Uppbygging og viðhald að Varmá
Afturelding, íþróttafélag allra Mosfellinga, heldur upp á 110 ára afmæli um þessar mundir. Það er óhætt að segja að afmælisbarnið beri aldurinn vel, mikill kraftur og eldmóður einkennir starfið innan félagsins og þannig hefur það verið alla tíð.
Með ört stækkandi Mosfellsbæ og fjölgun bæjarbúa fjölgar iðkendum og er það mjög jákvæð þróun í því heilsueflandi samfélagi sem Mosfellsbær er.
Afturelding er afar mikilvægur þáttur í okkar samfélagi í mörgu tilliti.
Mikil og víðtæk forvörn er fólgin í þátttöku barna og unglinga í íþrótta- og tómstundastarfi.
Bygging fjölnota knatthúss
Íþróttasvæði Aftureldingar að Varmá er í hjarta bæjarins og þar er í gangi mikil uppbygging og viðhald um þessar mundir sem gera góða íþróttaaðstöðu enn betri fyrir hina fjölmörgu iðkendur félagsins.
Stærsta framkvæmdin er bygging fjölnota knatthúss. Sú framkvæmd gengur vel og er á áætlun bæði hvað varðar kostnað og tímaramma. Jarðvinna og steypuvinna er langt komin og mun verða hafist handa við að reisa sjálft húsið seinnipartinn í júní. Það er svo áætlað að taka húsið í notkun fullbúið í október í haust og verður húsið mikil lyftistöng fyrir knattspyrnuna í Mosfellsbæ.
Ný gólf í keppnissalina að Varmá
Í haust var gerð úttekt á ástandi á gólfum á íþróttahúsunum að Varmá. Úttekt leiddi í ljós að kominn væri tími til að huga að endurnýjun á gólfefnum og var tekin ákvörðun um það í bæjarstjórn að fara í þær framkvæmdir síðastliðinn vetur og núna í sumar. Um síðustu áramót var skipt um gólf í gamla salnum að Varmá og var lagður nýr hágæða dúkur sem hefur komið mjög vel út.
Á næstu dögum hefjast framkvæmdir í stóra salnum og verður byrjað að leggja parketgólf í sumar sem lokið verður um miðjan ágúst. Gólfefnin voru valin í samráði við Aftureldingu og skólasamfélagið og er mikil ánægja með þessar framkvæmdir og þá bættu aðstöðu sem þær skapa.
Ný stúka við gervisgrasvöllinn
Nú í byrjun maí var tekin í notkun ný 300 manna stúka við gervigrasvöllinn að Varmá. Stúkan er mikil breyting í aðstöðu fyrir áhorfendur á heimaleikjum að Varmá. Nýtt gervigras var sett á völlinn fyrir rúmu ári og nú í vor var öryggissvæði í kringum völlinn stækkað.
Áframhaldandi uppbygging
Auk þess sem áður hefur verið nefnt eru fleiri framkvæmdir í gangi á Varmársvæðinu. Þar má nefna endurnýjun og stækkun á búningsklefum undir sundlauginni, auk þess sem unnið er að frumhönnun og skipulagningu á óinnréttuðu rými milli íþróttahúss og fimleikahúss. Þar eru hugmyndir um að geti verið aðstaða fyrir félagsaðstöðu og skrifstofu Aftureldingar.
Á æfingasvæðinu á Tungubökkum er einnig í gangi vinna við endurnýjun og lagfæringu á grasvöllum og verður því verkefni skipt í fjóra áfanga og eitt svæði tekið fyrir á hverju sumri á næstu fjórum árum.
Uppbygging íþróttaaðstöðu – langtímaverkefni
Efir síðustu kosningar var stofnaður samráðsvettvangur Mosfellsbæjar og Aftureldingar um stefnu og forgangsröðun um uppbyggingu og skipulag á Varmársvæðinu. Þar sitja fulltrúar Mosfellsbæjar og Aftureldingar og hefur vinna þessa hóps farið vel af stað.
Það er stefna þessa hóps að leggja fram hugmynd að framtíðarskipulagi fyrir Varmársvæðið í samræmi við afmælisgjöf Mosfellsbæjar til Aftureldingar og verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu.
Mosfellsbær mun halda áfram að stækka á næstu árum með tilheyrandi fjölgun iðkenda í íþrótta- og tómstundastarfi. Það er ljóst að uppbyggingu á íþróttaaðstöðu verður haldið áfram í takt við þá aukningu.
Ásgeir Sveinsson
Formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar
Sturla Sær Fjeldsted
Formaður íþrótta- og tómstundanefndar