„Við hættum ekki fyrr en við komumst á toppinn“
Skátafélagið Mosverjar vinnur nú að bættri gönguleið, Skarhólamýri eins og þeir kalla hana, upp á Úlfarsfellið frá Skarhólabraut.
Margir hafa velt því fyrir sér hvað þeir sjái hér hvítt í fellinu, hvort þetta sé listaverk eða einhver gjörningur. „Ég var farinn að hallast að því að þetta væru rollur sem stæðu í röð og biðu eftir sláturtíðinni. Þetta eru hinsvegar 600 pokar fullir af möl sem við vinnum nú úr,“ segir Ævar Aðalsteinsson verkefnastjóri Mosverja.
„Verkefnið er unnið í samstarfi við Mosfellsbæ og er leiðin farin upp norðanvert Úlfarsfellið. Þetta er þriðja sumarið sem við vinnum í þessu fyrir alvöru.
Göngustígurinn verður framhald af 202 tröppum sem gerðar voru í fyrra. Við hættum ekkert fyrr en við komumst á toppinn,“ segir Ævar.
Margir farnir að uppgötva gönguleiðina
„Tilgangurinn er að reyna stýra umferðinni inn á stíginn og koma í veg fyrir skemmdir á umhverfinu, slóðinn var orðinn of breiður og víða var farið að myndast flag. Árangurinn er þegar farinn að sjást og fólk tekur þessum stíg fagnandi.
Utanvegahlauparar eru til að mynda búnir að uppgötva leiðina og farnir að nýta tröppurnar í þolþjálfun, hlaupa upp og niður og berjast um besta tímann og maður hefur heyrt að Tommi umhverfisráðherra sé einn þeirra,“ segir Ævar.
Úlfarsfellið er frábært útivistarsvæði og er greinilegt að fólk er búið að uppgötva þessa nýju leið. Margir hafa klórað sér í höfðinu yfir því hvernig pokarnir komumst upp á fjallið en Guðmundur Sverrisson, Gúndi húsvörður, á sinn þátt í því og sá um að koma þeim upp, en enginn veit hvernig,“ segir Ævar léttur í bragði.