Veitingastaðurinn opinn fyrir alla
Blik Bistro & Grill er veitingastaður sem opnaði síðasta sumar í Kletti, íþróttamiðstöð Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Veitingastaðurinn opnar þriðjudaginn 1. maí með nýjum og spennandi matseðli. Staðurinn er opinn yfir sumartímann en hægt er að bóka viðburði og veislur yfir veturinn.
„Veitingastaðurinn er fyrir alla, það geta allir komið hingað hvort sem það er í morgun-, hádegis- eða kvöldmat, eða allt þar á milli. Matseðillinn hjá okkur er fjölbreyttur og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Joost van Bemmel yfirkokkur.
„Það er skemmtilegt að segja frá því að þegar við hönnuðum matseðil sumarsins gerðum við tvær tillögur að kjúklingaborgara. Ég gerði annan og Karl Jóhann Unnarsson, sem er nýr kokkur hjá okkur, gerði hinn. Það var ekki hægt að gera upp á milli og því enduðu þeir báðir á seðlinum,“ segir Joost van Bemmel yfirkokkur og hlakkar til sumarsins.
Sérsmíðaður skápur hluti af matseðli
„Við erum búin að leggja mikla vinnu í matseðilinn svo erum við alltaf með rétt dagsins og súpu í hádeginu. Raggi Óla vinur minn er að sérsmíða fyrir okkur skáp sem er partur af matseðlinum en þar verðum við með súpu, salat og ferskar kryddjurtir.
Sértilboð og annað skemmtilegt
„Hugmyndin hjá okkur er svo að vera með skemmtileg sértilboð og þemakvöld. Til dæmis á mánudögum verður tilboð af rifjum eins og hver og einn getur borðað. Á þriðjudögum verður pítsukvöld og miðvikudagar verða grænmetisdagar svo eitthvað sé nefnt.
Matseðillinn er settur upp þannig hjá okkur að það er hægt að panta fyrir 1-4 og deila eins og til dæmis tacos og fleira sem er mjög hentugt fyrir vinahópa.
Svo verð ég að minnast á að við erum með mikið úrval af kokteilum og verðum með „happy hour“ á kokteilum. Hægt er að fylgjast með öllum viðburðum og tilboðum á Facebook-síðunni,“ segir Joost og vonast til að sjá sem flesta Mosfellinga í sumar.