með því að gera kröfur um fagleg vinnubrögð og gagnsæja stjórnsýslu.
Við höfum lagt áherslu á málefni barna og fjölskyldna með því að minna stöðugt á að stjórnsýslan snýst um að veita þeim þjónustu sem þurfa á að halda.
Okkar markmið er að komast í meirihluta þannig að áherslur okkar fái enn meira vægi í stjórnun bæjarins og vonumst við eftir því að kjósendur veiti okkur það brautargengi í næstu kosningum. Við setjum þjónustu við fólk í fyrsta sæti.
Valdimar Birgisson,
bæjarfulltrúi Viðreisnar.