Útiæfingatæki tekin í notkun

æfingatæki

Okkar Mosó er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ. Hugmyndasöfnun og kosning fóru fram fyrri hluta árs. Kosin voru 10 verkefni og eru þau öll komin af stað, ýmist lokið eða langt komin.
Stekkjarflöt útivistarparadís fékk flest atkvæði íbúa. Þar er búið að koma upp strandblakvelli og vatnsbrunni.
Útileikvöllur fyrir fullorðna var verkefni sem gerði ráð fyrir líkamsræktartækjum fyrir fullorðna. Tækin eru nú komin upp og tilbúin til notkunar á græna svæðinu við Klapparhlíð.
Meðal annarra verkefna má nefna að búið er að setja upp ungbarnarólur á opin leiksvæði við Víðiteig, Hrafnshöfða, Furubyggð og Rauðumýri. Þá eru komnir bekkir fyrir eldri borgara og aðra íbúa við Klapparhlíð, verið er að undirbúa göngustíg gegnum Teigagilið og endurbætur á göngubrúm við Varmá og við Eyri eru í undirbúningi. Búið er að lagfæra og snyrta gróður á göngugötunni fyrir aftan Þverholt og hönnun á fuglafræðslustíg meðfram Leirvoginum er langt komin.