Á tímum Covid-19

Valborg Anna Ólafsdóttir

Á þönum? Nei, ekki beint. Þess í stað höfum við átt góðan tíma á tímum COVID-19 með börnum okkar og öðrum fjölskyldumeðlimum, átt yndislegar stundir.
Nú þegar við horfum fram á að bóluefni verði vonandi komið fljótlega á árinu 2021, er mikilvægt að gleyma því ekki að við áttum dýrmætan tíma með börnum okkar og barnabörnum.
Það sem okkur hefur þótt afar merkilegt í gegnum síðustu mánuði er elja og dugnaður kennara okkar hér í Mosfellsbæ og annarra starfsmanna á vegum bæjarins. Þar vinnur fólk í framlínu og leggur sig fram við að sinna börnum þeirra sem verða að mæta til vinnu þrátt fyrir allt og þrátt fyrir allar takmarkanir.
Við viljum þakka þessu fólki sérstaklega fyrir að taka við börnum okkar bæjarbúa og sinna þeim, bæði í skólanum og í gegnum fjarfundabúnað, kenna þeim og fræða. Við þökkum okkar frábæru heilbrigðisstarfsmönnum sem sjá um afa og ömmu, börn okkar og ættingja. Það fólk mætir til vinnu, verður að mæta til vinnu, tekur áhættu fyrir okkur hin til að hlúa að, vernda og líkna.
Nú þegar við höfum kveikt á Spádómskertinu, síðan Betlehemskertinu, svo Hirðakertinu og að lokum Englakertinu eru komin jól. Það eru hin kristnu jól, en til forna var um að ræða hátíð rísandi sólar. Hefðirnar eru margar og skatan á Þorláksmessu er af mörgum talin ómissandi. Undanfarin ár hafa félagar úr Miðflokknum í Mosfellsbæ farið í skötu í Hlégarði og haft gaman af. Nú bíður skatan betri tíma.

Danith Chan

Við sem búum í fjölmenningarsamfélagi vitum einnig af hátíðum annarra trúarbragða. Þá gleðjumst við líka. Það geta flestir notið jólanna og reynt að forðast stressið. Við þurfum að reyna að njóta þessa tíma, kveikja á kertum og gleðja hvert annað. Ljósið er dýrmætt öllum og skiptir engu á hvaða trúarbrögð hver treystir, gleðin, hamingjan og gjafmildin er alþjóðleg, virt hvar sem þú ert, hvert sem þú ferð. Með þetta í huga getum við öll átt farsæl og indæl samskipti, sýnt hvert öðru virðingu og náð meiri árangri. Jólin eru flestum tími til að gleðjast. Sýnum börnum okkar alúð og gleði.
Kennum börnum okkar nægjusemi, eljusemi og ræktum með þeim samkennd gagnvart öðru fólki.
Jólin eru tími barnanna, allra barna.

Valborg Anna Ólafsdóttir, formaður heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis fyrir Miðflokkinn.
Danith Chan, fulltrúi Miðflokksins í menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar.