Stóra upplestrarkeppnin í 20 ár í Mosfellsbæ
Það má með sanni segja að þjóðarátak í upplestri hafi byrjað með Stóru upplestrarkeppninni sem hófst í Hafnarfirði haustið 1996.
Fljótlega bættust fleiri bæjarfélög í hópinn og allt frá árinu 2001 hafa nær allir nemendur í 7. bekk um land allt verið skráðir til verkefnisins og tekið þátt í ræktunarhlutanum sem stendur frá degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, þar til hátíðarhlutinn tekur við í mars. Það er í raun athyglisvert að heill árgangur í grunnskóla skuli ár hvert verja stórum hluta vetrar til að æfa sig við flutning móðurmálsins og stíga síðan á stokk, lesa af listfengi og fylla hátíðarsali, félagsheimili og kirkjur landsins af áhugasömum áheyrendum.
Keppnin hefur hlotið afbragðsviðtökur skólafólks og ekki er síst ánægjulegt að verða vitni að þeim mikla áhuga sem nemendur hafa sýnt með því að leggja mikinn metnað í verkefnið. Skólaskrifstofur hafa veitt keppninni brautargengi í sínu umdæmi og lagt henni ómetanlegt lið, en sjálft uppeldisstarfið, ræktun upplestrarins, hefur hvílt á höndum kennara.
Fræðsluskrifstofa Mosfellsbæjar hefur sannarlega lagt sig fram um að standa sem allra best að lokahátíðunum í gegnum árin og stutt kennara við undirbúninginn.
Það er sérlega ánægjulegt að víðast hvar er Stóra upplestrarkeppnin fastur liður í skólanámskrám og læsishvetjandi verkefnum grunnskólanna og þar eru grunnskólarnir í Mosfellsbæ engir eftirbátar annarra skóla.
Fyrsta keppnin í Mosfellsbæ var haldin í Bæjarleikhúsinu 1997 með lesurum úr Varmárskóla sem þá var eini skólinn í Mosfellsbæ með 7. bekk. Lágafellsskóli tók fyrst þátt árið 2002 og síðan þá hafa hátíðirnar verið haldnar til skiptis í skólunum.
Undirbúningur keppninnar felst í upplestri á ýmiss konar textum, hlustun og framsögn. Verkefnið kveikir oftar en ekki áhuga hjá nemendum á lestri og að vanda framburð og flutning. Nemendur læra líka að hlusta af athygli þegar aðrir lesa upp og læra þannig að bera virðingu fyrir öðrum.
Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn, sem standa að verkefninu, hvetja foreldra til að taka virkan þátt. Það er hægt að gera með því að vera góður og áhugasamur áheyrandi við heimalestur, ræða um áherslur og blæbrigði sem skipta máli við allan flutning, aðstoða barnið við að lesa upp af skilningi og spjalla um efnið.
Ljóst er að góð lestrarstund vekur ánægju, eflir sjálfstraust og bætir lestrarfærni. Einnig er vert að hafa í huga að lestur góðra bóka getur líka þroskað samskiptahæfni því bækur fjalla oftast um samskipti sögupersónanna þar sem birtast bæði góð fordæmi og hvað ber að varast.
Að lokum er mér það bæði ljúft og skylt að minnast á Litlu upplestrarkeppnina. Litla upplestrarkeppnin byggir á sömu hugmyndafræði og Stóra upplestrarkeppnin þar sem ávallt er haft að leiðarljósi að keppa að betri árangri í lestri, munnlegri tjáningu og framkomu. Lögð er áhersla á virðingu og vandvirkni.
Keppnin var formlega sett á degi íslenskrar tungu í áttunda sinn í Hafnarfirði nú í haust og í sjötta sinn í öllum grunnskólum Mosfellsbæjar. Allir hafa áhyggjur af lestrarfærni nemenda og Litla upplestrarkeppnin er einungis hugsuð sem styrkur við þær aðferðir og vinnu sem er í gangi hjá kennurum hverju sinni.
Það verður stórhátíðarbragur yfir Stóru upplestrarkeppninni í Mosfellsbæ sem fram fer 20. mars. Fulltrúar skólanna munu leggja sitt af mörkum og verður hátíðin í formi samveru með foreldrum, kennurum, fulltrúum bæjarstjórnar, fræðsluskrifstofu Mosfellsbæjar og öðrum góðum gestum, eins og venjan hefur verið á lokahátíðum Stóru upplestrarkeppninnar í Mosfellsbæ í 20 ár.
Björk Einisdóttir deildarstjóri eldri deild Varmárskóla
og varaformaður Radda, samtaka um vandaðan upplestur og framsögn.