Við getum gert miklu betur
Það eru sannarlega óvenjulegir tímar í stjórnmálum. Við göngum aftur til þingkosninga, í annað sinn á einu ári.
Tímarnir eru ekki óvenjulegir af því að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokk innanborðs sprakk í þriðja skiptið í röð, það virðist orðið að venju í íslensku samfélagi að ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn er í forsvari fyrir eða sitji í, springi og skapi óreiðuna sem formanni Sjálfstæðisflokksins er tíðrætt um og óttast hvað mest.
Nei, tímarnir eru óvenjulegir því að efnahagslegar ástæður eru ekki ástæða þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins hélt ekki velli núna, heldur femínísku baráttu-bylgjurnar gegn kynjaofbeldi og kynferðisafbrotum gegn börnum. Leyndarhyggjan og samtryggingin var skoruð á hólm. Þolendur hryllilegra kynferðisafbrota sýndu ótrúlegt hugrekki og þrautseigju. Stigu fram og neituðu að gefast upp fyrir þöggun og leynd. Þau, ásamt fjölmiðlum, héldu áfram að krefjast upplýsinga og gagnsæis. Kröfðust þess að hlustað sé á þau á æðstu stöðum íslensks stjórnkerfis. Fólk hafði hátt.
Fyrir þetta hugrekki og magnaða þrautseigju þolenda kynferðisofbeldis nú og áður, ber okkur að þakka margfalt fyrir.
Við í Vinstri hreyfingunni grænu framboði styðjum femíníska baráttu, enda erum við kvenfrelsisflokkur sem frá stofnun hefur barist fyrir því að útrýma kynbundnu ofbeldi í hvívetna, viljum styrkja réttarstöðu þolenda kynferðisofbeldis og barist fyrir jafnrétti kynjanna á öllum sviðum samfélagsins og efla fræðslu um jafnréttismál. Þeirri baráttu munum við í Vinstri grænum halda áfram að leggja lið af krafti.
Við erum líka grænn flokkur og teljum að íslenskt samfélag þurfi að leggja miklu meiri þunga en nú á umhverfismálin. Ísland á að verða kolefnishlutlaust 2040, hverfa frá áformum um olíuvinnslu og strika frekari áform um mengandi stóriðju út af borðinu. Ísland á að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að halda hlýnun jarðar undir 1,5°C.
Tryggja þarf umhverfisákvæði í stjórnarskrá, að náttúruauðlindir séu í þjóðareign og nýting þeirra sé í sátt við umhverfi og náttúru. Efla þarf almenningssamgöngur – á borð við Borgarlínu sem þarf að halda áfram vinnu við – sem og fleiri græn mál.
Umhverfisvernd og virðing fyrir náttúrunni á að vera í öllum ákvarðanatökum enda mál framtíðarinnar og komandi kynslóða.
Við í Vinstri grænum viljum leiða ríkisstjórn þar sem forgangsröðun opinberra fjármuna er sanngjarnari. Við viljum efla heilbrigðisþjónustuna af alvöru og styðja betur við menntun. Velferðin á Íslandi á að jafnast á við það besta á Norðurlöndum og vera fyrir okkur öll, óháð efnahag. Gerum skattkerfið réttlátara, léttum skattbyrðinni af þeim tekjulægstu og þau sem eru mest aflögufær greiði sanngjarnari hluta til samfélagsins. Hækkum lægstu laun og styttum vinnuvikuna án launaskerðingar. Setjum strax meira fjármagn í háskólana og heilbrigðisþjónustuna, gerum betur við eldri borgara og hækkum frítekjumarkið. Hlúum að ungum fjölskyldum með raunverulegu vali á húsnæði og lengjum fæðingarorlofið.
Við getum þetta allt. Þetta er bara spurning um pólitískan vilja.
Við stöndum frammi fyrir nýjum tímum. Það er ákall í samfélaginu um meiri heiðarleika og traust í stjórnmálum. Við í VG hlýðum því ákalli og trúum að hægt sé að gera miklu betur í íslensku samfélagi.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
oddviti VG í Suðvesturkjördæmi.