Vellíðan á líkama og sál helst í hendur

Guðrún Ásta Húnfjörð heilsunuddari og snyrtifræðingur sá tækifæri til að breyta um stefnu í lífinu.

Guðrún Ásta stofnaði Dharma nudd- og snyrtistofu árið 2020. Þar hefur henni tekist að skapa hlýlegt og notalegt andrúmsloft þar sem áhersla er lögð á slökun og vellíðan.
Guðrún býður einnig upp á kennslu í nuddi ásamt því að vera með ráðgjöf m.a um líkamsbeitingu, kulnun og sykurlausan lífsstíl.

Guðrún Ásta er fædd í Keflavík 16. mars 1979. Foreldrar hennar eru Brynja Sif Ingibersdóttir og Óskar Ingi Húnfjörð eigendur Íslandshúsa ehf.
Guðrún á tvö systkini, Auði Ingibjörgu f. 1976 og Brynjar Marinó f. 1983.

Tókum þátt eftir aldri og getu
„Ég ólst upp á Blönduósi og á mjög góðar minningar þaðan. Það var gott að búa í litlum bæ þar sem maður gat gengið á milli staða og þurfti aldrei að láta skutla sér neitt. Allir þekktu alla og það var óþarfi að læsa húsunum. Ég hefði samt alveg viljað fleiri tækifæri til tómstunda en það var því miður takmarkað framboð á þeim.
Mínar helstu æskuminningar snúast um að vinna með fjölskyldu minni í fjölskyldufyrirtækjunum sem voru allnokkur. Ég kem af miklu athafnafólki sem var og er alltaf að og fjölskyldan vann mikið saman, hvort sem það var að baka í Brauðgerðinni Krútt, þjóna á Sveitasetrinu, elda og afgreiða í Blönduskálanum, hreinsa og pressa í efnalauginni, selja snyrtivörur í versluninni Hjá Brynju eða afgreiða áfengi í vínbúðinni sem móðir mín sá um. Nú eða gera upp hótelið og húsið sem við bjuggum í, það var alltaf nóg að gera og við systkinin tókum þátt eftir aldri og getu.“

Það þurfti að stía okkur í sundur
„Ég gekk í Grunnskóla Blönduóss og var ánægð alla skólagönguna enda alltaf átt auðvelt með að læra. Í elstu bekkjum grunnskólans var ég ein af þeim sem þurfti svolítið að sussa á og það þurfti stundum að stía okkur vinkonunum í sundur sökum ófriðar í kennslustofunni, það var bara svo gaman að vera til,“ segir Guðrún og brosir. „Á sumrin var maður mestmegnis að leika sér úti við, það var ekki mikið af námskeiðum og sumarstörfum eins og er núna, maður lék svolítið lausum hala.
Nokkur sumur var ég send með rútu til afa og ömmu í Keflavík ásamt systur minni og við vorum hjá þeim nokkrar vikur í senn. Ég var tólf ára fyrsta sumarið mitt í bæjarvinnunni og svo starfaði ég í fjölskyldufyrirtækjunum.
Fyrsta árið mitt í framhaldsskóla tók ég á Sauðárkróki og bjó þá á heimavistinni. Ég flutti síðan suður og leigði herbergi með vinkonu minni í miðbæ Reykjavíkur og hóf nám í snyrtifræði.“

Flutti til Danmerkur
Eftir að Guðrún Ásta lauk samningstíma og sveinsprófi í snyrtifræðinni fór hún til New York borgar í hálft ár og starfaði þar sem au-pair og sem einkasnyrtifræðingur og nuddari hjá amerískri fjölskyldu. Þaðan fór hún til Danmerkur og var í hálft ár hjá foreldrum sínum sem voru í námi í Horsens, þar lærði hún dönsku og starfaði við þrif. Guðrún fór aftur heim til Íslands, kláraði stúdentinn og flutti svo til Kaupmannahafnar þar sem hún bjó í sjö ár.
„Ég lærði viðskipta- og markaðshagfræði úti og fékk síðan starf sem verkefnastjóri í markaðsdeild Nordea banka, hjá þeim starfaði ég í fjögur ár. Eftir að ég flutti aftur heim til Íslands starfaði ég sem vörumerkja- og markaðsstjóri í sjö ár.“

Heimakær fjölskylda
Eiginmaður Guðrúnar Ástu heitir Þorsteinn Kr. Haraldsson, hann er eigandi að Hreinum Görðum og Hoist vinnulyftum. Þau eiga tvo syni, Ísak Elí Húnfjörð f. 2011 og Dag Frey Húnfjörð f. 2013.
„Við erum heimakær fjölskylda og okkur finnst notalegt að spila og horfa saman á bíómyndir. Við hjónin höfum aðeins stundað fjallgöngur en sumarið er háannatími hjá Þorsteini svo að við gerum ekki eins mikið af því og við vildum. Við eigum líka stóra fjölskyldu sem við verjum miklum tíma með og bjóðum gjarnan litlum frænkum og frændum í gistingu til okkar um helgar.
Ég er svo að prjóna heilmikið og hekla og á það til að föndra og mála, ég hef líka mikinn áhuga á alls kyns heilsu- og geðrækt.“

Lít á kulnunina sem tækifæri
Fyrir sex árum lenti Guðrún í alvarlegri kulnun og var í veikindaleyfi í rúmt ár. Hún tók þá ákvörðun að líta á kulnunina sem tækifæri til að breyta um stefnu í lífinu þegar hún var komin upp úr hjólförunum sem henni fannst hún vera föst í.
„Ég skráði mig í heilsunuddaranám og tók það nám samhliða bataferlinu. Um leið og ég kláraði námið 2020 ákvað ég að opna Dharma nuddstofu hér í Mosfellsbæ og tveimur árum síðar ákvað ég að bjóða líka upp á almenna snyrtiþjónustu. Ég er mjög ánægð og þakklát fyrir viðtökurnar sem bæjarbúar hafa sýnt mér,“ segir Guðrún Ásta og brosir.

Hef styrkst meira í þeirri trú
Guðrúnu hefur tekist að skapa hlýlegt og notalegt andrúmsloft á stofunni hjá sér þar sem áhersla er lögð á slökun og endurnæringu. „Ég nýti alla mína menntun og lífsreynslu til að bæta heilsu, útlit og líðan fólks, enda hef ég alltaf hallast að því að vellíðan á líkama og sál haldist í hendur. Eftir reynslu mína af kulnun hef ég styrkst enn meira í þeirri trú.
Ég býð einnig upp á kennslu í sjálfsnuddi og ungbarnanuddi og veiti ráðgjöf m.a. um líkamsbeitingu, kulnun og sykurlausan lífsstíl. Það jákvæða í þessu öllu saman er að það er aldrei of seint að breyta um lífsstíl.
Ég sinni líka kennslutímum á Heilsunuddarabraut Fjölbrautaskólans við Ármúla, þá helst nuddmeðferðir, leiðsögn í stofnun og rekstri nuddstofa og sjálfsrækt heilsunuddara. Ég er einnig í stjórn Félags íslenskra heilsunuddara.“

Tilgangur lífsins
En hvaðan kemur nafnið á stofunni, Dharma? „Það kemur úr búddisma og þýðir tilgangur lífsins. Samkæmt Dharma lögmálinu erum við öll með einstaka hæfileika sem við síðan tjáum á okkar einstaka hátt, hvert og eitt. Þegar við nýtum þessa hæfileika í þjónustu við aðra upphefjum við eigin anda og upplifum ótakmarkaða sælu og gnægð. Það má því með sanni segja að mitt „Dharma“ sé að hjálpa fólki til bættrar heilsu, jafn að innan sem utan.“