Uppbygging Blikastaðalands

Bæjarráð hefur tekið fyrir ósk Landeyjar um að hefja vinnu með Mosfellsbæ um þróunar-, skipulags- og uppbyggingarvinnu vegna Blikastaðalands.
Bæjarstjóra var í kjölfarið falið að bjóða forsvarsmönnum Landeyjar á sameiginlegan fund bæjarstjórnar og skipulagsnefndar þar sem fyrirhuguð uppbyggingaráform á Blikastaðalandi yrðu kynnt nánar.

Fyrstu hugmyndir kynntar
Kynningarfundur fór fram í byrjun maí þar sem fulltrúar Landeyjar og ráðgjafar þeirra hjá Alta kynntu fyrstu hugmyndir um mögulega þróun íbúabyggðar á landi Blikastaða og reifuðu möguleg næstu skref í málinu.
Í kjölfar þess var bæjarstjóra Mosfellsbæjar falið að undirbúa viljayfirlýsingu um samstarf sem feli í sér upphaf þróunar-,
skipulags- og uppbyggingarvinnu. Samhliða þeirri vinnu verði gerð tillaga um skipun rýnihópa sem rýni skipulagsmál, skólamál og fjárhagsleg áhrif verkefnisins.

Uppbygging næsta aldarfjórðunginn
„Uppbygging Blikastaðalands hefur lengi verið á teikniborðinu en ekki enn komist þaðan. Núverandi eigandi hefur kynnt Mosfellsbæ sín áform og ekki verður annað séð en að samvinna við hann geti þokað okkur af teikniborðinu til framkvæmda.
Þetta er auðvitað langtímaverkefni og uppbyggingin myndi eiga sér stað næsta aldarfjórðunginn og þá í takti við uppbyggingu Borgarlínu sem er í raun forsenda fyrir bæði byggðinni og því að Borgarlína liggi að miðbæ Mosfellsbæjar.
Fyrir okkur Mosfellinga getur þetta verið áhugavert tækifæri til þess að þróa okkar góða bæjarfélag að enn betra samfélagi,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri.