Verum hér og nú
Segja má að líf okkar sé í raun samsett úr ótölulegum fjölda augnablika sem við getum kallað núið. Ef við erum ekki í núinu má segja að við séum ekki til staðar í lífinu, gleymum að njóta líðandi stundar.
Í hröðu samfélagi nútímans einkenna margskonar áreiti líf okkar flestra, við þurfum að takast á við alls kyns áskoranir, gegna mörgum hlutverkum og svo mætti lengi telja. Slíkt ástand getur kallað fram streitu hjá einstaklingum og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) þá er streita og andleg vanlíðan einn helsti heilsuvandi Vesturlandabúa um þessar mundir.
Hvað er núvitund?
Hugurinn hefur tilhneigingu til að fara með okkur á flakk um fortíð og framtíð auk þess sem hann er alltaf að meta, skilgreina, flokka og skipuleggja – bæði meðvitað en oftast ómeðvitað. Mörg okkar glíma einnig við sjálfsgagnrýni og neikvæðar hugsanir og mótast líðan okkar mjög af þessum þáttum. Á meðan líður lífið hjá án þess að við tökum eftir öllum þeim stóru sem smáu ævintýrum sem eru í boði bæði innra með okkur og allt um kring.
Núvitund (e. mindfulness) merkir í raun að vakna til meðvitundar um okkur sjálf og lífið á líðandi stundu, að hafa athyglina í núinu á opinn og virkan hátt. Núvitund þýðir að við erum með hugsunum okkar á meðvitaðan hátt, tökum eftir þeim án þess að dæma og festa okkur í þeim – lærum að velja hvert og hvernig við beinum athygli okkar. Á þann hátt fáum við tækifæri til að losna undan valdi hugans og skynja okkur sjálf og lífið í vinsemd og sátt.
Ávinningurinn
Fjöldamargar rannsóknir hafa verið gerðar á núvitund síðustu ár og er niðurstaðan sú að þeir sem stunda núvitundaræfingar hafa betri skilning á tilfinningum sínum, eru hamingjusamari, eiga auðveldara með að setja sig í spor annarra, búa yfir meiri persónulegri hæfni, hafa meiri sjálfsvirðingu og eru sáttari í eigin skinni.
Núvitund styrkir einnig ónæmiskerfið, getur dregið úr þrálátum verkjum, vinnur gegn þunglyndi og kvíða og getur jafnvel haft jákvæð áhrif á t.d. of háan blóðþrýsting og hjartavandamál.
Samkvæmt rannsóknum er núvitund einfaldlega ein öflugasta leiðin sem við þekkjum í dag til að losna undan streitu og efla heilbrigði, vellíðan, sátt og jákvætt hugarfar.
Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi
samfélags í Mosfellsbæ
Greinin birtist í Mosfellingi 10. mars 2016