Stjórnsýslu Lágafellssóknar stórlega ábótavant

Sr. Skírnir Garðarsson

Sr. Skírnir Garðarsson

Að gefnu tilefni vil ég undirritaður, Skírnir­ Garðarsson, fyrrum prestur Lágafellssóknar koma eftirfarandi á framfæri:
Ónóg stjórnsýsla Lágafellssóknar og mannauðsstjórnun hefur undanfarin misseri dregið dilk á eftir sér. Í fyrra hættu organisti, prestur og djákni og í framhaldinu var klúður varðandi ráðningu nýs starfsfólks, óánægja var með ráðningarferli organista og óánægja er nú meðal starfsfólks sóknarinnar.
Sóknarpresturinn og framkvæmdastjórinn voru sett undir rannsókn Úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar og var niðurstaðan birt 3. nóv. sl.
Þar kemur fram að ámælisverð vinnubrögð hafa verið viðhöfð gagnvart undirrituðum, gagnvart opinberum eftirlitsaðilum og stjórnsýsla framkvæmdastjórans virðist hafa einkennst af þekkingarskorti og vöntun­ á vandvirkni.
Þá eru meint brot sömu aðila á persónuverndarlögum og trúnaði gagnvart tölvupóstum starsfólks til skoðunar hjá Persónuvernd. Þar er ljóst að viðkvæmum upplýsingum var komið á óheiðarlegan hátt til yfirmanna kirkjunnar, meintir gerendur eru sóknarpresturinn og framkvæmdastjórinn.
Þessi meintu brot teygja sig yfir þriggja ára tímabil, 2014 –2016, fyrri hluta árs.
Um er að ræða meint brot á meðferð rafrænna skjala, ásamt því að farið hefur verið á svig við siðareglur kirkjunnar.
Úrskurður Úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar liggur frammi á biskupsstofu og hefur verið sendur sóknarnefnd Lágafellssóknar og kirkjuráði.
Úrvinnsla Persónuverndar er í gangi og niðurstöðu er að vænta í vetur.
Allt er þetta til tjóns fyrir sóknarbörnin í Lágafellssókn.

Sr. Skírnir Garðarsson

——-

Úrskurðarorð:
Aðfinnsluvert er að enginn gagnaðila skyldi láta málshefjanda tafarlaust vita af erindi Persónuverndar frá 12. ágúst 2013.
Aðfinnsluvert er með hvaða hætti gagnaðilar sóknarnefnd og framkvæmdastjóri Lágafellssóknar brugðust við fyrrgreindu erindi Persónuverndar.
Aðfinnsluvert er að gagnaðili sóknarprestur skyldi vísa erindi Persónuverndar til biskups Íslands án þess að tilkynna málshefjanda tafarlaust þá ákvörðun sína.
Gagnaðilum bar ekki að veita máls­hefjanda andmælarétt vegna erindis Persónuverndar.