Út með þig!
Ég er búinn að velta því fyrir mér síðustu daga hvað ég myndi ráðlegga fólki að gera til að halda haus og heilsu í covid, ef ég mætti bara nefna eitthvað eitt.
Samvera, upphífingar, lestur, tónlistarhlustun og fleira komu upp í hugann. En ég fann svarið þegar ég í síðustu viku labbaði út á pósthús. Þetta var rétt fyrir hádegi. Maður lifandi, það var svo gott að fara út í birtuna og súrefnið. Það var reyndar ekki heiðskírt en samt nokkuð bjart og einhverjir sólargeislar náðu í gegn. Á þessum dimmustu mánuðum ársins ættum við öll að leggja niður vinnu í tvo klukkutíma og fara öll út í sólina. Við þurfum á birtunni að halda. Sólarljósið bætir svefn, minnkar stress, styrkir bein, stuðlar að kjörþyngd, styrkir ónæmiskerfið, minnkar líkur á þunglyndi og lengir lífið.
Gangan styrkir lungu og hjarta, minnkar líkur á hjartasjúkdómum, lækkar blóðþrýsting, styrkir liði og bein og eykur jafnvægi. Svo nokkur atriði séu nefnd. Dagleg ganga í dagsbirtunni er það sem ég myndi fyrirskipa fólki, ungum sem öldnum, að gera ef ég væri alvaldur. Það myndi gerbreyta öllu ef allir gerðu þetta. Álag á heilbrigðiskerfið myndi stórminnka, almenn heilushreysti myndi aukast, geðheilbrigði batna og almenn hamingja taka stórt skref upp á við.
Það sem myndi líka gerast í daglega göngutúrnum í kringum hádaginn er að við myndum hitta fleiri í eigin persónu, ekki bara í gegnum netið. Þessir hittingar eru samþykktir af Rögnvaldi og félögum af því að þeir taka stuttan tíma og snúast um bros og tvær til þrjár jákvæðar setningar, ekki knús og hópamyndum fyrir framan búðarglugga (hverjum datt það gigg eiginlega í hug?).Ég hitti einmitt eina ljónspræka þegar ég rölti á Pósthúsið, eldri konu í fantaformi sem brosti hringinn í birtunni og smitaði jákvætt út frá sér með því einu að vera til.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 17. desember 2020