Væringar á vígstöðvum

Sveinn Óskar Sigurðsson

Eftir að úrslit prófkjörs lágu fyrir hér í Mosfellsbæ nýlega virðist sem að upp á yfirborðið hafi leitað sjóðheit mál sem virðast hafa kraumað lengi undir niðri. Hér er um innanbúðarátök að ræða.
Okkur sem sitjum í bæjarstjórn Mosfellsbæjar var gert að tryggja í upphafi kjörtímabilsins að rétt kynjahlutföll yrðu að vera jöfn í ráðum og nefndum Mosfellsbæjar. Hneykslast var á því í upphafi kjörtímabilsins að bæjarfulltrúi Miðflokksins hafi ætlaði að tilnefna konu í fræðslunefnd. Hafði formaður nefndarinnar á orði að það gengi ekki að Miðflokkurinn tilnefndi konu þar sem Sjálfstæðisflokkurinn væri með tvær konur sem aðalmenn af 5 í nefndinni og Viðreisn eina. Það gengi því alls ekki að það væru of margar konur í nefndinni.

Í janúar, nánar tiltekið 6. janúar sl., barst oddvita Miðflokksins í Mosfellsbæ árétting frá Jafnréttisstofu þess efnis að fyrir næstu kosningar ætti að „viðhalda jöfnu kynjahlutfalli í bæjar- og borgarstjórnum ásamt því að minna á mikilvægi fjölbreytileika.“
Það er rétt að taka undir þetta en í sama erindi var fjallað um hvatningabréf frá Kvenréttindafélagi Íslands sem er sagt vera hluta af herferðinni og verkefni sem tilheyrir Byggðaáætlun ríkisins. Með þetta í veganesti í upphafi kjörtímabils, bæði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 og nú 2022, er mikilvægt að huga að breytingum. En hvað gerðist á kjörtímabilinu?

Í fyrsta lagi virðist sem einn íþróttafrömuður í Mosfellsbæ vilji ekki annan íbróttafrömuð í forystu hjá Sjálfstæðisflokknum. Í annan stað var formanni bæjarráðs Mosfellsbæjar vikið til hliðar á miðju kjörtímabilinu, þ.e. því sem senn er á enda. Við það fór forysta Sjálfstæðisflokksins og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs gegn áréttingum Jafnréttisstofu enda er nú bæjarstjórinn karl, formaður bæjarráðs karl og forseti bæjarstjórnar líka karl.
Ekki ætla ég að útlista mig sérstaklega hvort þetta sé gott en vegna bæði samsetningar á pólitískum flokkum og einstaklingum þarna tel ég þetta öllu verra en t.d. ef einn karlinn væri úr Miðflokknum, a.m.k. hefur oddviti þess flokks einhverja innsýn inn í jafnréttismálin.

Í málefnasamningi Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs kemur fram að „D- og V-listi vilja stuðla að efla jafnrétti í öllum birtingamyndum þess orðs.“ Niðurstaða þessara framboða virðist ítrekað benda til brota á eigin loforðum en í upptalningu í málefnasamningnum kemur einnig fram að það eigi að „horfa til jafnréttissjónarmiða í allri ákvarðanatöku sveitarfélagsins.“
Það er því spurning hvort framboðum, sem hafa starfað lengi saman en fara lítt eftir eigin áformum, sé treystandi til að stjórna Mosfellsbæ næstu misserin. Það þarf að gæta festu við stjórn sveitarfélaga og jafnréttis.

Sveinn Óskar Sigurðsson,
oddviti Miðflokksins í Mosfellsbæ og bæjarfulltrúi allra Mosfellinga.