Neil Warnock

Heilsumolar_Gaua_28sept

Ég las viðtal á fotbolti.net um daginn við Neil Warnock, knattspyrnustjóra Cardiff, liðsins sem Aron Einar fyrirliði íslenska landsliðsiðsins spilar með dags daglega. Neil er grjótharður og hefur alltaf verið, þess vegna var einmitt mjög áhugavert að lesa þetta viðtal. Þar sagði kappinn að hann hefði engan áhuga á að stýra liði í ensku úrvalsdeildinni (Cardiff er í næstefstu deild), pressan þar væri ómanneskjuleg. Hann sagði að aðrir hlutir væru mikilvægari, til dæmis heilsan og fjölskyldulífið.

Ég er sammála Neil Warnock. Við verðum að passa okkur á að láta ekki vinnu og verkefni taka allan okkar tíma og láta fjölskylduna, vinina og heilsuna mæta afgangi. Það gengur bara ekki upp til lengdar, eitthvað mun undan láta. Heilsan, fjölskyldan og/eða vinnan.

Ég er undanfarið búinn að vera að ræða við fólk sem vinnur mjög mikið. Fólk sem er nánast í vinnunni allan sólarhringinn, alla daga, og finnst það næstum því bara vera allt í lagi. Af því álagið sé svo mikið og það þurfi að klára verkefnin. Annars liggi verkefnin bara ókláruð. Og, stundum líka, af því það fær svo há laun. Því hærri laun, því meiri pressa. Alveg eins og í enska fótboltanum. Launin eru hæst í úrvalsdeildinni.

Fólk sem er á mjög háum launum á erfitt með að segja nei þegar vinnuveitandinn hringir á miðnætti á laugardagskvöldi og pantar skýrslu sem verði að vera tilbúin snemma á mánudagsmorgni. Þá er bæði svefn og samvera með fjölskyldunni sett í annað sæti. Vinnan alltaf í það fyrsta. Sama hvað.

Hamingjan felst ekki alltaf í hærri launum. Stundum er betra að hafa lægri laun og meiri lausan tíma. Hafa lífið í betra jafnvægi. Endum þetta á beinni tilvitnun í Neil, nýja besta vin minn: „Þú getur ekki sett verðmiða á góða heilsu, hamingju og fjölskyldu. Sama hver þú ert.“

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 28. september 2017