Farsæll grunnskóli

Anna Sigríður Guðnadóttir

Grunnskólarnir okkar eru ein megin samfélagsstoðin í bænum okkar. Öll höfum við gengið í skóla og vitum hversu mikilvægt hlutverk grunnskólanna er í fræðslu, uppvexti og félagslegri mótun barna.
Grunnskólinn hefur tekið geysilegum breytingum og framförum undanfarna áratugi frá því rekstur skólanna var fluttur frá ríki til sveitarfélaganna árið 1996. Við flutninginn var gert samkomulag milli sveitarfélaga og ríkisins um hvernig fjármagna skyldi reksturinn og hvaða upphæðir væri um að ræða. Allar götur síðan hefur verið deilt um hvort rétt hafi verið gefið í því spili.

Skóli margbreytileikans
Grunnskólinn hefur tekið mjög miklum breytingum á þeim tíma sem rekstur hans hefur verið á höndum sveitarfélaganna. Þar ber einna hæst stefnu stjórnvalda um skóla án aðgreiningar. Í skóla án aðgreiningar á að vera pláss fyrir öll börn og þau eiga að fá þá þjónustu sem þau þurfa til að þroska hæfileika sína.
Börnin eiga að fá aðstoð við að finna fjölina sína og skólinn á að útvega þeim þær bjargir sem þeim eru nauðsynlegar til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. En erum við að veita þá þjónustu sem börnin eiga skilið?

Kennarar og aðrir sérfræðingar
Kennarar eru sérfræðingar í kennslu og miðlun þekkingar og búa yfir gríðarlegri sérþekkingu á sínu sviði. Skóli margbreytileikans gerir mjög ríkar kröfur til kennara um að mæta öllum nemendum þar sem þeir eru staddir og veita öllum börnum þær bjargir sem þau þurfa til að uppfylla þær kröfur sem skólinn setur fram. En enginn kennari er sérfræðingur í öllu sem viðkemur börnum og þeim fjölbreytilegu þörfum sem þau hafa.
Til að búa börnum okkar sem vænlegust skilyrði til vaxtar og þroska þarf að fjölga öðrum sérfræðingum innan skólakerfisins til að starfa við hlið kennaranna. Ef við viljum að skóli án aðgreiningar nái markmiðum sínum verður að fjölga fagfólki með fjölbreytta þekkingu inni í skólunum. Til dæmis ættu þroskaþjálfar, talmeinafræðingar, iðjuþjálfar og sálfræðingar að vera hluti af starfsliði skólanna í ríkari mæli til að styðja við það starf sem sérfræðingar í kennslu stýra svo hvert barn fái sem besta möguleika á að þroska sína styrkleika. Með því að grípa þau börn sem það þurfa snemma og veita þeim þá þjónustu sem þau þurfa tímanlega er verið að fyrirbyggja vandamál síðar meir og leggja inn fyrir farsæld á fullorðinsaldri.

Fjármögnun og farsæld
Um hvað snúast sveitarstjórnarmál í grunninn? Þau snúast um þjónustu við íbúana, að íbúar fái þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda þegar hennar er þörf. Ekki síst á þetta við um þjónustu við börn þar sem hvert ár er óendanlega mikilvægt í þroskaferli þeirra.
Það er skylda sveitarfélaga að búa þannig að skólastarfi að það uppfylli þarfir barnanna og stuðli að farsæld þeirra. Það er verkefni næstu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, í samstarfi við önnur sveitarfélög, að halda áfram að þrýsta á ríkisvaldið um að styrkja tekjustofna sveitarfélaganna þannig að þeim sé gert kleift að uppfylla margbreytilegar þarfir barna í skóla án aðgreiningar sem er jú stefna stjórnvalda.

Anna Sigríður Guðnadóttir,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.