Hvað í fjandanum á ég að kjósa?

Tamar Klara Lipka Þormarsdóttir

Tamar Klara Lipka Þormarsdóttir

Lengi vel skildi ég ekki stjórnmál. Fyrir mér voru þau veruleiki fyrir miðaldra punga sem lifðu fyrir völdin ein. Eftir menntaskólagönguna tók ég mig til og kynnti mér stefnur flokkanna. Þær reyndust afar svipaðar, allir vildu betra samfélag. Hins vegar voru áherslurnar á hvað fælist í betra samfélagi ekki alltaf þær sömu.
Sem ungur kjósandi legg ég áherslu á jöfn tækifæri í samfélagi, stöðugt gengi, lægri vexti og þar af leiðandi betri kjör í húsnæðismálum. Menntamálin eru mér einnig afar hugleikin.
Það var ekki fyrr en fyrir tveimur árum sem ég gat loksins sagt að ég væri sammála stefnu flokks. Sá flokkur heitir Viðreisn, en Viðreisn er fyrsti frjálslyndi flokkurinn á Íslandi síðan 1929. Ég velti lengi fyrir mér hvers vegna frjálslyndi skipti mig svona miklu máli og af hverju ég væri svona sammála stefnu Viðreisnar.
Ég komst að því að flokkur sem er reiðubúinn að halda huganum opnum fyrir hugmyndum sem fælust í breytingum á núverandi ástandi í samfélaginu. Það skiptir mig miklu máli, enda tel ég liggja í augum uppi að margt mætti bæta til hins betra. Viðreisn er flokkur sem berst fyrir jöfnum tækifærum, stöðugleika og betri kjörum allra stétta. Flokkur sem berst fyrir kerfisbreytingum og sátt í samfélaginu. Flokkur sem leggur áherslu á jöfn tækifæri, þar sem allir standa jafnfætis í samfélaginu.
Eitt helsta stefnumál Viðreisnar er gjaldeyrismálið en það felst í því að taka upp evruna eða tryggja stöðugt gengi með myntráði. Þar af leiðandi yrðu vextir á húsnæðislánum ekki 7-8% heldur um 2%. Sem ungur kjósandi skiptir það mig miklu máli að ég geti keypt íbúð á svipuðum kjörum og í nágrannalöndunum.
Viðreisn samanstendur af virkilega öflugu og kláru fólki. Flokkur sem nýtir stöðu sína til verka en ekki valda. Þetta eru breytt stjórnmál og er ég virkilega ánægð að loksins sé kominn flokkur sem talar ekki aðeins um breytingar heldur fer í þær kerfisbreytingar er þörf er á.

Tamar Klara Lipka Þormarsdóttir;
laganemi, lögreglumaður og skipar 9. sæti
í Suðvesturkjördæmi fyrir hönd Viðreisnar.