Viðreisn ætlar að gera betur
Viðreisn býður fram lista í komandi sveitarstjórnarkosningum, sem skipaður er til jafns körlum og konum. Þetta er í fyrsta skipti sem Viðreisn býður fram í Mosfellsbæ.
Að sögn Valdimars Birgissonar standa íbúar að listanum sem brenna fyrir því að bæta Mosfellsbæ og gera bæinn að fyrirmyndar bæjarfélagi. Hann segir Viðreisn bjóða bæjarbúum öflugan og framsækinn lista sem samanstendur af fólki með fjölbreyttan bakgrunn sem á það sameiginlegt að vilja vinna saman að því að gera betur í Mosfellsbæ.
Velferð allra íbúa í fyrsta sæti
„Við köllum eftir bættum samskiptum, virku lýðræði, gegnsæi í allri stjórnsýslu bæjarins og að velferð allra íbúa sé í fyrsta sæti,“ segir Valdimar og bætir við: „Við viljum gera betur í skóla- og dagvistunarmálum, gera betur í málefnum eldri borgara, gera betur í íþrótta- og tómstundastarfi og gera betur í málefnum öryrkja.“
Valdimar vill að hlustað sé á raddir bæjarbúa og að bærinn okkar blómstri og standi undir nafni sem sveit í borg.
Listi Viðreisnar í Mosfellsbæ
1. Valdimar Birgisson
2. Lovísa Jónsdóttir
3. Ölvir Karlsson
4. Hildur Björg Bæringsdóttir
5. Magnús Sverrir Ingibergsson
6. Tamar Klara Lipka Þormarsd.
7. Karl Alex Árnason
8. Elín Anna Gísladóttir
9. Ari Páll Karlsson
10. Olga Kristrún Ingólfsdóttir
11. Pétur Valdimarsson
12. Erla Björk Gísladóttir
13. Vladimír Rjaby
14. Guðrún Þórarinsdóttir
15. Jóhann Björnsson
16. Sara Sigurvinsdóttir
17. Sigurður Gunnarsson
18. Hrafnhildur Jónsdóttir
Stöndum vörð um náttúruna
Ölvir Karlsson er 28 ára tveggja barna faðir úr Leirvogstungu. Hann er lögfræðingur að mennt og er formaður íbúasamtaka Leirvogstungu. „Ég tel að það skipti miklu máli að við stöndum vörð um þá fallegu náttúru sem við í Mosfellsbæ höfum í nærumhverfi okkar og ekki taka henni sem sjálfsögðum hlut. Í þessu samhengi þurfum við að huga vel að skipulagsmálum til þess að mengandi iðnaður og þungaflutningar í gegnum bæinn fari ekki að setja mark sitt á líf bæjarbúa. „Við þurfum að leggja okkar af mörkum svo hægt sé að byggja upp fjölbreytta atvinnustarfsemi í Mosfellsbæ, með það fyrir augum að íbúar geti í auknu mæli átt þess kost að sækja vinnu í heimabyggð.
Þá verðum við að sýna ábyrgð í fjármálum, bæði varðandi útgjöld og skuldasöfnun. Lækkun á tekjustofnum verður að skoða í ljósi skuldastöðu sveitarfélagsins og þeim framkvæmdum sem nauðsynlegt er að ráðast í.“
Vilja móta framsækna skólastefnu
„Ríflega fjórðungur bæjarbúa er 16 ára og yngri sem er hærra hlutfall en í nágrannasveitarfélögum okkar. Þessi einfalda staðreynd gerir það að verkum að dagvistunar-, skóla- og tómstundamál eru forgangsmál hjá stórum hluta bæjarbúa,“ segir Lovísa Jónsdóttir sem skipar annað sæti á lista Viðreisnar.
Hildur Björg Bæringsdóttir sem skipar fjórða sæti listans bendir á að aðstaða og tækjakostur skóla í Mosfellsbæ sé bágborinn. „Það þarf að hugsa skólastefnu Mosfellsbæjar til framtíðar. Í núverandi skólastefnu frá 2010 kemur fram að „Aðbúnaður og aðstaða styðji við framsækið skólastarf“. Þetta hefur ekki verið gert og viljum við leggja áherslu á að bjóða börnum bæjarins upp á nútíma tækni og aðbúnað til að geta tekist á við verkefni sín í takt við þann heim sem við búum í.”