Veldu þér viðhorf

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Það eru margir sem halda að viðhorf þeirra sé afleiðing ytri aðstæðna og þess sem gerist í umhverfi okkar.
Það er hins vegar fjarri sanni því viðhorf okkar er afleiðing þess hvernig við veljum að vinna úr og túlka það sem gerist í kringum okkur. Við ráðum því nefnilega sjálf hvort við þróum með okkur jákvætt viðhorf, sjáum björtu hliðarnar og tækifærin í hverjum þeim aðstæðum sem lífið býður upp á.

Geðorðin 10
Við getum gert ýmislegt til að tileinka okkur jákvætt viðhorf með markvissum hætti. Geðorðin 10 eru vel til þess fallin að auðvelda okkur vegferðina að slíku viðhorfi og minna okkur á hvað þarf til. Þar er vikið að því hvað við þurfum að tileinka okkur til að öðlast lífsgæði, sátt og sálarró til að verða besta útgáfan af sjálfum okkur.
Við þurfum að hugsa jákvætt, læra af mistökum okkur, rækta hæfileikana, hlúa að því sem okkur þykir vænt um, setja okkur markmið, láta drauma okkar rætast og muna að velgengni í lífinu er langhlaup.

Umkringjum okkur jákvæðni
Hvernig væri nú að taka ráðin í sínar hendur og byrja hvern dag á einhverju jákvæðu? Það er t.d. hægt að syngja, hlusta á hvetjandi tónlist, lesa jákvæða og uppbyggilega hluti, dansa og/eða leita í gleðibankann okkar eftir skemmtilegum myndum, myndböndum o.s.frv.
Svo er líka snjallt að forðast hreinlega neikvætt fólk og neikvæð skilaboð og einblína á þá hluti sem okkur langar til að gera, bæði núna og í framtíðinni. Síðast en ekki síst þurfum við að temja okkur að staldra við og íhuga hvernig við bregðumst við aðstæðum hverju sinni, er glasið okkar hálftómt eða er það hálffullt?

Jákvæðni grundvöllur lífsgæða
Ýmsar rannsóknir sýna að jákvætt viðhorf er grundvöllur velgengni í persónulegu lífi og starfi og hefur ekki aðeins áhrif á lífsgæði okkar heldur einnig heilsu og lífslíkur. Jákvætt viðhorf leiðir af sér tækifæri, lausnir og gefur okkur tækifæri á að þroskast sem einstaklingar.

Síðast en ekki síst þá verður lífið einfaldlega skemmtilegra ef við horfum á hlutina og tökumst á við þá með jákvæðnina að vopni!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ