Velkominn Arnarskóli í Mosfellsbæ
Mig langar að byrja á því að bjóða þennan skóla velkominn í bæjarfélagið okkar og vekja athygli á því við nærsveitarmenn, og þá sérstaklega bæjaryfirvöld, hvers skonar fengur er þarna á ferð fyrir okkar bæjarfélag.
Ég er svo heppin að hafa notið þjónustu atferlisfræðinga sem þarna starfa. Þarna er verið að setja á fót skóla sem virkileg þörf er á á Íslandi, því þó að skóli án aðgreiningar sé fallegt hugtak og eigi að vera markmiðið fyrir alla, þá eru alltaf einhverjir sem þurfa meiri aðstoð og athygli en hægt er að veita í dag til þess að geta fengið að blómstra og njóta sín.
Eins og kemur fram á facebook-síðunni er Arnarskóli grunnskóli sem stefnt er að að verði stofnaður í síðasta lagi haustið 2017. Skólinn mun bjóða heildstæða þjónustu fyrir fötluð börn með fjölþættar þarfir byggða á aðferðum hagnýtrar atferlisgreiningar. Við viljum starfa eftir hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar og sjáum fyrir okkur að skólinn verði staðsettur í almennum grunnskóla með eins miklu samstarfi við þann skóla og mögulegt er. Skólinn yrði þó rekinn af sjálfseignarstofnun svo bjóða megi upp á þann sveigjanleika og sérþekkingu sem þarf til að koma til móts við þær þarfir sem væntanlegir nemendur okkar munu hafa.
Ég veit að það flotta fólk sem að þessum skóla stendur er að vinna dagsdaglega að ráðgjöf fatlaðra barna meðal annars hjá Greiningarstöð ríkisins og frábært hjá þeim að fara af stað og stofna skólann. Þörfin er mikil. Álag á fjölskyldur fatlaðra barna eins og til dæmis með einhverfu er mikið, ekki síst á barnið sjálft.
Vetrarfrí og sumarfrí eru erfið. Að púsla saman skóla, frístund, stuðningsfjölskyldum, liðveislu, talþjálfun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, atferlisþjálfun… á ég að halda áfram? Þetta er bara toppurinn á ísjakanum. Þarna er verið að bjóða upp á heildstæða þjónustu þannig að það sé samfella og föst rútína allan ársins hring. Atferlisþjálfun er mjög markviss aðferð sem reynist mjög vel að kenna fötluðum eins og til dæmis einhverfum sem eru kvíðnir eða með mótþróa.
Ég veit að lengi var leitað að heppilegu húsnæði undir skólann í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Því kom skemmtilega á óvart að hann skyldi vera stofnaður hér í þessum frábæra bæ Mosfellsbæ. Þar sem framtíðarmarkmiðið er að starfa við hlið almenns grunnskóla skora ég á bæjaryfirvöld að finna stað fyrir þennan skóla innan skólakerfis Mosfellsbæjar.
Eins og ég sagði í byrjun þá er mikill fengur fyrir okkur sem samfélag að fá þennan flotta skóla og mikla þekkingu inn í bæjarfélagið.
Hulda Margrét Eggertsdóttir